Þynnur og þéttar

Mbl.is birti áðan fyrirsögn um að iðnaðarráðherra vildi nota nýyrðið aflþynna um "capacitor". Mér fannst það skopleg fyrirsögn en nú finn ég ekki fréttina aftur, kannski þeir hafi breytt fyrirsögninni og gert hana alvarlegri en ég alla vega fann mig tilknúða til að blogga um þetta nýyrði aflþynna

Það er góðs viti að það sé svo lítið að frétta á Íslandi að bloggarar skrifi hvert bloggið af öðru um hvað aðrir bloggarar séu innantómir og hinn hugmyndaríki iðnaðarráðherra okkar noti hugvitið til að búa til ný orð. Aflþynna er fínt orð og ég ætlaði náttúrulega að bæta strax grein um þetta fyrirbæri inn í íslensku wikipedia en þá sá ég að til var grein um sama fyrirbæri. Þetta hefur nefnilega verið þýtt hingað til með orðinu þéttir það er sú íslenskun sem notuðu hefur verið á orðinu capacitor

Það er nú alveg magnað hvernig vörur flæða um heiminn. Ég las á akureyri.is að þessi fyrirhugaða verksmiðja á Akureyri ætti að vera þannig að hingað ætti að flytja inn ál frá Asíu (kannski ál sem hefur verið upphaflega framleitt hérna og er svo flutt út til að flytja það inn aftur?) og svo ætti að möndla með það hérna og flytja það aftur til Asíu og þar er þar yrðu þessar aflþynnur eða þéttar framleiddir. Þannig að það er nú kannski ekki hægt að tala um aflþynnuverksmiðju hérna, hér myndi bara vera eitt þrep í framleiðsluferlinu. Það er áhugavert að spá í hvers vegna það getur borgað sig að flytja vörur fram og til baka um heiminn á meðan á framleiðslu stendur. Svoleiðis flutningur hlýtur að kosta orku og peninga. Er orkan hérna á Íslandi svo ódýr að þetta borgar sig? 

Svona á framleiðslan að vera: 

Framleiðslan hér á landi yrði í grófum dráttum þannig að fluttar væru inn álþynnur frá Asíu. Þær væru þræddar í gegnum vélar með sýruböðum og síðan vafnar upp aftur og fluttar til frekari úrvinnslu til Kína eða Japans, má því segja að framleiðsluferlið líkist prentiðnaði um margt. Í Asíu væru síðan framleiddir rafmagnsþéttar úr álþynnunum sem eru síðan notaðir í flestum rafeindatækjum. Markaður fyrir rafmagnsþétta úr áli hefur vaxið stöðugt undanfarin ár og er búist við framhaldi á því þar sem ál er talinn heppilegasti málmurinn sem hægt er að nota í þéttana í dag.

Áætlun  orkuþörf um 25MW í fyrsta áfanga.

 


mbl.is 90 ný störf með nýrri aflþynnuverksmiðju í Eyjafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TUBORG útilegan

Tuborg útileigan - auglýsingHáskólarnir á Íslandi eru að taka til starfa. Það segir sína sögu um skólahald og þjóðfélagsástand á Íslandi í dag hvernig nemendur skólanna og nemendafélög gleðjast og merkja upphaf skólaársins.

Hér til hliðar er plakat sem sem er auglýsing fyrir skemmtun nemendafélags HR.

Á baksíðu DV í dag er fréttin"BJÓÐA NEMENDUM Á FYLLERÍ" og fjallar hún um það hvernig styrktaraðila nemendafélaga HR tengjast Tuborg-bjórhátíð nýnema. Fréttin byrjar svona:

Öllum nýnemum Háskólans í Reykjavík er boðið á bjórhátíð í Þrastaskógi um næstu helgi. Hátíðið er auglýst í nafni Símans og Kaupþings sem eru styrktaraðilar nemendafélaga skólans. Hátíðin ber heitið Tuborg útilegan og það er því í raun Ölgerðin Egill Skallagrímsson sem styrkir bjórveitinguna.

Í Þrastarskógi verður slegið upp risaveislutjaldi þar sem Stúdentaráð Háskólans í Reykjavík býður til grillveislu og öllum verður boðið upp á Tuborg bjór. Í auglýsingu hátíðarinnar eru veislugestir hvattir til að teyga kaldan bjór í gígalítratali, þar er sagt að gleðinni verði haldið eins lengi fram eftir nóttu og þeir hörðustu hafi orku til.

tuborgutilegan Ég sé á vefsíðu ýmissa nemendafélaga að þessi hátíð er þar auglýst

Þetta er nú örugglega heimagerð auglýsing einhvers nemanda í skólanum sem heldur í einfeldni sinni að Síminn og Kaupþing vilji bendla sig við það að styrkja svona drykkjuslark. Vonandi bregðast markaðsaðilar hart við og sýna að það er ekki vilji þessara fyrirtækja að sverta ímynd sína með þessum hætti.

Það er nú samt soldið fyndið í heimatilbúnu auglýsingunni að útilega er skrifuð ÚTILEIGA, svona er "out-sourcing" (úthýsing er íslenska orðið ef ég man rétt) hugsunarhátturinn orðinn gegnsósa í málinu.

Það er vel við hæfi að við förum að syngja núna "Útileigumenn í Ódáðahraun, eru kannski að smala fé á laun" um þá sem kunna klæki peninganna og allt um skuldsetta yfirtöku og að miskunna sig yfir og slá eign sinni á "eigendalaust fjármagn" samvinnufélaga og ríkisfyrirtækja og raka saman fé og flytja það til og frá um heiminn eftir því sem ávöxtunin er best.

Ætli gengið sé búið að falla nóg miðað við jöklabréfin? 

 

 

 


Allt fyrir ástina

Hér er 4 mínútu vídeó sem ég tók á Gaypride niðri við Arnarhól í gær.

Vídeóið byrjar  á Pagasi sem flytur okkur suðurameríska karnivalstemmingu á hverju ári. Vídeóið nefni ég "Allt fyrir ástina" eftir laginu sem hljómaði mestallan tímann sem ég tók upp.

Hér eru nokkrar ljósmyndir sem ég tók niðri í bæ í gær.  Fleiri myndir má sjá hjá gaypride.is

Iða Brá setti myndir á myspace   Reykjavik Gay Pride 2007 vol 1

007

Ég fór einu sinni á Gaypride í Kaupmannahöfn og þar var allt öðru vísi stemming en hér, þeir sem voru uppábúnir í göngunni þar virtust vera fulltrúar einhverra kráa sem voru að auglýsa sig og það var ekki eins mikil fjölskyldustemming eins og hérna. Það er nú frekar erfitt að hugsa um homma og lesbíur sem ofsótta minnihlutahópa á Íslandi í dag, alla vega þegar maður er í 50 þúsund manna hópi á Arnarhóli sem allur er skreyttur regnbogamerkjum og hátalarakerfin bylja brýningar og nota orðið "Við Gay fólkið" umm okkur þessi 50 þúsund. En það eru 365 dagar í árinu, ekki bara þessi eini.

Youtube er snilld, ég fann mörg skemmtileg vídeó um Gaypride í Reykjavík. Hér er eitt sem heitir "Ég er eins og ég er" 



Páll Óskar er með mörg vídeó á Youtube og þar á meðal "Allt fyrir ástina" en ég gat ekki spilað það áðan.
mbl.is Tugir þúsunda taka þátt í Hinsegin dögum í miðborg Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævafornir skógar á Íslandi - Surtarbrandur

Það eru líka ævafornir skógar á Íslandi. Fólk sem hefur verið að grafa upp í mýrum hefur sagt frá óhemjustórum trjábolum fornum sem hér hafa komið upp. Sums staðar á Íslandi eru surtarbrandslög en það eru leifar eldgamalla skóga. Surtarbrandur var nýttur sem eldsneyti á Íslandi, langafi minn fótbrotnaði einmitt í einni ferð í surtarbrandsnámuna í Syðridal upp af Bolungarvík. Núna býr systir mín rétt fyrir neðan surtarbrandsnámuna. Hér er mynd frá því í fyrrasumar úr námunni. Það verður að fara inn með kertaljós og helst vasaljós til að sjá eitthvað.

Bolungarvik-surtarbrandur10

Hér er myndasyrpa úr námunni og nánasta umhverfi hennar og leiðinni upp að námunni. Það er mjög fallegt þarna, foss og lækur við námuopið.

Ég skrifaði greinina Surtarbrandur á íslensku wikipedia á sínum tíma.

Það er miður hvað Íslendingar gefa þessum parti íslenskrar jarðsögu/gróðrarsögu lítinn gaum. Einstök flóra hefur varðveist í setlögunum á Íslandi. Ísland er eina landið í Norður-Atlandshafi þar sem finnast landrænir steingervingar frá Míósen til Plíósen.

Ég fann á vefnum mjög fróðlega ritgerð eftir Gísla Örna Bragason: Veðurfar og umhverfi á Míósen á Íslandi

Það stendur m.a. þetta: 

"Þegar setlögin á Vestfjörðum hlóðust upp var landið mun nær meginlöndunum og um miðbik tertíer var landbrú á milli Grænlands og Evrópu. ..... Míósen flóran á Íslandi lifði við hlýtt loftslag á háum breiddargráðum. Gróðurinn hefur þurft að lifa við erfiðar aðstæður, dimma vetra og þar sem sólar gætir lítið. Aðstæðna sem ekki ríkja í samskonar nútíma skógarvistkerfum.
......
Fyrir 15 milljón árum síðan hafi vaxið hér harðviðarskógur við hlýtt og rakt Cfa til Cfb loftslag. Þrátt fyrir að sólar hafi varla gætt yfir dimmustu mánuðina hefur meðalhita yfir vetrar mánuðina verið rétt yfir frostmarki. Í skóginum uxu meðal annars.beyki, rauðviður, lindatré, vatnafura og álmur en lind og beyki eru ekki lengur hluti af flórunni. Skógurinn hefur verið mjög frábrugðinn því sem við þekkjum í dag á Íslandi og engin af þessum tegundum vex hér villt. Þetta hefur verið sumar- og sígrænn laufskógur með íblöndun barrtrjáa sem hefur þakið láglendis- og hálendissvæði landsins. Áætlað meðalárs hitastig 9,3 – 10,5°C og svipar það til ríkjandi loftslags í Norður- Ameríku, Vestur-Evrópu og Austur Asíu í dag. Þau gögn benda til að fyrir 15 milljón árum var mið-Míósen hámark í loftslagi og eftir fylgdi mikið fall á hitastigi í heiminum Niðurstöður rannsókna á plönutsteingervingum hér á landi ber ekki saman við þessar niðurstöður. Hér á landi ríkti frekar stöðugt og hlýtt loftslag fyrir 15 – 10 miljón árum en eftir það verður mikil kólnun. Niðurstöður rannsókna á djúpsjávarseti í Noregshafi styðja það og þær benda til kólnunar 10 milljón ár og að frekar stöðugar og hlýjar aðstæður hafi ríkt á norðlægum slóðum fyrir 17 til 10 milljónum ára. Ástæðan fyrir hlýrra loftslagi í Norður Atlandshafi en annarsstaðar í heiminum er að aukning hlýrra sjávarstrauma upp Atlandshafi til Íslands."

 


mbl.is Ævaforn skógur fannst í Ungverjalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örblogg

Það er vinsælt hjá mörgum tölvunördum að halda skrá yfir líf sitt  með örbloggi (enska microblogging eða nanoblogging). Ég hef síðustu mánuði prófað nokkur slík kerfi. Langvinsælasta kerfið er twitter.com. Það kostar ekkert að skrá sig og það er mjög einfalt að nota þetta kerfi. Margir tengja þetta við gemsa og blogga með því að senda örblogg eins og sms inn á á twitter. Það eru mörg kerfi sem senda sjálfvirkt inn á twitter, ég nota t.d. viðbót í Firefox vafra sem gerir mér kleift að smella á einn takka til að senda vefslóð inn á twitter og skrifa einhvern texta með.

Svo er hægt að líma tvitterstrauminn sinn inn á vefsíðu eða blogg, hér er minn straumur: http://twitter.com/salvor
Það virkaði ekki að líma þetta hér inn á moggabloggið, það er eitt sem er pirrandi við svona kerfi sem ekki eru eins og þessi útbreiddu kerfi þ.e. wordpress, blogger, myspace, facebook. 

Það er hægt að fylgjast með bloggstraumi annarra og hér er t.d. twitterstraumur þeirra sem ég fylgist með

 http://twitter.com/salvor/with_friends

Sennilega verður svona örblogg vinsælt og það koma upp nýir notkunarmöguleikar á bloggi t.d. er þetta ágætis kerfi til það skrá viðfangsefni í vinnu, hvað viðkomandi er að gera hverju sinni. Tökum sem dæmi iðnaðarmann sem vinnur sjálfstætt, hann gæti sent úr gemsanum sínum inn á twitter hvað hann er að gera. 

Það gæti líka komið sér vel alls staðar sem þarf að samhæfa verk margra sem eru að vinna á mörgum stöðum t.d. björgunarlið í  náttúruhamförum eða við eldsvoða. Hér er dæmi um hvernig slökkviliðið í LA notaði twitter sem hjálpartæki. Það segir sig sjálft að þetta virkar ekki nema það sé gemsasamband.

Það getur verið að svona örbloggkerfi opni nýja notkunarmöguleika á bloggi og hugsanlega gagnlegri. Þannig verður blogg í framtíðinni ekki endilega "málþing þjóðarinnar" heldur einhvers konar kallkerfi þar sem hópur fólks getur fylgst með straumum textaboða o.fl. hvert frá öðru. 


Hið svonefnda blogg

Fyndin ritstjórnargrein í Morgunblaðinu í dag undir heitinu Málþing þjóðarinnar.

Greinin er plögg fyrir eitthvað afbrigði af digg fréttamennsku sem Mogginn ætlar að byrja með. Líka lof um Moggann og hvað hann  hafi alltaf puttann á púlsinum. Greinin er bara svo brosleg vegna þess að hún er skrifuð í fornum fréttamennskustíl. Kannski eru ritstjórnargreinar á Mogganum alltaf í þeim stíl, ég veit það ekki því ég les þær afar sjaldan. En það er fyndið að lesa vaðal  eins og þennan "...hefur hið svonefnda blogg nú hafið innreið sína á bloggsíður mbl.is, þar sem hinn almenni borgari tjáir sig um allt milli himins og jarðar" og þennan hérna:

"Í raun er hér verið að stíga fyrsta skrefið til þess að bjóða öllum almenningi að gerast fréttaritarar fyrir víðtækustu fréttaþjónustu landsins, sem nú er rekin í húsakynnum Árvakurs hf. í nágrenni Rauðavatns, en þar eru nú gefin út tvö dagblöð, Morgunblaðið og fríblaðið Blaðið, ásamt mbl.is. Umsvif netútgáfunnar aukast nú stöðugt eins og koma mun í ljós á næstu mánuðum.

Þessi opna fréttamennska er í takt við tíðarandann, í takt við hið opna samfélag, sem við búum í. Bein aðild almennings verður nú stöðugt algengari á mörgum sviðum. Þannig er vaxandi stuðningur við þá hugmynd, sem Morgunblaðið hefur barizt markvisst fyrir í áratug, þ.e. að hinn almenni borgari taki veigamestu ákvarðanir í samfélagi okkar í beinum atkvæðagreiðslum."

 Það kemur nú líka fram í greininni að innsendar fréttir og viðbótarupplýsingar frá almenningi verða yfirfarnar af ritstjórn moggans. Hmmm... ritskoðun... er það nú í takt við tímann?

 Miklar hræringar eru nú í fjölmiðlaheimi og flestar í þá átt að notendur/lesendur taki þátt í að skrifa fréttir eða ræða um fréttir. Google News tilkynnti í dag að það hyggðist setja upp umræður í tengslum við fréttir en þó munu eingöngu þeir sem um er fjallað í fréttinni geta tjáð sig. Hér er hugleiðing um það: Google News Adds Comments, Accountability in Question

Besta dæmið um svona fréttakerfi þar sem notendurnir senda inn fréttirnar og greiða atkvæði um fréttir er digg.com. Þar er síkvikt samband á milli lesenda og skrifenda frétta, hver sem er getur sent inn fréttir og greitt atkvæði um fréttir. Fréttir sem hafa fengið nógu mörg atkvæði poppa upp á forsíðunni og fólk eins og ég les bara þær fréttir - þetta kerfi virkar ágætlega en það gengur út á það að maður treysti því að fjöldinn hafi rétt fyrir sér - stundum er þessu líkt við maurabú, eftir því sem fleiri leita að fæðu í sem flestum áttum - þeim mun líklegra er að fæða finnist og straumurinn liggi þangað sem fæðuframboðið er mest, þangað fara flestir maurarnir og búa til slóðir fyrir aðra maura - þetta er líka nefnt "Wisdom of Crowds" . Það er nokkuð til í því að svona kerfi þar sem margir hugsa og fylgjast með og tjá sig sé líklegra til að finna réttu leiðirnar heldur en þar sem boðmiðlun er miðstýrt og útvarpað einhverjum einum stórasannleika. En það eru veilur í svona kerfi og það virkar ekki alltaf vel. Fólk lærir líka að klæki til að koma sér áfram í svona kerfi t.d. að bindast samtökum um að greiða atkvæði um fréttir þannig að þær poppi á forsíðu Digg. Digg er svo vinsælt að margir vefir sem hafa verið "diggaðir"  fara úr sambandi vegna traffíkar, allir vilja skoða hvað er svona merkilegt. Ég sló inn leitarorðið  "Iceland" til að skoða hvaða fréttir tengdar Íslandi hafa verið vinsælastar. Þær eru þessar:

Stealing IS a crime, right?

5036 digg

Iceland the First Country to Try Abandoning Gasoline

3496 digg 

[PHOTO] Volcanic Eruption, Aurora Borealis, And The Stars - All in one!

2242 digg

PICTURE: The Wrath of the Norse Gods, Awesome Pic of a Church

 2083 digg

Kodak steals from one of Diggs favorite photographers

 2000 digg

 Það að frétt hefur fengið 2000 digg þýðir að hún hefur verið lesin af mjög mörgum, hugsanlega hundrað sinnum fleiri og hefur verið á forsíðunni einhvern tíma. Það þarf nú reyndar ekki mörg digg til að poppa upp á forsíðu, nýjustu forsíðufréttirnar eru kannski með um 100 digg. Það eru hins vegar mörg dæmi um tölvunördahópa sem bindast samtökum að koma sínum fréttum á forsíðu og þeir passa sig að greiða atkvæði til þess. Það verða margar glufur í  hinni nýju fréttamennsku og það verða þeir sem stýra vefgáttunum og eiga þær sem hafa mesta möguleika á að láta sínar fréttir poppa upp. Það hafa komið upp dæmi varðandi Google leitarvélina þar sem efst við leit koma þeir sem eru atkvæðamestir í google auglýsingum. Það er ástæða til að vera á varðbergi fyrir því að þær fréttir sem ná á forsíðu og eru hafðar mest áberandi eru þar sennilega vegna þess að sá sem stýrir vefgáttinni hefur velþóknun á þeim. Það er því líklegt að þeir sem búa yfir fjármagni og vilja auka völd sín til að afla meira fjármagns séu í miklu betri aðstöðu til að koma fréttum sem henta þeim á forsíðu. Þannig er það líka í fjölmiðlalandslagi nútímans og fortíðarinnar. Fréttir á forsíðum eru afar hliðhollar þeim sem hafa völd, fjölmiðlar forðast að stygga  valdamikla auglýsendur og stjórnmálamenn. 

 Sennilega er sniðugast í sambandi við svona almannafréttagátt eins og Mogginn ætlar að setja upp að á Moggablogginu verði einn takki í viðbót þar sem hægt er að senda blogg inn á fréttir Moggans, svona eins og núna eru oft hnappar fyrir Digg og del.icio.us á vefsíðum. 


Lífsval ehf og síðasta galdrabrenna á Íslandi

Arngerðareyri Ísafjarðardjúp

Skrýtni kastalinn sem blasir við í Ísafjarðardjúpi langt frá allri annarri byggð heitir Arngerðareyri. þar voru einu sinni mikil umsvif. Þar var ferjustaður og þar var hótel. Sennilega var þar líka verslun, alla vega las ég að kastalinn  var bústaður útibússtjóra Ásgeirsverslunar. Síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1683 á Arngerðareyri.

Núna mun Arngerðareyri vera í eign fyrirtækisins Lífsvals ehf en það er fyrirtæki sem kaupir upp jarðir. Lífsval mun eiga á annað hundrað jarða og reka stórbú m.a. í Skriðufelli í Jökulsárhlíð og á Ytrafelli í Eyjafirði og stefna að því að reka kúabú með 500 kúm Flatey á Mýrum. Lífsval rekur að ég held líka fjárbú. 

Það er umhugsunarefni  núna þegar  búskapur á Íslandi er að verða verksmiðjuframleiðsla  í stórbúum sem eru í eigu aðila sem ekki vinna sjálfir við búskapinn  hvort beingreiðslur á mjólkurlítra og lambakjöt eigi nokkurn rétt á sér. Fyrir hvern og hvers vegna er verið að niðurgreiða  mjólk og kjöt? Það eru alla vega ekki skynsamlegt út frá byggðasjónarmiðum að hafa núverandi hátt á. 

Hins vegar er sennilegt að langtímahagsmunir sem ekki eru tengdir núverandi notkun jarða í landbúnaði ráði ferðinni í hvaða jarðir fjárfestar hafa áhuga á. Þannig er sennilegt að verið sé að kaupa upp jarðir núna vegna ýmissa réttinda m.a. vegna legu að sjó eða vegna mögulegra virkjanakosta.   

Anna skrifaði nýlega hugleiðingu um þetta : Uppkaup á landi og miðum 

Hvers vegna ætli Lífsval ehf hafi keypt Arngerðareyri?  Hvenær ætli húsið verði gert upp? Eða er það bara flottara eins og það er, eyðilegt og minnir á galdra.


Þorp sem ekki eru merkt inn á kortið

Garðstaðir við Ísafjarðardjúp

Séð frá þjóðveginum er  fallegt að líta yfir Garðstaði við Ísafjarðardjúp, mér skilst að þar sé hinsti samastaður 500-600 bíla. Í fjarska er eins og maður sé að horfa yfir byggð, eitthvert þorp sem einhverra hluta vegna er ekki merkt inn á kortið. 

En nágrannarnir eru víst ekki allir ánægðir og sjá ekki sama og ég sé. Það er erfitt að sjá fegurðina í drasli nágrannans.  Næsti bær er Ögur og þar er haldið víðfrægt Ögurball á hverju ári. 


"Þegar að ég komst aftur til meðvitundar sá ég að ég hafði engar fætur"

Pólski verkamaðurinn Ireneusz Gluchowski er í hópi þeirra þúsunda erlendra verkamanna sem leitað hafa gæfunnar í efnahagsuppsveiflunni á Íslandi. Hann kom hingað stálhraustur í vinnu hjá íslensku verktakafyrirtæki. En Ireneusz  missti báða fætur og vantar enn nýra

Sögu Ireneusz má lesa í Fréttablaði Eflingar í febrúar 2006 en hér er brot úr þeirri sögu:

Undir lok júní 2005 gerast þeir atburðir sem leiddu til örkumla Irenusz, en þá voru Jarðvélamenn að vinna við framkvæmdir skammt frá Akranesi.


„Ég vann ekki langt frá Akranesi uppi í fjöllum. Ég vann við að steypa sökkla og koma fyrir stögum undir rafmagnsstaura, en þann 20. júní vorum við fluttir á annan stað. Þá bjuggum við í gömlum skóla en vorum á hverjum degi keyrðir um 15 kílómetra upp á fjöll þar sem við unnum,“ segir Ireneusz. Um það bil 25. eða 26. júní varð Ireneusz fyrir vinnuslysi sem leiddi til þess að hann fékk sár á hendur, sem blæddi úr. Ekki var tilkynnt um atvikið, enda ólíklegt að á þeim tíma hafi verið litið á þetta sem alvarlegt atvik.

Veiktist hastarlega
Hins vegar veiktist Ireneusz hastarlega 29. júní. „Í enda júní komu notaðir gámar sem átti að nýta undir vinnubúðir. Gámarnir voru fullir af drasli, t.d. flöskum, blöðum, spýtum og fleira. Ég og tveir aðrir starfsmenn vorum settir í að þrífa gámana og gera þá íbúðarhæfa. Við byrjuðum að koma matsalnum í stand, þar sem að ég þreif m.a. ísskáp sem innihélt gamlar matarleifar. Ég þreif líka aðra skápa og bakaraofn.“
Þann 29.júní leið honum skyndilega illa, í hádegismatnum og hélt að hann væri haldinn flensu, þannig hafi einkennin verið. „Ég sagði verkstjóra mínum að mér liði mjög illa og að ég treysti mér ekki til að vinna meira þann dag. Eftir þetta samtal sagði verkstjórinn mér að fara niður í skólann þar sem að við bjuggum. Samstarfsmaður minn skutlaði mér í skólann og ég fór að sofa. Um klukka fjögur síðdegis vakti annar samstarfsmaður mig og sagði mér að hann og tveir aðrir starfsmenn ætluðu til Reykjavíkur og að ég yrði að fara með. Það væri ákvörðun verkstjórans.“

Skelfingu lostinn
Samstarfsmennirnir óku Ireneusz heim í Barmahlíðina, þar sem hann lagðist til svefns. „Ég vaknaði um sexleytið og varð skelfingu lostinn þegar ég sá að hendur mínar og fætur voru svartar. Þá gerði ég mér grein fyrir því að ég væri ekki bara með flensu. Ég notaði mína síðustu krafta til að fara til nágranna míns á hæðinni fyrir ofan og bað hann um að hringja á sjúkrabíl. Eftir stutta stund kom sjúkrabíll og keyrði mig á spítala, en mér leið allan tímann mjög illa.“ Eftir komuna á spítalann man hann að hann fékk súrefnisgrímu og sprautu og að síðan hafi hann sofnað. „Ég vaknaði aft ur meira en tveimur mánuðum seinna eða í byrjun september. Þegar að ég komst aftur til meðvitundar sá é að ég hafði engar fætur.“
---

Ireneusz vaknaði sem fyrr segir upp við þann hrylling í byrjun september að vera fótalaus báðum megin fyrir neðan hné, en auk þess varð ann að nýrað óvirkt, heyrn horfin af vinstra eyra og hægra eyrað aðeins með hálfa heyrn, en fyrir þessa atburði var Ireneusz að eigin sögn stálhraustur.


Sól í Bolungarvík

Nú sitjum við í sólinni út á palli hjá systur minni á Hanhóli, það var grillveisla hjá henni. Hér er mynd af Ástu við matarborðið og Ingu að grilla. Við erum að fara að leggja á stað suður. 071

Í dag erum við búin að fara í listasmiðjuna hérna í Bolungarvík og vorum að skera þar gler. Ég skar þrenn pör af vængjum fyrir engla eða vængjuð dýr sem ég hyggst gera seinna úr leir. Það er alltaf gott að birgja sig upp af vængjum. Hér eru tvær myndir úr listasmiðjunni.  025 

024

Við fórum líka í sundlaugina í Bolungarvík, hér er mynd af hluta af hópnum fyrir utan listasmiðjuna. Grunnskólinn er hinum megin við götuna og þar er sundhöllin. Þar er verið að byggja vatnsrennibraut svo það verður fjör hjá krökkunum í Bolungarvík á næstunni. 033

Við Ásta keyrðum líka um Bolungarvík og ég tók myndir m.a. af grjótgarðinum við höfnina. 

Í gær fórum við á Ísafjörð og fórum á málþing í Edinborgarhúsinu en það var verið að opna Nýsköpunarmiðstöð Íslands þar. Svo fengum við okkur að borða í kaffihúsinu þar og gengum um miðbæinn.

Hér er stutt vídeó af senum sem ég tók í Bolungarvík í gær, ég tók myndir af því sem mér fannst fallegt en stundum er það reyndar ruslið sem heillar mig mest. Sérstaklega er ég hrifin af gámum og ryðguðu járni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband