Siðfræði vísinda, samanburður í menntamálum

Það er svo ofboðslega mikið að gera hjá mér núna að ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að ráða fram úr því. Er síðustu stundirnar að reyna að klára verkefni sem gengur út á "comparative education discourses" en það er liður í námskeiði sem ég er núna í við Háskólann í Gautaborg. Námskeiðið er fjarnámskeið en ég fór reyndar til Gautaborgar fyrir hálfum mánuði og hitti þá hina nemendurna og kennarana. Mér sýnist alveg útséð um að ég nái að skila þessu verkefni fyrir miðnætti eins og ég ætlaði mér. 

En svona fyrir skrásetningu  lífshlaups míns þá best að blogga hér yfirlit yfir  hvað ég er að gera þessa viku svona upp á seinni tíma. Kannski kemur einhvern tíma sú stund að ég les þetta yfir og sakna þess að hafa ekki nógu mikið að gera, hugsa um söknuði til þess tíma þegar maður átti yfirleitt að vera á þremur stöðum á sama tíma og sinna svo kennslunni á næturna.

Kennslan tekur mikinn tíma hjá mér núna, ég er þessa stundina með eitthvað um 450 nemendur á þremur námskeiðum.  Meira en helmingur er í fjarnámi og það fer mikill tími í að útbúa skjákennsluefni og kennsluefni og hanna viðfangsefni nemenda,  ég tek  upp sýnikennslu  fyrir nemendur í kerfi sem heitir emission.

Ég verð að vinna það efni mest á kvöldin og næturna, ég hef bara ekki tíma annars og auk þess er ég oftast trufluð á daginn, það er hávaði sem passar ekki fyrir upptökur því skrifstofa mín er andspænis tónlistarstofu og matreiðslustofu. Svo svara ég á hverjum degi tugum af póstum á umræðuþráðum inn á Blackboard frá nemendum sem eru í vandræðum eða vantar frekari upplýsingar.

Hér er dæmi um skjákennsluefni sem ég hef unnið síðustu daga

það er hægt að skoða þetta efni ef fólk hefur silverlight  2 spilara (silverlight er einhvers konar microsoft svar við flash og er til á pc og mac. Hægt að sækja pc útgáfu hérna )

* Búa til plakat í Inkscape með myndum úr Microsoft clipart gallery 13 mín

* Kynning á Tuxpaint teikniforriti fyrir börn 8 mín

 * Powerpoint talglærur 10 mín

Kennsluefni í mediawiki

* Wiki 1 - kynning 15 mín

Wiki 2  20 mín

* Wiki 3 Birta youtube video 7 mín

Wiki 4 myndagallery 6 mín

* Wiki 5 krossapróf  4 mín

prófa að líma inn slideboom

 

 Svo er ég í þessari viku á námskeiði í HÍ um siðfræði vísinda. Það námskeið fer fram á ensku. Svo er mikið að gera í stjórnmálum, ég er í 4. sæti á lista í Reykjavík Norður fyrir Framsóknarflokkinn.

En svona lítur vikan út hjá mér núna:

mánudagur:

kennsla í tölvuveri 3tímar fyrir hádegi, 3 tímar eftir hádegi. Viðfangsefni Tuxpaint teikniforrit f. krakka og Scratch kennsluverkfæri í forritun fyrir krakka.  Hvort tveggja sniðug og ókeypis verkfæri og bjóða upp á mikla möguleika fyrir kennara ungra barna, hægt að búa til stimplasett með tali með tuxpaint og Scratch hentar t.d. til stafrænnar sögugerðar, að búa til margmiðlunarefni og einfalda leiki.Scratch minnir mig heilmikið á lógó og tæknilegó.

Í hádeginu á mánudag fór ég á fund á Höfðatorgi með borgarstjórnarflokki Framsóknarflokksins og strax á eftir á fund í ráðhúsinu með meirihluta í mannréttindaráði Reykjavíkur. 

komst á þessa tvo fundi milli kennslulota.

náði ekki að skila inn grein um opið aðgengi í menntun fyrir tímarit norrænna bókasafnsfræðinga, reyni að skila inn fyrir næsta tölublað í júní.mundi að ég gleymdi skype fundi með Sólveigu sem er stödd í Ástralíu, átti að vera á sunnudag, það var vinna við bókakafla.

Þriðjudagur:

Fór á fund í barnaverndarnefnd fyrir hádegi.

Fór á námskeið í siðfræði vísinda eftir hádegi. Námskeiðið er á ensku og er fyrir doktorsnema.

Fór um kvöldið á fund á Hverfisgötu með efstu frambjóðendum á listum Framsóknar í Reykjavík

Kíkti eftir þann fund á spjallfund félags um stafrænt frelsi, þeir hittust á Hressó því sænsku doktorsleiðbeinandi Tryggva Björgvinssonar Klang  að nafni var staddur á landinu. Ég spjallaði aðeins við hann, mjög áhugavert hvað hann fjallar um, hann hefur áhuga á hvernig samfélagið setur takmarkanir á tækni, fann doktorsritgerð hans hérna. Klang er við Gautaborgarháskóla, hann bauð mér að hafa samband við sig þegar ég fer þangað í maí.

miðvikudagur:

fór á fund í félagsmálaráðuneyti í stýrihópi um jafnrétti í skólum.

fór á námskeið í siðfræði vísinda kl. 15-18.

fimmtudagur
fer á fund í ráðhúsinu í mannréttindaráði
fer á námskeið í siðfræði vísinda kl. 15-18

föstudagur
málstofa doktorsnema á menntavísindasviði kl. 14-16:30
út að borða með doktorsnemum um kvöldið

Svo er ég að undirbúa ráðstefnuerindi og workshop fyrir ráðstefnu sem verður í Viborg í Danmörku 25 mars. Ég held að það sé nokkuð ljóst að ég hef tekið að mér allt of mikla vinnu og ég get ekki sinnt náminu nema draga úr kennslu og félagsstörfum á næstu misserum.


Össur fyrir tveimur árum

Össur iðnaðarráðherra er þungaviktarmaður í Samfylkingunni og hann hefur verið ráðherra og valdamikill stjórnmálamaður lengi, hann hefur verið í betri aðstöðu en ég og þú til að fá upplýsingar og láta aðra vinna úr upplýsingum. En hversu næmt auga hefur Össur fyrir hvað er að gerast í heiminum og á Íslandi?

Össur dásamar olíuna sem þó ekki hefur ennþá fundist, olíuna sem mun gera okkur öll rík, hann dásamaði líka útrásina í orkumálum, útrásina sem okkur hinum fannst aldrei annað en dulbúin innrás og sjónarspil þeirra sem vildu stela af þessari þjóð yfirráðarétt yfir okkar auðlindum. 

Á bloggi Össurar núna  verður ekki annað heyrt en að allt sé hér á dáyndis góðri ferð, hér sé kraftur gegn kreppu. Össur bloggar "4000 ársverk og ekki lokið" og segir stoltur frá því að það hafi galdrast fram 4000 störf sem hann reyndar getur teygt með skapandi hugsun í 5000. 

Af hverju halda stjórnmálamenn áfram að blekkja fólk og sópa rykinu undir teppið rétt fyrir kosningar? Ef það er eitthvað sem við þurfum ekki á að halda núna þá eru það blekkingar. Ástandið er ömurlegt en það er engin ástæða til að leyna því fyrir almenningi á Íslandi hversu alvarlegt það er. Af hverju er ekki greining á því hvað mikið af þessum störfum sem eru búin til eru störf sem engu munu skila nema viðbótarkostnaði og vera austur í viðbótarhít sem mun soga til sín ennþá meira fé, er ekki meðal þessara starfa nokkur hundruð manns sem munu vinna við að koma upp áfram minnisvarða gróðærisins, klakahöllinni sem kölluð er tónlistar- og ráðstefnuhús. Hvaða virðisauki verður af þeim störfum? Hvenær verður fé Atvinnuleysistryggingasjóðs uppurið? Þarf ekki að borga það til baka? Hvenær verður ekki hægt að greiða ríkisstarfsmönnum laun lengur?  Hvernig eigum við að geta borgað niður lán til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ef við tökum lán til að verða því í óarðbæra framkvæmd, framkvæmd sem kallar yfir sig ennþá meiri kostnað.

Þegar rýnt er í plagg ríkisstjórnarinnar um öll þessu meintu ársverk þá má sjá að það er kreppuminnisvarðinn sem ætlað er að skapa flestu störfin. Þetta er svolítið nöturlegt, eigum við á stund neyðarinnar að dæla peningum í sjóinn, lánum sem við þurfum að borga aftur til að byggja glanshús sem ætlað var að vera einhvers konar musteri ríkra heimsborgara. Það er ekkert sem bendir til þess að húsið eða sú starfsemi sem er fyrirhuguð í húsinu þjóni Íslendingum, þetta er einhvers konar risatúristagildra fyrir túrisma gærdagsins, einhvers konar tákn um veröld sem var.

Svo eru snjóflóðavarnargarðar upp á rúmlega milljarð teldir með í starfasköpuninni. Ekki hjálpa þeir fólki hér á höfuðborgarsvæðinu, byggðastefna kostar vissulega mikið en staðan er bara þannig núna að hin nýja byggðastefna hlýtur að vera að halda Íslandi í byggð og það er að bresta á mikill fólksflótti frá Reykjavík og það fólk flyst ekki á staðina þar sem snjóflóðavarnargarðar eru núna byggðir, það fólk flyst burt frá Íslandi.  

En aftur að því sem varð tilefni til þessarar hugleiðingar minnar. Það voru skrif Össurar fyrir tveimur árum þar sem hann er að tjá sig um umræðu í Silfri Egils. Það er miður að Ríkisútvarpið skuli ekki vera með alla Silfurþættina, það væri gott fyrir almenning á Íslandi að ekki sé gert ráð fyrir að við höfum gullfiskaminni og að við viljum fara til baka. 

En það er áhugavert að lesa það sem Össur skrifaði á blogginu sínu fyrir akkúrat tveimur árum, hann skrifar bloggið  Hnerri Davíðs - kvef Sjálfstæðisflokksins

og segir þar m.a. um Straum-Burðarás

"Það virðist því sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins dansi auðsveipir eftir pípu Davíðs, jafnvel þó það þýði að þrengt verði að fjármálastofnunum, og sumar þeirra kunni að hrekjast úr landi. Þetta er skondið í ljósi þess, að Sjálfstæðismenn hafa verið að skamma Ögmund Jónasson fyrir að vilja reka bankana úr landi - en nú eru þeir sjálfir farnir að láta verkin tala á þessu sviði."

 Núna tveimur árum seinna þá virðist okkur að betur hefði verið að meira hefði verið þrengt að fjármálastofnunum og betur hefði verið að bankarnir hefðu farið úr landi. 

Í dag tók Fjármálaeftirlitið yfir Straum-Burðarás.

Össur er nú ágætis maður en mér finnst þegar horft er í baksýnisspegla að hann hafi ekki fremur en aðrir stjórnmálamenn við völd skynjað vel hvað var að gerast í íslensku atvinnulífi og viðskiptum undanfarin ár. Hann hefði samt átt að gera það. Þetta var hans vakt. Alveg eins og Geir Haarde var hann í miklu betri aðstöðu en við hin til að vita hvað var að gerast, fá upplýsingar um hvað var að gerast  og spá fyrir um hvað myndi svo gerast. En kannski var hann of upptekinn að skrifa hárbeitta pistla um Framsóknarflokkinn til að sigra orðræðuna eins og henrythor tjáir í þessu skemmtilega skrípó. 

Það væri gott ef stjórnmálamenn litu á það sem skyldu sína að upplýsa  okkur og gera okkur betur kleift að fá að horfast í augu við stöðuna. Við þurfum hvort sem er að gera það fyrr eða síðar.


mbl.is Ríkið tekur Straum yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími Freyju, tími fjölbreytileikans

Það er frábært að vakna upp á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars  og sjá að algjör kvennalisti  vann í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðvestur-kjördæmi, konur urðu þar í fimm efstu sætunum. Þetta hefði glatt móður mína Ástu Hannesdóttur mikið. Móðir mín  lést árið 2000. Móðir mín starfaði með framsóknarkvennafélaginu Freyju í Kópavogi. Hún helgaði því félagi alla  sína félagsmálakrafta í mörg ár og var þar formaður um skeið.  Þess vegna hef ég alltaf fylgst vel með Framsóknarkonum í þessu kjördæmi og meira segja blandað mér í leikinn þegar Freyjumálið svonefnda stóð sem hæst í Kópavogi fyrir fjórum árum. Það mál var atlaga að öllum konum í Framsóknarflokknum og raunar öllu eðlilegu grasrótarstarfi í stjórnmálaflokkum.

Ég blandaði mér þá í málið og skrifaði grein í Fréttablaðið og tók málið líka upp á félagsfundi í mínu félagi í Reykjavík og gagnrýndi harðlega flokksforustu Framsóknarflokksins og einstaka ráðherra fyrir hvernig tekið var á þessu máli. Fyrir það hlaut ég lítið lof, eiginlega uppskar ég langvarandi útskúfun úr öllu starfi í mínu framsóknarfélagi mörg ár. En núna eru tímarnir aðrir í Framsóknarflokknum og ég held að flestir  sem stóðu að þessum vinnubrögðum  á sinni tíð eða létu þau óátalin hafi horfið úr starfi í Framsóknarflokknum eða séð að þessi vinnubrögð koma öllum illa og gera stjórnmálastarf að skrípaleik.  

Hér er til upprifjunar greinin sem ég skrifaði í Fréttablaðið 23. febrúar 2005:
Umsátrið um Freyju í Kópavogi.

Það kemur mér raunar ekki á óvart að sjá hversu sterkar konur eru í Suðvestur kjördæmi. Það eru fyrir tvær konur sem eru á þingi og svo hafa Una María og Bryndís Bjarnarson verið mjög áberandi í jafnréttisstarfi, þær hafa báðar verið formenn landsambands Framsóknarkvenna og hafa mikla reynslu.  Það er líka í Suðvestur kjördæmi sem ég held að fjölskyldur finni margar hvað mest fyrir kreppunni, þarna eru úthverfin frá Reykjavík, í Kópavogi og Hafnarfirði og Mosfellsbæ eru barnafjölskyldurnar sem núna eru að sligast af skuldum.

Það munu rúmlega þúsund manns hafa greitt atkvæði og féllu þau svona:

1. Siv Friðleifsdóttir  498 atkvæði

1.-2. sæti Helga Sigrún Harðardóttir 433 atkvæði

1.-3. sæti Una María Óskarsdóttir 394 atkvæði

1.-4. sæti Bryndís Bjarnarson 439 atkvæði

1.-5. sæti Svala Rún Sigurðardóttir  510 atkvæði

Samkvæmt prófkjörsreglum mun þessi sigur í prófkjöri ekki tryggja þessum fimm skeleggu og ágætu konum þessi sæti á lista. Þær eru allar ótrúlega frambærilegar og sterkar konur en Framsóknarflokkurinn er flokkur sem leggur áherslu á fjölbreytni og er flokkur þar sem mikil áhersla er lögð á að listar séu ekki of einsleitir m.a. miðað við kyn. Frambjóðendur vissu allir af þessum prófkjörsreglum, það munu einhverjar konur færast niður vegna þess að það er allt of einsleitur listi sem stillir konum upp i fimm efstu sætunum. Helmingur kjósenda er karlar og listi til alþingiskosninga verður að endurspegla fjölbreytileikann í samfélaginu.

Hugleiðingar um forvalið í Reykjavík

Það er athyglisvert að sama staða kom upp í Reykjavík á kjördæmisþingi Framsóknarmanna þar í gær. Það var upphaflega lagt til að það yrðu tveir karlar  þ.e. formaður flokksins Sigmundur Davíð og vinur hans Magnús  Árni Skúlason  í tveimur efstu sætum í Reykjavík norður.  Það varð   umræða um að  ekki væri heppilegt að á lista veldust saman í efstu sætin of líkir einstaklingar og nánir vinir og m.a. bent á að heppilegt væri að hafa fléttulista karls og konu, samstarfs Sigrúnar Magnúsdóttur og Alfreðs Þorsteinssonar hefði ávallt verið farsælt þó þau væru mjög ólík og þau farið saman í gegnum fimm kosningar .

Ég held að þetta ásamt því að Magnús Árni hefur unnið sem ráðgjafi fyrir Guðlaug Þór hafi valdið því að ekki var fullkomin sátt um Magnús Árna í annað sætið á eftir Sigmundi Davíð. Magnús Árni kom ákaflega vel fyrir á fundinum og sýndi mikla stjórnvisku að draga framboð sitt til baka.

Það getur verið að það komi almenningi spánskt fyrir sjónir en staðan er einfaldlega þannig núna í Framsóknarflokknum að þar eru menn  ofurviðkvæmir fyrir öllu sem gæti verið tekið sem dæmi um spillingu. Reyndar er það ekki spilling að vinna fyrir stjórnvöld að ráðgjafastörfum eins og Magnús Árni hefur gert, ekki frekar en það er spilling að bjóða sveitarstjórnarmönnum utan af landi í móttöku eftir fund eins og Óskar Bergsson gerði, fund sem var haldinn til að kynna fyrir þeim hvernig staðið var að málum í Reykjavík, ekki síst hve góður viðsnúningur varð þegar Framsóknarmenn undir forustu Óskars Bergssonar frelsuðu borgina úr hanskaklæddum klóm Ólafs H. Magnússonar.

En það virðist sama hvað Framsókn gerir, þó að grasrótin hafi unnið yfir flokkinn og vinni nú hörðum höndum að því að byggja upp lýðræðislega hreyfingu þar sem áhersla er á fjölbreytileg sjónarmið þá virðast andstæðingar vera eins og Ólafur F. í Reykjavík að hjakka í einhverjum vitleysisgír, tilbúnir til að ásaka Framsóknarmenn um spillingu og gera það á mjög siðlausan og ruddalegan hátt. Það er reyndar bara eitt andsvar við því það er að láta ekki svoleiðis andstæðinga draga sig niður á sama plan, halda bara áfram að halda uppi skynsamlegri og ábyrgri umræðu og málflutningi og vinna af festu að þvi að breyta innviðum og starfsemi í lýðræðisátt bæði í flokknum og í samfélaginu.

Ég er ánægð með að niðurstaðan er sú að Einar Skúlason skipar annað sætið í Reykjavík suður, ekki síst vegna þess að Einar hefur unnið hjá Alþjóðahúsi og hefur mikla reynslu af starfi með innflytjendum og mun verða öflugur málsvari þeirra. Ég sakna þess reyndar að sjá ekki neina sem ég veit að eru af erlendu bergi brotna á listanum hjá okkur, við verðum að tryggja fjölbreytnina, listar okkar verða að endurspegla samfélagið, vera sem jafnast hlutfall af konum og körlum, fólk á öllum aldri, fólki á vinnumarkaði og fólki sem er ekki á vinnumarkaði, fólki með mismunandi bakgrunn og mismunandi reynslu.

Það er annað sem ég vek athygli á varðandi þá lista sem Framsóknarflokkurinn kemur til með að bjóða fram í Reykjavíkurkjördæmunum, það er ákveðin slagsíða á þeim listum miðað við aldur. Í fyrstu þremur sætum eru allt frekar ungt fólk og allt fólk á svipuðum aldri.  Það þarf  ekki að rýna mikið í tölur til að vita að kjósendur Framsóknarflokksins eru flestir eldra fólk, Framsóknarflokkurinn hefur ekki notið fylgis meðal yngra fólks undanfarin ár. Ég hugsa að hluti af fylgi Framsóknarflokksins sé nokkuð fast í hendi, eldra fólk sem mun halda áfram að kjósa flokkinn þó þar sé ekki í framlínusveit neinir á þeirra aldri.

Það kann því að vera gott sóknarfæri að stilla upp lista með yngra fólki en  Vinstri grænir og svo Sjálfstæðisflokkurinn haft nokkra yfirburði að nát til þess aldurflokks. Hins vegar kann þessi áhersla á frekar ungt fólk allt á svipuðum aldri í möguleg þingsæti og varaþingsæti að vera endurspeglun á aldursfordómum í samfélaginu, aldursfordómum sem endurspeglast í sjónvarpsskjáum okkar á hverjum degi.  Það er mest eldra fólk sem horfir á sjónvarp en sú tegund af sjónvarpsmiðlun sem ríkissjónvarpið stundar er miðlun og innprentun á æskudýrkun.

Þó að ég sé fullkomlega sátt við þó lista sem bornir eru fram í Framsóknarflokknum í Reykjavík núna þá finnst mér að það hefði átt að vera meiri aldursblöndun í efstu sætunum, mér finnst mikilvægt að Alþingi Íslendinga sé ekki samkoma fólks sem allt er á sama aldri og með sömu viðhorf til lífsins. Ég held að lausn á þvi´að byggja upp gott samfélag sé að  virkja fjölbreytileikann, að læra að vinna með og í samstarfi við fólk sem er ólíkt manni sjálfum. Þess má reyndar geta að í fjórða sæti í báðum kjördæmum eru konur yfir fimmtugt, ég í Reykjavík suður og Fanný í Reykjavík norður og svo er fólk á öllum aldri neðar á listanum.

Þar er líka eitt merki til samfélagsins um hve mikill umsnúningur er núna í Framsóknarflokknum að stilla upp ungu og frekar óreyndu fólki, fólki sem hefur ekki fortíð í þeim stjórnmálum heldur ungu fólki sem hefur allt að vinna að byggja upp góð lífsskilyrði að nýju í Reykjavík. Þegar ég hugsa þetta betur þá finnst mér að við þær aðstæður sem eru núna þá sé gott að það sé þessi slagsíða á efstu sætum, það unga fólk sem við teflum fram í fyrstu sætum er einmitt af þeim aldursflokki sem verður nú harðast fyrir barðinu á kreppunni, ungt fólk sem er núbúið með skólanám eða nýlega búið að kaupa húsnæði.

Annars er gaman að það skuli vera komin svo mikil sátt um kynjasjónarmið á listum a.m.k. í Framsóknarflokknum  og konum gangi svo vel í prófkjörum  að ég þurfi ekki lengur að beina allri orku í að berjast fyrir kosningaþátttöku kvenna heldur geti farið að skoða aðra þætti mismununar í samfélagi okkar. Ég hugsa að ég eigi  í framtíðinni eftir að tjá mig og reyna að  sporna gegn því að   fólki sé kerfisbundið mismunað á ýmsan hátt  vegna aldurs í samfélagi aldursdýrkunar og hvernig fólki er kerfisbundið mismunað vegna  ákveðins útlits (t.d. líkamsþyngdar eða hörundslitar) í samfélagi útlitsdýrkunar sem aðeins viðurkennir eina gerð af útliti sem staðall fyrir það sem er fallegt og eftirsóknarvert.  Ég vona að fólk sjái að fegurðin býr í fjölbreytileikanum og samfélag fjölbreytileika og umburðarlyndis er miklu vænlegra til að ná árangri.

Í því samfélagi sem við erum í núna er mikil mismunum vegna starfa fólks en stór hluti af sjálfsmynd fólks kemur í gegnum starf. Fólk sem ekki er á vinnumarkaði er að mörgu leyti réttlaust og að sumu leyti er samfélagið núna þannig að það mismunar sumu fóki  og útskúfar - sumir hafa vinnu og hafa þau réttindi sem vinna tryggir en sumir eru atvinnulausir og hafa þá brotnu sjálfsmynd og það litla valfrelsi sem þeirri stöðu fylgir - sumir eru á örorkubótum.

Vonandi verður það þannig að Framsóknarflokkurinn verður flokkur sem sameinar fólk og þar sem  ólíkir einstaklingar með ólíkan bakgrunn  kunna  að vinna saman vegna þess að þeir deila sýn  félagshyggju og samvinnuhugsjónar og hafna blindri auðhyggju.


mbl.is Siv efst í SV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterkar konur hjá Framsóknarflokknum

Þetta er skemmtileg frétt, við fyrstu tölur þá er ástandið þannig hjá Framsóknarflokknum að konur eru í efstu fimm sætunum, þar af tvær af þingkonum flokksins í fyrstu tveimur sætunum. Ef þetta verður lokaniðurstaðan þá verður að færa einhverjar konur niður til að rýma til fyrir körlum sem þá komast inn út af kynjakvóta. Það er nú bara hið besta mál. Helmingur kjósenda í Suðvesturkjördæmi er karlmenn og það er atriði að lokalistinn endurspegli samfélagið og einn hópur sé ekki útilokaður frá því að koma þátttöku í stjórnmálum.

Ég er ansi ánægð með hvað konum gengur vel í prófkjörinu hjá Framsóknarflokknum í suðvesturkjördæmi, ég er hrædd um að þannig sé staðan ekki í öðrum flokkum. Svo vil ég benda á að kosningu um fólk á listana sem fór fram hjá okkur í Reykjavík í dag þá er staðan þannig að af átta efstu á lista eru fimm konur. 

Hér eru nokkrar myndir sem ég tók af fundi okkar Framsóknarmanna í Reykjavík í dag:

IMG_3726

IMG_3725

IMG_3724

IMG_3723

IMG_3722

IMG_3721


mbl.is Staðan enn óljós hjá Framsókn í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margir vilja í framboð fyrir Framsóknarflokkinn

Það var náttúrulega eftir Mogganum að telja bara upp þrjá efstu á listum okkar Framsóknarmanna. Ég sem verð í fjórða sæti í Reykjavík suður er ekki nefnd á nafn. Ef þetta er ekki þöggun þá veit ég ekki hvað þöggun er. Ég hef farið fram á það við fjölskyldu mína að kalla mig hér eftir þingmannsefniðGrin enda erum við Framsóknarmenn bjartsýn á úrslit kosninganna í vor.

Ég var ánægð með fundinn í dag þar sem kosið var um sæti á listanum, mér finnst sá fundur sýna að það er grasrót og lýðræði í Framsóknarflokknum og það er auðvitað tekist á um sæti. Við í Reykjavík erum feikiánægð með að Sigmundur Davíð sé í fyrsta sæti í Reykjavík norður þannig að það þurfti ekkert að kjósa um það sæti. En fyrsta sætið í Reykjavík suður var eftirsótt. Það voru Vigdís, Hallur og Einar sem sóttust eftir því sæti en forvalsnefnd hafði mælt með Vigdísi. Það var kosið milli þessara þriggja afbragðsmanna og vann Vigdís yfirburðasigur. 

Svo var nú mest tekist á um annað sæti. Þar var stungið upp á  Magnúsi Árna Skúlasyni og Ástu Rut Jónasdóttur. Þau eru nýir liðsmenn í Framsóknarflokknum og hafa áður verið í Sjálfstæðisflokknum. Það er alveg ljóst að straumurinn mun liggja frá Sjálfstæðisflokknum til Framsóknarflokksins. Ég kannast nú við hvorugt þeirra en heyrði af verkum þeirra og vona að þau komi af fullum þunga til starfa með Framsóknarflokknum. Það komu engin mótatkvæði fram um Ástu Rut en Einar Skúlason bauð sig fram á móti Magnúsi enda Einar mikill áhugamaður um lýðræði og lýðræðisleg vinnubrögð og að fólk hefði val. Hann lét það nú ekki aftra sér að hafa áður tapað um fyrsta sætið fyrir Vigdísi.

Eftir töluverðar umræður þá tilkynnti Magnús að hann drægi sig í hlé og átti ég þá von á að Hallur myndi bjóða sig fram í annað sætið svo við gætum kosið milli Halls og Einars. Hallur ákvað hins vegar að gera það ekki. Svo var nú ekki neinn ágreiningur um önnur sæti á listanum og mér sýnist hafa valist gott fólk á listana. Það er hins vegar ljóst að það er mikil endurnýjun.

það má líka nefna að í átta efstu sætum á listum Framsóknarflokksins þá eru fimm konur. Þetta er nú alveg í samræmi við Framsóknarflokkinn, það var nú einkum þetta sem dró mig að þessum flokki. Í Framsóknarflokknum þá fá konur tækifæri til að vaxa upp sem öflugir stjórnmálamenn. Því er ekki þannig varið í Sjálfstæðisflokknum. 

Núna þegar prófkjörsslagurinn er sem hæstur í Sjálfstæðisflokknum, hvað skyldi konum í Sjálfstæðisflokknum finnast um það? Ég get nú varla séð að þær fái að vera með í baráttunni um toppsætin. Meira segja menntamálaráðherrann og varaformaðurinn verður kannski að taka annað sætið í Kraganum og skyggja ekki á  vonarstjörnu ættarveldisins. Mér sýnist konur í Sjálfstæðisflokknum hafa engan séns í völd nema þar sem Framsóknarmenn styðja þær til valda eins og nú er í Reykjavík. Það er nú kannski samt alveg eins hyggilegt fyrir þær að flytja sig bara yfir í Framsóknarflokkinn. 


mbl.is Sigmundur í Reykjavík norður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannréttindi útrásarvíkinga, mannréttindi vítisengla

Ríkisútvarpið, fjölmiðillinn í eigu allra landsmanna og undir stjórn menntamálaráðherra er áhrifaríkur miðill í íslensku samfélagi, rödd Íslendinga. Í gærkvöldi var í fréttum og Kastljósi RÚV tekin fyrir tvö mál, annars vegar kóngulóarvefur gervifyrirtækja sem Björgólfsfeðgar hafa spunnið utan um sig út um allar trissur og þeir hafa fest vef sinn á ýmsum skerjum langt út í hafi, eyjum sem enginn hefur heyrt minnst á nema gegnum frásagnir af ferðum fjármagns þeirra. Ferðalög víkinga nútímans eru nefnilega ekki bara virtual heldur eru þau þannig að maðurinn ferðast ekki, eignirnar ferðast heldur ekki, það sem flæðir á milli er eignarhald og skuldir, það er það sem sogast frá einu skeri á annað í einhverjum skrípaleik kasínókapítalísks hagkerfis.

Hitt málið sem takið var fyrir á Rúv í gær var koma nokkurra vítisengla sem voru boðnir í partý hérna. Þeim var meinaður landgangur, að mér skilst vegna alsherjarreglu og af því að þeir ganga í leðurfötum og keyra mótórhjól og eru í félagi sem sums staðar er skilgreint sem glæpasamtök. Ég hef nú dálitla samúð með fólki sem er sjálfkrafa dæmt óalandi, ég hef reynslu af því að vera af meintri hryðjuverkaþjóð. 

Svo var í Kastljósinu afar, afar ósmekkleg og undarleg sena. Það var einhvers konar auglýsing fyrir skemmtistað (af hverju er Kastljós með svona illa dulbúnar auglýsingar fyrir skemmtibúllur?)en einn liður í því að auglýsa þennan skemmtistað var að auglýsa upp klósettin hjá þeim. Það var miklum tíma eytt í að sýna klósett sem voru myndskreytt með myndum af útrásarvíkingum og eigandi þessa staðar útlistaði í nokkrum smáatriðum gleðina og útrásina sem fólst í að spræna á þessa meinta sakamenn.

Þetta var viðbjóðslegt viðtal.  Ég hef enga samúð með þeim sem komu okkur í þessa stöðu sem við erum í núna en engin réttarhöld hafa farið fram og engin hefur ennþá verið opinberlega ákærður fyrir að bera ábyrgð á hruninu. Og jafnvel þó að þessi menn hefðu verið dæmdir og fundnir sekir um landráð og glæpi gagnvart íslensku þjóðinni þá er það siðlaust og vitfirringslegt að nota myndir af þeim á þenna hátt, það er eins konar hermigaldur að reyna að lítilsvirða þá með því að kúka og pissa á þá. 

Allir menn eiga rétt á heiðarlegri og málefnalegri umfjöllun, líka vítsenglar, líka útrásarvíkingar í ónáð. Við ættum ekki að skerða mannréttindi þeirra sem okkur líkar illa við ef við myndum ekki vilja skerða mannréttindi vina okkar á sama hátt. 

Hvað ef þessi skemmtistaður hefði haft myndir af íslenskum fréttakonum á klósettunum? Hefði þessi frétt verið birt með sams konar gleði í Kastljósinu? Og varðandi vítisenglanna þá er það alveg klárt að þetta er félagsskapur sem dregur að sér svona gæja sem vilja virka hættulegir og eru hugsanlega hættulegir. En ég hugsa að mótorhjólasportið dregi til sín sams konar fólk og fer í þessar flúðaferðir (river rafting), svona fólk sem fær kikk út úr að koma til eldlandsins Íslands og upplifa sig í stöðugri lífshættu og baráttu við náttúruöflin. Ég held líka að vítisenglar dragist upp á hálendið, þeir hafa svona fjalla-eyvindar-mentalitet.  

Mér finnst nú frekar mikil skammsýni að útiloka mótórhjólagengi í að vera túristar á Íslandi og raunar mannréttindamál að þeir fái að fara í ofurhugaferðir hér á landi.

En þá fyrst reynir á hversu mikið við styðjum við mannréttindi þegar kemur að því hvaða mannréttindi við viljum fyrir þá sem okkur er illa við og þá sem við teljum okkur eiga eitthvað sökótt við. 

 


mbl.is 12 vísað frá landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn er flokkur félagshyggju og samvinnu

Það er gott að formaður okkar Framsóknarmanna tali skýrt um hvernig ríkisstjórn Framsóknarflokkurinn vill. Það er sams konar stjórn og meirihluti landsmanna. Það er stjórn án Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki einleikið hvað Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að klúðra miklu, ég held að þar á bæ hafi menn gott að komast í frí og endurhæfingu.

Ég held að það hafi aldrei verið meiri þörf á stjórnmálaafli sem aðhyllist öfgalausa samvinnustefnu og félagshyggju. 


mbl.is Vill vera í vinstri stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska þjóðin að leysast upp

Í upphafi kreppunnar var litið til Kína og því spáð að það ríki myndi ekki finna mikið fyrir kreppunni. Kína er  kommúnistaríki  með miðstýrt hagkerfi  og digra gjaldeyrissjóði. Mest af viðskiptum í Kína eru innan Kína. Þannir virðiðst   Kína  ekki á sama hátt næmt fyrir dominoáhrifum efnahagshrunsins eins og sumar Vesturlandaþjóðir, sérstaklega þjóðir þar sem markvisst hefur verið unnið að því að færa alla stjórnun á viðskiptum til "markaðarins" í þeirri nýfrjálshyggjubylgju sem gengið hefur yfir Vesturlönd frá Thatcher-Reagan tímanum. Sá tími er liðinn og núna sjá flestir að þessi "markaður" getur breyst í  skrímsli eða tímasprengju sem hleðst upp ef stjórnvöld og almenningur sofna á verðinum og skipta sér ekkert af því hvað er að gerast.

Það er of snemmt að skoða hver er undirrót þess fjármálahruns og endurmats sem heimurinn gengur nú í gegnum. Það er hins vegar alveg hægt að fullyrða að birtingarmyndir fjármálakreppunnar þurfa ekki að vera sama og orsakir hennar, ekki fremur en læknir getur fullyrt að birtingarmynd sjúkdómsins sé það sem valdi sjúkdóminum.  Þannig eru afleiðuviðskiptin og undirmálshúsnæðislán ekki  það sem veldur þessu kerfishruni þó að þar hafi hinn ægilegi sjúkdómur þessa kerfis birst fyrst og hroðalegast á þeim sviðum.

Sennilegt er að þetta hrun hafi einhverjar dýpri orsakir en bara peningalegar - einhverjar strúktúrbreytingar í samfélögum manna, hugsanlega eru peningaviðskipti eins og við búum við núna og það að nota peninga sem mælikvarða á verðmæti og einingu sem mælir völd (þ.e. í gegnum eignarétt) og flytur til völd - hugsanlega er það kerfi ekkert að virka. Þetta segi ég vegna þess að ég hef undanfarin ár séð hvernig flæði sem byggir á markaðshagkerfi og eignaréttarvörðum hugverkum eru beinlínis að kyrkja framþróun og sköpunarkraft í stafrænum hugverkasmíð, ekki síst hugverkum sem unnin eru í samstarfi og samvinnu margra. Markaðshagkerfi okkar tíma, markaðshagkerfi iðnaðarsamfélagsins passar ekkert við þann veruleika sem við búum við. 

Eina sem ég hef getað gert við þannig er að snúa eins mikið baki við þessu markaðskerfi  og hægt er, nota alltaf það sem er með öðruvísi og opnara höfundaleyfi (CC og GNU), nota eins og hægt er ókeypis og opinn hugbúnað og opin og ókeypis söfn stafrænna eininga hvort sem það eru vísindagreinar, gagnabankar, kennslugagnasöfn eða forrita- og námsefnissöfn.

Það getur verið að sama þróun og ég sé að gerist í heimi stafrænnar smíði sé líka að eiga sér stað á öðrum sviðum, fólk hefur öðruvísi verkfæri núna og vinnur öðruvísi. Framleiðsla fer ekki bara fram í verksmiðjum, sambandið milli neytanda og framleiðanda er ef til vill að leysast upp og við tekur einhver konar diy tímabil,  tími þar sem fólk semur saman sína hluti sjálft, tímabil hinna lausu eininga, tímabil gáma og hjólhýsahverfa, tímabil sjálfsþurftarbúskapar. Ég segi þetta ekki til að draga upp dökka mynd, ég sé gáminn sem eina af táknmyndum nútímans, hann var umbúðir utan um vörur en hann er kannski líka varan sjálf. Ég er líka sérstaklega hugfangin af arkitektúr sem notar gáma og svona "prefab", svona hjólhýsahugsun nútímans, hugsun þar sem allt er í stöðluðum einingum en einmitt staðlarnir gera fjölbreytnina mögulega.

Kínverjar finna mikið fyrir kreppunni, kannski einmitt vegna þess að þetta er ekki bara kreppa sem snýst bara um afleiðuviðskipti og fjármagnskreppu, þetta eru hræringar sem birtast sem kreppa og misvægishreyfingar vegna þessa að nú eru straumamót í sögu manna, miklar strúktúrbreytingar á atvinnuháttum.

Það munu allir finna fyrir kreppunni, líka þeir á Íslandi sem halda því fram að þetta sé bara Reykjavíkurkreppa, þeir búi á svæðum þar sem aldrei kom góðæri og því geti ekkert farið þaðan. Þannig er það nefnilega ekki, það er hættulegt ástand fyrir íslenska þjóð núna, svo hættulegt að það getur farið svo að íslenska þjóðin leysist upp. Ekki í einhverri sprengingu eða vígvélastríði heldur með þeirri uppflosnun sem virðist verða óhjákvæmilegur hluti af kreppunni. 

Núna flytur unga fólkið úr landi, sumir eru búnir að ákveða brottfarardaginn, sumir eru fluttir og sumir eru að hugsa sig um. En það er ekkert sem bendir á bjartari tíma hérlendis á næstunni, það eina sem mun verða til þess að ungt fólk flytur ekki frá Íslandi er að það eru fá atvinnutæki annars staðar. 

En hingað kemur líka fólk núna. Ég hef frétt af því að hingað komi nú fjölskyldur frá Eistlandi og fleiri baltneskum löndum, flytjist hingað í hinni djúpu og dökku kreppu sem hér ríkir, flytjist hingað vegna þess að þó hér sé erfitt þá eru tímarnir núna miklu, miklu verri á þeirra heimaslóð.

Þannig birtist kreppan okkur núna líka í uppflosnun og fólksflutningum víða um heim. Ef þróunin heldur áfram þá mun  þetta hafa veruleg áhrif á Ísland einfaldlega vegna fæðar Íslendinga. Hver árgangur Íslendinga er ekki nema rúmlega 4000. Hvað gerist á Íslandi ef stór hluti af hverjum árgangi ungs fólks á barneignaaldri flytur frá Íslandi? 

 


mbl.is Erfitt ár fyrir Kínverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjóflóð á Vestfjörðum, skothríð í Palestínu

 

Kristín Helga faldi sig í dýragarði í borginni Qalqilya á meðan skothríð Ísraelsmanna stóð þar yfir í dag. Ég fylgist með blogginu palestinufarar.blog.is og þar er þessi frásögn nýjust:
Innrás og skotárás í Qalqilya

Hún heimsótti skóla í borginni. Þar voru engin börn. Ég átta mig ekki á hvers vegna, það kemur fram í blogginu þeirra að núna eru kennarar þarna í verkfalli, ekki til að berjast fyrir hærri launum, heldur til að mótmæla því að þeir fá engin laun.  Menntamálaráðuneytið hefur enga peninga til að greiða kennurum laun.

Krakkarnir taka myndir af ferðalagi sínu og þeim sem þau hitta. Hér fyrir ofan er mynd af Kristínu Helgu (í rauða jakkanum) með krökkum sem sækja stuðningshópana sem Rauði krossinn býður upp á. Gaman að sjá litla sprelligosann á myndinni, minnir á að börn eru eins í austri og vestri og þó það sé stríð þá er hægt að bregða á leik.

Ég er ekki mjög hrædd um Kristínu Helgu þó þarna sé skothríð og stríð. Ég held að Rauði krossinn passi vel upp á krakkana, þar er fólk sem veit alveg hvernig ástandið er og er vant að vinna á átakasvæðum.

Satt að segja hef ég núna miklu meiri áhyggjur af systur minni og fjölskyldu hennar í Bolungarvík. Hún vinnur á Ísafirði og keyrir þennan hættulegasta veg landsins á hverjum degi í vinnuna, veg þar sem margir hafa látist gegnum tíðina og snjóflóðin og skriðurnar falla iðulega.

Og hann Jói mágur minn er starfsmaður Veðurstofunnar, hann er snjóflóðaeftirlitsmaður í Bolungarvík og þarf að fara og mæla snjóalög og fylgjast vel með í svona aðstæðum.

Það kom grein um ferð Kristínar Helgu og Gunnlaugs í Morgunblaðinu. Hérna er hún:

mbl

 


mbl.is Ófært víða um land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jórsalaför Kristínar Helgu

Kristín Helga hefur náð til borgarinnar helgu og ferðast nú þaðan til Palestínu. Hún er núna í borginni Ramallah. Kristín Helga fæddist 15. október 1989 í borginni Iowa City  í Bandaríkjunum en ég var þar við nám.  Um það leyti fylgdist ég og öll heimsbyggðin með því þegar járntjaldið féll í Evrópu, þegar Berlínarmúrinn var brotinn niður.

Í ágúst 1989 opnuðu Ungverjar landamæri sín fyrir Austur-Þjóðverjum sem voru að flýja úr landi. Í maí 1989 byrjuðu Ungverjar að brjóta niður girðingar við austurísku landamærin, þá opnaðist flóttaleið fyrir Austur-Þjóðverja sem fóru fyrst til Ungverjalands og þaðan til Austurríkis.Íbúar Eistlands, Lettlands og Litháen mynda 600 km keðju í ágúst, Berlínarmúrinn féll 9. nóvember og flauelsbyltingin byrjar í Tékklandi litlu seinna. Hér á Íslandi hafði Sambandið lognast út af og fyrsta Bónusverslunin opnaði eimitt árið 1989. Kristín Helga fæddist árið sem mótmælin voru á Torgi hins himneska friðar í Kína og á árinu sem Bush eldri komst til valda í USA og hún fæddist árið sem stríðið í Afganistan endaði. 

Endaði? Afganistan.  Jú, víst yfirgáfu Sovétmenn Afganistan í febrúar 1989  en stríðið þar endaði ekki. Það magnaðist.  Berlínarmúrinn hefur verið brotinn niður en þar sem Kristín Helga ferðast um núna hefur annar múr risið, múrinn milli Ísraels og Vesturbakkans.

Þetta er múr reistur til að vernda Ísraelsmenn frá hryðjuverkamönnum.  En hverjir eru hryðjuverkamenn? Do I look like a terrorist?

Eru allir Íslendingar mögulegir hryðjuverkamenn? Eru allir með arabískt nafn eða af arabískum ættum mögulegir hryðjuverkamenn? Kristín Helga er í hópi með krökkum frá mörgum löndum, frönsku krökkunum var haldið í 7 tíma á flugvellinum, það mun hafa verið út af því að einn þeirra heitir arabísku nafni og er af arabískum ættum.

Þessi múr er hugsanlega verndarmúr fyrir einhverja. En hann er líka víggirðing sem lokar inni mikið af fólki sem á þarna heima. Það eru brotin niður hús fólks, hér er mynd af konu daginn eftir að heimili hennar var lagt í rúst. (frá flickr notanda farfuglinn)

Það er ekki annað að sjá og heyra á fréttum sem okkur berast frá Palestínu að Ísraelsmenn fari þar með miklu offorsi og grimmd gagnvart almenningi af palestínskum uppruna.

Palestínumenn eru undirrokuð þjóð, hnepptir í fjötra og lokaðir inni. 

Vonandi opnar þetta verkefni Rauða krossins augu Kristínar Helgu og annarra ungmenna fyrir því hve mikilvægt er að sinna börnum og unglingum og almenningi  á hernumdum svæðum og halda á lofti rétti þeirra sem eru í þannig aðstöðu að þeir geta það ekki sjálfir. Hér er fínt viðtal við ferðafélaga Kristínar Helgu í Fréttablaðinu:  Augu opnuð og víðsýni aukin fyrir landi fyrir þjóð í ánauð

Ég held ekki að allir séu móttækilegir til að sjá hve mjög kreppir að Palestínumönnum og hve illa er komið fram við þá þjóð sem þarna býr. Ég skrifaði bróður mínum sem núna er í Suður - Ameríku og sagði honum frá að Kristín Helga væri að fara til Palestínu. "Það er ekkert ríki til sem heitir Palestína" svaraði hann. Mér skilst að í vegabréfum Palestínumanna gefnum út af Ísraelsmönnum sé eyða fyrir þjóðerni. 

En Kristín Helga er núna á stað sem sumir segja að sé ekki til að kynna sér líðan barna í stríðsátökum, barna af þjóð sem sumir segja að sé ekki til. En hver ákveður hvaða þjóðir eru til og í hvaða umboði taka þjóðir sér vald til að fara með stríð á hendur öðrum? 

heridos - wounded Matapatra


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband