27.11.2006 | 13:14
Virkjanir kosta meira en peninga og heiðalönd
Ég ætlaði áðan að velja mér frétt á mbl.is til að blogga um, mér finnst það svo sniðugur fídus að blogga um fréttir og það er náttúrulega sennilega einn aðaltilgangur þessa fína bloggkerfis blog.is að tengja samfélagsumræðuna við Morgunblaðsmiðlunina. En gallinn var bara sá að ég fann enga skemmtilega frétt sem ég vildi blogga um.
Það voru krassandi fyrirsagnir eins og "Gekk berserksgang á hóteli", "Vingsaði hnífi og ógnaði fólki", "Hópslagsmál í Kópavogi" en það var bara ein sorgleg frétt sem snart mig. Það var fréttin um slysin við Kárahnjúkavirkjun en þar hafa fjögur banaslys orðið frá því framkvæmdir hófust. En ég veit bara ekki hvað ég á að segja um þá frétt. Hún snertir mig meira en fréttir af því að varplönd heiðargæsa tapist. Það hafa líka orðið alvarleg slys við Hellisheiðarvirkjun.
![]() |
Rann fjörutíu til fimmtíu metra niður stífluvegginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2006 | 16:53
Orð dagsins eru hacktivism og slacktivism
Hactivism er fyrir hakkara sem íslenskir fjölmiðlar þýða með orðinu tölvuþrjótur sem náttúrulega segir meira um íslenska fjölmiðla en hakkara . Slacktivism er að slæpast bara á Netinu þegar hinir mála bæinn bleikan og kaupa ekkert í dag. Í tíð föður míns var talað um sófakomma og það var hið mesta skammaryrði. Nú eru kommarnir gufaðir upp en við commonistarnir komnir fram á völlinn og bíðum færis.
25.11.2006 | 14:32
Kaupum ekkert dagurinn á 66 norður
Ég held upp á kauptu ekkert daginn í dag eins og ég hef gert undanfarin ár. Kaupi ekkert og hugleiði stöðu mála í okkar heimshluta hérna á Norðurslóðum nálægt Íshafinu þar sem jöklarnir eru að bráðna og aðrar siglingarleiðir í sjónmáli. Hér ríkir sú trú ríkir að gangvirki mannlegra samfélaga sé skiptimiðakerfi fjármagns og peninga og að óhindrað flæði peninga um heiminn muni eins og ósýnileg hönd verða til þess að lífskjör jafnist og allir græði.
Ég er á því að sem mest frelsi upplýstra einstaklinga til athafna og orða sé sennilega affarasælast fyrir flesta, einstaklingar sem hafa aðgang að sem mestum upplýsingum og hafa úr sem flestum valkostum að velja eru sennilega færari en miðstýrt fjarlægt vald til að taka skynsamlegar ákvarðanir um framtíð sína og þess nærsamfélags sem þeir lifa í. Allra skynsamlegast virðist mér að haga samfélagsgerð þannig að einstaklingar kunni að vinna saman og búa til samfélag þar sem samlegðaráhrifin eru ekki bara fólginn í fjöldanum heldur líka fjölbreytninni og því að margir ólíkir einstaklingar með mismunandi hugmyndir og orku geta lagt í púkk og myndað kerfi þar sem allir græða og það þarf ekki endilega að vera kerfi sem byggir á borgun eða peningum. Til þess að ólíkir einstaklingar vinni saman þá þarf að vera umburðarlyndi fyrir þeim sem eru öðruvísi og það þarf líka að vera einhvers konar samkennd eða samhygð þannig að einstaklingar taki ekki ákvarðanir eingöngu út frá eigin hagsmunum.
Það frelsi sem ríkir í okkar heimshluta gengur mjög á misvíxl. Á sama tíma og það er mikið frelsi í hvernig peningar mega flæða um heiminn þá er frelsi fólks til að flytja sig um set lítið. Það er núna að ég held afar erfitt fyrir fólk frá Asíulöndum að setjast að á Íslandi en það er hins vegar alveg í fínu lagi að flytja þaðan vörur og staðsetja verksmiðjur þar.
Ég er með Fréttablaðið í dag fyrir framan mig á opnuviðtali við Sigurjón Sighvatsson sem núna hefur keypt 66 norður. Einu sinni var 66 norður sjóklæðagerð en núna framleiðir fyrirtækið útivistarvörur. Í opnuviðtalinu er oft rætt um ímynd Íslands og það tengt við vörur frá 66 norður og það er talað um hönnunina, hönnuðir fyrirtækisins hafi svo góða tilfinningu fyrir hvað 66 norður stendur fyrir.
En hvað stendur 66 norður fyrir?
Hvað standa önnur íslensk fyrirtæki í útrás fyrir?
Það er langt síðan öll fataframleiðsla 66 Norður á Íslandi var lögð niður. Núna er þessi fatnaður saumaður í Austur-Evrópu og efnin sennilega koma ennþá austar að.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.11.2006 kl. 13:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2006 | 07:03
Menning heimsins er rituð í leir
Ég held að maður læri mest með að vinna að einhverju verkefni, að búa til eitthvað, að skapa eitthvað. Það skiptir ekki öllu máli hvað kemur út, það er ferlið sem skiptir mestu máli, að nota ferlið til að mennta sig á sem víðustu sviði og opna hugsun sína. Það skiptir líka máli að vera í samræðu við sjálfan sig og skrásetja ferlið á einhvern hátt - í minnisbækur, í rissbækur, í nótissubækur eða í blogg.
Í síbreytilegu samfélagi skiptir líka máli að vera alltaf að læra eitthvað nýtt, eitthvað sem lætur hugsunina tengjast á annan hátt og eitthvað sem er "out of your comfort zone". Ég er núna á leirmótunarnámskeiði og ég nota sjálfa mig til að praktísera það sem ég prédika þ.e. að nota blogg sem leiðarbók við hugmyndavinnu og persónulega þroskasögu tengt viðfangsefninu, ég reyni að skrá í blogg allt sem viðvíkur námskeiðinu og þær hugmyndir sem ég fæ.
Slóðin á bloggið er http://leirmotun.blogspot.com
Mér finnst gaman að nota þennan tíma sem ég er á námskeiðinu til að spá í sögu leirlistar sem hluta af tæknisögu heimsins og hvernig leir samtvinnast ritmáli og táknrófi en elstu menjar ritmáls eru fleygrúnir Súmera.
Hér er mynd af mununum okkar, þetta eru einir fyrstu leirmunirnir sem við brenndum. Þeir eru unnir úr steinleir sem er hábrenndur og við notum glerunga sem Ásrún hefur búið til. Ég á vasann og blómapottinn til hægri.
Ég vann þessa muni með plötuaðferð og svo þrykkti ég mynstrið með leirstimplum. Svo voru munirnir brenndir í lágbrennslu og þá voru þeir tilbúnir fyrir glerjun. Ég glerjaði að utan með svampi og reyndi að láta glerunginn fara ofan í mynstrið og svo hjálpaði Ásrún mér að glerja að innan með að hella glerung í mótið. Ég hef prófað bæði steinleir og rauðleir (terra cotta) og ýmsar aðferðir eins og að rista mynstur í leðurharðan leir.
Menning og listir | Breytt 27.11.2006 kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2006 | 17:45
Fyrrverandi ljóska
Dóttirin er núna komin með dökkt hár. Ljóskutímabilinu er lokið. Hér pósar hún með stærðfræðibók og svo er hér mynd af ljóskunni á 17 ára afmælisdeginum.
23.11.2006 | 14:48
Víkindainnrásin og West Ham
The Vikings are coming er grein núna á BBC fréttavefnum. Extrabladet í Danmörku hefur líka sýnt Íslandi sérstaka athygli að undanförnu. Það kitlar náttúrulega hégómagirnd okkar Íslendinga að vera svona í sviðsljósinu hjá grannþjóðum. En umfjöllunin er ólíkt vinsamlegri á BBC og skýringarnar á velgengni íslenskra fyrirtækja þar raktar til umgjörðar athafnalífs á Íslandi :"The invasion by Icelandic businesses and entrepreneurs is the result of recent financial reforms." En Ekstrabladet er ekkert á því róli og þar eru greinar eins og þessar:
Money laundering and corruption
Putin's minister received million doller bribe
![]() |
Víkingainnrásin" vekur furðu BBC |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.11.2006 | 06:57
Orð dagsins er Pískirís
"Tá eg smelti mars røri eg altíð við pískirísi, so sleppi eg undan klumpum."
Það er ótrúlega gaman að lesa færeysku, svo myndrænt og öðruvísi mál. Ég hélt að pískirís væri sjálfspyndingatól svona eins og ég hef séð í útlenskum fréttaskotum þar sem píslarvottar og einsetumenn berja sig með svipum við hátíðlegar athafnir við skrúðgöngur í kringum föstudaginn langa svona til að sameinast Jesús síðusári.
Svona sjálfspyntingarlosti er líka oft leiðarstefið í sögum kvenna sem ganga út á fórnarlund og kvöl og eru svona leiðbeiningar um hvernig á að kóa með ölkum og lifa lífinu í gegnum augu annarra.
Já færeyskan er stórkostlegt tungumál. Það þarf ekki annað en að lesa setningarbrot úr matreiðsluuppskrift á færeysku um hvernig maður bræðir marens og hrærir í á meðan til að það hlaupi ekki allt í kekki til að lyfta andanum í æðstu hæðir og fara að pæla í bókmenntun og kvöl heimsins og frelsarans og kvöl konunnar.
22.11.2006 | 13:39
Kortakvart
Pirrandi frétt um að Landmælingar séu að hætta útgáfu landakorta og sölu þeirra á almennum markaði og til standi að selja útgáfurétt af fimm helstu ferðakortunum seldur. Markmiðið mun vera að draga Landmælingar út úr samkeppni við einkafyrirtæki sem sinna kortaútgáfu.
Það eru svona fréttir sem koma mér í vont skap og fylla mig vonleysi. Er enginn þarna úti sem hefur sömu sýn og ég? Þá sýn að upplýsingar sem aflað er af almannafé eigi að vera ókeypis og svona upplýsingar eins og kort eiga að vera hverjum manni og hverri stofnun aðgengileg. Þá sýn að upplýsingar eiga almennt að vera ókeypis. Það að selja kort af Íslandi það er alveg eins og hérna fyrir nokkrum árum þegar Hæstaréttardómar voru seldir á geisladiskum og aðeins vel fjáðar lögfræðistofur gátu keypt svoleiðis diska. Á einhverjum tíma þá var svona markaðskerfi gæða það sem virkaði best en í því samfélagi sem við erum að fara inn í núna þá er þannig kerfi bara til trafala og býr til þröskulda og eykur á mismunun og kyrkir nýsköpun.
Ég hef unnið töluvert við íslensku Wikipedía orðabókina og þar meðal annars teiknað nokkur kort. Þau kort hef ég að sjálfsögðu teiknað eftir öðrum kortum vegna þess að það er nú einu sinni þannig að það er mikilvægt að kort séu frekar nákvæm. Ég hef gætt þess að geta heimilda og vona að ég sé alveg á réttu róli hvað höfundarrétt varðar. Ég hef hins vegar teiknað þessi kort til að aðrir geti tekið þau og gert hvað sem þeim þóknast við þau. Kortin teikna ég í vektorteikniforritinu Inkscape sem er ókeypis og open source hugbúnaður en ég reyni að nota svoleiðis hugbúnað ef það er mögulegt.
Hér er dæmii um síðu sem er með kort sem ég teiknaði af fjörðum á Íslandi en.wikipedia.org/wiki/Breiðafjörður
Sem dæmi um hvernig vinnubrögð hægt er að hafa þegar öll kort eru aðgengileg öllum má nefna að ég teiknaði líka kort af hverfum í Reykjavík og svo tók annar wikiverji það kort og breytti til hins betra og vann áfram í þetta hverfakort
Það myndi létta okkur mjög lífið sem erum að vinna í því í sjálfboðaliðsvinnu að setja inn upplýsingar í íslensku wikipedia ef við hefðum aðgang að vektorkortum sem við mættum setja inn í commons.wikimedia.org og breyta og nota í wikiverkefnum. Flest kort sem ég geri tengjast reyndar sjónum og hafstraumum enda reyni ég að einbeita mér að því að skrifa inn greinar sem tengjast lífríki sjávar. En það er ekki bara verkefni eins og Wikipedia sem myndi græða á því að þessi kort væru ókeypis og öllum aðgengileg, það er sennilegt hjálpa heilmikið öllum í ferðaþjónustu sem er nú sívaxandi atvinnugrein á Íslandi. Í því sambandi má benda á að Wikipedia er ein öflugasta heimildin varðandi fjarlægar slóðir og margir sem koma hingað til lands eru búnir að fletta heilmikið þar upp.
![]() |
Hætta útgáfu landakorta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2006 | 13:16
Að verja hagsmuni sína... fyrir sjálfum sér
Fyndin frétt um meint höfundarréttarbrot EJS sem Landsteinar (LS) ásaka það fyrirtæki um. Það er ekki nóg með að það séu gífurlegar málaflækjur vegna höfundarréttar núna heldur er svo komið að fyrirtæki í eigu sömu aðila eru farin að slást hvert við annað. Það kallast að verja hagsmuni sína.
"Athygli vekur að LS grípi til aðgerða af þessu tagi gagnvart EJS, en fyrirtækin eru að hluta til í eigu sömu aðila......Gunnlaugur hjá LS segir að þótt fyrirtæki séu að hluta í eiga sömu aðila séu það eðlilegir stjórnunarhættir að láta þau verja sína hagsmuni, og það sé gert í þessu tilviki."
Hvernig liti þetta mál út ef hugbúnaðurinn sem um ræðir hefði verið "open source"
Ég fann myndina hérna til hliðar með að leita í CreativeCommons.org, slá inn leitarorðið gasoline og fann þá þessa mynd og ég skar hana til í imagecrop.com
Það er sniðug leið til að finna myndir á blogg.
![]() |
Leitað vegna ætlaðra brota á höfundarrétti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.11.2006 | 01:38
Kanahúsin á floti
Það er alveg sárgrætilegt að sjá skemmdirnar í kanablokkunum sem sýndar voru í sjónvarpinu. Eitthvað pínlegt líka við að sjá þessar miklu fasteignir grotna svona ofboðslega hratt niður í höndum Íslendinga. Með sama áframhaldi má víst bara rífa allt hverfið eftir veturinn. Maður getur ekki annað hugsað en hvort Íslendingar séu líka svona andvaralausir með varnir landsins - nú úr því að við höfum ekki fyrirhyggju til að verja hús fyrir frosthörkum sem þó eru algengar og fyrirsjáanlegar, hvernig í ósköpunum getum við þá planað varnir þessa lands fyrir utanaðkomandi ógnum?
Það er líka táknrænt að það var gæsla á svæðinu. Gæslan beindist hins vegar bara gagnvart mannaferðum, gagnvart því að tryggja að ekkert fólk kæmist inn á svæðið. Hvað hefði það fólk svo sem átt að gera? Sprengja upp húsin? Setjast að í mannlausum húsunum? Það sem er táknrænt við þetta er hversu lítt nösk stjórnvöld eru á að greina ógnina í umhverfinu. Helsta ógnin á Íslandi stafar ekki af fólkinu í landinu heldur af náttúruhamförum og vetrarhörkum, í þessu tilviki voru skemmdarverkin ekki unnin af spellvirkjum sem sprengdu upp hús heldur af vatni sem fraus í pípum og sprengdi upp leiðslur.
Ég hef reynt að fylgjast með hvaða plön eða hugmyndir eru um notkun þessara eigna en ég hef ekki séð neitt ennþá. Mér finnst það furðulegt, það eru margir mánuðir síðan ljóst var að herinn færi og af hverju hafa engar hugmyndir verið ræddar? Eða hef ég misst af einhverju? Eina sem ég hef tekið eftir er að það virðist tregða við að setja þessar eignir í sölu, það er að hluta til eðlilegt vegna þess að það þarf náttúrulega að skipuleggja svæðið sem íslenskt íbúðarsvæði. En ég hef grun um að það séu hagsmunir iðnaðarmanna og íbúðareigenda sérstaklega á Suðurnesjum sem ráða því að ekki er í umræðunni að selja þessar eignir á almennum markaði. Það er hræðsla og hún er alveg skiljanleg við að ef svona margar íbúðir koma í einu inn á almennan markað á þessu svæði annað hvort í sölu eða leigu þá muni húsnæðismarkaður hrynja á svæðinu og byggingariðnaðurinn stoppa. Það segir sig sjálft að ef framboð eykst verulega á ódýru húsnæði til kaups eða leigu þá lækkar bæði húsnæðisverð og húsaleiga.
En það er ekki forsvaranlegt að gera ekki neitt við þessar eignir. Það getur ekki verið eðlilegt að taka ekki ákvörðun út frá skynsemissjónarmiði vegna þess að það stangast á við segjum byggingariðnaðinn á Suðurnesjum. Það er skrýtið að í landi þar sem heilu fiskiþorpin eru í auðn vegna þess að það má selja kvótann burt úr plássunum að ekki megi selja fáeinar kanablokkir með hraði.
Annars er ég hrædd um að ákvarðanir um nýtingu þessarra eigna verði teknar á miðstýrðan hátt af fámennum hóp og án þess að leitað sé eftir hugmyndum almennings. Það er of mikil hefð fyrir slíkum vinnubrögðum í jafn opinberri stjórnsýslu sem og viðskiptalífi. Það eru hins vegar ekki sniðugustu vinnubrögðin og ég vildi óska þess að við svona verkefni þá væri reynt að fara einhverjar aðrar leiðir.
Hér er annars mínar hugmyndir um nýtingu þessarra íbúðarhúsa sem ég myndi setja inn í hugmyndabanka ef þess væri leitað
* Best að koma sem mestu úr ríkisumsjá sem fyrst
* Selja almenningi stóran hluta þessarra eigna en gera það í áföngum og binda ákveðnum skilyrðum. Gera sem fyrst söluáætlun.
* Hafa í huga við söluna að selja eignirnar þannig að það komi sem minnst við húsnæðismarkað á Suðurnesjum.
* Ein leið til að losna við þessar íbúðir eða hluta þeirra án þess að hafa verulega áhrif á íbúðarmarkaðinn er að bjóða fólki á landsbyggðinni eða sveitafélögum eða aðilum þar þær til kaups á mjög lágu verði sem aukahúsnæði (alveg eins og fólk í þéttbýli kaupir sumarhús út á landi þar sem það er nokkrar nætur á ári þá getur fólk á landsbyggðinni viljað eiga aðsetur á höfuðborgarsvæðinu fyrir ferðir sínar til borgarinnar). Það væri reyndar snilldarlausn til lengri tíma að fá sem flesta á landbyggðinni, sérstaklega frá svæðum sem núna er flogið til í innanlandsflugi til að eiga íbúð í Reykjanesbæ svona upp á hugsanlegan flutning flugvallarins seinna meir. Sennilega er bara sniðugast að gefa þessar íbúðir til einhverra aðila með takmörkunum um afnot t.d. að ekki megi leigja þær á almennum markaði.
* Sennilega er bara sniðugast að gefa þessar íbúðir eða afnotarétt af þeim amk þann hluta þeirra sem hugsanlega verður rifinn til fjölskyldna sem eru í húsnæðisþröng sem gætu notað þær þangað til að því kemur. Það verður sennilega seint eftirspurn eftir þessu húsnæði til varanlegrar búsetu meðal Íslendinga og það er líklegt að það verði fyrst og fremst fólk erlendis frá sem flyst til Íslands sem hefur áhuga á búsetu þarna rétt eftir að það kemur til landsins. En það yrði nú eins konar endurtekning á braggahverfunum. Það er kannski mest ábyrgð stjórnvalda að reyna að passa að þetta hverfi verði ekki fátækrahverfi með niðurníddum húsum. En það er kannski ennþá verra að hverfið verði bara hverfi með mannlausum niðurníddum húsum.
![]() |
Baðst afsökunar á því að skemmdir hefðu orðið á byggingum á Keflavíkurflugvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)