Bloggfærslur mánaðarins, mars 2018
20.3.2018 | 08:14
Presturinn sem fékk enga greiningu
Nútíminn er tími greininga. Margar frásagnir birtast í blöðum og miðlum um fólk sem er öðruvísi og gengur í gegnum margs konar lífsreynslu og erfiðleika þess vegna en fær svo greiningu, oftast þannig sérfræðingur að undangreindum margs konar rannsóknum setur fræðilega yfirskrift á það sem hrjáir viðkomandi.
En heimurinn fortíðar og nútímar líka er fullur af ógreindu fólki. Hér er saga af einum þeirra, íslenska prestinum Hallgrími. Hann hefur margar skrýtnar venjur sem sumar tengast mat og ýmsum rituölum og að hafa allt í föstum skorðum, ganga um allt og tékka á öllu, sanka að sér mat inn í kirkjuna og borða þar í laumi og þegar hann messaði leið honum best þegar söfnuðurinn fylgdi öllum rituolum í messunni, söng þegar hann átti að syngja, stóð upp þegar standa átti upp og sat svo kyrr þegar hann átti að sitja. Hallgrími leið svo illa þegar fólk fylgdi ekki rituölunum og var að stjákla til og frá um kirkjuna og út úr kirkjunni að hann greip til örþrifaráðs. Hann læsti fólkið inni í kirkjunni.
Hér er sagan af Hallgrími presti. Sem kallaður er "einn af þessum undarlegu mönnum". Hvaða stimpil hefði nútíminn sett á Hallgrím?
Séra Hallgrímur var einn af þessum undarlegu mönnum. Hann geymdi stundum peninga sína í veggjarholum í bænum. Vildi hann helzt ekki mjólk, nema úrvissri kú, er hann átti og svo framvegis. Siðavandur var hann með afbrigðum, og var svo mælt, að stundum gengi hann með ljós um fram baðstofuna til að ganga úr skugga um, að engin ósiðsemi væri í frammi höfð af vinnufólki hans, sem jafnan var margt.
Hið sama var um öll embættisverk hans. Fylgdi hann þar gömlum venjumm og siðum, og mátti þar í engu breyta. Var það þá einhverju sinni, að hann ræddi við meðhjálpara sinn í Hólum um það, að ekki sýndi söfnuðurinn sér tilhlýðilega virðingu, væri fólkið rápa út og inn meðan á messu stæði og skipaði svo fyrir að kirkjunni yrði iæst um leið og messa hæfist.
Sagði hann meðhjálpara að fólk væri svo purrkunarlaust" orðið af þessu rápi, að hætt væri það að hneigja sig og heykjast í hnjáliðunum, er það gengi hjá sér, meðan hann væri í stólnum en slíkt væri í mesta máta vítavert. Væri því bezt að það sæti kyrrt í sætum sínum. Þorði meðhjálpari ekki annað en fara að skipan prests og læsti kirkjunni er messa fór næst fram.
Svo hefur verið sagt, að séra Hallgrímur hafi verið matmaður mikill og það svo, að oft þyrfti hann að fá sér bita milli máltíða. en þá borðaði fólk þó jafnan þrímælt. Af þessum sökum lét prestur flytja dálitla kistu fram að Hólum. Lét hann kistuna standa í kórbekk í kirkjunni og geymdi í henni soðið hangikjöt, magála, og fleira hnossgæti; fékk hann sér jafnan bita úr kistunni eftir messugerð og lét meðhjálpara sinn, sem var trúnaðarmaður hans, standa vörð á meðan hann snæddi, því ekki vildi hann láta söfnuðinn vita að hann væri matgírugur.
18.3.2018 | 16:20
Maðurinn sem smíðaði peninga
Það hafa margir reynt að búa til peninga. Einföld og nokkuð óbrigðul nútíma aðferð til að búa til peninga er að komast yfir banka með því að kaupa hann á skuldum og lána svo sjálfum sér fyrir bankaskuldunum og lána öðrum í gríð og erg. Því það er með skuldum sem bankar búa til peninga eða búa til sjónhverfingar um að einhver raunveruleg verðmæti séu til staðar.
En Íslandssagan geymir nokkrar sögur af hagleiksmönnum sem voru svo óheppnir að fæðast á vitlausri öld og í staðinn fyrir að vera dáðir hugvitsmenn og völdundarsmiðir þá voru þeir sakfelldir fyrir sjálfsbjargarviðleitni sína - að steypa peninga. Einn þeirra var Tindala-Ími sem smíðaði eins og nafnið bendir til ekki spesíudali úr silfri heldur steypti sína tindali sem þóttu frekar ljótir á litinn og léttvægir. Annar´myntsláttumaður var hann Jón Andrésson í Fremra Skógkoti og ég rakst á frásögn af honum í blaði og læt flakka hérna með. Peningarnir hans Jóns voru dáldið stökkir og brotnuðu í sundur.
Hér á eftir er frásögn af Jóni sem birtist í Frjáls þjóð, 27. Tölublað (20.07.1967)
"J6n Andrésson hét maður. Hann var þjóðhagi mikill á flesta málma, sem tíðkað hefur verið að smíða hér á landi, og í sumum þessum smíðum var hann eftir því viðburðasamur, sem hann var hugvitssamur og þolinmóður. Hann bjó fyrst alllengi í Breiðafjarðardölum, í Fremra-Skógskoti, en síðast í öxl upp undan Búðakaupstað á Snæfellsnesi. Hann komst í málaferli 1817 vestur í Dölum, vegna falsaðra peninga, er talið var að hann hefði steypt. Var hann tekinn höndum og dæmdur þungum dómi í undirrétti Komu mál hans til Landsyfirréttar, og vegna skorts á fullgildum sönnunum slapp Jón furðuvel frá því bralli öllu. Um myntfölsunarmál þetta má lesa í Landsyfirréttardómum, II. bindi, bls. 6774 og 93105.
Af smíðum Jóns Andréssonar ganga ýmsar sögur, þar á meðal þessar:
Þegar Jón var lögsóttur fyrir að hafa smíðað peninga, er ekki þekktust frá hinum algengu, en reyndust vera úr einhverri stökkri samsetningu og brotnuðu sumir, þegar þeir duttu á gólf, var hahn tekinn fastur og hafður í haldi. Um skeið er sagt hann væri fangi hjá Magnúsi Stephensen í Viðey, sem þá var háyfirdómari. Magnús átti þá kíki, sem þurfti aðgerðar, og hann ætlaði að senda utan, en með því að hann hafði margt heyrt um hagleik Jóns, hugsaði hann sér að sýna fyrst Jóni og vita, hvort hann gæti ekki gert að honum.
Þegar Jón skoðaði kíkinn, segir hann ekkert um hann, en biður að mega fara út í smiðju með hann og vera þar einn. Það var þegar.látið eftir Jóni. Magnús vildi þó vita, hverjar tilraunir Jón hefði í frammi til að gera að kíkinum. Sendi hann því stúlku út að smiðju, til þess að taka eftir og segja sér síðan, hvað Jón hefðist að. Þegar Jón, sem ekki vildi láta neinn vita, hvað hann ætti við kíkinn, sá stúlkuna, sem var að vinkra í kringum hann, bað hann hana að fara inn í hus Magnúsar og útvega sér slæðu, til þess að strjúka af kíkisglerjunum. Hún fer og kemur bráðum aftur með slæðuna. En á meðan hafði Jón átt við kíkinn, það er honum sýndist og þegar stúlkan kom, stóð Jón upp, fór inn og færði Magnúsi kíkinn. Þegar Magnús nú fer að reyna kíkinn, hvort hann hafi nokkuð batnað, er sagt, að honum hafi þótt hann miklu betri en nokkurn tíma áður.
Hafi hann mjög dáðst að þessu viðviki og sagt, að ekki hæfði að slíkur maður sæti í varðhaldi. Hafi Magnús því áorkað, með viturleik sínum, að Jóni var sleppt úr varðhaldinu, og að mál hans, út af peningunum datt bráðlega niður. Hvað sem hæft er í þessu, þá er það vist, að dómurinn yfir Jóni varð mjög vægur, eftir því sem málsefni stóðu til, fébætur svo lágar, að auðsótt var Jóni að lúka.
Margir vildu oft vita, hvernig Jón hefði farið að búa til fyrrnefnda peninga. En fyrir því var ætíð lás hjá Jóni, enda játaði hann aldrei peningasmíðinni. Einhverju sinni, þegar Jón var hress af víni, sem honum þótti gott, þótt sjaldan vanrækti hann smíðar sínar þar við, hugsuðu menn sér til hreyfings að veiða smíðaaðferðina upp úr honum, en það vannst ekki, heldur en fyrri. Hann kvaðst alls ekki vita, hvernig ætti að fara að búa til peninga. Og hið frekasta, er hann sagði hér um, var þetta: "Þið getið, piltar, reyna að móta þá í krít og sjá, hvernig það tekst."
Þegar Jón bjó í Fremra-Skógskoti, vildi hann smíða byssu með koparhlaupi, er skaraði fram úr algengum byssum. Hann reyndi þá fyrst að steypa hlaupið utan um járn sívalning í einu lagi, en það misheppnaðist, því að þegar hann hellti bráðnum koparnum ofan með járninu í flöskurnar, kom vindur í, spýtti koparnum upp og út um smiðjuna, svo að lán var, að Jón sakaði ekki. Jón hætti þó ekki smíðinni, heldur steypti hlaupið í einlægum bútum, lóðaði þá síðan saman, gerði svo hlaupið að utan þráðbeint og sívalt og boraði loks pípuna í það. Byssulásinn varð honum ekkert fyrir að smíða. Þegar byssan var fullgerð, flutti hún afarlangt og vel, og seldi Jón hana seinna mörgum byssuverðum.
Þegar Jón bjó í öxl á efri árum sínum, brotnaði í Búðarverzlun reizluteinn úr stáli, sem boginn var og rétta átti við kné sér. Þessi reizla var sýnd Jóni og hann beðinn að setja hana saman. Hann tók lítt undir þetta, en fór þó heim með reizluna í tvennu lagi, sauð hann legginn síðan saman, svo að vart var unnt að sjá suðustaðinn og færði hana svo eigandanum. Var reizlan þá jafnviss sem áður. Er hún enn til sýnis hjá mér. (Fyrrgreindar sögur af Jóni á Öxl eru skráðar 1884 af séra Helga Sigurðssyni presti á Melum).
Gísli Konráðssón segir allmargt af Jóni í syrpum sínúm. Á einum stað kemst hann svo að orði: Dæmafátt var smíðavit Jóns, manns þess, er ekkert hefur slíkt af öðrum numið og enginn verkfæri, efni né tíma hefur frá búhnauki; hefur hann þó smíðað stundaklukku að öllu og fleira þess háttar. Oft var Jón í járnum í máli sínu, en gat alltaf losað sig úr þeim. Aldrei reyndi hann að strjúka. Jón var geðspektarmaður mikill, en kona hans svarri, tók hún fram hjá Jóni, en ekki hafði hann orð á því. Nokkru síðar henti hið sama Jón sjálfan. Var hann þá spurður, hvort honum hefði orðið það á að óvilja. Kvað hann því fjarri fara. Hitt kvað hann verið hafa vana sinn á ferðalagi, ef á hallaðist, að hengja kútkolu sína á léttara baggann. Ekki hafði hann fleiri orð um það."
Hér eru fleiri tenglar um Jón og Tindala-Íma:
- Frjáls þjóð, 27. Tölublað (20.07.1967)
- Kóngsins steðji og steðjinn í Fremra-Skógkoti Tíminn Sunnudagsblað, 30. tölublað (30.09.1962)
- Dómari og sakamaður á vog réttvísinnar Tíminn Sunnudagsblað, 31. tölublað (07.10.1962)
- Tindala-Imi
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það hefur verið umræða í fjölmiðlum síðustu daga um aldraða sem hafa farið inn á spítala, komið út, eru ennþá veikir og farlama og staulast um heima hjá sér af litlum mætti og eiga erfitt með að fá næringarmikinn og góðan mat. Þetta er í kjölfar rannsóknar sem byggir á fólki sem allt er háaldrað og hefur flest lent á spítala vegna byltu eða falls og er svo lasið að ekkert þeirra getur farið út í búð. Þetta er hópur sem verður að reiða sig á aðstoð annarra og það er fróðlegt að sjá hvernig hún er veitt af nærþjónustunni og líka hvernig umfjöllun fjölmiðla er um þennan átakanlega heilsufarsvanda. Í stað þess að ráðast að rótum vandans, að því að skoða hvað veldur því að veikt fólk fær ekki aðstoð sem það þarf þá hefur núna í nokkrum fjölmiðlaviðtölum verið sagt oftast en einu sinni að þetta sé fólk sem sé ekki fært um að búa í sjálfstæðri búsetu, það þurfi að reisa fleiri hjúkrunarheimili til að skella fólki þar inn.
Hér er úrklippa úr fyrsta viðtalinu sem sýnir tóninn og skilningsleysi og fjölmiðlaumfjöllun þar sem fréttamaður virðist vera fyrirfram sannfærður um að lausnin sé að roskið fólk hætti að búa heima hjá sér.
Það er athyglisvert að fólk sem ekki hefur tök á að fara út í búð virðist ekki fá aðstoð og eina aðstoðin sem fólki býðst virðist vera þrif einu sinni eða tvisvar í mánuði. Hvort er hagkvæmara og eykur lífsgæði eldri borgara meira að byggja fleiri hjúkrunarheimili eða að veita meiri aðstoð á heimilum?
Hér er viðtal við formann landsambands eldri borgara þar sem þetta er sagt:
""Fólk sem ræður ekki við að fylla á ísskápinn sinn og ná sér í mat á ekki að búa eitt heldur flytja á hjúkrunarheimili"
Það er skrýtið að slíkt orðalag sé haft er eftir formanni landssambands eldri borgara.
Ég bara trúi því ekki upp á formann landssambands eldri borgara að hún hafi sagt að fólk sem ekki fyllir ísskápinn sinn eigi ekki rétt á að vera sjálfs síns, búa í sjálfstæðri búsetu. Í þessari frétt á RÚV kemur fram ákaflega einkennilegt viðhorf til aldraðs fólks sem ekki borðar nógu mikinn og næringarríkan mat. Eftir formanni eldri borgara eru höfð þessi orð "Fólk sem ræður ekki við að fylla á ísskápinn sinn og ná sér í mat á ekki að búa eitt heldur flytja á hjúkrunarheimili, að sögn formanns Félags eldri borgara."
Þetta er alveg fáránlegt. Ef það eru næringarvandamál hjá eldra fólki sem er nýkomið af spítala eftir að hafa verið flest lagt þar inn vegna byltu og falls, næringarvandamál sem stafa af því að fólk á erfitt með að ganga um, veigrar sér við að fara á klósett og fram í eldhús og glímir við ýmsa öldrunarsjúkdóma.
Lausnin er ALLS; ALLS EKKI að sparka í gamalt fólk og segja að það eigi ekki rétt á að vera sjálfs sín og nú þurfi að byggja fleiri hjúkrunarheimili til að pakka fólki þar saman. Vandamálið er ekki að fólk sé farlama og eigi erfitt með hreyfingar og aðdrætti. Vandamálið er samfélag og félagskerfi og hjálparkerfi við fólk sem býr heima hjá sér. Lausnin er ekki fleiri hjúkrunarheimili sem eru rándýr í rekstri og taka sjálfsákvörðunarrétt frá þeim sem þar dvelja. Það er engin þörf á fleiri stofnunum. Það er þörf á meiri aðstoð á þeim vettvangi sem aldraðir kjósa sem ég hugsa að sé oftast á heimilum.
Þeir aldraðir sem vilja ættu að eiga kost á því að fá inn á hjúkrunarheimili en ég held að flestir þó þeir verði lasnir og eigi erfitt með hreyfingar kjósi að búa sem lengst á heimilum sínum. Það er mikilvægt að greina hvað það er sem veldur því að fólk getur það ekki lengur og líka hvað þarf til að fólk geti það. Af hverju leyfir fólk sér að tala um aldrað fólk eins og böggla sem eigi að vista á stofnunum?
Sjá viðtölin hér:
http://www.ruv.is/spila/ruv/kastljos/20180314-0
http://www.ruv.is/frett/eldra-folk-byr-eitt-en-raedur-ekki-vid-thad
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2018 kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)