Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Fasteignaverð, framsýni og Framsóknarhagfræði

037-computer-crashHagkerfi heimsins er eins og tölva sem hefur  krassað, það sullast bara fullt af error-meldingum  á skjánum fyrir framan okkur en við getum alveg starað á skjáinn til eilífðarnóns og hjakkað á lyklaborðinu, við náum bara engu sambandi við kerfið. Það verður að endurræsa það á einhver hátt. Það er drastísk aðgerð og við gætum misst út eitthvað af gögnum, gögnum sem voru ekki vistuð í varanlegum og efnislegum eignum. En það er bara ekkert annað að gera. Sumir vilja ekki sjá þetta og vilja ekki skilja þetta og vilja ekki átta sig á að fjármagnsskuldbindingar eru þannig gögn. Stór hluti þannig gagna hefur þegar tapast í því stóra krassi sem þegar hefur dunið yfir. Skyndilega hafa hlutir sem voru mjög verðmætir á einum tíma orðið nánast verðlausir. Þannig hefur húsnæðisverð alls staðar í heiminum hrapað og heldur ennþá áfram að hrapa. Fyrst voru það undirmálslánin, svo voru það venjulegu húsnæðislánin og svo  atvinnuhúsnæði.

Ástandið er svo alvarlegt að Ben Bernanke seðlabankastjóri USA telur að fjármálamarkaðir heimsins hafi verið á heljarþröm fyrri hluta október síðastliðinn einmitt þegar hrunið varð á Íslandi. Hvað skyldi hann kalla ástandið á Íslandi? Við erum því miður ekki komið í neitt skjól og hér er ekkert að rofa til. 

Hér á Íslandi þarf mjög róttækar aðgerðir til að bjarga atvinnulífi og einstaklingum. Það sjá allir sem eitthvað hafa sett sig inn í málið og hér þarf að létta af skuldum bæði af fólkinu og af fyrirtækjum.  Eins og er þá er ok skulda svo mikið að það er engin leið fyrir hvorki fólk né fyrirtæki að rísa undir því, tekjur fyrirtækja og tekjur einstaklinga munu halda áfram að rýrna á meðan ekki rofar til

Menn greinir hins vegar um leiðir. Það er gott að koma fram með tillögur og ræða kost og löst á hverri tillögu. Ríkisstjórnin sem hrökklaðist nýlega frá neitaði að horfast í augu við vandann. Ríkisstjórnin sem núna situr virðist helst á því að best sé að svelta fólk til hlýðni, sjá hvað það þolir af álagi kreppunnar og hjálpa svo þeim sem kikna. Þetta kallar núverandi forsætisráðherra að halda utan um fjölskyldurnar í landinu.

Framsóknarmenn hafa sett fram róttæka tillögu sem margir tala fyrir. Tryggvi Þór sjálfstæðismaður hefur tekið hana upp og hagfræðingur okkar Framsóknarmanna  Nouriel Roubini talar líka fyrir henni. Ég skrifaði grein í íslensku wikipedia um Nouriel Roubini, mér finnst mikilvægt að kynna þennan framsýna framsóknarhagfræðing fyrir þjóðinni. Roubini hefur reynst öðrum sannspárri um hvað er að gerast í heiminum, hann er framsýnn og nánast eins og sjáandi. Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins skrifaði bloggið  Ofurhagfræðingur sammála Framsókn

Í heimi hverfulleikans þá er mikilvægt að  hlusta á þá sem sem sjá fyrir hvað muni gerast í umheiminum og fjármálalífi, þá getum við betur áttað okkur á hvað stjórnvöld þurfa að gera.


mbl.is Lækkun vísitölu fasteignaverðs 5,3% á 12 mánuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagfræðingar ræða Framsóknarleiðina

Það  gladdi okkur Framsóknarmenn að hlusta á málefnalega og upplýsta umræðu  í Kastljósinu í gær. Þar voru tveir hagfræðingar að spjalla,  Tryggvi Þór úr Sjálfstæðisflokki var að sannfæra Sigríði Ingibjörgu úr Samfylkingu um að efnahagstillaga Framsóknarflokksins um að færa niður skuldir um 20 % væri góð tillaga því vegna hrunsins er  þörf á óvenjulegum og áhrifaríkum aðgerðum.

Það er gott fyrir almenning á Íslandi að heyra tvo sérfræðinga í samræðu um tillögu sem er einföld í framkvæmd og einföld til að skilja því allir geta reiknað út hvernig þetta kemur við þá sjálfa. En röksemdir með og móti þessari tillögu eru ekki einfaldar og það þarf að útskýra þær, útskýra hvernig bankar starfa, útskýra hvernig það er núna alls staðar gert að afskrifa og færa niður virði eignasafna. Útskýra að það er ekki verið að gefa neinum neitt heldur aðeins verið að deyfa áhrifin af sjokkinu. Útskýra að það má alveg eins afskrifa strax hluta af skuldum heimila og fyrirtækja, það er þegar búið að gera það í bókhaldi þeirra sem eiga kröfurnar.

Hér er upptaka 8 mín af viðræðum þeirra Tryggva og Sigríðar Ingibjargar um Framsóknartillöguna:

Sigríður Ingibjörg hlustaði á röksemdir Tryggva Þór og útlistun og kom með mótrök og samræða þeirra útskýrði fyrir almenningi á upplýstan hátt hvers vegna þessi tillaga er allrar skoðunar verð og úrræði sem er áhrifaríkt og mögulegt að framkvæma miklu hraðar en aðrar aðgerðir.

Það var gaman að hlusta á þau, það var gaman að heyra í Kastjósinu upplýsta og málefnalega umræðu um alvörumálefni og fólk ræða um alvörutillögur, ræða um úrræði sem skipta fjölskyldur í landinu svo miklu máli að þetta getur ráðið úrslitum um hvort fólk fer í gjaldþrot og/eða hrökklast eignalaust og skuldum vafið úr landi.

Það hefur ekki komið fram í umræðunni nógu sterkt en það eru sérstakar ástæður sem valda því að sum úrræði sem aðrar þjóðir hafa farið til að koma lömuðu atvinnulífi á stað við svona aðstæður virka ekki á Íslandi. Í fyrsta lagi þá virkar ekki að prenta peninga. Ef ríkisstjórnin byrjar að prenta peninga og dæla peningum í umferð þá gæti orðið hér óðaverðbólga. Það myndi hins vegar verða afar sársaukafullt fyrir skuldara á Íslandi vegna þess að flestar skuldir eru vísitölubundnar og það myndi á örskotsstund þurrka upp eigið fé flestra. Í öðru lagi þá hefur ekki mátt lækka stýrivexti hérlendis, þeir eru svimandi háir, í mörgum löndum hafa þeir verið lækkaðir niður í ekki neitt einmitt til að mæta þeim aðstæðum sem eru hérna og víðar í heiminum, að reyna einhvers konar innspýtingu í athafnalíf.

Hér er hins vegar hagkerfi sem er klófest og innilokað í afleiðingum   "carry trade" eða gengismunaviðskipta, hér er bundið fé erlendra aðila í íslenskum krónum, aðila sem löðuðust hingað af því hér var hægt að fá hærri vexti en annars staðar. Þetta fé vill út úr hagkerfinu og raunar er ástandið þannig að því er haldið hér inni með gjaldeyrishömlum.

Ástandið er líka þannig núna að það eru afskrifaðar og afskrifaðar skuldir fyrirtækja, það er ekki í neinu gustukaskyni, það er bara einfaldlega vegna þess að fyrirtækin geta ekki risið undan því og það er betra að gera það heldur en keyra fyrirtækin í þrot.

En hvað með fjölskyldur á íslandi?
Er betra að keyra þær í þrot?
Er betra að bíða og bíða og blóðmjólka fólkið og nota aðferðina "athuga hverjir geta borgað, við hjálpum svo þeim sem eru komnir nánast á götuna og búnir að missa allt"? Er sú aðferð betri? Við sáum vel á seinustu ríkisstjórn hvernig aðferðin "að gera ekki neitt" og horfast ekki í augu við vandamálið virkaði hjá Sjálfstæðisflokknum. Er það aðferðin sem Samfylking og Vinstri-grænir vilja nota?

Framsóknarflokkurinn vill aðgerðir.
Framsóknarflokkurinn vill horfast í augu við vandamálið.
Niðurfærsluleiðin að lækka skuldir um 20 % er aðeins ein af mörgum tillögum sem Framsóknarflokkurinn leggur til og það er úrræði sem gagnast ekki þeim sem standa verst. Það þurfa að koma til fleiri úrræði og það þarf að snöggar framkvæmdir, það er neyðarástand á Íslandi.

Það er ekki nóg að segjast ætla að halda utan um heimilin í landinu.
Það þarf líka að gera það.

 


mbl.is Tryggvi Þór: 20% af skuldum heimilanna verði felldar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntakerfið og kreppan

Sjaldan hefur verið eins mikilvægt og einmitt núna að umskóla Íslendinga og fá fólk til að hugsa öðruvísi,  leita að nýjum leiðum. Margir standa frammi fyrir því að sú atvinna sem þeir höfðu valið sér er horfin eða mun hverfa með kerfishruninu.

Þó verið geti að banka- og fjármálastarfsemi rétti úr kútnum þá er mjög ósennilegt að það verði atvinnugreinar sem veiti mörgum vinnu. Það verður líka mjög sennilega margra ára stöðnun varðandi byggingu íbúðarhúsnæðis.  Það getur líka farið svo að við munum sjá nýtt mynstur á atvinnumarkaði, fleiri sem eru einyrkjar og verktakar. 

Í bókinni "The word is flat" er höfundi mikið hugleikin svonefnd úthýsing (outsourcing) þar sem verk sem vinna þarf í fyrirtækjum eru boðin út til undirverktaka sem hugsanlega geta verið annars staðar t.d. í hugbúnaðariðnaðinum eða í læknisþjónustu þannig að fyrirtæki og stofnanir á Vesturlöndum láti t.d. hugbúnaðarfræðinga og lækna á Indlandi vinna úr gögnum fyrir sig.  Stundum gæti svona hnattvæðing meira segja haft styrkleika í því að þegar er dagur á einum stað þá er nótt á öðrum, þannig gætu gögn sem kæmu í lok vinnudags á Íslandi verið unnin hinum megin á hnettinum á vinnudegi sem þá er að hefjast og niðurstöður legið fyrir í upphafi næsta dags t.d. er tekið dæmi af læknum sem lesa út úr röntgenmyndum.

Þessi veruleiki heimsvæðingar og samtvinnunar var heimsmyndin fyrir hrunið. Nú eru viðbrögðin að loka landamærum á ýmsan hátt, ekki með rimlum heldur með því að loka   fjármagnsflæði milli landa. Þetta kallar á  eins konar nútíma sjálfsþurftarbúskap og hugsanlega er það líka einkenni á vinnu framtíðarinnar, fólk býr til vinnuferli þar sem það setur saman einingar frá öðrum, ekki bara átöppunarverksmiðjur þar sem innflutt vara er sett í umbúðir heldur líka ýmis konar framleiðsla eða eftirlit með framleiðslu þar sem varan er kannski á einum stað, á öðrum stað  en sá sem vinnur með vöruna, hannar hana og dreifir og hefur eftirlit með framleiðslunni.  Ég hugsa nú reyndar að þessir tímar sem við lifum á núna þýði endurhvarf til afurða sem fá má í nánasta umhverfi og hugsanlega að hluta til fjarlægð frá peningum sem gjaldmiðli. Það getur verið að samningar milli landa verði um vörur, olía fyrir fisk o.s.frv.

En hvernig sem framtíðin verður þá munu Íslendingar þurfa á öllum úrræðum sem eru fær til að takast á við hrunið og byggja hér upp atvinnu. Skólakerfið skiptir hér höfuðmáli, ekki síst þeir hlutar skólakerfisins sem eru næstir vinnumarkaði.  

Það þarf að stokka upp skólakerfið með hliðsjón af þeirri nýju stöðu sem Ísland er í. Það eru mörg metnaðarfull áform um rannsóknir á heimsmælikvarða, um ýmis konar rannsóknartengt nám á háskólastigi.  

Það er þannig staða á Íslandi í dag að enginn getur búist við að vera í forréttindaliði sem hefur ráð og aðstöðu til að vera í framlínu á heimsmælikvarða.

 Menntakerfið er ein besta leið okkar til að takast á við nýja tíma en það þýðir ekki að við því megi ekki hrófla og ekki megi skera niður. Það þarf að fara yfir kostnaðartölur við alla menntun og spyrja spurninga, hver er fórnarkostnaður við þessa gerð af menntun versus aðra gerð af menntun, hver er ávinningurinn?

Það er líka réttlætismál að sem flestir Íslendingar hafi kost á góðri menntun en menntakerfið verði ekki skilvinda sem útilokar fólk. Núna sem áður detta margir út úr framhaldsskóla. Fyrir tveimur árum hefðu þeir geta valið úr störfum. Núna bíður ungs fólks sem dettur út úr námi í framhaldsskóla ekkert nema atvinnuleysi og hangs. Það þarf að vera valkostur fyrir þá sem eiga erfitt með hefðbundið skólanám, það getur verið að með því að gera ekkert séum við að búa til risastórt félagslegt vandamál sem mun skella á okkur eftir einhver misseri ef við týnum úr ungu fólki úr skólakerfinu. 

Á tímum eins og núna þegar alveg nýrrar nálgunar er þörf þá er mikil þörf á hinu skapandi afli í samfélaginu. Við eigum að horfa til menningu og lista og hönnunar. Ekki menningar sem er til fyrir einhverja fámenna elítu heldur menningu sem er tengdari götunni, tengdari venjulegu fólki, tengdaði þeim áttum sem samfélag ungs fólks er að fara í núna. Við getum merkt á því í hvaða átt listsköpun næstu áratuga mun leita. 

Það er steinrunnið viðhorf í samfélagi okkar til lista og til menningar, það er viðhorf synfóníuhljómsveita, listasafna og stórra kvikmynda. Það getur verið að merkustu verk framtíðarlistamanna verði endurblöndun (remix) unnin í ýmis konar stafrænum rýmum og það getur verið að fatahönnun og húsahönnun og hlutahönnun og öll listhönnun verði allt öðru vísi í því samfélagi sem við förum inn í núna. Aldrei hefur verið meiri ástæða til að leggja rækt við listir og verkmenningu og sjálfsbjargarviðleitni - ekki endilega verkmenningu sem er eins og verkmenning fyrri alda heldur verkmenningu þess sem er vel upplýstur, kann að leita að aðföngum í sína gripi og kann að nýta nútíma verkfæri, ekki síst stafræn verkfæri.


mbl.is Niðurskurður í menntakerfi vanhugsaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kjósa Hrunið

Það er sorglegt að lesa um úrslit úr prófkjöri Sjálfstæðismanna. Það verður ekki annað séð en þeir sem fóru á kjörstað og tóku þátt hafi gert það til að blessa verk Sjálfstæðismanna undanfarin ár.

Úrslitin eru klapp á bakið, skilaboðin eru svona:

"Svona strákar mínir, þið eruð á réttri leið, meira svona! Endilega haltu áfram Sigurður Kári með það göfuga áhugamál þitt að selja áfengi í kjörbúðum, endilega haltu áfram Illugi með það göfuga áhugamál þitt að selja íslenskar orkulindir og lífsbjörgina frá Íslendingum, endilega komdu með Pétur í nýtt Kaupþingsævintýri, nú er að byrja nýtt spil á nýju borði en sömu leikreglur gilda. Bara þið og nokkrir auðmenn spila með og nú  skuluð þið spila  aftur með almenning á Íslandi og halda áfram blekkingarleiknum, þið skuluð  spila um  Ísland og kannski finnið þið  olíu og þá skulið þið spila um hana, eða það sem er betra, setja hana bara beint til þeirra sem styðja ykkur til valda."

Hvern telja þeir Sjálfstæðismenn sem tóku þátt í þessu prófkjöri sökudólginn á því að Ísland er núna gjaldþrota, þjóðin er vonlaus og örvæntingarfull, flestöll fyrirtæki í landinu eru tæknilega gjaldþrota og fólk á vinnumarkaði sem núna hefur enga vinnu er á leið úr landi þúsundum ef ekki tugþúsundum saman. Hverjum var Hrunið að kenna að áliti þeirra sem kusu núna í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins? 

Úrslitin eru skýr. Þar er svarið þetta: Þeir sem kusu í prófkjöri Sjálfstæðismanna virðast telja sjálfsagt að hafa sama fólk við stjórnvölinn áfram þó að allt hafi hrunið fyrir þeirra tilstilli. Þeir kjósa aftur í sjö efstu sætin sitjandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem í besta falli stuðluðu óvitandi að Hruninu með ráðleysi sínu og dáðleysi en í versta falli nöguðu vísvitandi í sundur í  gróðahyggju og peningjahyggjuflippi allar þær festingar sem hefðu getað komið í veg fyrir svona færi fyrir almenningi á Íslandi.

Í nafni auðmagnsfrelsis hafa Sjálfstæðismenn farið eins og foksandur yfir Ísland og eytt búsældarlegum sveitum og borgum og atvinnulífi þannig að nú er þar auðnin tóm og   hnípin þjóð  sem er fjötruð  í skuldir sem hún fær aldrei risið undir. Á því Alþingi sem nú er ljúka þá á Sjálfstæðisflokkurinn níu þingmenn fyrir Reykjavíkurkjördæmin.  Það er nokkuð ljóst að það verður mikið fylgishrun í kosningunum með þennan lista, lista þeirra sem komu okkur í Hrunið. Varlega ályktað mun Sjálftæðisflokkurinn missa 2 eða þrjá þingmenn. Það eru verulegar líkur  á því að Ásta Möller nái ekki inn á þing. Þannig er tekið til hjá Sjálfstæðisflokknum, þannig finnur Sjálfstæðisflokkurinn sökudólginn á Hruninu og hreinsar til hjá sér.

Það er verulega mikið að hjá Sjálfstæðisflokknum.

Þetta er steinrunninn og staðnaður flokkur þar sem konur eiga engan séns  og þar sem almenningur á heldur engan séns. Þar eiga aðeins séns  auðmenn og handbendi þeirra, þeir sem eru  bakkaður upp af valdamiklum og fjársterkum aðilum og gömlu ættar-  og auðveldi. 

Einu sinni hélt ég og margir aðrir Íslendingar að fjármál Íslendinga væru í góðum höndum hjá Sjálfstæðisflokknum. Hugsaði ég ekki eins og hinir - að fólk eins og Pétur Blöndal og Geir Haarde sem svona mikla ánægju hefðu af að tala um peninga og fabúlera um alls konar peningaflæði og vefja inn í falleg orð, segja okkur hvað allir myndu græða þó auðvitað þeirra vinir græddu mest, að þeir væru fínir í fjármálin, þeir hefðu svo mikið vit á þessu. Svo kom í ljós að þeir voru bara að blöffa, þeir hafa ekkert vit á fjármálum, þeir aðvöruðu okkur ekki um að allt væri að sigla í strand - og það sem er verst - við vorum með ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem laug og laug að okkur, reyndi að blekkja okkur og umheiminn um að allt væri með felldu þangað til allt hrundi yfir okkur.

Svona var röðin á listanum:

1. Illugi 4232

2. Guðlaugur 2868

3.  Pétur 3395

4.  Ólöf 2423

5.  Sigurður 2948

6. Birgir 2513

7. Ásta 2748

8. Erla Ósk 2666

9.  Þórlindur 3022

10.  Sigríður


mbl.is Illugi sigraði í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrslit í prófkjöri í Norðvesturkjördæmi

Gunnar Bragi

Guðmundur SteingrímssonSindri í BakkakotiElín Líndal

 

 

 

 

 

 

 Ég vil óska Gunnari Braga til hamingju með sigur og 1. sæti í prófkjöri Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi og þeim Guðmundi, Sigurgeir Sindra og Elínu til hamingju með sinn góða árangur. Það er kraftur og sóknarhugur í Framsóknarmönnum í þessu kjördæmi, það að auðséð! Það voru 1505 sem greiddu atkvæði í prófkjörinu. Gunnar Bragi sigurvegari prófkjörsins er Skagfirðingur.  Guðmundur Steingrímsson vinnur mikinn sigur að koma þarna nýr inn, bæði nýr í flokknum og byggðalaginu og lenda í öðru sæti. Í þriðja sætinu  var  svo  Borgfirðingur Sindri í Bakkakoti. Í fjórða sæti er Húnvetningur  Elín Líndal.

Hugleiðing um stöðu kvenna á landsbyggðinni

Það er nú reyndar athyglisvert að skoða hve ólíkt mynstur er í kynjahlutfalli á listum á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.  Þetta verður örugglega rannsóknarefni sérfræðinga í framtíðinni og það má vel vera að þetta tengist hruni fjármálakerfisins og þeim byggðaáherslum sem eru í landsbyggðarkjördæmum. Þar er oft raðað á lista fyrst og fremst eftir búsetu t.d. ef það er Suðurnesjamaður í fyrsta sæti þá verður að vera Sunnlendingur í öðru o.s.frv.  Það getur verið að þetta sé fjötur um fót fyrir konur sem koma frá fámennari byggðalögum, ég held að  bæði Eygló Harðardóttir í Vestmannaeyjum og Elín Líndal úr Húnaþingi hafi goldið þess og það er á brattann að sækja  fyrir konur á landsbyggðinni í stjórnmálum. 

Nú er að bara að sjá hvort  endanlegi listinn verði þannig að Elín verði færð upp alveg eins og karlar færðust upp listann í Kraganum en þar sigruðu konur, þar voru konur í öllum fimm efstu sætum listans. Það er öflugt jafnréttisstarf í Framsóknarflokknum og það á að virka bæði fyrir karla og konur. Það er mikilvægt að listi til alþingiskosninga endurspegli breidd og fjölbreytileika í samfélaginu, það er best fyrir lýðræði í landinu að sem ólíkast fólk veljist á lista og þá skiptir kyn og búseta og aldur máli.

Hins vegar ætti kyn að vera miklu stærri breyta en búseta og aldur. Það er miklu mikilvægara að listar séu skoðaðir út frá kynjahlutfalli  einfaldlega vegna þess að kyn er mjög afgerandi þáttur í hvernig lífsskilyrði og aðstöðu  fólk kemur til með að  búa  við gegnum lífið og það er frekar óbreytanlegt, fólk getur flutt milli byggðalaga og fólk eldist.

En það er fátítt að kona verði karl eða karl verði kona.


mbl.is Gunnar Bragi sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ameríkuagentarnir

Í dag var fundur í Skriðu, fundarsal hérna í háskólanum þar sem ég vinn. Það var troðfullt, margir stóðu, það voru yfir 400 manns á fundinum. Það var verið að kynna atvinnutækifæri í Kanada, nánar tiltekið í Manitoba en það var einmitt í það fylki sem Íslendingar fóru á sínum tíma til Nýja Íslands. En það nýja Ísland var ekki byggt á  stað sem var búsældarlegastur í Kanada, ég held að á þeim tíma hafi stjórn Kanada beinlínis sóst eftir fólki af heimskautasvæðum sem kynni að lifa af á harðbýlum svæðum. Í Manitoba er funheitt á sumrin og í Manitoba er ískalt á veturna. 

Hér er vídeóbútur þar sem einn úr salnum, ófaglærður verkamaður sem hefur misst vinnu vegna hrunsins spyr um möguleika sína til vinnu í Kanada. Þeir eru ekki miklir, það er víst einhvers konar punktakerfi þarna, Kanada vill vel menntað fólk með mikla málakunnáttu , fólk sem er "employable". Það eru hagsmunir Kanada sem ráða för í hvaða fólk getur fengið atvinnuleyfi þar.

En þetta var sorglegur fundur, það er sorglegt að svo sé komið fyrir Íslandi að hér sé að bresta á fólksflótti og önnur ríki reyni að pikka út þá úr íslensku vinnuafli sem þau hafa mesta þörf fyrir.

 


Siðfræði vísinda, samanburður í menntamálum

Það er svo ofboðslega mikið að gera hjá mér núna að ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að ráða fram úr því. Er síðustu stundirnar að reyna að klára verkefni sem gengur út á "comparative education discourses" en það er liður í námskeiði sem ég er núna í við Háskólann í Gautaborg. Námskeiðið er fjarnámskeið en ég fór reyndar til Gautaborgar fyrir hálfum mánuði og hitti þá hina nemendurna og kennarana. Mér sýnist alveg útséð um að ég nái að skila þessu verkefni fyrir miðnætti eins og ég ætlaði mér. 

En svona fyrir skrásetningu  lífshlaups míns þá best að blogga hér yfirlit yfir  hvað ég er að gera þessa viku svona upp á seinni tíma. Kannski kemur einhvern tíma sú stund að ég les þetta yfir og sakna þess að hafa ekki nógu mikið að gera, hugsa um söknuði til þess tíma þegar maður átti yfirleitt að vera á þremur stöðum á sama tíma og sinna svo kennslunni á næturna.

Kennslan tekur mikinn tíma hjá mér núna, ég er þessa stundina með eitthvað um 450 nemendur á þremur námskeiðum.  Meira en helmingur er í fjarnámi og það fer mikill tími í að útbúa skjákennsluefni og kennsluefni og hanna viðfangsefni nemenda,  ég tek  upp sýnikennslu  fyrir nemendur í kerfi sem heitir emission.

Ég verð að vinna það efni mest á kvöldin og næturna, ég hef bara ekki tíma annars og auk þess er ég oftast trufluð á daginn, það er hávaði sem passar ekki fyrir upptökur því skrifstofa mín er andspænis tónlistarstofu og matreiðslustofu. Svo svara ég á hverjum degi tugum af póstum á umræðuþráðum inn á Blackboard frá nemendum sem eru í vandræðum eða vantar frekari upplýsingar.

Hér er dæmi um skjákennsluefni sem ég hef unnið síðustu daga

það er hægt að skoða þetta efni ef fólk hefur silverlight  2 spilara (silverlight er einhvers konar microsoft svar við flash og er til á pc og mac. Hægt að sækja pc útgáfu hérna )

* Búa til plakat í Inkscape með myndum úr Microsoft clipart gallery 13 mín

* Kynning á Tuxpaint teikniforriti fyrir börn 8 mín

 * Powerpoint talglærur 10 mín

Kennsluefni í mediawiki

* Wiki 1 - kynning 15 mín

Wiki 2  20 mín

* Wiki 3 Birta youtube video 7 mín

Wiki 4 myndagallery 6 mín

* Wiki 5 krossapróf  4 mín

prófa að líma inn slideboom

 

 Svo er ég í þessari viku á námskeiði í HÍ um siðfræði vísinda. Það námskeið fer fram á ensku. Svo er mikið að gera í stjórnmálum, ég er í 4. sæti á lista í Reykjavík Norður fyrir Framsóknarflokkinn.

En svona lítur vikan út hjá mér núna:

mánudagur:

kennsla í tölvuveri 3tímar fyrir hádegi, 3 tímar eftir hádegi. Viðfangsefni Tuxpaint teikniforrit f. krakka og Scratch kennsluverkfæri í forritun fyrir krakka.  Hvort tveggja sniðug og ókeypis verkfæri og bjóða upp á mikla möguleika fyrir kennara ungra barna, hægt að búa til stimplasett með tali með tuxpaint og Scratch hentar t.d. til stafrænnar sögugerðar, að búa til margmiðlunarefni og einfalda leiki.Scratch minnir mig heilmikið á lógó og tæknilegó.

Í hádeginu á mánudag fór ég á fund á Höfðatorgi með borgarstjórnarflokki Framsóknarflokksins og strax á eftir á fund í ráðhúsinu með meirihluta í mannréttindaráði Reykjavíkur. 

komst á þessa tvo fundi milli kennslulota.

náði ekki að skila inn grein um opið aðgengi í menntun fyrir tímarit norrænna bókasafnsfræðinga, reyni að skila inn fyrir næsta tölublað í júní.mundi að ég gleymdi skype fundi með Sólveigu sem er stödd í Ástralíu, átti að vera á sunnudag, það var vinna við bókakafla.

Þriðjudagur:

Fór á fund í barnaverndarnefnd fyrir hádegi.

Fór á námskeið í siðfræði vísinda eftir hádegi. Námskeiðið er á ensku og er fyrir doktorsnema.

Fór um kvöldið á fund á Hverfisgötu með efstu frambjóðendum á listum Framsóknar í Reykjavík

Kíkti eftir þann fund á spjallfund félags um stafrænt frelsi, þeir hittust á Hressó því sænsku doktorsleiðbeinandi Tryggva Björgvinssonar Klang  að nafni var staddur á landinu. Ég spjallaði aðeins við hann, mjög áhugavert hvað hann fjallar um, hann hefur áhuga á hvernig samfélagið setur takmarkanir á tækni, fann doktorsritgerð hans hérna. Klang er við Gautaborgarháskóla, hann bauð mér að hafa samband við sig þegar ég fer þangað í maí.

miðvikudagur:

fór á fund í félagsmálaráðuneyti í stýrihópi um jafnrétti í skólum.

fór á námskeið í siðfræði vísinda kl. 15-18.

fimmtudagur
fer á fund í ráðhúsinu í mannréttindaráði
fer á námskeið í siðfræði vísinda kl. 15-18

föstudagur
málstofa doktorsnema á menntavísindasviði kl. 14-16:30
út að borða með doktorsnemum um kvöldið

Svo er ég að undirbúa ráðstefnuerindi og workshop fyrir ráðstefnu sem verður í Viborg í Danmörku 25 mars. Ég held að það sé nokkuð ljóst að ég hef tekið að mér allt of mikla vinnu og ég get ekki sinnt náminu nema draga úr kennslu og félagsstörfum á næstu misserum.


Össur fyrir tveimur árum

Össur iðnaðarráðherra er þungaviktarmaður í Samfylkingunni og hann hefur verið ráðherra og valdamikill stjórnmálamaður lengi, hann hefur verið í betri aðstöðu en ég og þú til að fá upplýsingar og láta aðra vinna úr upplýsingum. En hversu næmt auga hefur Össur fyrir hvað er að gerast í heiminum og á Íslandi?

Össur dásamar olíuna sem þó ekki hefur ennþá fundist, olíuna sem mun gera okkur öll rík, hann dásamaði líka útrásina í orkumálum, útrásina sem okkur hinum fannst aldrei annað en dulbúin innrás og sjónarspil þeirra sem vildu stela af þessari þjóð yfirráðarétt yfir okkar auðlindum. 

Á bloggi Össurar núna  verður ekki annað heyrt en að allt sé hér á dáyndis góðri ferð, hér sé kraftur gegn kreppu. Össur bloggar "4000 ársverk og ekki lokið" og segir stoltur frá því að það hafi galdrast fram 4000 störf sem hann reyndar getur teygt með skapandi hugsun í 5000. 

Af hverju halda stjórnmálamenn áfram að blekkja fólk og sópa rykinu undir teppið rétt fyrir kosningar? Ef það er eitthvað sem við þurfum ekki á að halda núna þá eru það blekkingar. Ástandið er ömurlegt en það er engin ástæða til að leyna því fyrir almenningi á Íslandi hversu alvarlegt það er. Af hverju er ekki greining á því hvað mikið af þessum störfum sem eru búin til eru störf sem engu munu skila nema viðbótarkostnaði og vera austur í viðbótarhít sem mun soga til sín ennþá meira fé, er ekki meðal þessara starfa nokkur hundruð manns sem munu vinna við að koma upp áfram minnisvarða gróðærisins, klakahöllinni sem kölluð er tónlistar- og ráðstefnuhús. Hvaða virðisauki verður af þeim störfum? Hvenær verður fé Atvinnuleysistryggingasjóðs uppurið? Þarf ekki að borga það til baka? Hvenær verður ekki hægt að greiða ríkisstarfsmönnum laun lengur?  Hvernig eigum við að geta borgað niður lán til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ef við tökum lán til að verða því í óarðbæra framkvæmd, framkvæmd sem kallar yfir sig ennþá meiri kostnað.

Þegar rýnt er í plagg ríkisstjórnarinnar um öll þessu meintu ársverk þá má sjá að það er kreppuminnisvarðinn sem ætlað er að skapa flestu störfin. Þetta er svolítið nöturlegt, eigum við á stund neyðarinnar að dæla peningum í sjóinn, lánum sem við þurfum að borga aftur til að byggja glanshús sem ætlað var að vera einhvers konar musteri ríkra heimsborgara. Það er ekkert sem bendir til þess að húsið eða sú starfsemi sem er fyrirhuguð í húsinu þjóni Íslendingum, þetta er einhvers konar risatúristagildra fyrir túrisma gærdagsins, einhvers konar tákn um veröld sem var.

Svo eru snjóflóðavarnargarðar upp á rúmlega milljarð teldir með í starfasköpuninni. Ekki hjálpa þeir fólki hér á höfuðborgarsvæðinu, byggðastefna kostar vissulega mikið en staðan er bara þannig núna að hin nýja byggðastefna hlýtur að vera að halda Íslandi í byggð og það er að bresta á mikill fólksflótti frá Reykjavík og það fólk flyst ekki á staðina þar sem snjóflóðavarnargarðar eru núna byggðir, það fólk flyst burt frá Íslandi.  

En aftur að því sem varð tilefni til þessarar hugleiðingar minnar. Það voru skrif Össurar fyrir tveimur árum þar sem hann er að tjá sig um umræðu í Silfri Egils. Það er miður að Ríkisútvarpið skuli ekki vera með alla Silfurþættina, það væri gott fyrir almenning á Íslandi að ekki sé gert ráð fyrir að við höfum gullfiskaminni og að við viljum fara til baka. 

En það er áhugavert að lesa það sem Össur skrifaði á blogginu sínu fyrir akkúrat tveimur árum, hann skrifar bloggið  Hnerri Davíðs - kvef Sjálfstæðisflokksins

og segir þar m.a. um Straum-Burðarás

"Það virðist því sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins dansi auðsveipir eftir pípu Davíðs, jafnvel þó það þýði að þrengt verði að fjármálastofnunum, og sumar þeirra kunni að hrekjast úr landi. Þetta er skondið í ljósi þess, að Sjálfstæðismenn hafa verið að skamma Ögmund Jónasson fyrir að vilja reka bankana úr landi - en nú eru þeir sjálfir farnir að láta verkin tala á þessu sviði."

 Núna tveimur árum seinna þá virðist okkur að betur hefði verið að meira hefði verið þrengt að fjármálastofnunum og betur hefði verið að bankarnir hefðu farið úr landi. 

Í dag tók Fjármálaeftirlitið yfir Straum-Burðarás.

Össur er nú ágætis maður en mér finnst þegar horft er í baksýnisspegla að hann hafi ekki fremur en aðrir stjórnmálamenn við völd skynjað vel hvað var að gerast í íslensku atvinnulífi og viðskiptum undanfarin ár. Hann hefði samt átt að gera það. Þetta var hans vakt. Alveg eins og Geir Haarde var hann í miklu betri aðstöðu en við hin til að vita hvað var að gerast, fá upplýsingar um hvað var að gerast  og spá fyrir um hvað myndi svo gerast. En kannski var hann of upptekinn að skrifa hárbeitta pistla um Framsóknarflokkinn til að sigra orðræðuna eins og henrythor tjáir í þessu skemmtilega skrípó. 

Það væri gott ef stjórnmálamenn litu á það sem skyldu sína að upplýsa  okkur og gera okkur betur kleift að fá að horfast í augu við stöðuna. Við þurfum hvort sem er að gera það fyrr eða síðar.


mbl.is Ríkið tekur Straum yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími Freyju, tími fjölbreytileikans

Það er frábært að vakna upp á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars  og sjá að algjör kvennalisti  vann í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðvestur-kjördæmi, konur urðu þar í fimm efstu sætunum. Þetta hefði glatt móður mína Ástu Hannesdóttur mikið. Móðir mín  lést árið 2000. Móðir mín starfaði með framsóknarkvennafélaginu Freyju í Kópavogi. Hún helgaði því félagi alla  sína félagsmálakrafta í mörg ár og var þar formaður um skeið.  Þess vegna hef ég alltaf fylgst vel með Framsóknarkonum í þessu kjördæmi og meira segja blandað mér í leikinn þegar Freyjumálið svonefnda stóð sem hæst í Kópavogi fyrir fjórum árum. Það mál var atlaga að öllum konum í Framsóknarflokknum og raunar öllu eðlilegu grasrótarstarfi í stjórnmálaflokkum.

Ég blandaði mér þá í málið og skrifaði grein í Fréttablaðið og tók málið líka upp á félagsfundi í mínu félagi í Reykjavík og gagnrýndi harðlega flokksforustu Framsóknarflokksins og einstaka ráðherra fyrir hvernig tekið var á þessu máli. Fyrir það hlaut ég lítið lof, eiginlega uppskar ég langvarandi útskúfun úr öllu starfi í mínu framsóknarfélagi mörg ár. En núna eru tímarnir aðrir í Framsóknarflokknum og ég held að flestir  sem stóðu að þessum vinnubrögðum  á sinni tíð eða létu þau óátalin hafi horfið úr starfi í Framsóknarflokknum eða séð að þessi vinnubrögð koma öllum illa og gera stjórnmálastarf að skrípaleik.  

Hér er til upprifjunar greinin sem ég skrifaði í Fréttablaðið 23. febrúar 2005:
Umsátrið um Freyju í Kópavogi.

Það kemur mér raunar ekki á óvart að sjá hversu sterkar konur eru í Suðvestur kjördæmi. Það eru fyrir tvær konur sem eru á þingi og svo hafa Una María og Bryndís Bjarnarson verið mjög áberandi í jafnréttisstarfi, þær hafa báðar verið formenn landsambands Framsóknarkvenna og hafa mikla reynslu.  Það er líka í Suðvestur kjördæmi sem ég held að fjölskyldur finni margar hvað mest fyrir kreppunni, þarna eru úthverfin frá Reykjavík, í Kópavogi og Hafnarfirði og Mosfellsbæ eru barnafjölskyldurnar sem núna eru að sligast af skuldum.

Það munu rúmlega þúsund manns hafa greitt atkvæði og féllu þau svona:

1. Siv Friðleifsdóttir  498 atkvæði

1.-2. sæti Helga Sigrún Harðardóttir 433 atkvæði

1.-3. sæti Una María Óskarsdóttir 394 atkvæði

1.-4. sæti Bryndís Bjarnarson 439 atkvæði

1.-5. sæti Svala Rún Sigurðardóttir  510 atkvæði

Samkvæmt prófkjörsreglum mun þessi sigur í prófkjöri ekki tryggja þessum fimm skeleggu og ágætu konum þessi sæti á lista. Þær eru allar ótrúlega frambærilegar og sterkar konur en Framsóknarflokkurinn er flokkur sem leggur áherslu á fjölbreytni og er flokkur þar sem mikil áhersla er lögð á að listar séu ekki of einsleitir m.a. miðað við kyn. Frambjóðendur vissu allir af þessum prófkjörsreglum, það munu einhverjar konur færast niður vegna þess að það er allt of einsleitur listi sem stillir konum upp i fimm efstu sætunum. Helmingur kjósenda er karlar og listi til alþingiskosninga verður að endurspegla fjölbreytileikann í samfélaginu.

Hugleiðingar um forvalið í Reykjavík

Það er athyglisvert að sama staða kom upp í Reykjavík á kjördæmisþingi Framsóknarmanna þar í gær. Það var upphaflega lagt til að það yrðu tveir karlar  þ.e. formaður flokksins Sigmundur Davíð og vinur hans Magnús  Árni Skúlason  í tveimur efstu sætum í Reykjavík norður.  Það varð   umræða um að  ekki væri heppilegt að á lista veldust saman í efstu sætin of líkir einstaklingar og nánir vinir og m.a. bent á að heppilegt væri að hafa fléttulista karls og konu, samstarfs Sigrúnar Magnúsdóttur og Alfreðs Þorsteinssonar hefði ávallt verið farsælt þó þau væru mjög ólík og þau farið saman í gegnum fimm kosningar .

Ég held að þetta ásamt því að Magnús Árni hefur unnið sem ráðgjafi fyrir Guðlaug Þór hafi valdið því að ekki var fullkomin sátt um Magnús Árna í annað sætið á eftir Sigmundi Davíð. Magnús Árni kom ákaflega vel fyrir á fundinum og sýndi mikla stjórnvisku að draga framboð sitt til baka.

Það getur verið að það komi almenningi spánskt fyrir sjónir en staðan er einfaldlega þannig núna í Framsóknarflokknum að þar eru menn  ofurviðkvæmir fyrir öllu sem gæti verið tekið sem dæmi um spillingu. Reyndar er það ekki spilling að vinna fyrir stjórnvöld að ráðgjafastörfum eins og Magnús Árni hefur gert, ekki frekar en það er spilling að bjóða sveitarstjórnarmönnum utan af landi í móttöku eftir fund eins og Óskar Bergsson gerði, fund sem var haldinn til að kynna fyrir þeim hvernig staðið var að málum í Reykjavík, ekki síst hve góður viðsnúningur varð þegar Framsóknarmenn undir forustu Óskars Bergssonar frelsuðu borgina úr hanskaklæddum klóm Ólafs H. Magnússonar.

En það virðist sama hvað Framsókn gerir, þó að grasrótin hafi unnið yfir flokkinn og vinni nú hörðum höndum að því að byggja upp lýðræðislega hreyfingu þar sem áhersla er á fjölbreytileg sjónarmið þá virðast andstæðingar vera eins og Ólafur F. í Reykjavík að hjakka í einhverjum vitleysisgír, tilbúnir til að ásaka Framsóknarmenn um spillingu og gera það á mjög siðlausan og ruddalegan hátt. Það er reyndar bara eitt andsvar við því það er að láta ekki svoleiðis andstæðinga draga sig niður á sama plan, halda bara áfram að halda uppi skynsamlegri og ábyrgri umræðu og málflutningi og vinna af festu að þvi að breyta innviðum og starfsemi í lýðræðisátt bæði í flokknum og í samfélaginu.

Ég er ánægð með að niðurstaðan er sú að Einar Skúlason skipar annað sætið í Reykjavík suður, ekki síst vegna þess að Einar hefur unnið hjá Alþjóðahúsi og hefur mikla reynslu af starfi með innflytjendum og mun verða öflugur málsvari þeirra. Ég sakna þess reyndar að sjá ekki neina sem ég veit að eru af erlendu bergi brotna á listanum hjá okkur, við verðum að tryggja fjölbreytnina, listar okkar verða að endurspegla samfélagið, vera sem jafnast hlutfall af konum og körlum, fólk á öllum aldri, fólki á vinnumarkaði og fólki sem er ekki á vinnumarkaði, fólki með mismunandi bakgrunn og mismunandi reynslu.

Það er annað sem ég vek athygli á varðandi þá lista sem Framsóknarflokkurinn kemur til með að bjóða fram í Reykjavíkurkjördæmunum, það er ákveðin slagsíða á þeim listum miðað við aldur. Í fyrstu þremur sætum eru allt frekar ungt fólk og allt fólk á svipuðum aldri.  Það þarf  ekki að rýna mikið í tölur til að vita að kjósendur Framsóknarflokksins eru flestir eldra fólk, Framsóknarflokkurinn hefur ekki notið fylgis meðal yngra fólks undanfarin ár. Ég hugsa að hluti af fylgi Framsóknarflokksins sé nokkuð fast í hendi, eldra fólk sem mun halda áfram að kjósa flokkinn þó þar sé ekki í framlínusveit neinir á þeirra aldri.

Það kann því að vera gott sóknarfæri að stilla upp lista með yngra fólki en  Vinstri grænir og svo Sjálfstæðisflokkurinn haft nokkra yfirburði að nát til þess aldurflokks. Hins vegar kann þessi áhersla á frekar ungt fólk allt á svipuðum aldri í möguleg þingsæti og varaþingsæti að vera endurspeglun á aldursfordómum í samfélaginu, aldursfordómum sem endurspeglast í sjónvarpsskjáum okkar á hverjum degi.  Það er mest eldra fólk sem horfir á sjónvarp en sú tegund af sjónvarpsmiðlun sem ríkissjónvarpið stundar er miðlun og innprentun á æskudýrkun.

Þó að ég sé fullkomlega sátt við þó lista sem bornir eru fram í Framsóknarflokknum í Reykjavík núna þá finnst mér að það hefði átt að vera meiri aldursblöndun í efstu sætunum, mér finnst mikilvægt að Alþingi Íslendinga sé ekki samkoma fólks sem allt er á sama aldri og með sömu viðhorf til lífsins. Ég held að lausn á þvi´að byggja upp gott samfélag sé að  virkja fjölbreytileikann, að læra að vinna með og í samstarfi við fólk sem er ólíkt manni sjálfum. Þess má reyndar geta að í fjórða sæti í báðum kjördæmum eru konur yfir fimmtugt, ég í Reykjavík suður og Fanný í Reykjavík norður og svo er fólk á öllum aldri neðar á listanum.

Þar er líka eitt merki til samfélagsins um hve mikill umsnúningur er núna í Framsóknarflokknum að stilla upp ungu og frekar óreyndu fólki, fólki sem hefur ekki fortíð í þeim stjórnmálum heldur ungu fólki sem hefur allt að vinna að byggja upp góð lífsskilyrði að nýju í Reykjavík. Þegar ég hugsa þetta betur þá finnst mér að við þær aðstæður sem eru núna þá sé gott að það sé þessi slagsíða á efstu sætum, það unga fólk sem við teflum fram í fyrstu sætum er einmitt af þeim aldursflokki sem verður nú harðast fyrir barðinu á kreppunni, ungt fólk sem er núbúið með skólanám eða nýlega búið að kaupa húsnæði.

Annars er gaman að það skuli vera komin svo mikil sátt um kynjasjónarmið á listum a.m.k. í Framsóknarflokknum  og konum gangi svo vel í prófkjörum  að ég þurfi ekki lengur að beina allri orku í að berjast fyrir kosningaþátttöku kvenna heldur geti farið að skoða aðra þætti mismununar í samfélagi okkar. Ég hugsa að ég eigi  í framtíðinni eftir að tjá mig og reyna að  sporna gegn því að   fólki sé kerfisbundið mismunað á ýmsan hátt  vegna aldurs í samfélagi aldursdýrkunar og hvernig fólki er kerfisbundið mismunað vegna  ákveðins útlits (t.d. líkamsþyngdar eða hörundslitar) í samfélagi útlitsdýrkunar sem aðeins viðurkennir eina gerð af útliti sem staðall fyrir það sem er fallegt og eftirsóknarvert.  Ég vona að fólk sjái að fegurðin býr í fjölbreytileikanum og samfélag fjölbreytileika og umburðarlyndis er miklu vænlegra til að ná árangri.

Í því samfélagi sem við erum í núna er mikil mismunum vegna starfa fólks en stór hluti af sjálfsmynd fólks kemur í gegnum starf. Fólk sem ekki er á vinnumarkaði er að mörgu leyti réttlaust og að sumu leyti er samfélagið núna þannig að það mismunar sumu fóki  og útskúfar - sumir hafa vinnu og hafa þau réttindi sem vinna tryggir en sumir eru atvinnulausir og hafa þá brotnu sjálfsmynd og það litla valfrelsi sem þeirri stöðu fylgir - sumir eru á örorkubótum.

Vonandi verður það þannig að Framsóknarflokkurinn verður flokkur sem sameinar fólk og þar sem  ólíkir einstaklingar með ólíkan bakgrunn  kunna  að vinna saman vegna þess að þeir deila sýn  félagshyggju og samvinnuhugsjónar og hafna blindri auðhyggju.


mbl.is Siv efst í SV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterkar konur hjá Framsóknarflokknum

Þetta er skemmtileg frétt, við fyrstu tölur þá er ástandið þannig hjá Framsóknarflokknum að konur eru í efstu fimm sætunum, þar af tvær af þingkonum flokksins í fyrstu tveimur sætunum. Ef þetta verður lokaniðurstaðan þá verður að færa einhverjar konur niður til að rýma til fyrir körlum sem þá komast inn út af kynjakvóta. Það er nú bara hið besta mál. Helmingur kjósenda í Suðvesturkjördæmi er karlmenn og það er atriði að lokalistinn endurspegli samfélagið og einn hópur sé ekki útilokaður frá því að koma þátttöku í stjórnmálum.

Ég er ansi ánægð með hvað konum gengur vel í prófkjörinu hjá Framsóknarflokknum í suðvesturkjördæmi, ég er hrædd um að þannig sé staðan ekki í öðrum flokkum. Svo vil ég benda á að kosningu um fólk á listana sem fór fram hjá okkur í Reykjavík í dag þá er staðan þannig að af átta efstu á lista eru fimm konur. 

Hér eru nokkrar myndir sem ég tók af fundi okkar Framsóknarmanna í Reykjavík í dag:

IMG_3726

IMG_3725

IMG_3724

IMG_3723

IMG_3722

IMG_3721


mbl.is Staðan enn óljós hjá Framsókn í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband