Menntakerfið og kreppan

Sjaldan hefur verið eins mikilvægt og einmitt núna að umskóla Íslendinga og fá fólk til að hugsa öðruvísi,  leita að nýjum leiðum. Margir standa frammi fyrir því að sú atvinna sem þeir höfðu valið sér er horfin eða mun hverfa með kerfishruninu.

Þó verið geti að banka- og fjármálastarfsemi rétti úr kútnum þá er mjög ósennilegt að það verði atvinnugreinar sem veiti mörgum vinnu. Það verður líka mjög sennilega margra ára stöðnun varðandi byggingu íbúðarhúsnæðis.  Það getur líka farið svo að við munum sjá nýtt mynstur á atvinnumarkaði, fleiri sem eru einyrkjar og verktakar. 

Í bókinni "The word is flat" er höfundi mikið hugleikin svonefnd úthýsing (outsourcing) þar sem verk sem vinna þarf í fyrirtækjum eru boðin út til undirverktaka sem hugsanlega geta verið annars staðar t.d. í hugbúnaðariðnaðinum eða í læknisþjónustu þannig að fyrirtæki og stofnanir á Vesturlöndum láti t.d. hugbúnaðarfræðinga og lækna á Indlandi vinna úr gögnum fyrir sig.  Stundum gæti svona hnattvæðing meira segja haft styrkleika í því að þegar er dagur á einum stað þá er nótt á öðrum, þannig gætu gögn sem kæmu í lok vinnudags á Íslandi verið unnin hinum megin á hnettinum á vinnudegi sem þá er að hefjast og niðurstöður legið fyrir í upphafi næsta dags t.d. er tekið dæmi af læknum sem lesa út úr röntgenmyndum.

Þessi veruleiki heimsvæðingar og samtvinnunar var heimsmyndin fyrir hrunið. Nú eru viðbrögðin að loka landamærum á ýmsan hátt, ekki með rimlum heldur með því að loka   fjármagnsflæði milli landa. Þetta kallar á  eins konar nútíma sjálfsþurftarbúskap og hugsanlega er það líka einkenni á vinnu framtíðarinnar, fólk býr til vinnuferli þar sem það setur saman einingar frá öðrum, ekki bara átöppunarverksmiðjur þar sem innflutt vara er sett í umbúðir heldur líka ýmis konar framleiðsla eða eftirlit með framleiðslu þar sem varan er kannski á einum stað, á öðrum stað  en sá sem vinnur með vöruna, hannar hana og dreifir og hefur eftirlit með framleiðslunni.  Ég hugsa nú reyndar að þessir tímar sem við lifum á núna þýði endurhvarf til afurða sem fá má í nánasta umhverfi og hugsanlega að hluta til fjarlægð frá peningum sem gjaldmiðli. Það getur verið að samningar milli landa verði um vörur, olía fyrir fisk o.s.frv.

En hvernig sem framtíðin verður þá munu Íslendingar þurfa á öllum úrræðum sem eru fær til að takast á við hrunið og byggja hér upp atvinnu. Skólakerfið skiptir hér höfuðmáli, ekki síst þeir hlutar skólakerfisins sem eru næstir vinnumarkaði.  

Það þarf að stokka upp skólakerfið með hliðsjón af þeirri nýju stöðu sem Ísland er í. Það eru mörg metnaðarfull áform um rannsóknir á heimsmælikvarða, um ýmis konar rannsóknartengt nám á háskólastigi.  

Það er þannig staða á Íslandi í dag að enginn getur búist við að vera í forréttindaliði sem hefur ráð og aðstöðu til að vera í framlínu á heimsmælikvarða.

 Menntakerfið er ein besta leið okkar til að takast á við nýja tíma en það þýðir ekki að við því megi ekki hrófla og ekki megi skera niður. Það þarf að fara yfir kostnaðartölur við alla menntun og spyrja spurninga, hver er fórnarkostnaður við þessa gerð af menntun versus aðra gerð af menntun, hver er ávinningurinn?

Það er líka réttlætismál að sem flestir Íslendingar hafi kost á góðri menntun en menntakerfið verði ekki skilvinda sem útilokar fólk. Núna sem áður detta margir út úr framhaldsskóla. Fyrir tveimur árum hefðu þeir geta valið úr störfum. Núna bíður ungs fólks sem dettur út úr námi í framhaldsskóla ekkert nema atvinnuleysi og hangs. Það þarf að vera valkostur fyrir þá sem eiga erfitt með hefðbundið skólanám, það getur verið að með því að gera ekkert séum við að búa til risastórt félagslegt vandamál sem mun skella á okkur eftir einhver misseri ef við týnum úr ungu fólki úr skólakerfinu. 

Á tímum eins og núna þegar alveg nýrrar nálgunar er þörf þá er mikil þörf á hinu skapandi afli í samfélaginu. Við eigum að horfa til menningu og lista og hönnunar. Ekki menningar sem er til fyrir einhverja fámenna elítu heldur menningu sem er tengdari götunni, tengdari venjulegu fólki, tengdaði þeim áttum sem samfélag ungs fólks er að fara í núna. Við getum merkt á því í hvaða átt listsköpun næstu áratuga mun leita. 

Það er steinrunnið viðhorf í samfélagi okkar til lista og til menningar, það er viðhorf synfóníuhljómsveita, listasafna og stórra kvikmynda. Það getur verið að merkustu verk framtíðarlistamanna verði endurblöndun (remix) unnin í ýmis konar stafrænum rýmum og það getur verið að fatahönnun og húsahönnun og hlutahönnun og öll listhönnun verði allt öðru vísi í því samfélagi sem við förum inn í núna. Aldrei hefur verið meiri ástæða til að leggja rækt við listir og verkmenningu og sjálfsbjargarviðleitni - ekki endilega verkmenningu sem er eins og verkmenning fyrri alda heldur verkmenningu þess sem er vel upplýstur, kann að leita að aðföngum í sína gripi og kann að nýta nútíma verkfæri, ekki síst stafræn verkfæri.


mbl.is Niðurskurður í menntakerfi vanhugsaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elinóra Inga Sigurðardóttir

Það vantar að efla verkmenntun og kennslu á hinar ýmsu vélar. Það vantar fjölbreyttni í framleiðslu ýmis konar. Einu sinni var skóverksmiðja á Íslandi! Það er fullt af tækifærum á Íslandi. Bara hafa hugann og augun opin!

Elinóra Inga Sigurðardóttir, 16.3.2009 kl. 14:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband