Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Kraginn og Vinstri Grænir unnu þessar kosningar

Það er bara eitt kjördæmi sem er sigurvegari þessarra kosninga í kynjahlutfalli og það er Suð-Vestur kjördæmið eða Kraginn og ég vil óska öllum íbúum þessa kjördæmis til hamingju með að vera eina kjördæmið þar sem jafn margar konur og karlar komust á þing. Þetta kjördæmi er til fyrirmyndar. Það er líka eina kjördæmið þar sem tveir kvenráðherrar voru í kjöri, þær Þorgerður Katrín menntamálaráðherra og Siv heilbrigðisráðherra.  

Kjördæmi 

Vesta ástandið í kynjahlutfalli er í  Norð Vestur kjördæmi, þar komst engin kona að er níu karlmenn. Næstversta ástandið er í Suðurkjördæmi, þar komst ein kona inn en níu karlmenn.

Nánar konur eftir kjördæmum

RN  11  þar af 4 konur (Katrín Jak, Jóhanna, Guðfinna, Steinunn)
RS 11 þar af 5 konur (Ingibjörg Sólrún, Kolbrún, Ásta Möller, Ásta Ragnheiður, Álfheiður)
SV 12  þar af 6 konur (Þorgerður, Katrín Júl, Þórunn, Ragnheiður Elín, Siv, Ragnheiður Rík.)
NV 9 allt karlmenn
NA 10 þar af 4 konur (Valgerður, Arnbjörg, Þuríður, Ólöf)
S 10  þar af 1 kona  (Björk)

Flokkar

Sá flokkur sem vann kosningarnar út frá kynjasjónarmiði er Vinstri Grænir, þar er hlutfallið eins jafnt og það getur verið  4 konur af 9 þingmönnum en versta ástandið er hjá Frjálslyndum en þar eru engar konur. Kynjahlutfallið er nokkuð jafnt hjá Framsókn, Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu eða um þriðjungur þingmanna.

Framsókn 2 konur af 7
Samfylking  6 konur  af 18
Sjálfstæðisflokkur 8 konur af 25
VG 4 konur af 9    
 F  4 karlar  engar konur

Ég óska Vinstri Grænum innilega til hamingju með þetta fína kynjahlutfall hjá þingmönnum. það er í samræmi við stefnu flokksins varðandi kvenfrelsi. Það er greinilega unnið vel að kynjamálum í þeirri hreyfingu. 

 

 

 


mbl.is Ríkisstjórnin hélt velli með minnsta mun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamningju Siv!

Það leit ekki vel út með fyrstu tölur í nótt. Allir þrír ráðherrar Framsóknarflokksins hérna á höfuðborgarsvæðinu voru úti. Svo duttu þau út og inn Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins og Siv og það var hryllilegt spennutímabil að hugsa til þess að hér á höfuðborgarsvæðinu þá gæti sú staða komið upp að 6-7 % kjósenda hefðu engan fulltrúa á þingi. Eitt það seinasta sem ég heyrði áður en ég fór að sofa var viðtal við Björn Inga þar sem hann talaði um tap flokksins í SV kjördæmi. En núna þegar leikslokin eru komin þá er staðan þannig að Siv er kjördæmakjörin og það vantaði aðeins 11 atkvæði til að Samúel Örn annar maður á lista í hennar kjördæmi kæmist inn. Menn skildu fara varlega í að vanmeta Siv og styrk hennar og baráttuvilja og hæfileika hennar til að virkja fólk með sér. 

Það hefur verið gífurleg barátta í Framsóknarflokknum undanfarin misseri og það hefur verið hart sótt að Siv. Hún hefur staðið af sér þá storma. Það er mjög dapurlegt að Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz náðu ekki kjöri og varðandi Jónínu þá hefur það eflaust skipt miklu máli það óhemjuleiðinlega mál sem tengdist hraðafgreiðslu alsherjarnefndar á ríkisborgararétti  til konu í fjölskyldu Jónínu - afgreiðslu sem Jónína kom ekki að á neinn hátt og verður að skrifast á ábyrgð þeirra sem komu að þeirri afgreiðslu þ.e. þingmannanna Bjarna Benediktssonar,  Guðjóns  Ólafs Jónssonar og Guðrúnar Ögmundsdóttur. Það hefði verið reiðarslag fyrir konur og jafnréttisstarf í Framsóknarflokknum ef bæði Siv og Jónína hefðu dottið út af þingi. Kosningabaráttan núna var mjög karllæg og ímynd Framsóknarflokksins var persónugerð í Jóni Sigurðssyni. Ég veit að þetta stakk mig, sérstaklega vegna þess að ég ein helsta ástæða fyrir því að ég hef dregist að Framsóknarflokknum er að ég hef skynjað að þetta er flokkur sem gefur konum tækifæri til að vaxa upp og verða foringjar og jafnréttissjónarmið Framsóknar voru mjög áberandi. Ég er líka stolt af því hvernig þetta hefur verið á síðasta kjörtímabili, þrjár konur hafa gegnt ráðherrastarfi í Framsóknarflokknum. Mér fannst í kosningabaráttu Siv vera úti í kuldanum og vísvitandi lítil áhersla á hana í kosningabaráttunni amk í sjónvarpsauglýsingum og fjölmiðlum. Siv og Jón Sigurðsson tókust um formennsku í Framsóknarflokknum síðasta sumar og Jón vann og hann var valinn af fyrrum formanni flokksins og naut liðstyrks hans.  Það voru öfl í Framsóknarflokknum sem vildu bola bæði Siv og Guðna út en þau öfl hafa ekki haft erindi sem erfiði. Jón Sigurðsson hefur hins vegar staðið sig feikivel í erfiðri stöðu og ég vona að hann nái nú að snúa sér að innra starfi flokksins. Það er í molum þar sem ég þekki til í Reykjavík Norður. Það er margt gott í Framsóknarflokknum og það verður að byrja strax á að líta á fylgistapið í kosningum og þá stöðu að sennilega verður Framsókn utan stjórnar á næsta kjörtímabili sem tækifæri til að byggja upp innviði flokksins. Ég bind vonir við að þeir þingmenn sem hlutu kosningu muni undir forustu Jóns Sigurðssonar gera það.


mbl.is Siv var kjördæmakjörin á endanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi kosninganótt

Ég vaknaði í morgun við sjónvarpið. Þá hafði eitthvað mikið gerst, Jón Sigurðsson dottið út og Samúel Örn kominn inn sem annar maður í SV kjördæmi, Lára Stefánsdóttir dottið út og Ellert Scram og Kristinn Gunnarsson komnir inn. Svo komu lokatölur og þá datt Samúel út aftur og það munar bara 11 atkvæðum. En staðan er þannig fyrir Framsóknarflokkinn að hann hlýtur hörmulega útreið í Reykjavíkurkjördæmum, það er ekki hægt annað en horfast í augu við það. Það er auðvitað reiðarslag að formaður flokksins Jón Sigurðsson hafi ekki náð kjöri. Ég held að Jón Sigurðsson njóti trausts allra Framsóknarmanna og raunar traust allra sem til hans þekkja. Það er hins vegar ekki hægt að byggja upp kjörfylgi og breyta vinnubrögðum og innra starfi í stjórnmálaflokki og sætta sjónarmið á svo skömmum tíma og hann hefur haft frá því hann var kjörinn formaður.


mbl.is 24 nýir þingmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn vinnur alltaf

Núna er stóra stundin runnin upp. Kosningadagur. Úrslitaskoðanakönnunin. Það hefur gengið á með éljum undanfarnar vikur, fylgi við stjórnmálahreyfingar feykist til og frá og fennir af og til í skafla. En skaflarnir eru síbreytilegir og bráðna í leysingum eða fjúka út í veður og vind í næsta éli og enginn veit hvað varð af sumum stórum sköflum sem hér voru í vor. Hvar er fylgi við Íslandshreyfinguna? Hvar varð um fyrrum gríðarlegt fylgi sem Vinstri Grænir mæltust með? Ef til vill eru það lögmál að í byrjun kosningabaráttunnar þá séu andstæður skerptar og fólk fylkist á andstæða póla en leiti svo inn á miðlu eftir því sem nær dregur kosningum. Ef til vill segir fólk í skoðanakönnunum  frá þeim skoðunum sem það vildi hafa og sem eru mest í tísku en kýs svo frekar praktískt og sérstaklega með sjónarmið þess hóps sem það tilheyrir. Það er reyndar reiðarslag fyrir ríkisstjórnina ef hún tapar meirihlutanum, hvernig er hægt að klúðra málum meira en hafa allt kjörtímabilið verið í bullandi góðæri og uppgangi og enginn djúpur málefnaágreiningur milli stjórnar og stjórnarandstöðu en tapa samt kosningum? Þetta má bera saman við hvers vegna Bush sigraði í kosningum í Bandaríkjunum seinast. Stjórnmálaskýrendur þar telja að ástæðan fyrir að Bush sigraði var langt í frá að fólki þætti hann góður forseti, þeir telja að hann hafði ekki haft neinn séns á endurkjöri nema af því að þjóðin var í stríði - reyndar stríði sem einmitt forsetinn atti þeim út í. En fólk metur aðstæður og vill ekki skipta um forseta á stríðstíma og það er mjög sennilegt að Íslendingar meti aðstæður þannig að hér sé uppgangur og góðæri og hagvöxtur og það sé enginn ástæða til að skipta um stefnu snögglega, sérstaklega held ég að fólk hræðist Vinstri græna þar. Erum við þó öll umhverfisverndarsinnar og að ég held öll sammála um að umhverfismál verða að fá meiri forgang.

En þegar ég segi í titlinum að Framsókn vinni alltaf þá á ég ekki við að Framsókn vinni ennþá einn sigurinn á skoðanakönnunum. Það gerum við eflaust en það er ekki mesti sigurinn. Aðstæður eru nefnilega þannig að ef Framsókn kemur vel út og verður áfram í ríkisstjórn þá er það hið besta mál, þá getur Framsóknarflokkurinn unnið áfram að góðum stefnumálum sínum. Það má reyndar líka hugleiða að Framsókn er næst miðjunni í íslenskum stjórnmálum og það verður ekki mynduð nein tveggja flokka vinstri stjórn með Samfylkingunni og Vinstri Grænum. Það verður engin vinstri stjórn ef Kaffibandalagið verður að veruleika, það er blanda á verulega vonda samsetningu, tveir félagshyggjuflokkar og svo einn últra hægri sinnaður flokkur þar sem fyrir þessar kosningar menn sem gera út á útlendingahatur náðu yfirráðum hér á höfuðborgarsvæðinu og hröktu margt gott fólk úr flokknum. Framsókn er flokkur félagshyggju, umburðarlyndis og fjölbreytileika, þar er fólk af erlendu bergi brotið boðið velkomið. Framsókn er ekki flokkur blindrar einstakling- og gróðahyggju heldur flokkur sem byggir á þjóðlegum gildum og samvinnuhugsjón. Það má færa mörg rök fyrir því að Framsóknarflokkurinn standi nær Vinstri Grænum og Samfylkingunni en aðrir flokkar og sennilegast að í þrigjja flokka stjórn þessara flokka verði ekki  djúpstæður málefnaágreiningur.

En ef svo skyldi fara að Framsókn verði ekki í næstu ríkistjórn þá er margt að vinna í þeirri stöðu fyrir Framsóknarflokkinn. Flokkurinn fær þá næði til að vinna að innri málum og skoða fyrir hvað hann stendur og hvað hann ætlar að standa fyrir og það er ekki eins og flokkurinn hafi ekki fengið að spreyta sig, hann hefur verið í ríkisstjórn mjög lengi og að margra mati haft miklu meiri völd en kjörfylgið segir til um og það er bara að taka því af venjulegri framsóknarhæversku að þurfa að sitja hjá eitt kjörtímabil og mæta svo með nýjum þrótti inn aftur.

Framsókn vinnur hvernig sem þessar kosningar fara. Í ósigrum felast fyrirheit um sigra í framtíðinni og það er einkenni þeirra sem sigra þrátt fyrir mótlæti að kunna að læra af ósigrinum og breyta þeim í áfanga að sigri seinna. Það eru ekki miklar líkur á því að kosningarnar í ár verði sigur kvenna í Framsóknarflokknum, núna eru þrjár konur ráðherrar Framsóknarflokksing og helmingur þingmanna flokksins eru konur. Á liðnu kjörtímabili hefur Framsóknarflokkurinn verið flokkur þar sem konur komist til æðstu metorða og þær hafa getað haft áhrif. Það hefur dregið marga að Framsóknarflokknum því  helmingur kjósenda er konur. 

 

 


Minningar þjóðar

Hver má hugsa hvað? Hver má tjá hugsun sína? Hvernig er sagan sögð? Af hverjum?Hvaða minnismerki um fortíðina er hampað og  fá að standa? Sagan er sameiginlegar minningar þjóðar, ættbálks eða þjóðfélags en hún er líka samsetningur sem þjónar hagsmunum þeirra sem eru við völd, með því að segja söguna eins og hetjusögu af núverandi valdhöfum og halda á lofti þeirri hugmyndafræði sem þeir nota til að réttlæta völd sín.

Ekkert er eins gott til að minna fólk á atburði og yfirburði valdhafa eins og stórar byggingar eða minnismerki og einhverjir staðir og atburðir þar sem kveikt eru hughrif og minningar um hetjudáðir og göfuglyndi valdhafa. Nýir valdahafar reyna að afmá það sem minnir á fyrri valdhafa sem þeim eru ekki þóknanlegir og reyna að láta afrek þeirra  falla í gleymsku en halda á lofti ódæðisverkum þeirra. Stundum er sagan endurrituð og reynt að uppræta eldri hugmyndir með því að brjóta niður byggingar og taka niður stytturnar og setja upp nýja minnisvarða og með því að eyðileggja og brjóta niður allt sem minnir á það sem valdhöfum er ekki þóknanlegt. En útrýmingarherferð gegn hugsunum getur alveg endað í útrýmingarherferð á manneskjum.

Það er miklu, miklu áhrifaríkara að ferðast um þá staði sem atburðir gerðust og hlusta þar á frásögn um atburði heldur en lesa um atburði í bók. Í gær fór ég í  gönguferð um söguslóðir hér í Berlin.

Bókabrennan í Berlín

Þann 10. maí árið 1933 brenndu Nazistar 25 þúsund bækur á Óperutorginu fyrir framan Humboldt háskólann  eftir "óþýska" höfunda sem þeim geðjaðist ekki að. Þar sem Nazistar héldu bókabrennu er minnismerki með áletruðum orðum skáldsins Heine frá 1820 þar sem hann segir að bókabrennur sé forleikur - ef maður byrji á að  brenna bækur muni maður enda með að brenna fólk. 

bokabrenna

Hér eru byggingarkranar fyrir utan Lýðræðishöllina og það lítur út fyrir að húsið sé í byggingu. En það er ekki þannig, það er verið að rífa það og búa til nýja sögu. Lýðræðishöllin í Austur Berlin (Palast der Republik) verður rifin, hún er samt frekar nýtt hús og var fallegt hús klætt bronsplötum í sovétskum arkítektúr.  Núna er sovétskur arkitektúr ekki í tísku í ríkjunum í ríkjum Austur-Evrópu. Það stendur til að endurbyggja konungshöllina á þessum stað.

Þetta mun vera hitamál og hefur vakið umræðu um hvaða minnisvarðar um fortíðina fá að vera til.

Ég skoðaði marga minnisvarða í gær. Ég skoðaði Brandenburgarhliðið þar sem stríðsmenn gengu í gegnum þegar þeir höfðu sigrað Berlín og ég gekk um minnismerkið um Helförina, það minnti mig á völundarhús og skálana í útrýmingarbúðunum. Ég gekk líka á bílastæðinu sem er fyrir ofan neðanjarðarbyrgið þar sem Hitler varði síðustu dögum sínum.  Hér eru myndir sem ég tók.

 

 

 

 


Kúlusukk, Orkuveituhúsið og stefna Sjálfstæðisflokksins í orkumálum

Perlan í Reykjavík var svo dýr í byggingu að gárungarnir uppnefndu húsið og kölluðu Kúlusukk. Nýja orkuveituhúsið (ég hef aldrei verið svo fræg að koma inn í það hús) hneyklar víst marga með íburði. Bæði þessi hús eru byggð af stöndugu orkufyrirtæki sem malar gull fyrir Reykvíkinga. Það er líka í eigu Reykvíkinga og gróðinn af fyrirtækinu er notaður í þágu Reykvíkinga og þó við getum hneykslast á íburði í þessum húsakynnum þá skulum við samt hafa í huga að ef þessi orkufyrirtæki hefðu verið í einkaeigu þá værum við kannski núna að hneykslast á því að gróðinn af þeim hefði verið notaður til að kaupa lúxusíbúðir á Manhattan eða spilavíti í Mónakó.

Fyrirtæki í opinberri eigu geta vel verið vel rekin og það er okkar kjósenda og borgara í þessu landi að fylgjast með eigum okkar í orkufyrirtækjunum og reyna með öllum ráðum að tryggja að farið sé þar vel með  eigur almennings.

Það tryggir alls ekki að fyrirtæki séu vel rekin að þau séu í einkaeigu. Það má reyndar leiða líkur að því að það sé betra á tímum mikils umróts í viðskiptaumhverfi að hafa fyrirtæki sem samanstanda af sjálfstæðum litlum einingum sem geta brugðist fljótt við aðstæðum - við markaðinum.  Það getur stórt fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga ekki, sérstaklega ekki ef það er fyrirtæki sem tekur tillit til annarra hluta og hefur víðari samfélagssýn en einkafyrirtæki sem hugsar bara um hagnað næsta árs. Þannig getur einkafyrirtæki í sjávarútvegi selt kvótann frá byggðalaginu bara vegna þess að verðið er hátt eitt árið en það gæti bæjarútgerð í eigu sveitarfélags aldrei gert, það væri eins og að skjóta sjálfan sig í fótinn. 

Við lifum á tíma þar sem ofurtrú er á fjármagni og óheftu frelsi til að flytja fé milli landa og þeir menn eru dásamaðir mest í fjölmiðlum sem hafa einhvern veginn búið til naglasúpu úr peningum sem þeir hræra saman og alltaf eru búnir til meiri og meiri peningar sem síðan eru teknir út í alls konar lúxuseinkaneyslu í fjarlægum löndum. Æstustu fylgjendur þessarar fjármagnstrúar eru í Sjálfstæðisflokknum og það er mikilvægt að við hin sem ennþá höfum eitthvað til að bera af heilbrigðri skynsemi reynum að hindra eins og við getum hræðilega glópsku Sjálfstæðisflokksins, glópsku sem lýsir sér hvað best í þessari heimskulegu ályktun frá síðasta landsfundi þeirra:  

Ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2007 um umhverfismál og auðlindanýtingu

Landsfundur telur að skynsamleg og hagkvæm nýting náttúruauðlinda Íslands verði best tryggð með því að nýtingar- og afnotarétturinn sé í höndum einstaklinga. Ríkisvaldið hefur ekki öðru hlutverki að gegna á þessu sviði en því að fara með fullveldisrétt þjóðarinnar yfir auðlindunum, þ.á m. að setja skorður við nýtingu og afnotum í því augnamiði að tryggja að auðlindir Íslands verði til staðar fyrir komandi kynslóðir.

Íslensku orkufyrirtækin eru í dag leiðandi þekkingarfyrirtæki Landsfundur fagnar aðkomu einkaaðila að útrás orkufyrirtækjanna. Tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í þeirri útrás. Landsfundur leggur til að skoðaðir verði kostir þess að færa eignarhald ríkisins á orkufyrirtækjum yfir til einkaaðila, sérstaklega með tilliti til samkeppnis- og jafnræðissjónarmiða.

 

Afturhvarf til nýlendutímans

Ég sé ekki mikinn mun á þjóðfélagi þar sem allar auðlindir og framleiðslueiningar eru í eigu auðmanna og auðhringja sem staðsettir eru í New York og London og öðrum stórborgum og á því að vera arðrænd dönsk nýlenda.

Það var hlutskipti Íslendinga í nokkrar aldir.


Græni kallinn í Berlín

Græni kallinn BerlinGræni karlinn hérna í Berlín heitir Ampelmännchen og hann er líka tákn í stjórnmálum hérna eins og á Íslandi. Hann er tákn fyrir ostalgie en það er fortíðarþrá  eftir lífinu í gamla kommúnistaríkinu Austur Þýskalandi.  Ef til vill er græni kallinn í íslenskum stjórnmálum líka fortíðarþrá eftir þeim tíma þegar Samvinnuhreyfingin var öflugasta viðskiptablokk landsins og samvinnufélögin seldu ull og fisk fyrir olíu í vöruskiptum við Ráðstjórnarríkin og Framsóknarflokkurinn var bændaflokkur. Græni kallinn minnir á sáðmanninn í vörumerki Búnaðarbankans.

Það eru götuljós með grænni konu Ampelweibchen í nokkrum þýskum borgum.

Græni kallinn í Austur Þýskalandi var hannaður af umferðarsálfræðingi sem sagði að fólk myndi bregðast betur við táknum sem hefðu einhverja merkingu heldur ljósum í tilteknum lit. En merking er tvíræð. Á yfirborðinu virðist þetta vera mynd af kalli, rauðum kalli kyrrstæðum út með hendur og grænum kalli á röltinu. Ég vissi ekki af þessum umferðarmerkjum og sá þetta fyrst á Rósu Luxemburgarstrætinu hérna. Ég var undrandi og starði á stoppmerkið og hugsaði "Hvers vegna er mynd af krossi á stoppmerkinu? Hvernig gátu kristnir menn samþykkt það?" Svo þegar ég rýni í merkið með græna kallinum þá get ég ekki betur séð en það sé skírskotun í þekkt germanskt tákn, sólkrossinn eða swastikuna. 


Laumulegar starfsauglýsingar

Starf aðstoðarríkislögreglustjóra var auglýst eingöngu í Lögbirtingarblaðinu en ekki á Starfatorgi sem er sá vettvangur sem störf hjá ríkinu eru auglýst. Það er skylda með mörg stjórnunarstörf hjá ríkinu að auglýsa eftir umsækjendum í Lögbirtingablaðinu. Það er hins vegar mér vitanlega ekkert sem bannar að störf séu auglýst á fleiri stöðum. 

Í umræðum um launamun kynja verður mörgum Sjálfstæðismönnum tíðrætt um að við starfaráðningar sé mikilvægt að velja hæfasta einstaklinginn. Maður skyldi ætla að þeir sem mest halda fram slíku leggi mikla áherslu á að hafa úr sem mestu að velja og sem flestir sem gætu verið sá hæfasti hafi möguleika á að sækja og vita að verið sé að leita að manneskju í starfið. En auglýsingar sem er farið með svo heimulega að þær eru bara auglýstar í Lögbirtingablaðinu eru langt í frá dæmi um opna og lýðræðislega stjórnarhætti.

Þvert á móti verður að telja að svona auglýsingar séu bara formsatriði til að uppfylla lagaskyldur og þegar sé búið að ráða í starfið, þegar sér búið að velja "hæfasta einstaklinginn".  Okkur femínistum grunar að þetta orðalag "hæfasti einstaklingurinn" sé dulmál fyrir karlmann og það úthlutunarkerfi gæða sem viðheldur karlveldinu. Svona starfaauglýsingar ýta undir þann grun. 

En þar er svo sannarlega kominn tími til að rýna í  hvernig ráðið er í stjórnunarstörf hjá hinu opinbera.  


mbl.is Embættinu skylt að nota Lögbirtingablað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjarna deyr

Stjarnan SN 2006gy er að splundrast. Þessi stjarna er 150 sinnum stærri en sólin. Hún verður að sprengistjörnu (super nova). Ég held að við séum ekki í bráðri hættu að verða fyrir ögnunum því stjarnan er í 240 milljón ljósára fjarlægð.

Ég velti fyrir mér hvort einhvern tíma verði þær hugmyndir sem við höfum um alheiminn og sem fremstu vísindamenn okkar styðja með útreikningum sínum kollvarpað með öðrum kenningum og annarri hugsun. Tyche Brahe var fremsti vísindamaður Norðurlandanna á sinni tíð. Hann reiknaði og reiknaði og færði rök fyrir alheimi sem væri þannig að sólin snerist um jörðina.

Wikipedia greinin um Tyche Brahe fjallar meira um vandamál hans við að pissa og úr hvernig nefið á honum var gert heldur en hinar merku kenningar hans um stjörnufræði.

 


Svo kom Kaninn, þaninn, kommúnistabaninn...

Herinn kemur 7. maí 1951 Það eru bara nokkrir mánuðir síðan bandaríski herinn kvaddi okkur hérna á Íslandi og þá héldu herstöðvaandstæðingar herkveðjuhátíð. En af hverju ekki að halda líka hátíðlegan daginn sem þeir komu en það var einmitt í dag 7. maí sem herinn kom niður úr skýjunum til Keflavíkur. Ég skoðaði Morgunblaðið, blað allra landsmanna þennan dag og hér er forsíðan. Reyndar sýnist mér Morgunblaðið á þessum tíma hafa verið meira blað "lýðræðisflokkanna" heldur en allra landsmanna, maður les milli línanna að þeir sem ekki vildu herinn væru bara rumpulýður sem ekki væri talinn með. Það er hatrammur andsovétskur áróður í Morgunblaðinu á þessum tíma og mjög harðneskulegt tal um andstæðinga markaðshagkerfis. Það er nú bara gott að Mogginn hafi mildast með árunum og orðið umburðarlyndari.

naesta-skrefid-iran-mbl-7mai51En sum skrif í Morgunblaðinu daginn sem herinn kom 7. maí 1951 eru alveg eins og þau séu skrifuð í dag og endurómi skoðanir sem notaðar eru til að réttlæta stríð í Austurlöndum. Ég gluggaði í Reykjavíkurbréf þennan og læt fylgja með hérna pistilinn Næsta skrefið í Iran þar sem útmáluð er nauðsyn þess að ráðast á Íran, það vanti olíu á Vesturlönd og svo geti sé bara hættulegt íkveikjuefni að hafa Íranina þarna afskiptalausa. Það vantar bara nýmóðins orð eins og hryðjuverk .

 Herinn gerði aldrei neitt mikið hérna nema skaffa Íslendingum atvinnu og þjóðinni gjaldeyristekjur. Ég veit ekki einu sinni hver vann stríðið... kalda stríðið. Sennilega voru það Vesturveldin sem unnu, þau eru alla vega til ennþá og hafa ekki liðast í sundur eins og Sovétríkin. 

En ég veit að víglínan lá í gegnum Berlín, hún var búin til í áróðursstríði og hún var líka búin til með járntjaldinu og múrnum sem skildi að austur og vestur.

Þó járntjaldið hafi fallið og múrinn verið brotinn niður þá get ég ekki séð annað en önnur tjöld og aðrir múrar hafi risið. Ég get ekki séð annað en núna sé víða þjarmað að fólki og frelsi þess skert einmitt í ríkjum og af valdhöfum sem telja sig frelsiskyndla hér á jarðkringlu. 

Kaldastríðið náði hámarki þegar vesturhluti Berlínar varð eins og einangruð eyja inn í landsvæðum kommúnista.

Orð Kennedy Bandaríkjaforseta og ákall hans um frelsi og samkennd allra frelsisunnandi sem hann flutti af svölunum í ráðhúsi í Berlín  eru fleyg. Hann sagði: 

Two thousand years ago the proudest boast was civis romanus sum [I am a Roman citizen]. Today, in the world of freedom, the proudest boast is 'Ich bin ein Berliner'...All free men, wherever they may live, are citizens of Berlin, and, therefore, as a free man, I take pride in the words 'Ich bin ein Berliner!'

Ég fylki mér undir orð Kennedys og geri að mínum og segi "Ich bin ein Berliner" sem snarað á Framsóknaríslensku (Framsóknarflokkurinn er einnig nefndur kleinuflokkurinn) útleggst "Ég er kleinuhringur".

Kleinuhringir allra landa, sameinist! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband