Bannað að birta mynd af Hallgrímskirkju

HallgrímskirkjaÞað má ekki vera mynd af Hallgrímskirkju í Wikipedia alfræðiritinu. Það stendur til að henda út af Wikipedia öllum myndum af byggingum eftir Guðjón Samúelsson. Það er hryllilegt vegna þess að Guðjón hefur einmitt teiknað margar byggingar sem eru helstu kennileiti í Reykjavík. Það er fúlt ef ekki má vera grein í Wikipedia með mynd af Hallgrímskirkju, Þjóðminjasafninu  , Landakotskirkju eða Háskóla Íslands. Það stendur líka til að henda út myndum af gamla Héraðsskólanum á Laugarvatni og af Akureyrarkirkju.

Hver er ástæðan? Finnst fólkinu sem sér um sameiginlega myndasafnið fyrir Wikipedia á öllum þjóðtungum Guðjón teikna hallærisleg og ljót hús, er það þess vegna sem það á að fjarlægja af Wikipedia allar myndir af byggingum sem hann er skrifaður arkitekt af?

Nei. Það er ekki ástæðan. Það eru myndir af alls konar drasli á Wikipedia og það eru margar myndir þar.  Nánar tiltekið eru í sameiginlega myndasafni Wikipedia  núna um 5.4 milljónir mynda og það stefnir allt í það að hér sé að koma einn besti gagnagrunnur yfir frjálsar myndir sem allir mega nýta sér.

Ástæðan fyrir að nú stendur til að rífa burt  myndir af Hallgrímskirkju og þjóðminjasafninu og Háskólanum og Landakotskirkju er  meingölluð íslensk höfundarréttarlög.

Þannig er að höfundarréttur helst þangað til 70 ár eru liðin frá því að höfundur lést. Hús teljast hönnunarverk og höfundarréttarlög gilda um þau. Hins vegar hafa mörg ríki t.d. BNA sérstakar klásúlur í sínum höfundarréttarlögum sem undanskilja myndir af byggingum.  Ísland hefur enga slíka klásúlu. 

Raunar eru höfundarréttarlög mikil kyrkingartök á allri sköpun í stafrænu samfélagi nútímans. Þessi lög passa engan veginn fyrir síkvikt og sítengt samfélag það sem miklu fleiri eru virkir og taka þátt í að skapa og endurblanda efni.  

Ég var að skoða vef Menntamálaráðuneytis og rakst þá á  tilkynningu um að ráðuneytið hefði staðfest gjaldskrá Myndstefs vegna endurbirtingar myndverka.  Ég reyndi aðeins yfir þessa verðskrá og hún var alveg út í hött fyrir það efni sem fólk er að framleiða og dreifa í dag. Ég ráðlegg öllum að sniðganga eins mikið og hægt er efni sem er með hefðbundnum höfundarrétti og reyna að nota efni sem er með svokölluðu "Creative Commons" höfundarrétti. Myndir og annað efni sem núna er sett á wikipedia verður að hafa eitt slíkt höfundarleyfi (cc-by-sa eða svipað) og wikipedia tekur ekki lengur við myndum nema þær séu með svo  opnu höfundarleyfi að það megi afrita þær að vild, líka í viðskiptatilgangi. Þetta hefur mikið að segja fyrir Ísland. Ef við lítum á ferðamennsku sem einn tilvonandi og vaxandi atvinnuveg hjá okkur þá skulum við átta okkur á að fyrsti viðkomustaður á Netinu fyrir þá sem eru að kynna sér Ísland er einmitt Wikipedia og það skiptir miklu máli að það megi vera myndir af íslenskum byggingum þar.  Það má líka búast við að wikipedia gagnasafnið verði líka gagnalind fyrir erlenda ferðaþjónustuaðila. Það er því beinhart tap að mega ekki hafa myndir af íslenskum byggingum á Wikipedia en ég get ekki séð að neinn sé að græða. Það má t.d. ekki hafa myndir af verkum einstakra íslenskra arkitekta þar nema það séu gamlir arkitektar og meira en 70 ár liðin frá því að þeir létust.

Ég tók saman þetta námsefni um Höfundarrétt og Internetið, þar eru leiðbeiningar um Creative Commons.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég er ekki alveg að skilja þetta. Hvað er myndverk samkvæmt skilgreiningu laganna?  Má ég ekki taka ljósmynd af málverki sem ég á og birta hana á blogginu mínu?  Og má ég ekki taka mynd af Hallgrímskirkju og pósta henni á netinu?

p.s Takk fyrir wikilexíuna, ætla að skoða hana nánar síðar

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 10.11.2009 kl. 16:36

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Salvör, þú ert minn guru í höfundarréttarmálum. Skil það vel að Wikipedia vilji hafa allt sitt á hreinu fyrst gefið er leyfi til að nota myndirnar.
Margt í sambandi við höfundarréttarmál er afar umdeilanlegt og oft hafa reglur verið settar í því sambandi með réttindi útgefanda eingöngu í huga en ekki neytenda.

Sæmundur Bjarnason, 10.11.2009 kl. 16:59

3 identicon

Höfundarréttur kemur líka í veg fyrir að hægt sé að njóta myndverka íslenskra listamanna. Það má ekki nálgast þau á vefnum. Þar af leiðandi eru flest meistaraverkin grafin og gleymd í kjöllurum listasafna eða bak við luktar dyr opinberra stofnana.

Hér þarf að verða gagnger breyting á. Höfundarréttarlögin eru dragbítur á alla fræðslu í nútímanum.

hafliði vilhelmsson (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 20:21

4 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Djöfull eru fyrirtæki í ferðaþjónust í djúpum skít. Með myndir af Hallgrímskirkju, og fleiri verkum arkitekta og listamanna á vefsíðum sínum.

Og hvað með Gullfoss, Geysir eða Heklu ? Er skaparinn mikli dauður ?

Þetta er nú meiri dellan.

Börkur Hrólfsson, 11.11.2009 kl. 12:19

5 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Þetta virðist vera lögskýringatískan sem ákvarðar að allt sem er skrifað í lög er Lög. Undantekningar á þessu geta því varðað við Lög.

Allt sem er bannað í lögum er bannað og það sem er ekki leyft samkvæmt lögum er því bannað líka. ( ég er ekki lögfróður en svona blasir þetta við mér)

Gísli Ingvarsson, 11.11.2009 kl. 12:46

6 identicon

En er ekki heimilt einmitt að taka myndir af byggingum og birta?  Það er búið að bæta inn í Höfundalög grein 16: 

16. gr. Heimilt er að taka og birta myndir af byggingum, svo og listaverkum, sem staðsett hafa verið varanlega utanhúss á almannafæri. Nú er bygging, sem nýtur verndar eftir reglum um byggingarlist, eða slíkt listaverk, sem áður greinir, aðalatriði myndar, sem hagnýtt er til markaðssölu, og á höfundur þá rétt til þóknunar, nema um blaðamyndir eða sjónvarpsmyndir sé að ræða.

S (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 13:30

7 identicon

Mér finnst það nú minnsta málið að mega ekki birta myndir af þekktum byggingum. Það sem verra er að ef þú tekur myndir nánast hvar sem er á Íslandi í bakgarðinum þínum lendir einhver bygging líkast til inn á myndinni og er þá ljósmyndin þín orðin afleitt verk.

Sem dæmi hef ég tekið ljósmyndir í úthverfum Íslands til kortagerðar á OpenStreetMap og gefið þær myndir út undir fjálsu leyfi. Arkítektar þessara bygginga gætu farið að krefja mig um þóknun vegna þessa enda eru myndirnar mínar þarna orðnar afleitt verk.

Ævar Arnfjörð Bjarmason (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 14:00

8 identicon

Íslensk lög banna ekki birtingu þessara mynda á Wikipediu. Það er misskilningur. 14.grein höfundalaganna tiltekur sérstaklega að slíkar myndir megi birta "í sambandi við gagnrýni, vísindi, almenna kynningu eða í öðrum viðurkenndum tilgangi, enda sé hún gerð innan hæfilegra marka og rétt með efni farið".

Wikipediubirting er ekki í fjárhagslegum tilgangi og því óumdeilt að hún er heimil. Mönnum getur fundist að það ætti að breyta höfundalögunum, en þetta mál kallar amk ekki á það.

Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 14:02

9 identicon

Stefán,

Ég vil byrja á því að taka það fram að ég er ekki lögfræðingur. Aftur á móti held ég að röksemdarfærslan þín gangi ekki upp, að minnsta kosti ekki miðað við það sem tíðkast í dag. Ég vil samt taka það fram að ég vil með þessari athugasemd skapa umræðu sem leiðir réttmæti notkunar verka á síðum eins og Wikipedia í ljós.

Byggingar njóta verndar höfundaréttar vegna sköpunar arkitektsins. Ljósmyndir af byggingum eru afleidd verk af sköpun arkitektsins. Notkun þeirra "í gagnrýni, vísindum, almennri kynningu eða í öðrum viðurkenndum tilgangi" getur ekki verið leyfileg af sömu ástæðu og Wikipedia eða aðrir vettvangar geta ekki tekið lag (á mp3 eða öðru sniði) eða afleidd verk af lagi og dreift því á síðum sínum "í almennu kynningarskyni". Það væri ólögleg afritunartaka eða ólögleg endurnýting verksins.

Þetta miðast heldur ekki eingöngu við tónlist. Wikipedia má heldur ekki birta kvikmyndir, bókatexta eða annað höfundaréttarvarið efni, jafnvel þó svo að tilgangur Wikipedia sé ekki fjárhagslegur og sé ætlaður almennri kynningu. Það gilda engar sérreglur um myndir af byggingum á Íslandi, eins og Salvör segir, sem þýðir að sömu lög gilda um myndir af byggingum og gilda um tónlist.

Tryggvi Björgvinsson (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 14:47

10 identicon

Nei Tryggvi, fjórtánda greinin heimilar þessa notkun klárlega - enda uppfylli notkunin ákveðin skilyrði. Höfundaréttur á texta kemur ekki í veg fyrir að nota megi hann á réttan hátt ef getið er heimilda og ekki er um hráa endurbirtingu að ræða. Með þessari grein er skýrt og skilmerkilega sagt að það má nota myndefni á þennan hátt.

Einmitt vegna fjórtándu greinarinnar á samanburður við hljóðskrár ekki við.

Wikipedia er því 100% örugg, þótt engar breytingar yrðu gerðar á höfundalögunum. Hitt er svo annað mál hvernig t.d. notkun á svona myndum í auglýsingapésum gefnum út til að auglýsa vörur og þjónustu kæmu út fyrir dómi.

Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 15:21

11 identicon

Stefán: Þú ert því miður að misskilja um hvað þetta mál snýst.

Fyrir það fyrsta þá er vert að taka fram hvað er í þessu tilfelli öðruvísi við Íslensk lög en t.d. Bandarísk lög. Ef ég tek ljósmynd á Íslandi og í Bandaríkjunum sem inniheldur ekkent annað en aðra ljósmynd (t.d. skönnun) þá á upprunalegi höfundur ljósmyndirinnar enn höfundaréttinn enda er mín mynd afleitt verk.

Hinsvegar er undantekning frá þessu á flestum stöðum í heiminum þegar um er að ræða útistandandi mannvirki á almannafæri, t.d. byggingar. Ef ég tek mynd af nýbyggðri byggingu í Bandaríkjunum á ég fullan rétt á minni mynd og get gefið hana út undir hverjum þeim skilmálum sem ég vil, en ef ég geri slíkt hið sama á Íslandi á höfundur byggingarinnar kröfu í myndina mína ef ég gef hana út. Og ég þarf að semja við hann áður en ég gef öðrum leyfi til að nota myndina.

Tilvísanir þínar í 14. gr. hafa lítið með þetta að gera. 14. greinin gegnir svipuðu hlutverki og fair use lög í Bandaríkjunum. Þ.e. skv. henni má vitna í verk og nota t.d. myndir af byggingum í tengslum við einhvers konar umfjöllun. Þetta leyfi er þó allt of þröngt. Skv. 14. grein mætti t.d. ekki nota tvær eða fleiri myndir á Wikipedia greininni um Guðjón Samúelsson án þess að niðjar hans eigi rétt á þóknun.

Þar fyrir utan er það stefna Wikimedia stofnunarinnar að byggja upp frjálst safn af texta og myndefni sem má nota í hvaða tilgangi sem er og í gróðaskyni. Það eru t.d. ófáar vefsíður sem birta Wikipedia greinar ásamt auglýsingum (og græða þar með á því), verkefni sem gefa út Wikipedia í bókaformi gegn gjaldi o.s.f.

Það er ógerlegt að vera leggja það á herðar þeirra sem vilja endurnota Wikipedia að finna út hvort þeirra notkun fellur undir „gagnrýni, vísindi, almenna kynningu eða annan viðurkenndan tilgang“. Sérstaklega ef tekið er tillit til þess að það eru um 200 þjóðríki í heiminum, hvert með sína útgáfu af lögum sem setja fram álíka ófrjálsa skilmála.

Ævar Arnfjörð Bjarmason (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 16:30

12 identicon

Raunar eru höfundarréttarlög mikil kyrkingartök á allri sköpun í stafrænu samfélagi nútímans. Þessi lög passa engan veginn fyrir síkvikt og sítengt samfélag það sem miklu fleiri eru virkir og taka þátt í að skapa og endurblanda efni. 

Þessi setning hér verður að teljast þér til slíkra vansa og virðingarleysið gagnvart vinnu annarra slíkt að furðu sætir. Sú krafa sem endur ómar að ljósmyndir skuli fríar og aðgengilegar öllum til nota á hvern þann máta sem til er er ólíðandi.

Ég geri ekki ráð fyrir að þú sért til í að vinna fyrir mig frítt á allan þann máta sem mér dettur í hug í mínu vefræna hugarflugi eða hvað. Það hvarflar heldur ekki að mér sú frekja að fara fram á slíkt. En hér ferð þú fram á að helgasti réttur hvers myndhöfundar sé af honum rifinn og í raun með því fram á að myndhöfundar vinni frítt. þvílík frekja!!!

Ég hef aldrei vitað aðra eins aðför að neinni starfsgrein eins og þessa grein þína og þykir hún með ólíkindum enda full af rangfærslum og bulli.

 Að mælast með því að menn greiði heiðarlegt lágmarks gjald fyrir notkun á verkum annarra ætti að vera sjálfsagt og öllum upplagt en hér mælir þú gegn því og með slíkum frekju rökum að manni verður óglatt.

Wikipedi er ekkert góðgerðar fyrirtæki heldur gróða maskína og sett upp sem slík. Af henni hafa eigendur umtalsverðar tekjur og það töluvert mun meiri en menn halda.

 Að ætla það að menn leiti fyrst inn á wikipedia til að fá upplýsingar um ísland sýnir mikin skort á skilningi og eðli vefsins og því hvar og hvernig menn verða sér út um upplýsingar. íslendingar skildu frábiðja sér að wikipedia geri fleiri kynsloðir heimskar en orðið er því þar er oftar en ekki stórlega gallað samansafn af russlu þó svo ég viti ekki með vissu hvað sagt er um Ísland enda nota ég áreiðanlegri vefi til upplýsingaöflunar.

Ferðaþjónustan stólar á faglegar ljósmyndir af og frá Íslandi Ferðaþjónustan hefur borið þá gæfu að leita til fagmanna varðandi þær myndir og gert í því átak á undanförnum árum. Fyrir þær myndir er greitt samkvæmt taxta myndstefs (og stundum hærra) og hefur ferðaþjónustan ekki talið það eftir sér hingað til enda um vægt gjald að ræða.

kristjan (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 18:53

13 identicon

Mér finnst þessi umræða undarleg og vera á undarlegum villigötum. Einnig tel ég að erfingjar ákveðinna listamanna séu ekki að gera minningu viðkomandi listamanns neinn greiða með því að rýna í bókstaf laga um höfundarétt í stað þess að meta hvert tilvik fyrir sig með það að markmiði að heiðra minningu listamannsins.

Lögin eru skýr sbr 16 grein höfundaréttarlaga:

16. gr. Heimilt er að taka og birta myndir af byggingum, svo og listaverkum, sem staðsett hafa verið varanlega utanhúss á almannafæri. Nú er bygging, sem nýtur verndar eftir reglum um byggingarlist, eða slíkt listaverk, sem áður greinir, aðalatriði myndar, sem hagnýtt er til markaðssölu, og á höfundur þá rétt til þóknunar, nema um blaðamyndir eða sjónvarpsmyndir sé að ræða.

Hver er markaðssalan í birtingu myndanna á Wiki? Akkúrat engin. Wikipedia er opið alfræðirit og er hvorki að selja aðgang að myndunum né að selja neitt tengt Íslandi í þessu tilviki.

Það er ekki markmið laganna að binda hendur þeirra sem álpast til að taka ljósmynd í borg og bæ bara vegna þess að það er arkitekt sem hannaði húsið í bakgrunni.

ÞorkelL Harðarson (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 20:16

14 Smámynd: Kristján Logason

Nánara og ýtarlegra svar mitt við þessu bloggi má finna á sjonarmid.com

Kristján Logason, 11.11.2009 kl. 21:21

15 identicon

Sæl Salvör.

Margt má segja um höfundarrétt og reyndar ekki síst höfundarrétt íslenskra arkitekta, sem mér finnst óneitanlega ganga nokkuð langt. Mig langar þó að gera annað atriði í færslu þinni að umtalsefni. Þú segir þar á einum stað:

"... wikipedia tekur ekki lengur við myndum nema þær séu með svo  opnu höfundarleyfi að það megi afrita þær að vild, líka í viðskiptatilgangi."

Hér er ekki lengur við íslensk höfundarréttarlög að sakast, heldur hafa forsvarsmenn Wikipediu tekið allt of einstrengingslega afstöðu.

Þótt t.d. atvinnuljósmyndari veiti leyfi til að ákveðin mynd sé notuð án endurgjalds svo lengi sem hún er ekki birt í ágóðaskyni, verður hann eftir sem áður að geta áskilið sér endurgjald þegar myndin er birt í hagnaðarskyni.

Ég á satt að segja bágt með að trúa að Wikipedia taki svona - mér liggur við að segja - hringlandi vitlausa afstöðu. Hvar er þessa nýju reglu að finna?

Jón Daníelsson (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 23:02

16 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Kristján Logason. Það getur vel verið að sum sjónarmið Salvarar í sambandi við höfundarréttarmál séu umdeilanleg. Þekkingu hefur hún samt mikla á þessum málum, það veit ég vel því ég hef fylgst bæði með henni og þeim í marga áratugi. Athugasemd þín hér og grein þín á "sjonarmid.com" eru þér til stórskammar.

Sæmundur Bjarnason, 11.11.2009 kl. 23:55

17 Smámynd: Kristján Logason

Sérstaklega slæmt að lögin eru sjálfkrafa núna þannig að sá sem býr eitthvað hugverk til hann hefur sjálfkrafa einkarétt á því og aðrir mega ekki fjölfalda það og nota inn í sínum verkum.

Þessi setning Salvarar tekin af "fræðsluritinu" wikipedia segir allt sem segja þarf og því þarf ég eki að skammast mín.

 Hér gerir hún þá frekju kröfu að fá að taka það sem ég hef skapað, ég á  og ég er að reyna að afla mér viðurværis með og fer fram á það að meiga nota það að vild og fara með eins og henni sýnist án þess að ég hafi nokkuð um það að segja.

Að slíkt skuli koma frá lektor við HÍ er með slíkum einsdæmum að ég á ekki orð.

Hvað ætli yrði sagt ef hún krefðist þess að fá óáreytt að labba inn í næstu búð og taka þar nokkra fiska af því hana vantaði fisk hakk í pottrétt og hraði þjóðfélgsins gæfi henni ekki tíma til að velja fisk að kaupa.

Ef þú,hún og fleir sjáið ekki fáránleika þessarar kröfu þá er illa komið fyrir þjóðfélaginu

Sú einfalda og sjálfsagða krafa mín að ekki sé vaðið á skítugum skónum yfir verk mín og ég haldi þeim rétti mínum að stjórna því hvar, hvenær og hvernig þau birtast er ekkert sem ég kem nokkurntíman til með að skammast mín fyrir. 

Kristján Logason, 12.11.2009 kl. 00:40

18 identicon

Jón Daníelsson: Þetta er ekki ný afstaða á Wikipedia, verkefnið hefur verið frjálst alfræðirit frá fyrsta degi. Allir sem leggja fram efni til verkefnisins samþykkja að gera það undir skilmálum sem tilgreina að aðrir megi nota það, dreifa því, breyta því og bæta gegn gjaldi eður ei.

Bæði þú, Þorkell og Stefán gera þau mistök að gera ráð fyrir því að bara þótt Wikipedia vefurinn sjálfur sé ekki rekinn í hagnaðarskyni þurfi efni sem þar sé sett inn ekki að vera undir skilmálum sem gera þetta kleift. Ef það væri tilfellið væri ekki hægt að gefa Wikipedia út á tækjum eins og Wikireader eða binda ritið í bók og selja á Amazon.

Kristján: Það vantar nokkuð upp á að Salvör skrifi algerlega ótvírætt um þessi mál en ég fæ ekki séð hvernig þú hefur svo hraparlega misskilið það sem hér um ræðir að þú hefur skrifað 3 athugasemdir og einn bloggpóst í þeim tilgangi að slá skjaldborg um afstöðu sem enginn er að mæla gegn.

Allar ljósmyndir og efni á vefum eins og Wikipedia eru gefnar út sem frjálst efni af fúsum og frjálsum vilja af höfundum þess. Ef þú persónulega vilt ekki taka þátt í því að byggja upp frjálst gagnasafn sem lýsir heiminum getur þú bara sleppt því að taka þátt í Wikipedia (eða stofnað þitt eigið ófrjálsa alfræðirit).

Það sem er verið að leggja til er að ljósmyndir eins og kaldhæðnislega nokk þú hefur sett inn á bloggið þitt séu alfarið eign ljósmyndara (í þessu tilfelli þín) en ekki að hluta til í eigu þess sem hannaði bygginguna sem myndavélinni var beint að.

Ef þú telur að þessi breyting á löggjöfinni vegi að þinni stétt bið ég þið að hafa í huga að þú ert fyrir það fyrsta ekki arkitekt, og í annan stað að flestir atvinnuljósmyndarar í heiminum (Bandaríkjunum, og meirihluta Evrópu) starfa í löndum þar sem þær klásúlur sem hér er verið að leggja til að séu í höfundalögum eru hluti af löggjöfinni nú þegar.

Ævar Arnfjörð Bjarmason (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 11:12

19 Smámynd: Kristján Logason

í sjálfu sér er ekkert við það að athuga ef einhver vill gefa myndina sína og erfitt að koma í veg fyrir slíkt. Hins vegar er ég hræddur um að flóran verði ekki litrík í listinni ef allir fara í hinn eina sanna gagnagrunn til að ná í myndina sem þar er.

Það lifir nefnilega enginn á því að gefa vinnu sína. Ekki einu sinni Salvör er til í að gefa vinnu sína enda hygg ég að hún þyggi fín laun hjá HÍ. Hún hins vegar ætlast til að aðrir geri slíkt.

Einnig er rétt að gera athugasemdir við það ef kennari í HÍ fordæmir með grein sinni höfundarréttarsamtök og gerir í því að grafa undan atvinnuvegi þeirra sem starfa við myndsköpun eins og Salvör gerir með því að kenna fólki að sniðganga slíkt efni eins og hún gerir á wiki síðu sinni sem og  í þessari setningu hér:

Ég ráðlegg öllum að sniðganga eins mikið og hægt er efni sem er með hefðbundnum höfundarrétti 

Kennari sem kennir verðandi kennurum slíkt ber hvorki virðingu fyrir fólki né þess störfum.

Þeir sem eitthvað lítillega hafa kynnt sér höfundarétt vita sem er að myndbirting mín á blog síðu minni brýtur ekki í bága við höfundarétt Guðjóns, en ef menn sjá ekki hvers vegna þá hafa þeir hinir sömu ekki kynnt sér lögin nógu vel. 

Hvað varðar höfundarréttarbreytinguna sem verið er að tala um þá nær höfundaréttur yfir alla myndhöfunda. Lögin sem þið svo misvísið í þurfa einnig að taka tillit til annarra hluta s.s opinberra bygginga, eignaréttar og fleira.

Hver sem eitthvað veit um höfundarétt í bandaríkjunum veit að útgefendur þar taka t.a.m ekki við myndum af byggingum nema að með fylgi undirritað leyfi eigenda að birtingu.

Kristján Logason, 12.11.2009 kl. 11:29

20 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Kristján: Ég bið þig að lesa vel það sem Ævar Arnfjörð skrifar. Ég held að þú sért verulega að misskilja það sem ég legg til. Ég er EKKI að leggja til að það séu brotin lög á höfundarrétthöfum, þvert á móti er ég að beina því til fólks (og þá sérstaklega nemenda í skólum) að taka ekki ófrjálsri hendi höfundarréttarvarið efni og birta það í einhverju rafrænu umhverfi og alls, alls ekki taka án leyfis höfundarréttarvarið efni frá öðrum og nota það til endurblöndunar á eigin hugverkum.

Það hins vegar tekur allt of langan tíma að fá leyfi höfundarrétthafa, er í mörgum tilvikum allt of flókið og allt of dýrt fyrir almenning að  notfæra sér efni með hefðbundnum höfundarrétti. Og af hverju í ósköpunum ætti ég að borga fyrir myndefni eftir töxtum frá Myndstef þegar ég get fengið fullt af myndum með Creative Commons höfundarleyfi algjörlega ókeypis af því fyrirbæri sem ég þarf?

Það er jafnvitlaust eins og að borga vatnsölumanni  fyrir vatn í brúsum þegar þú ert staddur við hliðina á tærri fjallalind.  Fyrir skólakerfi sem jafnan berst í bökkum og þarf að venja nemendur á að vinna í umhverfi endurblöndunar þá er eina vitið að nota eingöngu efni sem er með sem frjálsustum höfundarrétti.

það er enginn að brjóta á þér sem ljósmyndara með þessu. En það er erfitt fyrir þig að selja myndir af einhverju fyrirbæri t.d. fjalli á Íslandi ef það eru fyrir hundruð jafngóðra mynda sem hver sem er getur halað niður ókeypis.  Ég skil það vel og ég vildi óska þess að ég hefði rök sem sannfærðu þig um að þetta viðskiptamódel þar sem gögnum er dreift ókeypis og allir geta lagt í að vild og tekið úr eftir þörfum sé betra en það sem við búum við núna.  En þannig er það. Það er verulega hamlandi fyrir alla sköpun og framþróun í hinum stafræna heimi hvernig höfundarréttarmálum er háttað í dag.

Það er mikilvægt að þú sem ljósmyndari áttir þig á því að þetta kerfi er líka að hamla þér. Þú mátt ekki taka mynd af byggingum, þá ert þú að brjóta á höfundarrétti.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.11.2009 kl. 14:29

21 Smámynd: Kristján Logason

ég hef verð ljósmyndari í tuttugu ár. Það hefur hingað til ekki aftrað mér í því að mynda og nota byggingar þegar á þarf að halda. Bann við utanvega akstri hamlar mér ekkert í því að komast á fjöll en ég þarf kanski að fara mér hægar. Fyrir netvæðingu var fólki ekkert að vanbúnaði að hafa samband og fá hjá mér myndir. Eftir netvæðingu er öldin ekkert önnur og ekkert hefur breyst. Allt annað er fyrisláttur og ábending um leti.

Á sama tíma hafa nemendur hinna ýmsu skóla getað fengið hjá mér myndir án vandkvæða og án endurgreiðslu. Þá hafa höfundarréttar samtök þau sem þú fjargviðrast út í sérstaklega samið við útgáfur bóka og fræðirita varðandi notkun mynda.

ég er einn fyrsti íslenski ljósmyndarinn til að útskrifast með stafrænar ljósmyndir og  hef unnið með stafræna ljósmyndun og myndvinnslu í yfir 15 ár núna og tel mig því vel vita hvernig málum er háttað í hinum rafræna heimi þar sem ég hef helgað mestum sýningarferli mínum í rannsóknir á eðli ljósmyndunar með tilliti til rafrænna breytinga. Það er fyrirsláttur að höfundaréttur sé hamlandi og ný tilkomið enda að undirlagi stórfyritækja í USA sem ekki hafa getað komið í gegn orphan lögunum sem nú er þrýst á.

Þér finnst það kanski æði núna að geta komist í pott með fullt af drasl ljósmyndum en mönnum kemur ekki til með að finnast það æði þegar ljósmyndun hefur lagst af sökum þessa sama potts og þeir þurfa á gæða myndum að halda. Það er vonlaust að halda uppi gæðastandard í starfsgrein sem engin laun fær. Ég efast um að þú hafir hugsað til enda afleiðingar þess sem þú boðar svo sterklega.Ef til verður einn kómónískur pottur sem allir nota verður heimurinn einsleitur og listsköpun leggt af á endanum. Ekki lifa menn á loftinu einu saman. Því hef ég sagt að ef einhverstaðar fnnst handbendi hins illa þá er það í þeim vitleysigangi sem nú á sér stað í kringum CC og menn hafa ekki hugsað þau ósköp til enda.Það að þú skulir svo kenna nemendum sem síðan verða kennarar og kenna þessa vitleysu áfram gerir svo illt verra.

 Creative commons er ágætlega sniðugt fyrirbæri í tölvuheimi forritunar enda hægt að byggja þjónustu utan um slíkt fyrirbæri sem "snippets" eru, en það er heimskasta sem til er í ljósmyndun og annarri myndsköpun.Myndhöfundar eru ekki hráefnisframleiðendur. Þeir framleiða yfirleitt fullunna vöru. Því gildir allt annað um þá vöru en forritabúta sem saman geta skapað heild og hlaðið utan á sig þjónustu að selja.

 Ég hef ekki haldið því fram að þú værir að hvetja til lögbrota en að þú skulir hvetja menn til að sniðganga fagmennsku og höfundaréttarvarið efni finnst mér óverjandi af þinni hálfu og ekki sæma þinni stöðu sem lektor.

 Og að lokum bið ég þig um að kynna þér betur höfundaréttinn. Ég má víst taka myndir af byggingum. Það getur þó verið háð leyfi og höfundarétti hvar og hvernig birtingu er háttað. En ég sé engin vandkvæði við það frekar en að þurfa að keyra á löglegum hraða þó ég sé að flýta mér.

Krafa þín um ótakmarkað aðgengi að myndum og höfundaréttar vörðu efni (sem felst í kröfu þinni um breytingar á lögum) hljómar því enn í mínum eyrum sem frekja og ekkert enn komið fram sem réttlætir slíka frekju. 

Kristján Logason, 12.11.2009 kl. 15:29

22 identicon

Nú finnst mér vegið að öllum þeim listamönnum sem velja að nota Creative Commons eða önnur frjáls leyfi og mér finnst ég knúinn til að svara þeim ásökunum um að höfundaréttarvarið efni sé betra en efni sem er gefið út undir frjálsum leyfum, því það er alfarið rangt.

Hræsnin sem fylgir því að segja að myndir sem höfundar kjósa að vernda með höfundarétti séu betri en "drasl ljósmyndir" sem gefnar eru út undir frjálsum leyfum er gríðarleg. Höfundaréttur mótaðist ekki fyrr en í kringum bókaútgáfu í Englandi og komst í lög árið 1710 með Statute of Anne. Það er ekki hægt að halda því fram að bækur sem voru skrifaðar og gerðar áður en höfundarétturinn mótaðist séu "drasl bækur". Íslendingasögurnar, ein merkustu rit heims og menningararfleifð Íslendinga, heimspekirit Plato og annarra grískra hugsuða, trúarleg rit eins og  Biblían og Kóraninn eru aðeins nokkrar af þeim mikilfenglegu afurðum sem samfélagið notast við, enn þann dag í dag, sem voru skrifuð og gefin út og dreift áður en höfundaréttur varð til.

Sumir listamenn eru listamenn af lífi og sál. Þeir skapa vegna þess að þeim finnst skemmtilegt að skapa. Þeir skapa af því að þeim finnst það þess virði að skapa. Þeir vilja að sem flestir geti notið verka sinna og eru ekki að leitast eftir greiðslum eða þóknun. Aðrir listamenn vilja skapa til þess að fá pening og gera það að atvinnu. Báðar nálganir eru í lagi en að fullyrða það að þeir listamenn, sem hafa unun af því að skapa og deila sköpun sinni með öðrum, skapi á einhvern hátt síðri en þeir sem krefjast greiðslna á sér ekki stoð í raunveruleikanum.

Þvert á móti er líklegra að þeir listamenn með sköpunarþörf sem kemur innan frá stuðli frekar að raunverulegri sköpun en þeir sem fá greitt fyrir að skapa. Sálfræðiprófessorinn Sam Glucksberg gerði rannsóknir á þessu og komst að þeirri niðurstöðu að innri hvatar (löngun) virki betur sem hvatar fyrir sköpun en ytri hvatar (peningar) virki betur sem hvatar fyrir "færibandavinnu".

Af þessu að dæma myndi ég einmitt mæla með því að aðilar sem vilja endurnýta verk velji verk sem eru gefin út undir frjálsum leyfum og ef mögulegt er greiða upphaflegum höfundum fyrir, jafnvel þó svo að um frjálst verk sé að ræða. Slíkar greiðslur væru á sinn hátt ekki hvati heldur þakkir og aðstoð við upprunalegan höfund þannig að höfundurinn geti haldið áfram að vinna að frjálsum verkum sem hjálpa öðrum. Það er heldur ekkert því til fyrirstöðu að hægt sé að ráða höfund til þess að sjá um ljósmyndir og af því leyti eru frjáls verk mögulega betri auglýsing fyrir listamanninn en höfundaréttarvarið efni. Með frjálsum verkum dreifist fagmennska og hæfni listamannsins til fleiri augasteina sem geta þá komið sér í samband við höfundinn fyrir tiltekin verkefni.

Ég neita því sem sagt að mín verk, sem ég gef út undir frjálsum leyfum, séu á einhvern hátt síðri eða unnin af minni fagmennsku en önnur verk. Þetta eru ásakanir sem eiga engan rétt á sér.

Hvað varðar byggingar í ljósmyndum þá tel ég það enn vera alvarlegt mál. Ég tel að það hefti sköpun (hjá mörgum, ekki öllum) að þurfa að leita uppi fjölda upprunalega höfunda eða niðja aðeins af þeirri ástæðu að maður vill með sinni ljósmynd taka mynd af miðbænum eða öðrum svæðum í þéttbýli. Það versta er að slíkt heftir einna helst sköpun hjá þeim listamönnum sem vilja bara taka ljósmyndir og deila með öðrum.

Tryggvi Björgvinsson (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 17:08

23 identicon

Kristján: Höfundarréttur er réttur höfundar til að ráðstafa sínu verki, þar á meðal að gefa verkið. Það er gegnumgangandi í þinni afstöðu að menn eigi að hafa hljótt um þau frjálsu myndasöfn sem til eru á vefnum til þess að atvinnuljósmyndarar fái fleiri verkefni.

En staðreyndin er sú að ljósmyndafagið er einfaldlega ekki það sama og það var fyrir 20 árum. Árið 1989 var ekki hver einasti maður með stafræna myndavél og Internettengingu. Það er ódýrt og auðvelt að taka ljósmyndir ef tilgangurinn er að búa til skýringarmynd en ekki eitthvað 5-stjörnu listaverk.

Ef ætlunarverk mitt er t.d. að sýna hvernig einhver foss á Íslandi lítur út og ég get valið á milli þess að eyða tíma í að semja við þig um ljósmynd af honum eða nýtt frjálsa mynd sem ég finn á netinu án vesens vel ég síðari kostinn. Í þessu tilfelli ert þú einfaldlega ósamkeppnishæfur.

Þú vilt meina að frjálst efni eigi vel við í tölvuheimum en ekki í ljósmyndun, þvert á móti eru þessi tvö fög algerlega sambærileg að þessu leiti. Ég starfa sem forritari og ég get sagt þér að vegna þess aragrúa af frjálsum hugbúnaði sem til er eru fjölmörg tilfelli þar sem það borgar sig ekki að skrifa séreignarhugbúnað til að gegna ákveðnu hlutverki.

Þýðir þetta að það þurfi enga forritara lengur eða að starfsgreinin sé að leggast af? Nei þvert á móti þýðir þetta að forritarar þurfa að búa til nýja og nytsamlega hluti til að vera samkeppnishæfir.

Það sama gildir um þig. Þótt þú getir síður selt myndir af Hallgrímskirkju vegna framboðs frjálsra mynda þýðir það ekki að ljósmyndir fari að taka sig sjálfar. Þú getur en selt portrait myndir, listrænar myndir af landslagi og annað sem ekki er til nú þegar.

Ævar Arnfjörð Bjarmason (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 17:28

24 Smámynd: Kristján Logason

Ævar þú hefur rangt fyrir þér að öllu leiti nema hugsanlega því að jú kanski gæti ég selt portret myndatökur. Báðir gleymið þið því að framleiðsla kostar og ef ekki kemur neitt up í framleiðslukostnað þá legst framleiðslufyrirtækið sjálfkrafa af. Stafræn ljósmyndun kostar engu minna ef ekki meira en filmuljósmyndun en af einhverju orsökum vilja menn ætíð kasta út úr jöfnunni ölum þeim aragrúa af tækjakosti sem þarf til að gera stafræna ljósmynd. Fiskur er ódýr jafnvel ókeypis ef ég sleppi því að reikna inn í jöfnuna kostnað við skip,veiðarfæri og rekstur þess.

í tilviki tölvugeirans þá er hægt að byggja á einingum og selja áfram sem og selja þjónustu í kringum foritunina. í tilviki ljósmyndunar er það ekki hægt. Ljósmyndin er hin endanlega vara og ekkert hægt að hafa af henni neinar þjonustutekjur þá þegar hún hefur verið sett í frjálsan pott. Sjálfkrafa mun því miðillinn deyja nema sem hobbý. Það er ekkert fag sem lifir á því að vera hobbí

Hvað varðar rök þín Tryggvi öll frá a til ö er auðséð að þú skapar ekki né hefur nokkurn skilning á sköpun og ef svo er berð litla sem enga virðingu fyrir því sem þú skapar sem þá bendir til þess að þér þyki það ekki merkilegra en svo að fleygja megi söpuninni fyrir hunda og svín að hamast á eins og þau vilja.

Þú gætir kanski i þessari röksemdarfærslu þinni bennt mér á einn listamann sem hefur fulan starfa af list sinni og er tilbúinn til að gera slíkt við list sköpun sína. Kannski einhvern sem hefur bara hálft starf?  

Hvað þá með einn fjórða úr starfi?

Kanski að það sé bara ekki hægt því rökfræðng gengur ekki upp

Kristján Logason, 12.11.2009 kl. 19:29

25 identicon

Trent Reznor / Nine Inch Nails. Síðustu tvær plötur hans (og þeirra sem skipað hafa NIN á þeim plötum) hafa verið gefnar út undir skilmálum Creative Commons. Ég verð hinsvegar að viðurkenna að mér þykir verðmætamat þitt forvitnilegt, Kristján. Er ekkert neins virði nema hægt sé að fénýta það? (Ekki svo að skilja að hluti með CC leyfum sé ómögulegt að fénýta.)

Herbert Snorrason (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 20:35

26 Smámynd: Kristján Logason

Yfirleitt skildi maður kanna andstæðinga sína vel áður en lagt er upp í hörku debatt eða stríð. ég gerði það ekki í þetta sinni þar sem ég taldi mig eiga í höggii við vel menntaða víðsýna kennara og rannsóknaraðila í HÍ.

 Röksemdafærsla Tryggva sló mig hins vegar nokkuð því mér fannst ég hafa heyrt orð hans hljóma nánast orðrétt áður og kom þeim ekki alveg fyrir mig. Jú viti menn smá rannsókn (er ekki stafræn veröld æði) og þau eru bein þýðing af heimasíðu CC sem er jú cult að verða sérstaklega meðal tölvu manna.

CC er sett upp til að brjóta niður höfnudarétt. Því er það með ólíkindum að fullorðnir einstaklingar og það fræðimenn innan háskólasamfélagsins skuli taka upp þessa röksemdafærslu án gagnrýnnar hugsunar og gera að sinni og hefja útbreyðslu eins og um trúarbrögð sé að ræða.

 CC ganast mynd höfundum ekkert. Það bætir engu við höfundarétt. Breytir engu um höfundarétt öðru en því að nú er auðveldara á netsvæðum að gefa frá sér höfundaréttin en tryggja hann. CC flækir vísvitandi veröld höfundaréttar og er sett upp á þann máta að mikið þarf að hafa fyrir því að tryggja rétt sinn.  

CC gagnast vel þeim er vilja nota myndverk annarra án greiðslu og umgangast þau á þann mátt sem þeim sýnist. CC vegur því ekki einvörðungu að höfundarétti heldur einnig að sæmdarrétti hvers höfundar.Sæmdarrétturinn er eitthvað sem aldrei er rætt í tengslum við CC enda CC runnið úr heimi tölvuforritunar og yfirfært óbreytt yfir á aðra miðla án frekari hugsunar. Slíkt er í reynd með ólíkindum, en þegar haft er í huga að þeir hinir sömu og boða CC hvað háværast vestanhafs eru einnig lögfræðingar og sérfræðingar þeirra sem brjóta á og vilja brjóta niður höfundarétt þá skýrist málið betur.

Því er það að stórfyritæki dæla í CC peningum (þar sem þeir komu orphan lögunum ,ætluðum að safna öllum ómerktum myndum í netheimum í einn pott fyrir alla að nota óháð höfundarétti, ekki í gegn) og upp er hafin auglýsingaherferð sem því miður er að virka þar sem hún nýtir sér sálfræðnia ansi vel.

 Eftir að hafa skoðað bakgrunn þeirra Ævars og Tryggva skil ég betur fáfræðileg svör þeirra varðandi eðli sköpunar, höfundaréttar og drifkraft þeirra er skapa.Það að þeir skuli í forsvari félags um stafænt frelsi segir mér mun meira en mörg þeirra orð. Það skýrir hinsver fyrir mér orð ungra hugbúnaðarmanna sem einnig tala eins og orðrétt upp úr CC bæklingi. 

Það vekur mér hins vegar ugg í brjósti að þau Salvör, Ævar og Tryggvi skuli öll vera í þessum hópi sem og innan fræðasamfélags HÍ.

Þessari umræðu er hvergi nærri lokið og rétt að hefjast. ég taldi hana tilheyra frekjukynslóðinni en sé að hún ristir dýpra en það og frekjukynslóðin yngri hefur hana lært af frekjukynslóðinni eldri. Umræðan sýnir virðingarleysi gagnvart verkum sem og störfum annarra og byggir að mínum dómi á fullkominni fáfræði og þekkingarleysi þess sem ekki skapar. 

Ofan á þetta bætist svo að CC er niðurrifs afl ekki bara sköpunar heldur hagkerfis líka. Það verður ekki  virðisauki af því sem er gefið og ekkert gefur til baka né verða til af því skatt tekjur til þjóðfélagsins. Það er því ofan á allt annað þjóðfélagslegt niðurrif sem íslenskt samfélag þarf síst á að halda núna. 

Boðun niðurrifs réttinda er háskólasamféaginu ekki sæmandi.

Ef Íslendingar ættu að hafa lært eitthvað þá er það sú staðreynd að bein eftiröpun á vitleysu annarra án ígrundunar leiðir til hruns. í þessu tilviki getur CC leitt til hruns listsköpunar sem og starfsgreina innan myndræns samfélags hönnuða,ljósmyndara, teiknara, málara, grafíklistamanna og fleiri.

CC boðar ekki réttlátara samfélag né "Fair trade" CC boðar þú gefur ég græði og það er engum til góðs.

Kristján Logason, 12.11.2009 kl. 20:47

27 Smámynd: Kristján Logason

Herbert.

Það hefur bara ekki komið upp hér en víst geta hlutir verið virði án þess að gjald komi fyrir. Ekki þarf að líta lengra en út um gluggan á Íslenska náttúru til að átta sig á því.

Sjálfur gaf ég vinnu við fyrirlestur í dag og alla þá vinnu sem þarf fyrir þá fyrirlestrar röð næstu árin meðan hægt er að halda henni út. Geri slík hið sama á Akureyri í næstu viku og allt með mikilli gleði. Þar hef ég val, en ekki sjálfkrafa hakað við er ég fæðist að ég skuli gera slíkt.

Það sem mér finnst hvað verst við CC er sú ákefð að komast í myndir til að gera við þær hvað sem mönnum sýnist sem og að skapa sér tekjur á vinnu annarra sem aldrei skilar sér til þess sem framleiddi grunninn. Allt tal um að það geti hugsanlega einhverntíman skilað sér í frekari frægð frama eða einfaldri vinnu er útópísk ranghugsun af hættulegustu sort en sett fram viljandi til að villa um fyrir ungu fólki. Menn verða að aðlaga svona kerfi að hverjum miðli fyrir sig. Um tónlist gilda allt önnur markaðslögmál en myndlist t.d.

Ef kerfið hamraði á því að þú mættir ekki nota verkin þér til framdráttar og tekju öflunar né selja á nokkurn hátt áfram þá hljómaði CC töluvert öðruvísi. Þá væri kerfið sett upp með það í huga að allir fengju að njóta.

Staðreyndin er hins vegar þver öfug og verið er að misnota fólk miskunarlaust með því að rugla það í ríminu og plata til að gefa öðrum rétt á að græða á þess hugverkum. Það er verið að búa til með sálfræðihernaði ókeypis vinnuafl og sjálfviljuga þræla.

NiN tilvísun þín er einmitt góð stoð undir það sem ég er að segja. Þar geta menn búið til virðisauka með því að gefa. Gefðu lag og seldu plötu. Gott mál, en gefir þú mynd er myndin farin og þú hefur ekkert meira um málið að segja né nokkuð að byggja á.

Eini staðurinn þar sem ég hef séð  hana gagnast er þar sem menn t.d selja bækur og vera sem gulrót þar að gefa mynd með, en slíkt er bara brotabrot í heimi listsköpunar og þar að auki lítt til þess fallið að skapa aðrar auka tekjur þó ef til vill geti slíkt gerst.

Þetta snýst ekki síst um virðingu fyrir verkum annarra sem og eigin verkum og það að láta ekki ginna sig í þrældóm með því að gefa öððrum rétt til að hagnast á þinni sköpunargáfu.

Eins og ég segi þá fellst ekkert fair trade í CC. Það fellst engin samvinna í CC fyrir myndhöfunda og ótrúlegt að menn skuli ekki sjá í gegnum plottið, nema einmitt að menn sjái sér haginn í því að níðast á öðrum.


 

Kristján Logason, 13.11.2009 kl. 09:04

28 identicon

Sæll Kristján,

Það er leiðinlegt að athugasemdirnar við þessa færslu Salvarar skuli leiðast út í dónaskap og persónuárásir en þar sem persónuárásirnar snúa að minni persónu vil ég í það minnsta fá að svara fyrir sjálfan mig.

Að segja að ég skapi ekki og hafi engan skilning á sköpun er rangt og ef eitthvað sýnir það að þú vitir ekki hvað felst í sköpun. Allir skapa. Ég hef teiknað frá unga aldri, gefið út myndasögur og unnið til verðlauna. Ég nýt þess að deila verkum mínum með öðrum. Ég fyllist ánægjutilfinningu að sjá að aðrir geti notið verka minna og ég væri enn ánægðari ef aðrir geta notað verkin mín. Í dag er teikning áhugamál hjá mér. Ég valdi að gera hana að áhugamáli þegar valið stóð á milli teikningar og hugbúnaðargerðar. Hugbúnaðargerð átti þá, var hugsunin, að verða mín starfsgrein og þar kynntist ég stafrænu frelsi, frelsinu til að deila verkunum mínum og hámarka notagildi þeirra hjá öðrum. Ég nýt þess að forrita og ég nýt þess að teikna í frístundum en undanfarið hefur sköpunin mín þó einna helst verið í rannsóknum og skrifum. Flestallar tekjur sem ég hef aflað mér undanfarin ár eru greiðslur fyrir framleiðslu á verkum sem eru eða verða gefin út undir frjálsum leyfum eins og Creative Commons. Afgangurinn af tekjum mínum eru fyrir þekkingarmiðlun, þ.e. kennslu eða leiðbeinslu sem getur ekki verið gefið út undir frjálsum leyfum (þó svo að glærur og annað efni sem ég bý til í tengslum við það sé undir frjálsum leyfum). Lifibrauð mitt er að gefa út verk undir frjálsum leyfum. Ég lifi sem sagt á því að gera samfélagið betra, að auka sköpun í samfélaginu og það gefur mér meiri tilgang með lífinu en nokkuð annað sem mér getur dottið í hug.

Ég er ekki sá eini sem er að því. Eins og Herbert benti á er Trent Reznor úr Nine Inch Nails búinn að gefa efnið sitt út undir Creative Commons. Ekki bara eitt lag heldur síðustu 5 plöturnar hans í heild sinni hafa verið gefnar út undir Creative Commons (fjórar af þeim tilheyra sömu plöturöðinni, Ghosts). Þetta eru engar "drasl plötur" heldur varð síðasta platan, The Slip, ein mest selda platan á Amazon (jafnvel þótt hún væri öll undir Creative Commons) og lög af plötunni rötuðu meira að segja í íslenskt útvarp (jafnvel þó þau væru undir Creative Commons). Auk hans hefur Íslandsvinurinn Yoko Ono nýlega hafið endurblöndunarverkefni sem verður gefið út undir Creative Commons. Rithöfundurinn Cory Doctorow gefur allar bækur sínar út undir Creative Commons og bókin hans Little Brother komst í níunda sætið á New York Times Bestseller bókalistanum og hefur unnið til verðlauna (jafnvel þótt bókin hafi verið gefin út undir Creative Commons). Kvikmyndaleikstjórinn Brett Gaylor gaf myndina sína Rip!: A Remix Manifesto (sem einmitt fjallar um nauðsyn stafræns frelsis fyrir samfélagið) út undir Creative Commons og myndin hefur samt sem áður unnið til verðlauna og var ein af þeim myndum sem var sýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík á þessu ári. Ljósmyndarar sem unnu fyrir World Economic Forum í Davos (Sviss) fengu borgað fyrir verk sín sem voru svo gefin út undir Creative Commons, ljósmyndarar sem unnu fyrir forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, þegar hann var í framboði gáfu allar sínar myndir út undir Creative Commons (og Hvíta húsið hefur í framhaldi af kosningu hans sem forseta ákveðið að allt efni þriðja aðila sem heimasíða Hvíta hússins notar eigi að vera undir Creative Commons). Ljósmyndarnin Joi Ito (sem er einnig núverandi framkvæmdastjóri Creative Commons) hefur gefið út ljósmyndir sínar undir frjálsum leyfum og einnig selt þær sem "myndaalbúm" í bókinni Free Souls. Íslendingar hafa einnig fengið borgað fyrir að framleiða efni sem er gefið út undir frjálsum leyfum. Ef við höldum okkur við Creative Commons þá er hægt að nefna Smára McCarthy sem skrifaði alfræðirit um Vestmannaeyjar, fékk greitt fyrir og afurðin var gefin út undir Creative Commons. Það má líka nefna kennara við Verkmenntaskólann á Akureyri sem fengu greitt fyrir að þýða erlenda kennslubók (sem var gefin út undir frjálsum leyfum) sem er svo aðgengileg undir Creative Commons. Þetta eru allt listamenn og skaparar sem eru viljugir til að deila verkum sínum með öðrum undir frjálsum leyfum og tekjur í kringum verkefnið renna til þeirra eða eins og í tilfelli hönnuðarins Matt Jones sem hannaði bol undir Creative Commons og lét ágóðan renna til ýmissa málefna (í einu tilfellinu til Creative Commons af því að hann trúir á frelsið til að deila hönnun og sköpun með öðrum). Kynntu þér málið áður en þú reynir að halda röngum staðhæfingum fram.

Þú ræðst einnig gegn persónu minni með því að segja að texti minn sé orðréttur tekinn af vefsíðu Creative Commons. Þú heldur því sem sagt fram að ég sé ekki fær um að skrifa minn eigin texta og segir að ég hafi þá þýtt annan texta. Það er rangt. Bentu mér á þennan stað sem þú fannst textann minn orðréttan á vefsíðunni þeirra. Ég er fullviss um að hann er þar hvergi því textinn kemur frá mínu eigin hjarta, hann er mín sköpun. Textinn sem ég skrifaði var í raun stytting á grein sem ég hef verið að dunda mér við að skrifa (skapa). Ég hvet þig til að standa undir svona rógburði og ásökunum með tengil á textann sem er orðréttur eins og minn texti (mér þætti þá gaman að sjá hvort einhver hafi þýtt minn texta og sett á vefsíðuna eða hvort að ég hugsi og skapi svipað og annar merkur listamaður). Ég er ekki sáttur við þessar ásakanir gagnvart mér og minni persónu. Þessar ásakanir ganga einnig gegn starfsheiðri mínum í fræðimannasamfélaginu og þær fullyrða að ég stundi ekki vinnubrögð sem fræðimenn tileinka sér. Þetta er rangt og móðgandi gagnvart mér og öðrum fræðimönnum. Ég fer fram á það að þú biðjist fyrirgefningar á þessum rógburði þínum gagnvart mér og gagnvart íslenska fræðimannasamfélaginu.

Þú segir einnig að Creative Commons vegi að sæmdarrétti höfundar. Ef eitthvað sýnir það vott um algjöran misskilning á þeim rétti sem Creative Commons veitir. Í bók Páls Sigurðssonar, "Höfundaréttur" er sagt að kjarni sæmdarréttar sé "[rétturinn] til auðkenningar og [rétturinn] til að banna óheimilar breytingar og lemstranir á höfundaverkum". Creative Commons leyfin eru byggð upp af fjórum þáttum: Attribution (nafngreining), Share-Alike (sömu dreifingarskilmálar), Non-Commercial (endurnýting einungis leyfð í ófjárhagslegum tilgangi) og No Derivatives (engin afleidd verk leyfð). Sæmdarréttur snýr að fyrsta og síðasta þættinum, nafngreiningu og engum afleiddum verkum. Ég persónulega myndi ekki gefa mín verk út undir No Derivatives en ég vil alltaf gefa þau út undir Attribution. Sæmdarréttur minn er heiðraður og meira að segja er hann hluti af þeim leyfisskilmálum sem notendur verka minna samþykkja þegar þeir endurnýta verkin. Ég ber virðingu fyrir mínum eigin verkum og ég ber virðingu fyrir verkum annarra. Mér er sama hvernig höfundar stilla upp réttindum gagnvart verkum sínum, hvort þeir noti hefðbundinn höfundarétt, Creative Commons eða önnur frjáls leyfi eða setji verkin í almenningseign (public domain). Ég mun samt persónulega sjálfur nota einungis verk sem eru gefin út undir frjálsum leyfum og mín verk munu einnig aðeins vera gefin út undir frjálsum leyfum. Ég nýt góðs af samfélaginu og samfélagið getur notið góðs af mér.

Tryggvi Björgvinsson (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 14:23

29 identicon

Ævar Arnfjörð Bjarmason hefur aldrei verið „í forsvari“ fyrir Félag um stafrænt frelsi á Íslandi. Hann var meðal fyrirlesara á ráðstefnu félagsins í fyrrasumar, en hefur aldrei verið í stjórn þess eða talað fyrir þess hönd.

FSFÍ er fullbúið til þess að hjálpa ljósmyndurum (sem og öðrum) að átta sig á því hvernig stafræn tækni breytir umhverfinu. Við getum sömuleiðis rökrætt hlutverk og eðli Creative Commons leyfanna. Hafirðu áhuga á öðru hvoru er þér velkomið að setja þig í samband við stjórn félagsins. Við höfum hinsvegar ekki áhuga á að halda umræðunni áfram á þessum vettvangi – bloggsíða þriðja aðila er óheppileg til rökræðna.

Herbert Snorrason (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 14:52

30 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Kristján segir: "Það sem mér finnst hvað verst við CC er sú ákefð að komast í myndir til að gera við þær hvað sem mönnum sýnist sem og að skapa sér tekjur á vinnu annarra sem aldrei skilar sér til þess sem framleiddi grunninn."

Ég vil í fyrsta lagi benda þér á að gögn eru í hinu stafræna samfélagi nútímans ekki bara eitthvað sem þú horfir á, þú vilt nota gögn í þína eigin vinnu. Við lifum á tímum remixsins, við erum ekki bara áhorfendur, við viljum ekki bara horfa á myndir, við viljum búa til eigin verk og draga að okkur efnivið úr ýmsum áttum. Það höfum við alltaf gert með talmál. Við köstum á milli okkar og notum í eigin orðræðu hnyttnar hendingar annarra.

Þetta er ekki spurning um að gera það sem manni sýnist við verk annarra en það er þannig að allar hömlur á hvernig megi nota verk eyðileggja mikla möguleika í framtíðinni. Sá sem býr til vöru eða listaverk eða hönnunarverk getur ekki séð fyrir sér alla möguleika á hvernig verk hans verður notað í framtíðinni en með höfundarréttarlögum sem eingöngu gera kleift að nota verk á einn hátt í einum tilgangi þá er mjög þrengt að þeirri samtvinnun og samnýtingu gagna sem verður möguleg í framtíðinni. Það má t.d. hugsa sér að myndir í wikipedia og upplýsingar um staði verði hluti af  búnaði sem tengist GPS tækjum

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 13.11.2009 kl. 20:17

31 identicon

Ég verð að að fá að setja hér inn smá línu.

Ég held að reiði margra höfunda sé einmitt vegna setninga eins og 

Raunar eru höfundarréttarlög mikil kyrkingartök á allri sköpun í stafrænu samfélagi nútímans. Þessi lög passa engan veginn fyrir síkvikt og sítengt samfélag það sem miklu fleiri eru virkir og taka þátt í að skapa og endurblanda efni.  

Ég er nýbúinn að lenda í einni svona "sköpun" þar sem að stórfyrirtæki setti saman vef sem að átti að endurblanda efni frá allskyns vefsíðum m.a myndum frá mér og fleirum. Þetta átti auðvitað allt að vera ókeypis, enda bara frekja í höfundum að ætlast til þess að fá eitthvað fyrir sína sköpun. Enda er þá sköpunin  ekki af "lífi og sál " eins og einn snillingurinn hér að ofan komst að orði.

 Málið er að allir vilja auðvitað fá allt fyrir ekkert, nema þegar það snýr að þeim, við alla þessa umræðu mundi ég nefnilega eftir því þegar Salvör var greinilega ekki í CC stuði og gerði miklar veður, réttilega að mínu mati, yfir að vefsíða hefði stolið hennar hugmyndavarða efni.

Nánar hér http://www.ismennt.is/not/salvor/meinhorn/2003_12_01_eldri1.htm#107168289547241888

Mér finnst erfitt að að taka mark á skrifum um CC og remixi frá einhverjum sem að vill svo alls ekki vera remixaður eða samplaður.

Snorri Gunnarsson (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 22:53

32 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Snorri: Þetta gamla mál sem þú rifjar upp varðandi vefinn jol.is var mjög svínslegt. Þar tók söluvefur sem seldi einhvers konar jólaglingur allt efni af jólavef mínum jol.ismennt.is nema passaði sig að taka alls staðar út heimildir og allt sem sagði frá uppruna efnis. Þarna var ýmis konar efni sem ég hafði safnað saman hér og þar og fengið sérstakt leyfi frá höfundarrétthöfum og satt að segja var jólavefurinn minn settur upp sem sýnishorn fyrir nemendur mína í Kennaraháskólanum m.a. varðandi höfundarréttarmál.  Ekkert af þessu efni var með CC leyfi og raunar hafði ég sérstaklega greitt fyrir að fá að birta sumt af þessu efni t.d. myndir Halldórs Péturssonar og notið velvildar ýmissa listamanna og rithöfunda, ég hafði sjálft samband við alla og fékk leyfi. Það var þetta efni ásamt efni sem ég hafði sjálf varið miklum tíma í að semja sem allt var tekið og sett upp á þessum jólavef. Þeir sem ráku þennan jólavef (annar þeirra var ef ég man rétt Davíð Ólafsson sem núna hefur skotist upp á stjörnuhiminn Vinstri-Grænna) virtust ekki hafa græna glætu um íslensk höfundarréttarlög og töldu sig geta tekið hvað sem er á vefnum og voru bara með stæla þegar haft var samband við þá. Sögðu "Salvör hefur ekki fundið upp grjónagrautinn".

Það er verulegur munur á því að taka ófrjálsri hendi efni af vef sem er með höfundarvörðu efni og kóróna þann glæp með því að reyna afmá öll spor um uppruna efnisins eða að nota efni sem hefur verið gefið út með CC leyfi og fara eftir fyrirmælum höfundarrétthafans um hvernig skuli vitna í efnið.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.11.2009 kl. 04:21

33 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Hér er áhugaverð umræða um mynd sem notuð var í endurblöndun

 Glæpur að stela Fangavaktinni, en ekki ljósmyndum?

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.11.2009 kl. 04:23

34 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég hefði haldið burtséð frá öllum reglugerðum að höfundarréttur bygginga fælist í því að einhver annar megi ekki byggja alveg eins byggingu annarsstaðar eða stælingu, án leyfis frá arkitekt eða rétthafa.

Ef hinsvegar einhver tekur ljósmynd af byggingu þá á ljósmyndarinn auðvitað höfundarréttinn á ljósmyndinni.

Emil Hannes Valgeirsson, 14.11.2009 kl. 13:55

35 Smámynd: Kristján Logason

Ég vill búa til kjötsúpu og þá heftir það mig svakalega að þurfa að kaupa í hana kjöt frá bónda og grænmeti frá garðyrkjubónda. Ég krefst því laga sem leyfa mér að ganga út á akur og ná mér í grænmeti sem og að þau veiti mér rétt til að fella feitann sauð í súpuna burt séð frá því hverju bóndi hefur kostað til eða hver hans vilji er.

Ég vil í fyrsta lagi benda þér á að gögn eru í hinu stafræna samfélagi nútímans ekki bara eitthvað sem þú horfir á, þú vilt nota gögn í þína eigin vinnu. Við lifum á tímum remixsins, við erum ekki bara áhorfendur, við viljum ekki bara horfa á myndir, við viljum búa til eigin verk og draga að okkur efnivið úr ýmsum áttum.

 Ef þú hefur ekki hæfileika til að búa til þínar myndir láttu þá myndir annarrra vera og leggðu ekki fram þá fáránlegu kröfu að lagabreytingar skuli koma til svo þú fáir að krukka í þeim að vild. Slíkt er frekja og ef þú sérð það ekki Salvör áttu ekki heima í háskóla samfélagi.

 Stafrænt samfélag hefur engu breytt nema því að auka mönnum letina og frekjuna. Klippimyndir sem og mynd blöndun hefur verið til frá því fyrir daga stafrænnar vinnslu. Það hefur ekki hamlað myndblöndun hingað til og gerir það ekki hér eftir þó svo menn þurfi að leyta sér leyfa til slíks.

Framsetning CC og kröfur um aðrar lagabreytingar eru frekja og algert skilningsleysi á eðli mynda hverskonar.

Kristján Logason, 24.11.2009 kl. 09:09

36 Smámynd: Kristján Logason

í öllu þessu samhengi má gjarnan spyrja sig að því hvort að Salvöru og fleirum hvarfli að fara með dúkahníf á Kjarvals verk í þeim tilgangi að "remixa" verk hans og hvort þeim þyki slíkur gjörningur sjálfsagður hlutur.

Kristján Logason, 24.11.2009 kl. 14:10

37 identicon

Þú snýrð þessu á haus. Ef þú hefðir rétt fyrir þér gæti ég ekki eldað kjötsúpu nema þá að borga leyfisgjald til þess sem ætti "höfundarréttinn" af kjötsúpunni. Hún getur jú ekki verið annað en "drasl" - sé hún ekki varin af slíkum rétti

Otto Eduard Leopold von Bismarck (IP-tala skráð) 24.11.2009 kl. 14:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband