3.6.2009 | 06:29
Dalai Lama og Tíbet 2009, Falun gong 2002
Dalai Lama andlegur leiðtogi Tíbetbúa kom til Íslands og hélt hér samkomur. Þetta var ekki opinber heimsókn þjóðhöfðingja en þetta var heimsókn þekks friðarsinna og leiðtoga stórs hóps búddatrúarfólks og það var sjálfsagt hjá stjórnvöldum að sýna heimsókn hans áhuga og virðingu. Það hefði auðvitað verið viðeigandi að hann hefði hitt forseta Íslands. Satt að segja hefur forsetinn tekið á móti mörgum minni spámönnum en Dalai Lama.
Ég fór nú ekki á samkomurnar en ég hef áhuga á því sem Dalai Lama segir og búddismi er heillandi trúarbrögð. Það er stór hópur Íslendinga sem er búddatrúar, bæði fólk sem er fætt erlendis og alið upp í búddatrú en svo hafa líka margir heillast af lífsýn og kenningum búddismans.
Þessi heimsókn Dalai Lama til Íslands rifjar upp fyrir mér aðra heimsókn fyrir sjö árum. Þá heiðruðu kínversk stjórnvöld okkur þannig að varaforseti þeirra kom í opinbera heimsókn til Íslands. Þá ætluðu Falun Gong liðar að nota tækifærið að vekja athygli á málstað sínum og broti á mannréttindum í Kína og gera það á friðsaman hátt með einhvers konar leikfimi. Þá brá svo við að fólk sem aðhylltist þessa trú var handsamað við komuna til landsins og var haft í haldi í Njarðvíkurskóla.
Aldrei hef ég verið minna stolt af aðgerðum íslenskra stjórnvalda en þá. Ég fór að Njarðvíkurskóla með hópi Íslendinga sem krafðist þess að fólkið væri látið laust og tók myndir, hér eru myndirnar frá þessum tíma:
Falun Gong í Njarðvíkurskóla 11. júní 2002
Það er sjálfsagt að hafa í huga að viðskiptahagsmunir Íslendinga eru að móðga ekki og styggja ekki kínversk stjórnvöld. Það er sjálfsagt að sýna þeim fullan sóma og virðingu og reyna að skilja sjónarmið þeirra. Við eigum friðsamleg og góð samskipti við Kína og vonandi munu þau samskipti vaxa og dafna. En mannréttindi eru mannréttindi og þau eru ofar viðskiptahagsmunum. Það er óþolandi að íslensk stjórnvöld gangi á svig við almenn mannréttindi og tjáningarfrelsi til að þóknast valdhöfum erlends ríkis.
Fólkið sem var í haldi í Njarðvíkurskóla var látið laust en í kjölfarið urðu mikil mótmæli. Ég var þá stödd á Vestfjörðum, inn í Syðridal hjá systur minni. Það var gott veður fólkið fór í fjallgöngu á milli Bolungarvíkur og Súgandafjarðar. Á meðan þá var ég út í garðinum í Syðridal og bjó til mótmælaskilti með ýmis konar brýningarorðum um mannréttindi. Svo fór ég með systur minni til móts við fjallgöngufólkið í Súgandafirði og þar hófust mótmæli mín. Ég hélt þar skiltum á lofti og svo mótmælti ég líka inn í göngunum og á Flateyri og í Bolungarvík. Mér fannst þetta flott, það er alveg hægt að mótmæla mannréttindabrotum þó maður sé inn í miðju fjalli og upp á fjalli og út við sjó og þó að enginn annar sjái mótmælaspjöldin. Einhvers staðar á ég nú myndir af þessum gjörningi mínu en finn þær ekki núna. Ég man samt að á einu spjaldinu stóð "Frá Tíbet til Tálknafjarðar - Mannréttindi alls staðar!".
Óljósar fregnir af sendiherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Leiðrétting: Dalai Lama er andlegur leiðtogi þeirra sem aðhyllast tíbeskan búddisma. Að segja að hann sé andlegur leiðtogi Tíbeta er jafn ónákvæmt og að kalla Karl Sigurbjörnsson andlegan leiðtoga Íslendinga. Þar fyrir utan eru ekki allir íbúar Tíbet af tíbesku þjóðerni.
Bjarki (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 15:57
Skömm Kína er mikil. Skömm íslenskra stjórnvalda og hugleysi er einnig meiri en talsverð.
Takk fyrir þetta Salvör.
Guðmundur St Ragnarsson, 4.6.2009 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.