25.5.2009 | 18:35
Hafnar Borgarahreyfingin ríkisframlögum til stjórnmálaflokka?
Eftir því sem mér skilst þá fá stjórnmálaflokkarnir framlög frá ríkinu til starfsemi sinnar. Þar að auki fá náttúrulega þingmenn kaup og svo hafa sumir þingmenn haft aðstoðarmenn (landsbyggðarþingmenn?) og þingmenn sem eru líka ráðherrar fá alls konar fríðindi, ráðherrauppbót, einkabíl og bílstjóra og geta ráðið sér aðstoðarmenn. Þetta er komið út fyrir allan þjófabálk þetta styrkjakerfi til stjórnmálaflokka og það er ekkert að sjá að þetta skili sér í lýðræðislegu starfi á Íslandi.
Þessu verður að breyta og þetta verður að endurskoða. Það er ekki gott að þingheimur hafi sjálfdæmi í að skammta sér fé til eigin nota og við almenningur skiptum okkur ekkert af því.
Þessi ríkisframlög til stjórnmálaflokka virðast heldur alls ekki hafa skilað sér til þess að bæta fjárhag stjórnmálaflokka, þeir virðast bara eyða meira og meira. Nú er þannig tími á Íslandi að það stefnir í kosningar eftir kosningar og ef stjórnmálaflokkar ætla að hegða sér eins og þeir gera núna, að birta heilsíðuauglýsingar í glanstímaritum og prentmiðlum þá stefnir allt í eina óstjórnlega skuldahít og eyðslu sem engir græða á nema auglýsingaskrifstofur og prentiðnaður. Er einhver hemja að stjórnmálaflokkar skuli gefa út bæklinga eftir bæklinga og dekorera síður dagblaða og tímarita með andlitsmyndum af frambjóðendum þannig að maður veit ekki hvort þetta eru snyrtivöruauglýsingar eða stjórnmálabarátta sem byggir á málefnum?
Stjórnmálaflokkar berjast held ég allir í bökkum fjárhagslega og það hefur margt hrikalegt komið upp á yfirborðið varðandi fjármál fólks sem starfar í stjórnmálum svo sem framlög í kosningasjóði vegna prófkjöra. Þetta gerist í kerfi sem er samt þannig að stjórnmálaflokkar fá fúlgur fjár til sinna starfa.
Það er kominn tími til að endurskoða framlag til stjórnmálaflokka. Fyrir hvað fá flokkarnir framlög? Væri ekki réttara að skilyrða þessi framlög og láta þau vera ekki endilega í formi fjárstyrkja. Núna þegar ríkið á hvort sem er allt með einum og öðrum hætti þá má vel nýta það. Þessi framlög geta t.d. vel verið ákveðinn fjöldi af útsendingartímum á RÚV, það er virkilega hættulegt að láta RÚV stjórnendur eina ráða því hvernig stjórnmálaumræða er. Við þurfum samfélag þar sem það er ekki bara Kastljós og Silfur Egils sem sést í ljósvakamiðlum.
Það er sérstaklega mikilvægt að skilyrða styrki til stjórnmálastarfs þannig að reynt sé að ná til sem flestra t.d. með því að nota tæknimiðla sem gefa fólki á landsbyggðinni, hvar sem fólk býr tækifæri til að taka þátt í stjórnmálaumræðu og fólki sem býr við einhvers konar skert aðgengi. Ef við ætlum að hafa hérna upplýsta alþýðu sem getur og vill hafa áhrif á hvernig landinu er stjórnað þá verðum við að gera eitthvað til að upplýsa fólk, ekki bara einn Silfur Egils á sunnudögum yfir vetrarmánuðina. Það er ekki fjölbreytt stjórnmálaumræða.
En það er áhugavert að heyra að Borgarahreyfingin hafi ekkert af peningum. Þýðir það að Borgarahreyfingin afsalar sér ríkisstyrk næsta ár? Það er sniðugt, maður á náttúrulega ekkert að hrósa öðrum flokkum en ég var hrifin af kosningabaráttu Borgarahreyfingarinnar, hún var ódýr og náði samt vel til fólks. Mér finnst að aðrir flokkar t.d. við Framsóknarmenn gætum vel lært af Borgarahreyfingunni ráðdeild og sparnað í kosningum. Hins vegar held ég að margir flokkar gætu lært mikið af Framsóknarmönnum varðandi kosningabaráttu. Það var mjög samstilltur hópur Framsóknarmannahér í Reykjavík sem vann sleitulaust að framboðinu og margir voru virkjaðir til, t.d. voru átthagakvöld, kvennakvöld, fjölmenningarhátíð, fjölskylduhátíðir o.s.frv. og þingmannsefni eins og Vigdís Hauksdóttir lagði mikinn metnað í kynna sig sem flestum á þeim stöðum sem fólk kom, það skilaði líka þingmönnum í báðum kjördæmum í Reykjavík. Það var líka skemmtilegt að margir gamlir Framsóknarmenn komu aftur inn í flokksstarfið og fundu að andinn í flokknum þeirra var að breytast, núna var sterkasta táknið að Framsóknarflokkurinn er flokkur félagshyggju og samvinnu.
Framsókn er á réttri leið. En ekki komin alla leið. Það var of mikill glans á sumu í síðustu kosningum fyrir minn smekk, kosningakerran sem stóð fyrir utan kosningamiðstöðina var ekki Hummer heldur vistvænir Smartcars smábílar en satt að segja þá höfðaði það ekki nógu vel til mín. Málið er að svoleiðis bílar eru snobbbílar ennþá og rándýrir. Vonandi kemur sá dagur að rafknúin reiðhjól og léttlestir verði einkennistákn fyrir ferðamáta Framsóknarmanna.
Svo ég taki nú aðra flokka þá fannst mér mörg af upplýsingaritum Samfylkingarinnar vera vel heppnuð. Ekkert var nú velheppnað sem ég man hjá Sjálfstæðismönnum enda þeir í sárum núna og drungalegir og helbláir og ég vona að þeir geti tekið sig saman í andlitinu fljótlega. En talandi um andlit þá er ég ennþá að reyna að fatta þessar andlitsauglýsingar Vinstri Grænna af foringjum sínum, hvaða nýja lína er þetta? Er þetta botnlaus foringjadýrkun, er verið að reyna að búa til hetjur úr ákveðnu fólki, hvað táknar þessar rosalegu nærmyndir? Fyrir mér leit þetta út eins og snyrtivöruauglýsingar. Og mér finnst afleitt að ríkisstyrkur fari í snyrtivöruauglýsingar.
Lítið um völd og ekkert af peningum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.