Holdsveikrahælið

Ég vann í gamla Kópavogshælinu einmitt í þessu húsi fyrir meira en þremur áratugum. Þá var  í kjallaranum mötuneyti Kópavogshælisins og ég vann þar í eldhúsinu hálfan daginn meðfram námi , ég var þá átján ára og í  menntaskóla. Þá var ennþá rekið holdsveikrahæli á efri hæð hússins, ég held að þá hafi aðeins verið þar ein fullorðin kona eftir og hún lifði í einangrun. Stúlka sem hugsaði um hana kom oft niður í eldhúsið til okkar, ég held að matur hafi verið sendur þaðan upp á hæðina. 

Holdsveiki og lækningahæli fyrir holdsveikissjúklinga eru afar áhugaverð, ekki aðeins varðandi sögu lækninga heldur líka varðandi útskúfun ákveðinna hópa úr samfélaginu og hvernig litið var á sjúklinga. Fyrstu ljósmyndir sem teknar voru af Íslendingum munu hafa verið af afskræmdum andlitum holdsveikissjúklinga. Ég hef reynt að skrifa á wikipedia um sögu holdsveikilækninga á Íslandi og sögu holdsveikraspítali og sögu þeirrar merkilegu stofnunar sem var  Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi

Móðir mín og aðrar konur í Kópavogi reyndu mikið til að fá gamla Holdsveikrahælið sem handverkssafn. En á þeim tímum og ef til vill ennþá voru bæjaryfirvöld í Kópavogi mest að hugsa um að hlú að auðmönnum og "láta markaðinn ráða".  Nú hefur ísköld krumla hins frjálsa markaðar læst um okkur og kramið okkur.  Gamla holdveikrahælið í Kópavogi er hús á afar fallegum stað, hús með merkilega sögu. Sögu sem segir okkur heilmikið um samfélagið, um samfélag þar sem fólk var dregið í dilka, sumir einangraðir og útskúfaðir og sumum komið fyrir á stofnunum.

Það þarf ekki lengur holdsveikraspítala og það þarf ekki lengur að byggja sérstök hæli fyrir fólk með þroskahömlun. Allir eiga að fá að vera þátttakendur í samfélaginu en það er mikilvægt að hús með sögu eins og gamla Kópavogshælið á undrafögrum stað sé opið fyrir okkur öll og við getum fræðst um sögu þess og sögu þeirra sem komið var fyrir á þessum stað. Þegar breski herinn gerði innrás á Ísland þá tók hann fyrir sig flottasta húsið, húsið stóra og glæsta í Laugarnesi og þá voru hinir holdsveiku fluttir í Kópavog.



 

 

 

 

 


mbl.is Gamla hælið grotnar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnur Bárðarson

Ekki vissi ég að þar hefði verið holdsveikrahæli þarna. Fróðlegt að vita. En merkilega fáar heimildir um þenna sjúkdóm hér á landi.

Finnur Bárðarson, 7.4.2009 kl. 15:12

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Núna ætlar Reykjavíkurborg að hafa sérstakt átak til endurbyggingar gamalla húsa. Kópavogur ætti að vera með í þessu, holdsveikrahælið gamla er alveg kjörið verkefni til að sýna núna sóma og gera upp þetta hús.

Þetta hús getur orðið  ein stika í pílagrímsferð þeirra sem vilja kynna sér hvernig samfélagsþjónusta er á Íslandi. Þarna rétt hjá er líknardeildin, þar dvaldi móðir mín síðustu mánuði ævi sinnar og þá fór ég nokkrum sinnum á dag fram hjá holdsveikrahælinu og harmaði örlög þessa húss sem móðir mín og aðrar konur í Kópavogi reyndu mikið til að fá til  gera upp sem safn.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 7.4.2009 kl. 15:21

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég ákvað  fyrir löngu að reyna að skrifa greinar um alla holdveikispítala á Íslandi, ég er bara búin með tvo

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 7.4.2009 kl. 15:29

4 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Hvað varð um milljarðana sem fóru í kaup/sölu á Gusts-svæðinu. Getur Kópavogsbær virkilega ekki séð sóma sinn í því að bjarga húsinu frá eyðileggingu?

Guðmundur St Ragnarsson, 7.4.2009 kl. 16:01

5 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Þetta var upprunalega byggt sem aðstaða sem fyrir berklasjúklinga. Síðar fluttu þangað síðustu holdsveiku einstaklingarnir á Íslandi. Eftir það varð þetta m.a. Þroskaþjálfaskólinn og loks var þarna aðastaða fyrir listamenn. Landspítalinn átti þetta hús fram til 1996 eða 7 og hafði m.a ætlað að breyta þessu í aðstöðu fyrir fundi sem aldrei varð.

Ég hefði séð fyrir mér að þetta hús væri tilvalið sem safn. T.d. fyrir sögu holdveikra á Íslandi og/eða aðstaða fyrir náttúruskoðun því þarna er oft farið í fjöruferðir að ksoða lífríkið.
Og einnig möguleiki á að hluti þess hefði orðið kaffihús því það gæti tengst fallegri gönguleið þarna með sjónum sem og góðum möguleikum á listigarði á Kópvogstúninu.

En í staðinn er þetta látið grotna niður í bæ sem á nær ekkert af gömlum húsum.

Kópavogsbærinn sjálfur er elsta steinhlaðna hús í Kópavogi og ber að varðveita hann.

Magnús Helgi Björgvinsson, 7.4.2009 kl. 16:22

6 identicon

Það væri tilvalið að gera þetta hús að safni um Holdsveiki á íslandi

og til minningar um þá sem féllu fyrir þessum vágest.

áður enn allar heimildir gleymast ..

auk þess væri hægt að hafa rannsóknarstofu

í hluta húsins .

..Þið ættuð að safna undirskriftum til að fá ykkar framgengt..

Sigurlaugur (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 16:47

7 identicon

Gleymdi einu atriði

það væri líka sniðugt að gera Facebook síðu og stofna reikning svo það væri hægt að byrja safna fyrir breytingu húsinu,,

Ef nýu samtökin þyrftu að borga fyrir lagfæringar sjálf..

Sigurlaugur (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 16:54

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það væri virkilega gaman að þetta hús myndi verða einhvers konar safn eða hafa það hlutverk að margir gætu komið þarna, gengið um þetta fallega og friðsæla svæði við sjóinn og kannski farið þarna á kaffistofu og kynnt sér söguna og ef til vill væri þarna einhver iðja sem tryggði að eitthvað líf væri þarna og fólk ætti þarna erindi. Þetta hús er samofið lækningasögu og samfélagssögu Íslands,  berklasjúkir, holdsveikir, þroskaskertir hafa verið þarna.

Það er lækningasafn í Nesstofu og þar er reyndar að mig minnir eitt herbergi um holdsveiki. En  kannski er gamla Kópavogshælið eina húsið sem núna stendur sem var einu sinni holdsveikrahæli.  Laugarnesspítalinn er brunninn og gömlu holdsveikrahælin fyrir hans tíma sennilega öll hrunin.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 7.4.2009 kl. 18:47

9 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæl Salvör og takk fyrir fallegan pistil. Mér finnst það skína í gegn að þú hugsar með hlýju til hússins. Ábending þín hér að ofan um að ekkert af holdsveikrarhælunum sé enn uppistandandi er áhugaverð. Þetta þarf að skoða vandlega og það væri áhugavert að stofna hóp til varnar þessu húsi sem og gamla Kópavogsbænum sem Magnús bendir á.

Hlakka til að lesa greinar þínar um holdsveikraspítalana.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 8.4.2009 kl. 00:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband