Borguðu 11 milljarða fyrir Landsbankann, skildu eftir Icesave skuld upp á 640 millljarða

Gróðinn af einkavæðingu bankanna er átakanlega lítill.

Tökum Landsbankann sem dæmi, hann var seldur fyrir um 11 milljarða til þess eins að við þyrfum að taka á okkur skuld upp á  640 milljarða  fimm árum seinna. Íslensk stjórnvöld gerðust mesta ginningarfífl íslenskrar viðskiptasögu þegar þau voru tæld á haustmánuðum árið 2002 til að afhenda peningargerðarvélar samfélagsins  til manna sem komu með fé frá Rússlandi. Bankar í kasínókapitalísku kerfi vestrænnar auðhyggju eru stórhættulegar stofnanir, stofnanir sem búa til sýndarpeninga með loftbólum og skuldum. Með því að handsala slíkar stofnanir til manna sem eingöngu stjórnast af eigin gróðahvöt og skapa umhverfi þar sem slíkir menn fá að athafna sig og skuldsetja aðra í því skjóli sem bankaleynd og einkavæðing gefur þá hafa stjórnvöld tekið þátt í að rústa lífsskilyrðum margra kynslóða á Íslandi.

Peningarnir sem hingað streymdu úr bjórgróða í Rússlandi voru rúmir 11 milljarðar.
Síðan liðu fimm ár. Þá allt í einu vöknum við  fólkið í landinu upp við það að íslensk stjórnvöld hafa með ráðleysi og dáðleysi, andvaraleysi og blekkingum látið stela öllu frá Íslendingum og  eigendur þessa fyrrum ríkisbanka hafa með vitund og vilja stjórnvalda  og að því er virðist nokkurri velþóknun stjórnvalda framan af gert okkur ábyrg fyrir 640 milljarða Icesave skuld, skuld vegna fimm ára einkavæðingar þessa fyrrum ríkisbanka. 

Landsbankinn spratt upp úr fyrsta banka á Íslandi, banka sem Tryggvi Gunnarsson stýrði, banka sem tryggði okkur Íslendingum fjármagn til að við gætum nýtt fiskimiðin okkar, banka sem lánaði í íslenskan sjávarútveg til þilskipa sem borguðu sig upp á þremur árum.  Má ég frekar biðja um afturhvarf til   gamla hundraðkallins heldur en þessa "fé án hirðis"hugsun taumlausrar gróðahyggju sem hefur núna rústað íslensku efnahagslífi.  

Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem fyrst og fremst hefur staðið fyrir því að afhenda ríkisbankana á gullfati til einkaaðila, til þess eins að þjóðin þurfi að taka svo við þeim aftur fimm árum seinna, en núna ekki á neinu gullfati, það er fyrir löngu komið í geymslu á einhverri af Tortola eyjum heimsins.

Nei núna er bönkunum grýtt til baka í höfuðið á okkur og við þá hanga eins og drekkingarsteinar ofboðslegar skuldir  þannig að í þessu grjótkasti höfum við Íslendingar verið slegin í rot, alla vega tímabundið og við munum aldrei ná að rísa upp  aftur og synda upp á yfirborðið  nema við náum að ýta frá okkur einhverju af þessum steinum.

Ísland marar í hálfu kafi á meðal þessir skuldaklafar halda okkur í djúpinu.

Í ágætri úttekt í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Samson borgaði 11,2 milljarða fyrir bankann en samningar stóðu yfir haustin 2002.  Það kemur líka fram í greininni að Framsóknarmenn reyndu á sínum tíma hvað þeir gátu til að ekki yrði seldur svona stór hluti úr ríkisbönkunum. Það væri áhugavert að vita hvort það hefði breytt einhverju.

Ég held raunar ekki, ég held að það hefði þá bara tekið lengri tíma fyrir þennan Samson hóp að komast yfir ráðandi hlut í bankanum. Eina sem hefði getað breytt einhverju er að íslenska ríkið hefði alltaf átt meirihluta í bankanum.  En það er gott að það kom upp á yfirborðið hvernig Framsóknarflokkurinn reyndi í lengstu lög að sporna við að svona stór eignarhluti væri seldur úr ríkisbönkunum.

Sjálfstæðisflokkurinn var hins vegar sleginn blindu, þar var einkavæðing alls sem hægt var að setja verðmiða á nánast trúaratriði og gróðahyggjan var eins og guðspjöll og spámennirnir voru menn eins og Pétur Blöndal sem er ágætur tölfræðingur en afleitur spámaður í trúboði, hann talaði hins vegar í bíblíulegum frösum og lýsti þeim samsafnaða auð sem hér bjó í eignum, fólki og fyrirtækjum með orðum eins og "fé án hirðis", fé sem ætti að afhenda einhverjum auðhyggjumönnum og þá myndi gróðablik þeirra og gróðahyggja gera okkur hin rík. Málið er að það hefur ekki gengið eftir, gróðahyggja fárra sem vinna bara fyrir sjálfan sig hefur gert okkur öll fátæk.

Til langs tíma er miklu betra að byggja upp samfélag þar sem leiðarljósið er alltaf samfélagið og samfélagsleg ábyrgð og samtryggingarkerfi, þar sem velferð allra er höfð að leiðarljósi og þar sem atvinnulíf er byggt upp, ekki út af skammsýnum gróðasjónarmiðum út af tölum í ársreikningum fyrirtækja heldur til að búa til samfélag þar sem fólk starfar saman og í samvinnu að því að byggja upp en ekki í samkeppni og gróðahyggju.

En núna þegar komið hefur í ljós hvernig Framsóknarmenn reyndu að sporna við óheftri bankasölu þó þeir væru í stjórnarsamstarfi við helsta markaðshyggjuflokkinn og gætu ekki fylgt því eftir þá er áhugavert að greina hvernig þeir sem voru í vaktinni í stjórnarandstöðu þessi gróðærisár stóðu sig. Það er áhugavert að skoða hvernig maður eins og Ögmundur Jónasson varaði við og reyndi að hafa áhrif. Vissulega var Ögmundur í aðstöðu til að sjá hvað væri að gerast, vissulega var Ögmundur sem  formaður eins stærsta félags launþega í aðstöðu sem við hin höfðum ekki í að hafa aðgang að hagfræðingum sem höfðu púls á markaðinum. Vissulega var Ögmundur í kjöraðstöðu til að benda á hvað var að gerast, hann var tengdur einum stærsta lífeyrissjóði landsins og í starfi sínu þá hlýtur hann að hafa áttað sig á því hlutverki sem lífeyrissjóðirnir gengdu í því að steypa okkur í þessar aðstæður. Ögmundur hefur staðið sig vil, hann birtir upplýstar greinar en af hverju gerði hann ekki meira? Af hverju varaði hann okkur ekki betur við,  af hverju gerðu Vinstri grænir ekki neitt ?

Framsóknarflokkurinn reyndir einn flokka að koma með tillögur sem myndu hjálpa Íslendingum í þeim aðstæðum sem þeir eru í núna. Fyrsta skrefið er að aflétta hluta af skuldum af einstaklingum og fyrirtækjum, skuldum sem mynduðust þegar gengið féll og eru að sliga fólk því verðmætin sem standa fyrir þessum skuldum hafa hraðfallið í verði og fyrirsjáanleg er ennþá meiri verðlækkun. Skuldarar báðu ekki um að bankakerfið myndi hrynja yfir þá og hagkerfi heimsins myndi hrynja þannig saman að verð á öllu lækkaði. Öllu nema skuldum. 

En þar þarf líka að semja um afnám og niðurfellingu á hluta þeirra skulda sem útrásarmenn með velþóknun stjórnvalda steyptu okkur í. Eða eigum við kannski að  heimta að borga skuldirnar  eins og Samfylkingarmenn vilja? Eigum við bara að biðja Guð að blessa Ísland og stóla á ófundnar olíulindir  og EBE? 


mbl.is Vildu ekki selja Samson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnur Bárðarson

Ég kem ekki auga á neina "hópsefjun" í pistlinum ?

Finnur Bárðarson, 22.3.2009 kl. 15:19

2 identicon

Ég er hvorki Framsóknar- né Sjálfstæðiskona, reyndar frekar til vinstri en...... svei mér þá, ég held að ég sé sammála Ingva Hrafni J. (hélt að ég myndi aldrei verða sammála honum), Ögmundur er með spilltari stjórnmálamönnum landsins.

Ætla að skila auðu 25. apríl.

Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 21:00

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Þetta er náttúrulega sorgarsaga.  Bara um 5 ár síðan að bankar voru seldir með pomp og prakt.  Þótti alveg gríðarlegt framfaraskref af ráðamönnum.  (mér finnst samt eins og það sé miklu lengra síðan þetta var.  Eins og tuttugu ár eða eitthvað)

Jæja, en á aðeins 5 árum urðu afeiðingarnar þær er alþjóð nú veit og þekkir.

Þetta er alveg hroðalegt og vekur upp (allavega í mínum huga) spurningu um ábrgð sjórnmálamanna.  Þeirra hlutverk er að hugsa um þjóðarhag. 

Það er svo sem eitt að einkavæða en annað að pæla í hugsanlegar afleiðingar.  Útþennslu o.þ.h.

Málið nefnilega er með einkarekin banka að ef illa fer þá situr þjóðin alltaf uppi með afleiðingarnar.  Þessvegna er banki aldrei eins og hvert annað fyrirtæki vegna þess að afleiðingar ef illa fer verða miklu víðtækari en venjulegs fyrirtækis.

En kannski hafa menn sér það til afsökunnar að mórallinn var þannig í nokkur ár að endalaust yrði sól og sunnanvindar.  Mögru árin kæmu aldrei aftur.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.3.2009 kl. 21:21

4 Smámynd: Hlédís

Þetta var sorglegt!

Greinin byrjar vel - en svo fer eitthvað mjög skrýtið að gerast!?  Allt í einu er það Ögmundur Jónasson, allan tímann í stjórnarandstöðu, sem ekki "gerði nóg" og er gerspilltur! - Ekki minnst á ábyrgð Framsóknar verandi í ríkisstjórn - ekki minnst á Finn Ingólfsson og kumpána, né annað sukk á B-listamönnum.  Að vísu nálgast kosningar, en hverju þjónar svona skáldskapur? Varla er búist við að neinn sem eitthvað hefur fylgst með málum trúi þessu. - Er verið  að uppfræða glænýja kjósendur?

Hlédís, 22.3.2009 kl. 21:35

5 Smámynd: þorvaldur Hermannsson

Furðulegt að dæma Ögmund greyið sem ekkert hefur gert af sér,hvers á hann að gjalda?kv

þorvaldur Hermannsson, 22.3.2009 kl. 22:22

6 Smámynd: Bumba

Ekkert skil í þér Salvör.  Mér hefur hingað til þótt þú grandvör kona og yfirleytt ekki fara með fleipur í þessum pistlum þínum. Ekki hef ég heldur alltaf verið þér sammála enda þarf þess ekki. En þessi pistill er svo gjörsamlega út úr kú að hann er varla svaraverður. Ég tek heilshugar undir orð  Hlédísar. Hyggðu betur að málum sem þessum áður en þú lætur svona dellu frá þér fara. Með beztu kveðju.

Bumba, 23.3.2009 kl. 08:02

7 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Til þess að rita svona pistil þarf að vera með mjög sterk flokksgleraugu á nefinu.

Í fyrsta lagi eru skuldir vegna Icesave taldar vera um 640 milljarða, en á móti þeim koma eignir, þannig að nettóskuldir eru taldar vera 74 milljarða.

Í öðru lagi þá var Framsókn í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og var í lófa lagið að setja skýr skilyrði fyrir sölu bankanna

Í þriðja lagi, var einn nefndarmaður sem sagði sig úr einkavæðinganefnd, fulltrúi fjármálaráðherra, enginn sagði sig úr nefndinni sem skipaður var af Framsóknarfokknum. Úrsögnin var mjög gott tilefni til þess að ná fram breytingum ef Framsóknarmenn voru mjög ósáttir.

Í fjórða lagi, er grein í Morgunblaðinu í dag. Það verður fróðlegt að lesa um hvaða göfgi  Framsóknarflokkurinn sýndi í því máli

Sigurður Þorsteinsson, 23.3.2009 kl. 08:59

8 Smámynd: TARA

Ég held að það sé ekki hægt að segja að landi mari í hálfu kafi...við erum svo sannarlega sokkin alveg á botninn !! Og þó ég sé fremur bjartsýn, þá veit ég ekki hvernig á að fara að því að draga okkur á þurrt land.

TARA, 24.3.2009 kl. 14:52

9 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Sæl Salvör,

Því miður er ekki hægt að gefa okkar flokki syndaaflausn í þessu máli. Einkavinavæðing Búnaðarbankans var ekkert annað en pólitísk gjöf frá Framsóknarmönnum til Framsóknarmanna (S-hópsins, S=Sukk).

Til þess að Framsóknarflokkurinn eigi möguleika að vera trúverðugur þarf flokkurinn að gera þetta mál upp, biðja þjóðina afsökunar. Ef ekki þá nær hann vart tveggja stafa tölu í þingkosningum framtíðarinnar.

Hættum að tala í pólitískum frösum og tölum mannamál. Þessar einkavæðingar var bullandi spilling og bull og það veit hver heilvita maður.

Guðmundur St Ragnarsson, 24.3.2009 kl. 15:52

10 Smámynd: Hlédís

Guðmundur segir það sem ég vildi sagt hafa.

Hlédís, 24.3.2009 kl. 21:28

11 Smámynd: Bumba

Einmitt Guðmundur St Ragnarsson, þú hefur rétt fyrir þér. Frú Salvör er svo sannarlega af gullfiskakyni hvað þessi mál Framsóknarflokksins snertir. Með beztu kveðju.

Bumba, 25.3.2009 kl. 08:04

12 Smámynd: Finnur Bárðarson

Ágætis grein og vel skrifuð Salvör eins og þín er von og vísa. En verða að taka undir með Guðmundi sem gefur hér prúðmannlegt og yfirvegað andsvar, sem hann gerir alltaf.

Finnur Bárðarson, 28.3.2009 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband