Eggjaskurnin eftir fjöreggjakastið

Við erum smán saman að horfast í augu við þann dökka veruleika sem mætir okkur eftir hrunið á Íslandi.  Öll höfum við tapað, þeir sem áttu eignir í hlutabréfum hafa tapað þeim að miklu leyti, þeir sem áttu fasteignig hafa tapað gríðarlegu því að fasteignaverð hefur hríðlækkað og er ennþá í frjálsu falli en þeir sem skulda hafa tapað mestu. Skuldirnar hafa hækkað gríðarlega vegna verðbólgu og gengisþróunar en eignirnar sem stóðu sem veð fyrir þessum skuldum lækka og lækka í verði. 

Í fyrirtækjum og bönkum er vaninn að meta hversu líklegt er að krafa innheimtist og nota þá varfærni að ef verulegar líkur eru á því að kröfur tapist þá eru þær afskrifaðar. Þeir sem áttu mestar eignir í íslensku samfélagi voru ekki útrásarvíkingar eða íslenskir auðmenn, við vitum núna vel að það ryk sem þeir þyrluðu upp var bara sjónhverfingar, þeir bjuggu til einhvers konar sýndarauð með því að þyrla peningum á milli sín eins og lottókúlunum í úrdrætti í víkingalóttó. Þeir sem raunverulega áttu mestar eignir í íslensku samfélagi og eiga ennþá eru lífeyrissjóðirnir. Þar hafa safnast upp gríðarleg verðmæti sem eru ekki bólupeningar heldur raunverulegt framlag launþega  og atvinnurekenda á Íslandi ætlaðir til að tryggja launþegum á Íslandi viðurværi þegar þeir geta ekki unnið lengur. Það voru líka þessi verðmæti sem þeyttust upp í víkingalóttói hins kasínókapítalíska kerfis sem við lifum við og  þau brotnuðu eins og egg. Núna er áætlað að lífeyrissjóðirnir hafi misst einn þriðja af verðmætum sínum á árinu.  

Það er athyglisvert að lesa eftirfarandi frétt með hliðsjón af efnahagstillögu Framsóknarmanna um 20% niðurfellingu skulda. Svona er nefnilega áætlað að þurfi að afskrifa verðmæti líffeyrissjóðanna:

"Þegar gert er ráð fyrir 90% afföllum af skuldabréfum bankanna, 75% afföllum af öðrum fyrirtækjaskuldabréfum og 70% afföllum af erlendum skuldabréfum er neikvæð raunávöxtun lífeyrissjóðanna í fyrra nær 33%."

Það er sem sagt áætlað að  ekki innheimtist nema tíundi partur til þriðjungur af þeim peningum sem lífeyrissjóðirnir lána.  Tillaga Framsóknarmanna gengur út á að fimmtungur skulda verði strax afskrifaður hjá skuldunautum. Menn verða að átta sig á því hvað fyrirtæki varðar að þessar skuldir eru þegar afskrifaðar hjá þeim sem eiga kröfurnar um  miklu meira en sem nemur fimmtungi, einfaldlega vegna þess að það er kalt mat að skuldarar muni ekki ná að borga nema lítið brot af þessum skuldum. 

Það er í svona aðstæðum sem Framsóknarmenn setja fram tillögu um að skuldir verði lækkaðar um 20%, skuldir sem þegar hafa vaxið um meira en það bara vegna verðbólgu og gengismunar  en skuldir sem eru þegar afskrifaðar eftir öllum eðlilegum skynsamlegum viðskiptaaðferðum, einfaldlega vegna þess að það eru engar líkur á að þær innheimtist.  Það er hins vegar afar ósennilegt að þetta sé nóg, það verða að koma til miklu stærri og umfangsmeiri efnahagsaðgerðir. En það er gríðarlega mikilvægt að búa þannig um að ekki sé sorfið svo að fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu að þau hafi enga möguleika til að bjarga sér.


mbl.is Staða lífeyrissjóða afhjúpuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Ágætis grein hjá þér.  Pólitíkusar geta komið leiðréttingum í gegn það dugir ekki að tala bara og tala það þarf að framkvæma.  Ef þeir halda áfram að mala og mala án þess að framkvæma þá hellist yfir heimilin "stórslys" sem ekki verður aftur tekið. 

Páll A. Þorgeirsson, 29.3.2009 kl. 15:57

2 identicon

Eigum við ekki fyrst að sjá hvernig semst við erlenda lánadrottna áður en við förum að leggjast út í almennan og flatan afslátt á lánunum? Ef satt reynist, að almennt sætti lánadrottnar sig við 10% á öllum lánum, þá er það eitt. Ef þeir sætta sig við að sumir munu ekki greiða nema 1% og aðrir 100% og sumir 50% samtals um það bil 10% að meðaltali, þá er það annað.

Sá sem skuldar 100% og getur borgað 1% er engu bættari með að fá flatan afslátt. Sá sem skuldar 100% og getur borgað 100% á ekki að fá afslátt. Af hverju? Af því að hann á að vera borgunarmaður!

Flatur afsláttur á skuldum mun að mínu viti vera dýr aðgerð, draga úr alvarleika þess að fá lán, eins og verðbólgubruni lána var á sínum tíma (og leiddi til vísitölubindingar) auk þess sem ranga fólkið fær mestan afslátt, þeir sem geta vel borgað. Hinir sem ættu að fá mesta aðstoð fá rétt nóg reipi til að hengja sig í (ef það brennur þá ekki upp í verðbólgu).

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 18:46

3 identicon

Staðreyndin er einfaldlega sú að það þarf að ná að innheimta sem mest af því sem er útistandandi. Það er ódýrast fyrir þá sem fóru varlega og reyndu að skulda minna. Ef gefinn verður flatur afsláttur þá þarf þeim mun meiri endurfjármögnum í nýju bönkunum og það fé verður tekið af skattgreiðendum, án tillits til hve mikið hver skuldar eða hefur í tekjur.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 08:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband