19.3.2009 | 08:52
Mæðgur í framboði
Það var blásið til sóknar í Framsóknarflokknum í Reykjavík í gær. Þetta var fyrsti stóri fundurinn sem nýkjörinn formaður flokksins heldur með öllum Framsóknarfélögunum sameiginlega í Reykjavík. Sigmundur Davíð fór yfir tillögur Framsóknarflokksins og skýrði stjórnmálastöðuna. Síðan var kynning á frambjóðendum á listum flokksins í Reykjavík Norður og Reykjavík Suður. Hér er mynd af frambjóðendunum sem eru í 13 sæti á báðum listunum. Í Reykjavík norður þá verður það dóttir mín Kristín Helga sem er 19 ára og er hún að ég held yngsti frambjóðandinn. Í Reykjavík suður er það Valgerður en hún situr í Velferðarráði Reykjavíkurborgar.
Það er nú svolítið gaman að við mæðgurnar séum báðar á lista en ég verð í 4 sæti í Reykjavík suður og það er í samræmi við ættarhefðina, það er mikið um að fólk í minni fjölskyldu taki þátt í stjórnmálum. Reyndar brjótum við ættarhefðina að því leyti að vera báðar í framboði fyrir sama stjórnmálaflokk, einu sinni var það þannig í Kópavogi að pabbi var á lista fyrir Alþýðubandalagið, mamma fyrir Framsóknarflokkinn og Guðrún Stella systir mín fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ég var í Kvennalistanum í Reykjavík.
Tvö atkvæði á hvern mann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Andstæðingar Steingríms Hermannssonar fyrir vestan sögðu þá sögu, sanna eða ósanna, að hann hefði á fyrstu framboðsfundum sínum lokið ávörpum sínum á orðunum: Já, og pabbi biður að heilsa!
Einhverjir hafa vakið athygli á uppruna tiltekinna frambjóðenda, væntalega í því skyni að ýja að frændhygli (nepotism). Þetta er varasöm iðja, því fyrr en varir eru "minn flokkur" farinn að bjóða fram börn eða barnabörn fyrrum stjórnmálamanna og "mínir menn" í nákvæmlega sömu stöðu!
Í því samhengi nægir að benda á framboð Guðmundar Steingrímssonar og Svandísar Svavarsdóttur til þingmennsku. Það er spurning hvort þetta skýrist með fámenninu á Íslandi eða hvort stílað er inn á ættfræðiþekkingu og væntingar kjósenda til að uppruninn skili sér.
Svo má minna á Björn Pálsson frá Löngumýri og Páll Pétursson frá Höllustöðum
Ættum við ekki að efna til samkeppni um það hver getur fundið flesta frambjóðendur sem gætu haft eftir áðurnefnd orð Steingríms Hermannssonar? Svo mætti líka framlengja þetta þannig að hægt væri að fá stig fyrir vísanir í Nonna hennar Bryndísar frænku, til dæmis.
Flosi Kristjánsson, 19.3.2009 kl. 14:28
það væri nú dáldið gaman að finna "já, og pabbi biður að heilsa!" fólkið. það hefur óneitanlega nokkra forgjöf.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.3.2009 kl. 23:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.