23.1.2009 | 19:01
Alvarlegar og sorglegar fréttir
Íslands ógæfu verður allt að vopni. Heimurinn hrynur í kringum okkur í heimskreppu sem dýpkar og dýpkar, víða eru róstur og uppþot og sums staðar geysa blóðug stríð. En hrunið er meira á Íslandi en annars staðar í Evrópu, hér hrynur allt, hér var rík og skuldlaus þjóð í fyrra og atvinnulíf blómlegt. Núna erum við bjargþrota skuldum vafin þjóð og vegna sérstakra íslenskra aðstæðna þ.e. gengistryggingar og myntkörfulána þá eru líka margar fjölskyldur og stór hluti atvinnufyrirtækja komin í þrot. Tveir stórir atvinnuvegir bankastarfsemi og byggingariðnaður hafa alveg hrunið og munu væntanlega aldrei ná aftur fyrri þunga.
Eina sem við vitum er að botni kreppunnar er hvergi nærri náð og hvernig okkur reiðir af er háð því hvernig umheiminum reiðir af. Og það er ekkert bjart framundan. Össur reynir að segja okkur frá því að við verðum rík af olíu af Drekasvæðinu en hve skyldum við trúa því, það á eftir að finna olíu og var það ekki þessi sami Össur sem dásamaði einhvers konar dularfulla orkuútrás í einhverjumr REI ævintýrum, útrás sem mér virðist hafi verið af sama meiði og sala Kaupþings til arabískra sjeika, útrás sem var í rauninni dulbúin innrás.
Eitt enn reiðarslagið fyrir íslensku þjóðina er að foringar á stjórnmálasviðinu, formenn beggja þeirra stjórnmálaflokka sem nú eru við völd glíma við alvarleg veikindi. Ég óska þeim góðs bata og vona að þau jafni sig á þessum veikindum. Það er ómanneskjulegt álag á þeim stjórnmálamönnum sem stýra Íslandi núna.
Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn fari frá völdum sem fyrst. Svo mikil er tortryggni mín út í hvernig þeir hafa gengið erinda auðmanna og bankaeigenda að ég má ekki til þess hugsa að þeir sitji fram í maí. Mér finnst Þorgerður Katrín ekki trúverðugur forsætisráðherra sem staðgengill Geirs, ekki síst vegna tengsla hennar við Kaupþing. Eiginmaður hennar var lykilstjórnandi í Kaupþingi og eftir því sem komið hefur fram í fréttum þá munu þau hafa keypt skuldabréf í Kaupþingi fyrir háar fjárhæðir en fáum sögum fara af því að þau hafi borgað þær skuldir.
Ég efast líka um stjórnkænsku hennar á tímum eins og núna. Sérstaklega man ég eftir hve illa hún tók tillögu Davíðs Oddssonar á sínum tíma um þjóðstjórn allra flokka. Það var auðvitað ekki hans að segja ríkisstjórninni hvað hún ætti að gera og hann er ráðríkur maður sem hefði átt að vera löngu búinn setjast í helgan stein og sinna ritstörfum. En það var bara góð hugmynd þetta með þjóðstjórnina, það sáu það allir. Meira segja Steingrímur hjá Vinstri grænum og það segir sitt um hve augljóslega góður kostur það var.
Af hverju vildi Þorgerður Katrín ekki þjóðstjórn?
Sjálfstæðismenn í sjokki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:21 | Facebook
Athugasemdir
Neyðarstjórn, utan þings manna/kvenna, strax, er eina úrræðið í stöðunni.
Nýtt lýðveldi. Síðan og þá er kominn grundvöllur til að koma á kosningum, ekki fyrr.
Flokksklíkurnar og ósóminn, sem hefur þrifist í skjóli þeirra, þurfa sem fyrst að heyra fortíðinni til.
Nýtt og öðruvísi og jafnframt betra Ísland, er eina vonin.
Kolbrún Bára (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 22:48
*Af hverju er ekki nú þegar "Þjóðstjórn"?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 23.1.2009 kl. 23:00
Tek undir þetta allt og vil bæta við einni röksemd sem mér finnst veigamikil.
Krafa um kosningar í vor er aðeins viðbótarkrafa mótmælendanna. Meginkrafan er að stjórnin víki. Hitt hefur ekki verið skilgreint nægilega og það er að sjálfsögðu krafa um neyðarstjórn sem vinni í tenglum við starfandi Alþingi. Stór hluti kjósenda treystir ekki neinum stjórnmálamönnum til að vinna óháðir og af heilindum við að upplýsa spillinguna í bönkunum og skipta um starfsmenn Seðlabanka og fjármálaeftirlits. Trúverðugleiki þjóðarinnar á vettvangi alþjóðasamfélagsins er þrotinn og að miklu leyti af þessum orsökum. Aldrei sem nú er það okkur lífsnauðsyn að ná honum til baka.
Að því ógleymdu að ef ekki kemst á kyrrð í samfélaginu er það ávísun á stórslys.
Árni Gunnarsson, 23.1.2009 kl. 23:32
Ég held ég taki undir með þessari grein sjálfstæðismanns í Kópavoginum sem má lesa á eftirfarandi slóð : http://baldur.xd.is/
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 23.1.2009 kl. 23:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.