Flaustursverk

 Ríkisstjórn Íslands hefur sýnt bæði almenningi á Íslandi og stjórnarandstöðuflokkum lítilsvirðingu frá því að það rann upp fyrir henni og öðrum Íslendingum hversu alvarleg staðan er. Fréttaflutningur til okkar hérna á Íslandi yfir hvað er að gerast og hvernig ástandið er kemur ekki frá þeim sem ættu að segja okkur það heldur frá því sem við lesum í erlendum vefmiðlum.

Núna er Ísland á forsíðu BBC, þar er þessi frétt: Iceland moves to aid economy

Ég vona að það sé unnið vel núna að lausnum en ég er ekki viss um það. Ég er ekki viss um það vegna þess að ég veit að verk sem eru unnin á síðustu stundu án þess að  þeir sem stýra vinnunni hafi innsæi eða sérþekkingu til að leysa slík mál eru líkleg til að vera flaustursverk. Ég held ekki að fólk sem áttaði sig fyrir minna en mánuði síðan á stöðunni á Íslandi þrátt fyrir að vera stjórnvald sem á eðli málsins samkvæmt að sinna þessu sé ekki vel fært um að stýra vinnu sem varðar lífskjör allra Íslendinga næstu árin. Það er bara hálfur mánuður síðan að forsætisráðherra neitaði að hér væri kreppa og kallaði ástandið mótvind. Það er bara hálfur mánuður síðan menntamálaráðherra sagði í viðtali í Ísland í dag að það hefði ekkert verið rætt í sambandi við aðkomu ríkisins í bankamálum (sjá viðtalið hérna Menntamálaráðherra í ísland í dag  15. september 2008 þrátt fyirr að þá þegar væri alveg ljóst í hvert stefndi og bankakerfið væri að hrynja í hinum vestræna heimi og nágrannalöndin væru að hefjast handa. 

Hvers vegna er eins og íslenska ríkisstjórnin sé núna fyrst að hefjast handa og geri það inn í lokuðum herbergjum ráðherrabústaðarins, geri það án þess að ræða við stjórnarandstöðu og almenning. Er  ríkisstjórnin óvinur íslensku þjóðarinnar?  Finnst þeim engu varða um að við fylgjumst með og fáum að vita hvernig staðan er? Er aðalmálið að segja eitthvað eða segja ekki eitthvað í útlöndum til að gengi íslensku krónunnar hrynji ekki meira og til að fólk í Bretlandi taki ekki peninga sína út úr bönkum Kaupþings þar í landi?

Ég held ekki að það sé hægt að taka ákvarðanir um framtíð íslensku bankanna og binda gríðarstórar upphæðir okkar íslendinga nema við almenningur á Íslandi séum með í ráðum og fáum upplýsingar um hvað er að gerast. Ég held að það geti vel verið að nú sé verið að vinna mikið flaustursverk.

Það versta sem gæti gerst á Íslandi úr þessu væri svo hyldjúp gjá myndaðist milli stjórnvalda og almennings að  stjórnvöld líti á almenning á Íslandi sem sinn stærsta óvin. Það er mjög mikilvægt í þeim þrengingum sem eru framundan að fólk hérna á Íslandi viti hvað er að gerast og hvers vegna landið er komið í sömu aðstöðu og land sem þarf að greiða geysilega miklar stríðsskaðabætur.

 


mbl.is Fjölgar í Ráðherrabústaðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hrollvekjandi orð mælir þú og alls ekki úr takti við raunveruna, því er nú miður, Salvör.

Kannski er það nú svo orðið, að sú menning sem hér hefur verið allt of mikil lenska, að biðjast aldrei afsökunar á mistökum sínum og *alls ekki segja af sér embætti* (=taka ábyrgð á gerðum sínum) leiddi til þess að bæði stjórnvöld og seðlabanki eru ótrúverðugri en nauðsyn er.

Ummæli bankastjóra Glitnis um að nú ættu lífeyrissjóðirnir að koma að þessum laskaða banka eru á sömu bókina lærð. Eiga þeir sem keyrðu nútíð okkar í strand að leika sér að framtíð okkar líka?

Ég segi eins og Þorvaldur Gylfason: Bráðan vanda á að leysa þannig, að fyrst á að höggva á gamla og fúna hnúta. Og alls ekki að snerta á lífeyri okkar!

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 5.10.2008 kl. 23:24

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Salvör ég er sammála þér að það mætti alveg upplýsa almenning meira um hvað sé í pípunum, en hinsvegar finnst mér meira vit í því að fundartími sé nýttur með Jóni Steinssyni og Jóni Sigurðssyni, sérfræðingum og reynsluboltum úr fjármalalífinu og aðilum vinnumarkaðar heldur en Guðna Ágústssyni og Steingrími J.  Mbk,  G

Gunnlaugur B Ólafsson, 5.10.2008 kl. 23:45

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það er vissulega mikilvægt að nýta tímann með sérfræðingum. Það hefði nú átt að vera ríkisstjórninni ljóst fyrir löngu í hvað ástandið stefndi og hún hefði átt að vinna heimavinnu sína í því m.a. með að vera löngu búin að kalla til sérfræðinga.

Hins vegar veit ég ekki hvort að ríkisstjórnin áttar sig á því að það góða og friðsama andrúmsloft sem er á Íslandi þar sem fólk skylmist með orðum er ekki náttúrulögmál. Það er vel þekkt úr sögunni að einmitt á svona tímum þegar kjör almennings snarversna skyndilega þá getur komið upp mikil ólga - svo mikil að það liggur við borgarastyrjöld. Það er mikilvægt markmið að sætta almenning við það sem er að gerast og fá fólk til að skilja hvers vegna ríkisstjórnin þarf að grípa inn í . Kannski er það mikilvægasta markmiðið. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 6.10.2008 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband