Börnin áður

Öldruð frænka mín sagði mér frá hvað allir voru hissa þegar drengirnir birtust, enginn hafði vitað af tilveru þeirra. Nágrannakona leyfði drengjunum að vera þegar maðurinn stjúpfaðir þeirra var heima. Hann koma alltaf heim í hádeginu og hann þoldi ekki drengina, þeir máttu ekki vera á heimilinu þegar hann var heima.  Fengu þeir að koma inn til að sofa? Ég gleymdi að spyrja frænku mína að því. Alla vega voru þeir þarna á heimilinu þangað til móðirin kom þeim aftur í fóstur. Móðir drengjanna er löngu dáin og þeir eru líka dánir,  hún  fæddist fyrir meira en einni öld og ólst upp að ég held einhvers staðar á Austurlandi. Hún fór til Reykjavíkur og giftist þar. Einn daginn birtust drengirnir, sá yngri 8 ára held ég. Þeir voru sendir til konunnar frá æskuslóðum hennar, ég held þegar foreldrar hennar dóu og enginn var til að hugsa um þá lengur þar. Hún hafði ekki sagt manninum sem hún giftist  frá drengjunum. Hún skildi og giftist seinna ekkjumanni og tók að sér að búa hans börnum heimili.

Ein af þeim jólabókum sem mig langar til að lesa er bók Péturs Gunnarssonar  ÞÞ í fátækralandinu.Ég las ritdóm Þórdísar Það er líka hægt að búa sig til“ og umfjöllun Guðmundar Þórbergsbók: Á mærum skáldskapar og fræða og  dóm Sigurðar Þórs  Ævisaga Þórbergs: Sigurður Þór ósáttur

Rithöfundar skilja eftir sig mikið efni sem er saga um samtíma þeirra og viðhorf þeirra og lífstíl. Sumir rithöfundar eins  og Þórbergur  skrifa mikið um sjálfa sig og hann notar stundum fólk úr fjölskyldu sinni og umhverfi sem viðföng í list sinni. Ég skrifaði fyrir nokkrum árum (14.1.03) blogg um rit hans Sálmurinn um blómið, ég lími það inn hérna:

Sálmurinn um blómið

Þórbergur Þórðarsson skrifaði bókina Sálminn um blómið um litla stelpu. Eða kannski var hann bara að skrifa bók um sjálfan sig og barnið var þar sögupersóna til að uppgötvar veröldina í gegn um gamlan mann (Þórberg). Svo var bókin líka eins konar ritdeila á keppinautinn Halldór Laxness og skáldsöguformið. Þórbergur var mest fyrir sannar sögur. Þórbergur kallar stelpuna í sögunni alltaf litlu manneskjuna. Þessi stelpa var til í alvöru og heitir Helga Jóna Ásbjarnardóttir. Ég man eftir viðtali við hana fyrir mörgum árum í Morgunblaðinu. Það var víst ekkert skemmtilegt fyrir hana að vera þessi litla manneskja eftir að bókin kom út.

Ég veit ekki hvort hún hafi verið spurð hvort hún vildi vera þessi litla manneskja í þessari bók sem var um barn en var kannski mest fyrir fullorðna. Kannski er þetta það sama og raunveruleikasjónvarpið núna hálfri öld seinna. Í myndinni Hlemmur er brugðið upp svipmyndum af fastagestum á þessum áfangastað og fylgst með lífshlaupi þeirra um stund og reyndar líka dauða. Fyrir skömmu birtist í DV bréf frá móður og öðrum aðstandendum eins af Hlemmbúum í myndinni , titillinn var Niðurlæging út fyrir gröf og dauða og var þar deilt á upptökur og viðtöl við veikan mann.

Ég fór í fyrra á ljósmyndasýningu Mary Ellen Mark á Kjarvalsstöðum. Ég held að bók Þórbergs, kvikmyndin Hlemmur og ljósmyndir Mary Ellen eigi það sameiginlegt að vera ekki skrifaðar af og fyrir þann hóp sem er viðfang í þessum bókum, þetta eru verk sem eru skrifuð fyrir þá sem standa fyrir utan heim barnsins, flækingsins og fíkniefnaneytandans. Er þessi verk raunveruleiki eða einhvers konar sannleikur? Ég held að sá sannleikur sem felst í þessum verkum er kannski fyrst og fremst sannleikurinn um hvernig þeir sem skrifa söguna eða búa til myndverkin líta á þessa heima.

Annars er gaman að spá í hvernig fólk sér mismunandi hluti út úr skáldverkum, Birgir segir að Þögnin eftir Vigdísi Grímsdóttur sé Sálmurinn um blómið á hvolfi og segir: "Amma Lindu kallar hana í sífellu litlu manneskjuna en það er sem kunnugt er alþekkt hugtak úr bók Þórbergs Sálminum um blómið. „Litla manneskjan“ gengur eins og eins konar leiðarstef gegnum bókina.." Svo segir Birgir að með þessu birtist rýni sögu­höfundar á kynbundnum muni bókmenntanna, að karlar séu í eðli sínu sögumenn en konur upplifi án þess að miðla. Sobbeggi segir frá sálmi og blómi, Linda upplifir „sálma“ og blóm gegnum ömmu sína og þögn hennar. Ég hlustaði einu sinni á Dagnýju Kristjánsdóttur segja frá Þögninni og þar túlkaði hún þetta sögu sem fjallar um illsku, valdbeitingu og geðklofa.

Held ég sé ekki er sammála Birgi um þessa túlkun á kynbundnum mun á bókmenntum, held hann sé eins og margir aðrir að leita að staðfestingu á sínum eigin viðhorfum í sögnum. Hér dettur mér í hug að ein umtalaðasta bókin í ár heitir RÖDDIN og er sakamálasaga eftir karlmann. Sakamálasögur eru eins konar óður til valdsins og kerfisins og viðhalds einhvers konar stjórnsýsluvaldakerfis, kannski er svoleiðis saga andstæða við bók eins og ÞÖGNIN sem er það innhverfasta af öllu innhverfu, píslarganga kraminnar sálar

 Ég tek núna eftir að einmitt í ár eru þessir fjórir listamenn sem ég fjalla um í þessu gamla bloggi í sviðsljósinu, Þórbergur sem sögupersóna í bók Péturs, Mary Ellen með ljósmyndabók um fötluð börn á Íslandi og Arnaldur með bókina Harðskafl og Vigdís með bókina Bíbi. Ég ætti kannski að tengja þau aftur saman og spá í mynstrinu í þessum bókum.

En það sem ég hef mestan áhuga á að lesa um í fátækralandinu er hvaða áhrif fjölskylda Þórbergs, sérstaklega kona hans  þroskar hann eða hamlar vexti hans sem listamanns og hvernig hann reyndist fjölskyldu sinni.  Ég hef áhuga á því að vita hversu vel hann reyndist dóttur sinni og stjúpbörnum sínum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ftaekralandid?

Barattan um braudid?

Stattu thig, drengur?

fuglarnir i breidholtinu / mikael Torfason? svo .. Truntusol eda

Heimsljos .. !

djok.

ef einhver vill heilsteypta bok um thetta erindi .... tali vid Hodda Feita.

Harmsaga aevi minnar vaeri djok ef hun vaeri ekki stundum Real.

Hc

staddur a morkum austurs, vesturs, sudurs og austurs (Maribor) ..

 ..

aldrei nota

Hc (IP-tala skráð) 19.12.2007 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband