27.4.2007 | 20:50
Rustalegt Kastljós hjá Helga Seljan
Fjölmiðlar og fréttaskýringarþættir eru vissulega vald í samfélaginu og gott aðhald fyrir stjórnmálamenn. Það er gott að fólk sem stýrir umfjöllun þar sé ekki á mála hjá stjórnmálaflokkum og upplýsi almenning um hvað er að í stjórnsýslunni og krefji þá aðila sem eiga að bera ábyrgð svara á gerðum sínum.
Þannig er það með Jónínu Bjartmarz. Hún ber ábyrgð á umhverfismálum sem umhverfisráðherra og hún ber ábyrgð á gerðum Alþingis sem þingmaður. En hún ber ekki ábyrgð á því sem nefnd sem hún situr ekki í gerir. Það er sjálfsögð krafa okkar til fjölmiðlafólks að það fólk þekki til eða kynni sér stjórnsýsluna og vinnureglur þar og bjóði okkur ekki upp á skrípaleik fjölmiðlafólks eins og þá tilburði sem Helgi Seljan sýndi í Kastljósinu núna áðan. Framkoma hans við Jónínu Bjartmarz var afar ruddaleg og miðlaði engu til mín sem áhorfanda. Það er ekki Jónína sem á að svara fyrir afgreiðslu alsherjarnefndar. Það eru þeir sem stóðu að þeirri afgreiðslu. Það var fáránlegt að hlusta á fréttamanninn reyna að gera það tortryggilegt að Jónína leiðbeindi erlendri tengdadóttur um hvernig hún ætti að reyna að komast inn í íslenskt samfélag. Auðvitað hefur Jónína og/eða maður hennar (þau eru bæði lögfræðingar) hjálpað tengdadótturinni með að útbúa umsókn til alsherjarnefndar, skárra væri það ef fjölskyldan hjálpaðist ekki að við slík mál.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta mál er Rúv og Helga til skammar og það ætti að vera skýr krafa um afsökunarbeiðni frá þeirra hendi til Jónínu og hennar fjölskyldu. Að fjölmiðill sem vill láta taka mark á sér fari að dreifa órökstuddum óhróðri um fólk korteri fyrir kosningar er klárlega misbeiting valds.
Guðmundur Ragnar Björnsson, 27.4.2007 kl. 22:52
Ég mæli með hugleiðingum Péturs Tyrfingssonar um málið
Gestur Guðjónsson, 27.4.2007 kl. 23:03
Lítt þroskaðir krakkar eins og Helgi Seljan eru notaðir til þess að grafa undan Ríkisútvarpinu og eyðileggja það. Innan frá. Þetta er einfaldlega mín skoðun ...
Hlynur Þór Magnússon, 28.4.2007 kl. 01:50
Þau fór bæði að vissu leyti yfir strikið enda var þetta orðið hörkuriflildi. Þó mátti skilja frustrasjón Helga varðandi að reyna að fá svar við spurningunni hvað það var sem réði því að stúlkan fékk þess undanþágu. Ég myndi gjarnan vilja vita það líka.
Eins finnst mér við afar barnaleg ef við höldum að engin spilling leynist neins staðar í íslenskum stjórnmálum og annars staðar þar sem fólk hefur völd og áhrif. Það gæti verið þunn lína á mili þess að hálpa, leiðbeina og yfir í að vera farin að beita áhrifum sínum. Þess þá heldur er afar mikilvægt að allir stjórnmálamenn fari varlega, haldi sig klárlega fyrir utan ef einhver ættar- eða vinatengsl eru. Spilling í stjórnmálum er óþolandi og á ekki að líðast.
Kolbrún Baldursdóttir, 28.4.2007 kl. 09:52
Vel mælt Salvör - takk fyrir þennan pistil.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.4.2007 kl. 11:38
Jónína klúðraði algjörlega sínum málflutningi, eingöngu með skammir út í fréttamanninn og kom sér hjá því að svara réttmætum og einföldum spurningum sem almenningur vill fá svör við. Greinilega ekki með hreina samvisku í þessu máli.
Jón Sigurðsson (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 11:42
Jón þætti þér eðlilegt að upplýsingar um einkamál tengdadóttur þína færu fyrir alþjóð sem svo smjöttuðu á því daginn út og inn. Þeir sem reynt hafa það álag sem því fylgir að verið sé að tala út og suður af engri þekkingu um mál manns með úthrópunum og stundum svívirðingum, óska ekki öðrum þess, séu þeir sanngjarnir.
Gestur Guðjónsson, 28.4.2007 kl. 12:07
Ég las góða grein sem Pétur Tyrfings skrifaði og þykir mér hún hin mesta skynsemd! Sjá síðuna hans peturty.blog.is
www.zordis.com, 28.4.2007 kl. 14:24
Það má vera að Helgi Seljan hafi dansað á línunni í Kastljósi gærkvöldsins en hann á samt sem áður hrós skilið fyrir tilraun sína til að lyfta sjónvarpsviðtölum við íslenska stjórnmála menn upp úr þeim dúkkuleik sem þau venjulega eru.
Bjarni Þór Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 14:40
Stúlka frá Guatemala fær ríkisborgararétt eftir aðeins fimmtán mánaða dvöl í landinu og alþingismenn í Allsherjarnefnd koma fram fyrir alþjóð og segjast hafa samþykkt umsóknina án þess að vita um heimilisfesti hennar og hjá hvaða fólki hún býr.
Hvað ef hún hefði leigt hjá Hjálpræðishernum eða dvalið í íbúð á vegum eigenda Goldfingers?
Hún hefði að sjálfsögðu ekki fengið ríkisborgararétt nema vegna þess að hún var heimilisföst á góðu heimili og hjá fólki sem þingmennirnir treystu.
Eitt sinn var ég að aðstoða útlending sem haði búið hér í mörg ár og er frá landi sem mátti búast við að yfirvöld myndu refsa honum kæmi hann aftur til föðurlandsins.
Hann er verkfræðingur og hafði þá unnið sem slíkur allan dvalartímann ( fimm ár) og hafði úrvals meðmæli frá vinnuveitanda sínum.
Þá var hann þjálfari í jaðaríþrótt sem þá var hér á landi en er núna viðurkennd í mörgum félögum og við höfum eignast afreksmenn í henni á alþjóðlegan mælikvarða.
Hann hafði sjálfur orðið heimsmeistari í greininni og gott ef ekki Ólympíumeistari líka.
Allt kom fyrir ekki.
Hann bíður í sjö ár eins og aðrir frá þessum heimshluta og formaður nefndarinnar frú Sólveig Pétursdóttir var gallhörð á því.
Nefndin hafði þó kynnt sér öll gögn varðandi málið.
Nú fær áðurnefnd stúlka frá Guatemala ríkisborgararétt eins og forsetafrú eða fyrrum heimsmeistari í skák meðan fjölmargir aðrir fá synjun.
Tengdamóðir stúlkunnar þrætir fyrir að hún hafi talað við nefndarmenn, vinnufélaga sína og bendir á að nafn hennar sé hvergi á blaði varðandi umsóknina (nema hvað).
Bjarni Benediktsson og Guðrún Ögmundsdóttir koma af fjöllum og skilja ekki þessa tortryggni. Þau hafi verið grunlaus um tengslin!
Segi þau satt eru þau öll að bregðast umbjóðendum sínum við þær skyldur sem þeim er treyst til.
Er einhver þessara þriggja fulltrúa jafnmargra flokka að segja satt?
Eða hvað?
Heimir Lárusson Fjeldsted, 28.4.2007 kl. 18:52
Ríkisborgara réttur eftir rúmlega árs dvöl. Það þarf enginn að efast um það að þetta, er mjög óeðlileg.
Kristján Sigurjónsson, 29.4.2007 kl. 08:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.