Framsókn og mykjudreifarinn

Það er mjög algengt að sjá í umræðunni á Netinu alls konar eitraðar pillur út í Framsóknarmenn og meinta spillingu þeirra og  þegar Framsóknarmenn leggja út í kosningabaráttu þá er það uppnefnt og kallað  að gangsetja mykjudreifarann (dæmi hérna). Svo eru endalaust einhverjir brandarar um traktora og spunameistara.

Mér finnst þetta dáldið fyndið og ég kann vel við mig að tilheyra ofsóttum minnihlutahóp sem þarf að þola hróp og háðsglósur frá lýðnum.  Ég hef líka töluverða reynslu í þessu, svona var þetta þegar ég gekk femínismanum á hönd  í netumræðunni, þá varð ég samstundis loðin og mussuleg. Það skiptir engu máli þó ég hafi alltaf haft minni hárvöxt en Njáll á Bergþórshvoli og hafi orðið að teikna á mig augabrúnir, ef maður er femínisti er maður loðinn og ef maður er framsóknarmaður er maður spilltur og það sem maður leggur til í opinberri umræðu er sagt vera út úr mykjudreifara.

Svo verður píslarvættið á okkur Framsóknarmönnum ennþá meira núna þegar meintir umhverfisverndarsinnar ganga berserksgang og skemma fínu auglýsingaskiltin sb. þessa frétt á RÚV í dag:

 

Skemmdir á Framsóknarskiltum

Skemmdir voru unnar á auglýsingaskiltum Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi á Egilsstöðum í nótt sem leið.

Enska orðið "Damnation" var málað yfir mynd af frambjóðendum flokksins í kjördæminu og er einn af þeim Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra. Erlendir andstæðingar virkjana hafa notað orðið "Damnation" í aðgerðum sínum gegn Kárahnjúkavirkjun.

Framsóknarflokkurinn harmar að reynt sé að hafa áhrif á kosningabaráttuna með þessum hætti í Norðausturkjördæmi og skorar á þá sem standa fyrir þessum skemmdarverkum standa að koma fram opinberlega og mæta frambjóðendum Framsóknarflokksins í umræðum um atvinnumál, byggðamál og vistvæna orkunýtingu á málefnalegum grunni.

 

 Svona skiltaskemmdir eru nú ekki beint málefnaleg umræða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Sæl  Salvör 

þetta  er ekki  barátta .... þetta  er  OFBELDI  með  öðrum  orðum neðsta plan enn áttum  okkur  á því  að   það plan  er ansi  þétt setið

Gylfi Björgvinsson, 25.4.2007 kl. 21:59

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Svona vinnbrögð eru engum sæmandi og lýsa vanþroska. Ég hef stundum látið í ljós þá skoðun að Framsóknarflokkurinn fái verri viðbrögð en samstarfsflokkurinn vegna þess að fólkið hafði aðrar og betri væntingar til hans. Mikil og sár vonbrigði geta valdið illa yfirveguðum viðbrögðum. Sjálfur álít ég að Guðni, Jónína og Bjarni Harðarson geti búið til góðan flokk og ólíkan því -að mínu mati skelfilega fyrirbæri íslenskra stjórnmála sem flokkurinn er í dag. 

Árni Gunnarsson, 26.4.2007 kl. 08:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband