Sagan af Ásgeiri iðnnema árin 1668 til 1673

Snedker_i_arbejde2
Hér er frásögn af iðnnámi íslensks pilts á sautjándu öld, hann hét Ásgeir Sigurðsson og var 18 ára þegar hann sigldi út til Kaupmannahafnar árið 1668 og var þar í snikkaranámi en svo kallaðist trésmíði og því námi lauk hann 1673. Grípum niður í sögunni þegar Ásgeir er kominn til Kaupmannahafnar og hefur námið:

Þann 2. Januarii  fékk ég húsbóndaskipti. Kom ég þá til að læra snikkarahandverk, fyrir tilhlutan þessa kaupmanns, eptir  minni bón, því eg hafði lyst þar til. Þessi snikkari  hét Hans Hildebrand, en konan Margreta Byonings. Voru þá lesnar fyrir mér lífsreglur, hversu ég skyldi  halda mig á mínum læriárum, sem var  fyrst: 

ég skyldi læra í hálft fjórða ár, og gefa þar til 20 dali  slétta; ég skyldi gera allt það, sem minn húsbóndi,  eða mín matmóðir, befalaði mér; ég skyldi enga nótt vera út af þeirra húsi, annars skyldi sá tími engu reiknaöur vera, sem ég hefði þangað til  verið; ég skyldi ekki mega ganga út af húsinu, hvorki um sunnudaga né rúmhelga utan leyfis; ég skyldi ekkert kaup fá í það hálft fjórða ár, eður klæði, utan matinn alleina; ég skyldi ekki ganga í sæng fyr en mér væri skipað, en skyldi fara á fætur, þá klukkan væri  4 (2 stundum fyrir miðjan morgun), með þeim öðrum fleirum póstum, sem varla nenni skrifa. Þetta  mundu þykja hörð lög í voru landi við vinnufólk  sitt. 

Fotothek_df_tg_0008490_Ständebuch_^_Stand_^_Handwerk_^_Beruf_^_Zimmermann2
Þessum skilmálum varð eg öllum að játa, og  þar til lofaði Ísak Klomann að standa til rétta, ef ég hlypist um, sem hans handskript útvísar, og hjá mér liggur. Síðan tók mitt ánauðarok að vaxa dag frá degi. Ég hugsaði þá opt til foreldra minna, þó mig lítið stoðaði.  Eg fékk þá högg og slög upp á hvern dag, stundum af mínum tilverknaði, en stundum fyrir litla eður enga sök. Mat og drykk þóttist ég ekki hafa meir, en ég þurfti, en erfiði og ill orð nóg, lét þó ei mikið á mér festa, því eg þenkti að hefna, þá eg hefði útlært, en stór raun var mér að því, að ég mátti ekki slá, þegar ég var sleginn, og gerði eg það meir fyrir ísaks Klomanns orð og hans konu, en mitt stöðuglyndi, því þau báðu mig að é skyldi líða það með þolinmæði; þar með sendi mér  sú ehrugöfuga kvinna mat á laun, og lét segja mér, að ég skyldi koma til sín, þá eg kæmist út, hvað ég forsómaÖi. 

Anno 1670 varð ég hættulega krankur af köldu, svo að eg hélt mig deyja, hvar af ég gladdist, því  þá hefðu mínar eymdarstundir enda fengið, en drottinn vildi ei hafa það svo.Ég fraus aðra stundina, svo ég skalf upp og niður, þó ég sæti kringum kakalóninn, en aðra stundina svitnaði  ég; þó eg gengi út á strætinu á einni skyrtunni, þá rann vatn ofan eptir andlitinu. Ó, hvað undarlegur krankleiki er þetta!  Það veit gerst sá reynir. Þennan banvæna krankleika hafði ég heilar 14 vikur. En hvað eg hlaut að líða  á þeim tíma, er guði kunnugast, því þá eg lagði mig  fyrir, var eg sleginn á fætur aptur. Ég átti enga vini  eða náunga, sem ég kunni að klaga mína neyð fyrir. Það fleira, sem ég leið á þeim læriárum, sem ég var hjá þeim ómilda þjón, nenni eg ekki um að  skrifa, en það hans konu áhrærir, þá var hún í öllu því, hún gat, mér á móti, í tillögum og áeggingum, því ég vildi ei vel  parere (hlýðnast)  henni, þá hann var ei við.
 
Fotothek_df_tg_0008599_Ständebuch_^_Beruf_^_Handwerk_^_Tischler2
Anno 1671 þann 1. Martii lagðist þessi minn lærimeistari krankur, hvar við ég gladdi mig, að hann mundi deyja. Skipaði hann mér þá að smíða sæng fyrir einn herramann, og skyldi ég saga stólpana með þeim öðrum dreng, sem mér var samtíða hjá honum og hét Pé tur, hvað við og gerðum, og þá við vorum að saga, duttum við ofan af hefilbekknum  og brotnaði í sundur sængin. Þetta þrusk heyrði hann, þangað sem hann lá. Var eg þá kallaður fyrir hann.  Spurði hann mig þá að, hvað að gengi, en ég sagði, sængin hefði brotnað sundur. Hann sór þá, að nær sem hann kæmist á fætur aptur, skyldi hann brjóta  svo í okkur beinin, sem við hefðum brotið sængina. 

Eptir það báðum við af hjarta, að guð léti hann  ekki komast á fætur, hvað og skeði, að hann dó þann  5. Martii. Hafði ég þá verið hjá honum hálft þriðja ár, en átti eptir eitt. Var ég þá svo sem sloppinn úr fjötrum, því ég hafði þá ekki neitt að óttast.  Hún varð þá að líða og umbera, hvort ég erfiðaði henni eða mér, og launaði ég henni þá aptur það, sem hún hafði mér áður gert. Sex vikum síðar giptist hún aptur öðrum snikkara, sem hét Hans Jörgen Bakar, háþýzkur, ættaður úr Scopinlandi. Hann var mér góður meistari. Hann gaf mér mitt læribréf.

Fotothek_df_tg_0008600_Ständebuch_^_Handwerk_^_Beruf_^_Zimmerei_^_Zimmerer_^_Tischler2
Anno 1672 fékk eg bréf frá íslandi, frá móður minni, að faðir minn væri afgenginn (dáinn), hvað mér var lítil gleði að heyra. Þenkti ég þá að koma aldrei  til íslands meir. Anno 1673 var ég skrifaður laus úr mínum læriárum, og meðtók ég mitt læribréf. Anno 1673, þann 13. Apr (ilis) sór ég mig í stallbræðralag við einn danskan snikkarasvein, sem hét Matthías. Tókum okkur svo far hjá einum skipherra að Dantzig í Polen (Danzig var fríríki í tengslum við Pólland) Þessi skipherra hét Hans Fox, danskur að ætt og bjó í Kaupmannahöfn. 

1673 þann 28. Apr. gengum vér til segls frá  Kaupmannahöfn, höfðum þaðan góðan vind og komum 30. Apr. til Dantzig. Þar fékk eg meistara, sem hét Jacob Ef f e r t. Hjá honum var ég 3 vikur, og féll slétt á með okkur, því að ég flaugst á við hann, þá ég skyldi hafa haft mína peninga, og fékk þá svo með harðri hendi. Síðar fékk ég annan meistara, sem hét Pétur Kleinsorg. Hjá honum var eg 6 vikur og féll mér vel. Síðan kunni minn stallbróðir ekki að forlikast við sinn meistara. Reistum við svo báðir í burt og upp í Polen til eins staðar, sem heitir Stolps 7 mílur frá Dantzig. Þaðan reistum við að höfuðstaðnum í Polen, þar sem kóngurinn er sjálfur. Þar var ég í einu brullaupi, sem mér bar margt fáséð fyrir augu, bæði háttalag og hegðan fólksins. í þessum stað sá eg fyrst, að sagirnar söuðu sjálfar svo þykkt og þunnt, sem maður vildi hafa. Þar vorum við í 3 vikur, en höfðum þó engan húsbónda.
 
Landauer_I_142_r-klippt
 Heimild:

Ferðasaga  Asgeirs snikkara Sigurðssonar  frá 17. öld. Blanda, 15-18. Hefti (01.01.1932) http://timarit.is/view_page_init.jsp?gegnirId=000504803
 
Myndir eru úr Wikipedia Commons, myndir af snikkurum á sama tíma og Ásgeir var í snikkaranáminu. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Mjög skemmtileg frásögn!

FORNLEIFUR, 19.12.2011 kl. 23:55

2 Smámynd: Hörður Halldórsson

Fróðleg grein.

Hörður Halldórsson, 20.12.2011 kl. 07:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband