Vitni að Hruni

Í gær fór ég í Hörpu í fyrsta sinn. Þar var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn með ráðstefnu, ráðstefnuna Iceland's Recovery. Ég fór vegna þess að ég vildi hlusta á Krugman og fleiri ágæta fræðimenn tjá sig um íslenskan veruleika og ég fór sem andófsmaður, í andófi  gegn kasínókapítalisma  og þeim hækjum sem hann styðst við.  Ég fór líka vegna þess að ég vil taka þátt í að afhjúpa blekkingu, blekkingu um að allt sé á uppleið á Íslandi og það hafi tekist að ná tökum á "vandanum" með aðferðum og hugmyndafræði IMF.  

Ráðstefnan eða sá hluti hennar sem ég sat (eftir hádegi) kom á óvart. Ekki glærusýningar með stöplaritum úr hagtölum, Ekki  heldur ávarp Steingríms Sigfússonar fjármálaráðherra,  þar kom ekkert á óvart nema hvað hann færði IMF miklar þakkir fyrir veitta aðstoð og hvað hann eyddi miklu púðri í að segja hvað honum þætti sárt að  allir kröfuhafar og innistæðueigendur hefðu ekki fengið bætt upp í topp og hvað Ísland ætti ekki að vera fordæmi því þetta mál væri allt svo leiðinlegt, menn sem ríki ættu að borga skuldir sínar. Orðræða Steingríms var eins og hann hefur talað síðan hann komst til valda nema hann er kokhraustari núna, í staðinn fyrir "við-í-miðju-björgunarstarfinu" er kominn tónninn "við-erum-búin-að-ná-tökum-á-vandanum".

En það kom á óvart hvernig sumir töluðu og orðræða þeirra endurómaði varnaðarorð yfir kerfi sem ekki er í lagi, kerfi sem getur sprungið þá og þegar með miklum hvelli. Og þá var ekki verið að tala um neitt íslenskt hrun. Þannig var Simon Johnson afar áhugaverður, hann áttar sig vel á stöðu Íslands og hefur fylgst vel með hvað hér er að gerast og hann áttar sig líka vel á stöðu  hagkerfa heimsins í dag. Það sem hann sagði var grafalvarlegt en hann sagði það með hárfínum húmor þannig að þau aðvörunarorð sem hann hrópaði út í salinn voru eins og glettni.

Hann sagði m.a. "Only the Paranoid will survive" í þeirri merkingu að það sé mikilvægt að gera ráð fyrir þeim möguleika að allt fari á versta veg (worst case scenario) og hann fór með salinn inn  í heim samtíðarmanna í    heimskreppunni miklu og  hvernig fólk hefði þá haldið að kreppan væri búin áður en hún skall á ennþá alvarlegri og hvernig það hefði verið vanmetið á þeim tíma hvernig hagsveiflurnar berast út um kerfið. Bæði  Simon Johnson og Paul Krugman lýstu áhyggjum á hvað gæti gerst ef brotlending yrði í evrulandi og hvaða áhrif sú brotlending gæti haft á USA og þar með heimshagkerfið.

Það var ekkert minnst á Kína á þessari ráðstefnu, nema það kom fram að allt benti til að IMF myndi flytja höfuðstöðvar sínar til Kína fyrr en seinna því sjóðurinn þarf skv. skipulagsskrá að vera staðsettur þar sem hagkerfið er stærst. Þó það hafi ekkert verið rætt þá velti ég fyrir mér hvaða áhrif það hefur fyrir kínverskt hagkerfi ef USA brotlendir. Gríðarlegir fjármunir frá Kína eru bundnir í USA og raunar fjármagna USA stjórnvöld sig núna á kínversku fé. 

Það var hollt að fá greiningu utanaðkomandi á Íslandi og m.a. kom fram hve lítið útflutningur frá Íslandi breytist þó aðstæður hafi verið útflutningi afar hagstæðar. Það sé vegna þess að  2/3 hlutar útflutning séu ál og fiskur og þar ráðist útflutt magn ekki af efnahagsaðstæðum hérna.  Þessi framleiðsla er þannig að það er ekki hægt að gera eins og sumum öðrum greinum, framleiða meira  og meira ef það er hagstætt verð (leyfilegur veiddur fiskur er fast magn og kvótinn ræðst ekki af því hvað fæst mikið í evrum eða dollurum fyrir fiskkílóið). 

Það var líka athyglisvert að sjá og finna hvað hagfræðingar lesa mismunandi í stöðuna og eru ekki allir á sama máli um aðferðir. Sumir  þeirra eru mjög arrogant og nefni ég þar t.d. Jón Daníelsson sem lítur á sjálfan sig og þær kenningar sem hann boðar eins og  web 2.0  módel í hagfræði (hann notaði sjálfur slíka samlíkingu), nýir og ferskir straumar í takt við tímann. En þegar ég hlusta á Jón Daníelsson þá hlusta ég á róbotahagfræðing úr smiðju þeirrar hagfræði sem aflandseyjan City of London er byggð á, hagfræði sem smellpassar við þannig samfélagsgerð, passar eins vel eins  ráðstjórnarríkjahagfræði passaði við járnbræðslur Sovétsins áður en það kerfi féll saman  í kringum 1989.  Ég gat ekki merkt annað en Krugman væri verulega á öndverðum meiði og ég held að Krugman átti sig miklu betur en Jón Danielsson í þeim brotalömum sem eru í því kerfi sem núna getur hrunið þá og þegar og átti sig líka á því að bak við tölur er fólk og samfélag fólks.

Það stakk mig verulega hve mikill samanburður var á þessari ráðstefnu í máli margra á Írlandi og Íslandi og látið í veðri vaka að Írland hefði gert mistök en Ísland gert það rétta, að láta bankana falla og sjáið bara hvernig fór fyrir Írlandi. Það er ekki svo, það var ekki mögulegt fyrir Ísland að gera annað í stöðunni og sú ástæða sem Bretar og Þjóðverjar hafa fyrir að vilja hneppa íslensku þjóðina í skuldafangelsi vegna netbanka er sú sama og  núna er alls staðar í fjármálakerfum heimsins. Eignir þínar eru sýndarpeningar á reikningum en það má fyrir alla muni ekki fréttast að það sé ekkert á bak við þessar tölur, það má ekki niðurskrifa tapaðar skuldir vegna þess að þá lítur bókhaldið ekki nógu vel út, þá er ekki hægt að blekkja lengur.

En margar skuldir í heiminum í dag eru sýndarskuldir, skuldir sem enginn borgunarmaður finnst að nema að með klókindum og bellibrögðum sé hægt að  koma einhverjum í þannig aðstöðu að honum sé þröngvað til að borga þessa skuld og allra best virkar blekkingin ef hann virkilega trúir sjálfur að hann eigi að borga. Það er því miður alltaf auðveldast að blekkja og hlekkja þá sem eru valdalausastir í orðræðu og þjóðfélagi og þá sem þegar eru í hlekkjum.  Þess vegna taka öflug stjórnvöld (og valdalaus stjórnvöld eins og hin íslensku) þátt í blekkingarleiknum og koma skuldafjötrum á almenning. 

 Vandamál Íra val ljóst alveg frá þeim tímum sem bankarnir féllu á Íslandi.  Í umrótinu þeirra daga sogaðist fé frá útjöðrum evrulands yfir í staði eins og þýskaland eða alls staðar sem peningamenn töldu að þeir væru í vari og mikið frásog var Írlandi og við lá hruni. Stjórnvöld þar brugðu á það ráð að tryggja allar innistæður í bönkum að fullu og höfðu á þeim tíma það traust að það tókst að hemja útflæðið og raunar streymdi fé sem rekið var á flótta annars staðar þá um skeið til Írlands. Það var alveg ljóst öllum sem á horfðu og um það var rætt á efnahagsvefsíðum að fyrr eða síðar kæmi að írskum skuldadögum.

Írar höfðu með þessari aðgerð keypt sér frið um stundarsakir og höfðu til þess traust. Smæð Íslands og stærð íslenskra banka var hins vegar þannig að það var engan hægt að blekkja og hugsanlega munum við sjá það í afturbliki sögunnar þegar lengra líður frá að íslenska hrunið varð á þessum tíma einfaldlega vegna smæðar landsins sem og þess hvernig það var staðsett á jaðrinum. Það var áhugavert og nýtt fyrir mig að einhver erlendu fyrirlesaranna (man ekki hver, minnir Johnson) taldi áhrif af gengismunaviðskipta (carry trade) sem sérstaklega tengdust Íslandi ofmetin, það hefði gerst allst staðar að peningar leituðu úr hinum gömlu miðju Evrópu (Þýskaland) þar sem vextir voru ofurlágir yfir í jaðrana og hann varaði við væntingum ríkja varðandi evruland, þjóðríkin héldu að með því að komast þangað inn þá fengju þau lága vexti en þannig yrði það ekki, þau yrðu þýskaland.

Fyrir utan varnaðarorð Simon Johnson og glögga sýn hans á hagsveiflu nútímans, myntir og  viðskipti landa á milli  þá fannst mér Gylfi Zoega bera af og lýsa vel þeirri tilfinningu sem ég hef gagnvart því sem gerðist og er að gerast  á Íslandi. Paul Krugman mæltist vel eins og ég átti reyndar von á en ég les oft  pistla hans á Nytimes.com  

Þegar íslensk stjórnvöld (já hinn sami Steingrímur og có) reyndu að tjónka við okkur og fá okkur til að kokgleypa Icesave þá var gjarnan notuð orðræða um að við værum á brún hengiflugsins.  Núna tala íslensk stjórnvöld (já hinn sami Steingrímur og có) um að núna séum við á uppleið og búin að ráða við vandann. En þannig var ekki tónninn í lok ráðstefnunnar í Hörpu. Það er alveg ljóst að það er alvarlegt ástand í efnahagsmálum í okkar heimshluta og það getur vel farið kollsteypur og dómínóáhrif þeirra geta orðið ófyrirsjáanlegar og svo stórar að okkur órar ekki fyrir því.  

Þetta var tilfinningin sem ég fékk eftir þessa ráðstefnu. Það getur verið að  þessi samkoma í Hörpu sé  punktur á tímalínu þess ástands sem varir núna,  punktur milli þess ástands sem setti á stað hrun á Íslandi og leysti upp það samfélag sem hér var þá og  þess ástands sem mun vara lengi og setja á stað öldur víða um lönd, öldur  sem höfum ekki aðstæður og tæki til að meta núna hvar muni fjara út. En ef það gerist þá fylgir þeim stóröldum "social disruption",  breytingar á samfélagi sem ekki eru hagfræðilegar og það getur verið byltingar og stríð og breyttar þjóðfélagsgerðir og allt þar á milli. Þó að IMF hafi óumdeilanlega farið mjúkari höndum um Ísland er það hefur gert í öðrum löndum þá er það að endurreisa sams konar hagkerfi og féll saman, hagkerfi sem virkar illa í þeirri samfélags- og framleiðslugerð sem við stefnum inn í.

 

Ef til vill erum við vitni. Vitni að því sem Slavoj Žižek kallar fjörbrot kerfis sem er að eyða sér sjálfu  og við getum í bjartsýni okkar vonað að við taki öðruvísi kerfi, kerfi almenninganna (commons). En það getur líka farið á verri veg.

Slavoj talaði um nýlega á Wall Street mótmælunum með manngerðum endurómi (human microphone) og þá sagði hann :

They tell you we are dreamers. The true dreamers are those who think things can go on indefinitely the way they are. We are not dreamers. We are awakening from a dream which is tuning into a nightmare. We are not destroying anything. We are only witnessing how the system is destroying itself. 

Hér er grein með torgávarp Slavoj á Wall Street

Orð hagfræðinga þegar þeir tala til almennings og tala mál sem fólk skilur geta verið áhrifarík. Þannig er slagorð þeirrar hreyfingar sem mestar vonir eru bundnar við í dag, hreyfingar sem hófst á Wall Street en sækir einnig rætur í evrópsk mótmæli og mótmæli í mið-austurlöndum og breiðist um heiminn sótt í orðræðu hagfræðingsins Stiglitz, sótt í grein sem hann skrifaði í Vanity fair um 1% fólkið.

Upp risu 99%. 

 


mbl.is Evran hefði ekki bjargað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þakka þér fyrir þennan pistil.  Ég heyri það úr næstum öllum áttum að þessi ráðstefna hafi verið afar vel heppnuð og mönnuð.

Sjálfur hafði ég ekki tök á að hlusta nema á nokkrar mínútur í lokin (pallborðsumræður undir stjórn Martins Wolf) og hafði gaman af.  Langaði til að spyrja þig hvort að þú vissir um einhverja slóð  þar sem hægt væri að nálgast upptökur af allri ráðstefnunni.

En þegar ég heyri um það að Ísland hafi verið svo heppið að eiga ekki fyrir því að ábyrgjast skuldir bankanna, þá dettur mér alltaf í hug hin einarða og grjótharða setning:  Við ætlum ekki að borga skuldir óreiðumanna.

Stór partur Íslensku stjórnmálastéttarinnar og drjúgur hópur Íslensku þjóðarinnar taldi þetta hina mestu firru og jós þann sem sagði auri og óhróðri og átti vart til nógu slæm lýsingarorð yfir hann.

G. Tómas Gunnarsson, 28.10.2011 kl. 13:44

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir góðan pistil Salvör eins og þín er von og vísa.  'Eg hef reyndar verið svona að velta því fyrir mér hvort umræðan hafi breyst dálítið líka vegna bréfsins sem þetta ágæta fólk fékk fyrir fundinn frá íslenskum almenningi.  Og það eigi ef til vill líka sinn þátt í því að þetta varð ekki Halelúljasamkoma. Það væri gaman að skoða það dæmi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.10.2011 kl. 13:56

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

G. Tómas: Upptökur eru á þessari slóð

http://www.imf.org/external/np/seminars/eng/2011/isl/index_content.htm

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.10.2011 kl. 14:15

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ásthildur: Veit ekki hvaða áhrif bréf hafði en veit að það voru margir andófsmenn gegn fjármálakerfinu í salnum og margir voru undirbúnir með spurningar og þannig snerist umræðan töluvert um þau sjónarmið.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.10.2011 kl. 14:17

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Bestu þakkir fyrir slóðina.

G. Tómas Gunnarsson, 28.10.2011 kl. 14:19

6 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Frábær og áhugaverð vitnaleiðsla.  Takk fyrir góða úttekt.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 28.10.2011 kl. 15:07

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gott mál svo sannarlega.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.10.2011 kl. 16:29

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Salvör, þakka þér fyrir góðan pistil. En eitt þykir mér vanta, reyndar ekkert frekar hjá þér en öðrum, en það er hvað gerðist í UK síðustu mánuðina fyrir hrunið 2008. (Sbr. 8. málgrein þína.)

Þeir bresku innstæðu/fjárfestar sem - annað hvort voru varaðir við, eða misstu trú á ávöxtunartilboðum "íslensku" bankanna fluttu sitt yfir til írsku bankanna sem buðu sambærilegt eða betur. Sniðgengu samt sem áður breska banka, í óþökk þeirra síðastnefndu.

Í ljósi þess má ef til vill þakka írskum fyrir að hafa létt undir með íslenskum skattgreiðendum.

Kolbrún Hilmars, 28.10.2011 kl. 18:00

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þess má geta að Írar hafa nú ákveðið að fara íslensku leiðina, færa bankaviðskipti til daglegra nota yfir í nýjan banka en skilja óborganlegar skuldir eftir í þeim gamla og láta hann fara í þrot. Lítið hefur hinsvegar farið fyrir fréttum af þessu.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.10.2011 kl. 20:21

10 Smámynd: Snorri Hansson

Salvör,miklar þakkir fyrir frábærann pistil.

Snorri Hansson, 29.10.2011 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband