Færsluflokkur: Vefurinn
20.6.2007 | 18:32
Krukkspá fyrir Internetið
Ég fann þetta skemmtilega myndband á Youtube sem lýsir framtíðinni í netheimum til ársins 2051
Man is God. He is everywhere, he is anybody, he knows everything. This is the Prometeus new world. All started with the Media Revolution, with Internet, at the end of the last century. Everything related to the old media vanished: Gutenberg, the copyright, the radio, the television, the publicity. The old world reacts: more restrictions for the copyright, new laws against non authorized copies...... Virtual life is the biggest market on the planet. Prometeus finances all the space missions to find new worlds for its customers: the terrestrial avatar. Experience is the new reality.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.6.2007 | 14:50
Karaoki
Núna er ég að prófa http://bix.yahoo.com en það er ennþá eitt félagsnetið þar sem inntakið kemur frá notendur. Þetta kerfi gengur út á samkeppnir, sérstaklega samkeppnir um karaoki og lip-sync. Það er nú reyndar skemmtilegt og einfalt að taka þátt í karaoki keppni þarna, maður velur sér bara lag og getur hlustað á það fyrst og svo tekið sjálfan sig upp að syngja undir og sent upptökuna í keppnina. Þetta er nú eitt einfaldasta karaoki kerfið á netinu.
Það er hægt að búa til alls konar samkeppnir í bix. Það er hægt að hlaða inn eigin vídeóum, taka beint upp af vefmyndavél og setja inn vídeo sem þegar eru á youtube eða photobucket. Keppnin er nú ekki aðalatriðið heldur umræðan og samfélagið. Mér sýnist að margir tónlistarmenn séu á myspace til að koma sér á framfæri, ég held að svona kerfi eins og Bix séu ennþá betur sniðið að þörfum listamanna.
Það er gaman að skoða hversu mikill leikmannabragur er á mörgu því efni sem er á Bix, upptakan er léleg og ódýrasta gerð af hljóðnema og vefmyndavél og svo er upptökustúdíóið oftast stofan eða eitthvað rými á heimili og oft má sjá heimilislífið í bakgrunni eins og á þessu vídeó þar sem heimavinnandi húsmóðir er að taka sjálfa sig upp og börnin hlaupa um í bakgrunni myndarinnar.
Þó að þessar upptökur séu viðvaningslegar og það líti út fyrir að það sé lítil sköpun þarna eigi sér stað þegar fólk velur bara lag annarra flytjenda og hermir eftir þá held ég að það samfélag sem er á bix vísi einmitt í þá átt sem listir eða stafrænt föndur stefnir í - að notendur skapi eitthvað sjálfir og leggi sín verk í dóm og umsögn annarra og að notendur geti notað við sína listsköpun einhverjar einingar (t.d. textann og lagið) frá öðrum. Ég hugsa að fólk muni innan skamms fara að gera meira við svona félagsnet eins og Bix t.d. að syngja aðra texta og mixa saman mismunandi tónlist.
Þetta er ein tegund af alþýðulist hins stafræna almúga árið 2007.
Hver sem er getur búið til sína samkeppni. Ég prófaði að búa til mína eigin samkeppni um vídeó frá sumri á Íslandi.
Vefurinn | Breytt 27.10.2007 kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2007 | 20:44
Ég í hádegisviðtali á Stöð 2
Ég var einn af fyrirlesurum á morgunverðarfundi sem Biskupsstofa efndi til í morgun og talaði ég um Netið og auglýsingar, sérstaklega auglýsingar sem beint er að börnum og unglingum. Það kom fréttaskot í hádegisfréttatímanum með viðtali við mig.
Hér eru tenglar á þessi viðtöl við mig:
Áfengisauglýsingar á netsíðum unglinga
Hádegisviðtalið á Stöð 2 (Salvör Gissurardóttir)
Netið er eins og stórborg án lögreglu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2007 | 13:24
Massaklúður
Lykilorð sýnileg á blog.is fyrir mistök | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2007 | 12:32
Stóri bróðir fylgist með þér
Mogginn greinir okkur frá því að nú geti Hvít-Rússar ekki spilað tölvuleiki og komist í ofbeldi og klám á netkaffihúsum. Allir verða líka að sýna skilríki þegar þeir heimsækja netkaffihús. Þarlend stjórnvöld vaka svo vel yfir velferð þegnanna að þau hafa skikkað netkaffihúsaeigendur til að halda skrá yfir þær vefsíður sem eru heimsóttar og skila til öryggisþjónustu ríkisins.
Er það svona netheimur sem við viljum?
Það getur verið að okkur finnist tölvuleikir hið mesta rusl og það eigi að hindra aðgang að ofbeldi- og klámefni. En í Hvíta-Rússlandi er líka bannað aðgangur að öllu ólöglegu efni og þar í landi telst það ólöglegt að gagnrýna stjórnvöld. Þetta er því leið stjórnvalda til að kúga þegnanna og bæla niður allar andófsraddir, það er ekki bara ólöglegt að gagnrýna stjórnvöld, það er líka orðið ólöglegt að lesa gagnrýni um stjórnvöld.
Á Vesturlöndum er umburðarlyndi fyrir klámi og ofbeldi og margir fjölmiðlar dæla skömmtum af klám- og ofbeldisblöndu í okkur á hverjum degi. Það vekur því hneykslan okkar að stjórnvöld annars staðar skuli ekki leyfa svoleiðis. Við erum líka vön hér á Íslandi að hafa skotleyfi á ráðamenn og geta dregið dár að og gagnrýnt gjörðir þeirra. Við erum vön því að fjölmiðlar hjá okkur stilli sér í dómarasæti yfir dómurum og ráðuneytum og það vekur því hneykslan okkar að það sé hvorki leyft að gagnrýna stjórnvöld né að lesa gagnrýni um stjórnvöld.
En er allt í lagi í okkar heimshluta? Er frelsi fólks í netheimum virt eins vel og frelsi fólks í daglega lífinu? Eða er ástandið eins og í símhleranatíma kalda stríðsins nema bara núna hafa stjórnvöld og fjölþjóðlegir auðhringir miklu betri græjur til að vakta fólk á Netinu og leita að mynstrum í athöfnum þess?
Við erum síðustu ár alin upp í ótta - ótta um hryðjuverkaárás, sérstaklega átök innan frá. Eina sýnilega leiðin sem stjórnvöld virðast fara til að stemma stigu við því er að herða eftirlit og þá sérstaklega eftirlit með umræðu og ferðum einstaklinga á Internetinu. Sennilega nota spellvirkjar Netið bæði til að skipuleggja samfélög sín og til að afla sér upplýsinga. Það geta líka allir aðrir. Sennilega nota spellvirkjar tungumálið og röddina til að tala saman og bækur og blöð til að lesa sér til. Það gera líka allir aðrir. Viljum við að allar samræður okkar séu teknar upp og vaktaðar og einhvers staðar séu skráðar allar bækur og rit sem við lesum og ef við erum áhugafólk um efnafræði og ég tala nú ekki um menn af erlendum uppruna þá séum við tafarlaust orðin grunsamleg og með okkur sé sérstaklega fylgst.
Við ættum ekki að samþykkja að fylgst sé með samræðum og ferðum einstaklinga á Netinu undir því yfirskini að það sé unnið að því að uppræta hryðjuverkasellur eða koma upp um barnaklámhringi ef við viljum ekki samfélag þar sem stjórnvöld geta njósnað um hvert fótmál (ætti kannski frekar að segja netmál) þegnanna.
Á Vesturlöndum er ekki líklegt að tilburðir til að hindra netfrelsi okkar verði krossfarir undir merkjum þeirra sem vilja sporna við ofbeldi og klámi. Á Vesturlöndum er líklegra að það sé undir því yfirskini að það sé verið að passa okkur fyrir væntanlegum hryðjuverkamönnum og barnaklámhundum og að það sé verið að verja hin helgu vé einkaeignaréttarins og verja hagsmuni markaðshagkerfisins. Það mun líka verða smám saman kreppt að frelsi okkar og það er mikilvægt að við spornum við af alefli og beinum netnotkun okkar í farvegi sem líklegra er að standi betur af sér áhlaup. Þannig er besta leiðin núna að forðast sem mest höfundaréttarhugbúnað og lokuð kerfi og taka sem virkastan þátt í þeirri nýju samvinnuhreyfingu sem upp vex á Netinu og er kennd við opnar lausnir, opinn aðgang og almenningssvæði sem allir hafa aðgang að og allir geta tekið þátt í að byggja upp.
Það má rifja það hérna upp að það eru ekki mörg ár síðan hér á Íslandi var víða plantað inn njósnaforriti í netkerfi skóla til að fylgjast með hvaða hugbúnaður var notaður og það voru alþjóðleg samtök höfundarrétthafa sem útveguðu það forrit og það var hluti af opinberum samningum við Microsoft að gera úttekt og eftirlit á meintri ólöglegri notkun forrita með þessum hætti. Það er til opinber skýrsla sem Ríkisendurskoðun vann um þetta mál.
Það er víða en í Hvíta-Rússlandi sem við þurfum að vera á varðbergi fyrir tilburðum stjórnvalda og annarra stórra aðila sem vilja ráða netumhverfi okkar. Ef netþjónustur, samskiptafyrirtæki og Internetþjónustuaðilar eru allir í eigu sama aðila og hagsmunir þess aðila fara ekki saman við það efni og þá umræðu sem flæðir fram og til baka í netrásum - býður það ekki hættunni heim?
Eftirlit með netnotkun í Hvíta-Rússlandi hert | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2007 | 19:54
Blogggrín
Enn eitt blogg um blogg . Til er sérstakur brandaravefur blaugh.com sem inniheldur skrípó sem öll ganga út að gera grín að bloggurum. Auðvelt er að líma bloggskrípóin inn í blogg.
Hér er listi yfir gömlu bloggskrípóin.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.2.2007 | 18:54
Myndletur MSN kynslóðarinnar
Ég horfi stundum á skrif dóttur minnar á MSN (það heitir POS sem er skammstöfun á Parent Over Shoulder ) og skil bara ekkert , allt útbúað í alls konar styttingum, slangri og litlum köllum . Ég sé líka að blogg yngstu kynslóðarinnar er að breytast í myndmál.
Ég sé líka að merkingar í daglega lífinu eru sífellt meira orðin eins og lítil íkon og þetta nýja myndmál er alþjóðlegt og ekki bundið tungumálum. Núna er netfyrirtækið Zlango búið að setja upp SMS þjónustu sem alfarið byggir á myndmáli.
Hér er lítið dæmi um hvernig maður skrifar í þessu SMS máli
Fréttatilkynningin var skrifuð svona.
Ég skrifaði á sínum tíma greinina Ritmál á íslensku wikipedíu og las þá ritverk Þorbjörns Broddason. Ritlist, prentlist, nýmiðlar og margar greinar á Wikipedíu um þróun leturs. Við lifum núna í samfélagi sem er í óða önn að taka upp flókið myndletur. Það er gaman að bera þetta nýja tæknimiðlamyndletur saman við myndletur Asteka og Kínverja.
Ég velti fyrir mér hvernig eða hvort þessi þróun hjálpar þeim sem einhverra hluta vegna geta ekki tjáð sig með orðum. Það eru mörg fötluð börn sem nota svokallað tákn með tali og táknmál heyrnarlausra en nú líka þannig að í þeirri menningu talað maður með líkamanum.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 19:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.2.2007 | 08:43
Tal um ólöglegt niðurhal
Ég fór á ráðstefnuna Er veraldarvefurinn völundarhús? í gær og varð ekki mjög ánægð. Þetta var ráðstefna um siðferði á Netinu sem SAFT, vakningarverkefni Heimilis og skóla um jákvæða og örugga netnotkun barna og unglinga á Netinu og tengdum miðlum boðaði til.
Ráðstefnan virtist fyrst og fremst vera til að kynna sjónarmið höfundarrétthafa og sumir fyrirlesararnir töluðu á skjön við þann veruleika sem ég sé í netheimum núna. Heimili og skóli er á miklum villigötum ef það félag gerist sérstakur krossfari fyrir höfundarrétthafasamtök. Mestu ógnanirnar og stærstu siðferðismálin sem mæta börnum og unglingum í dag á Netinu eru ekki að passa sig á því að virða ekki höfundarrétt.
Erindi Eiríks Tómassonar lagaprófessors fjallaði um "Ólögmæt not höfundarréttar á Netinu - Hvað er til ráða? en Eiríkur er lögmaður Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, STEF. Eiríkur sagði að nútíma hagkerfi byggðust á því að eignarétturinn væri virtur Hann sagði að ef eignaréttur af hugverkum væri skertur myndi umsvifalaust draga úr hagvexti. Þarna er ég ósammála Eiríki. Ég held að ýmsir manngerðir þröskuldar þ.a.m. höfundarréttarlög sem eru ekki í takt við Internetþróun séu mikill dragbítur á framþróun. Sérstaklega virka slíkir þröskuldar í að halda þeim fátæku og umkomulausustu utangátta og án möguleika á að bæta stöðu sína og auka þekkingu sína og færni. Þetta er svona eins og fyrir tíma almenningsbókasafna þar sem bækur voru aðeins í eigu auðmanna og engir aðrir höfðu aðgang að bókakosti. Það ætti öllum fræðimönnum að vera ljóst hvað sem frjálsast flæði þekkingar um heiminn hefur á þekkingu sem háskólasamfélög miðla. Það markaðskerfi sem við búum við núna er ekki að virka við þau vinnubrögð sem eru að ryðja sér til rúms. Það hefur líka sýnt sig að það eru að vaxa upp á Netinu ýmis konar samfélög og þekkingar- og efnisbrunnar sem byggja á annars konar höfundarrétti en hinum hefðbundna og þó hefðbundin hagfræði kenni "The Tragedy of the Commons" þá er engin tragedía í gangi varðandi almenninga á Netinu eins og "open source" og wikipeda samfélög. Það virðist virka bara nokkuð vel að hafa svona samvinnuhreyfingu á Netinu.
Brynjólfur Bjarnason forstjóri Símans fjallaði um ábyrgð samskiptafyrirtæki og hann tók Youtube og Myspace sem dæmi um jákvæðar hliðar netsins. Hann sagði að sennilega væri rétt undir 90% heimila á Íslandi tengd við Internetið sem væri það hæsta í heiminum.
John Kennedy flutti erindið "Fighting music Piracy" sem ég vissi nú fyrir að mér myndi ekki getast að. Þetta erindi var virkilega stuðandi og næstum ógnandi, fyrirlesarinn notaði orðalag eins og "if necessary we will take actions" og "... when they see we are serious they are likely to think twice" eða sem sagt boðskapurinn var að ef þið gegnið ekki með góðu þá förum við í hart. Svona orðræða passar ábyggilega einhvers staðar í hagsmunagæslu höfundarrétthafa en hún passar ekki á ráðstefnu Heimilis og skóla um siðferði á Netinu.
Anna Kirah líkti fjölskyldum í dag við innflytjendafjölskyldur, það er góð samlíking. Börnin eru "digital natives" en foreldrarnir eru oft ekki með á nótunum með hvað er að gerast.
Saft verkefnið og auglýsingaiðnaður á Íslandi standa núna að auglýsingaherferð um siðferði á Netinu. Það eru góðar auglýsingar og vekjandi því margir foreldrar eru andvaralaus um hvað er að gerast á Internetinu og hvers konar efni börn þeirra eru að nota.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.2.2007 | 09:46
Gula pressan SKAMMtímarit
Árnaðaróskir til netmoggans sem núna fagnar níu ára afmælinu. Ég óska líka sjálfri mér líka til hamingju með mitt vefrit Gula Pressan SKAMMtímarit sem einmitt var sett á vefinn sama dag og netútgáfa moggans opnaði árið 1998. Það var nú grín hjá mér og gert til þess að vekja nemendur mína til umhugsunar um hvort og hvernig Internetið skipti máli í fréttamiðlun. Líka til að sýna þeim hve auðvelt væri fyrir hvern og einn að setja eigið fréttaefni út á Internetið. Þetta var fyrir tíma bloggsins sem eins og allir vita var ekki fundið upp fyrr en Egill Helgason tók eftir að það væri til.
Ég skrifaði þetta um netritið mitt sem hefur komið ansi stopult út síðustu níu árin (lesist kom aðeins út í eitt skipti )
Hvað er Gula Pressan - SKAMMtímarit?Gula pressan er einhvers konar fréttableðill sem kemur aðeins út á Netinu og er til að sýna hvernig fréttamiðlar geta breyst á upplýsingaöld. Sérstaklega er Gula Pressan - SKAMMtímarit byggð á slúðri, kviksögum, kjaftasögum, rógi og gróusögum um nafngreinda einstaklinga. Gula pressan er helguð gulri blaðamennsku, æsifréttamennsku, dægurflugum, skömmum og skætingi, óformlegri orðræðu eða hvaða nöfnum menn kjósa að nefna svona fréttir.
Svo til að vera alvöru fjölmiðill þá skrifaði ég líka leiðara sem mér finnst bara skrambi góður þó hann sé níu ára gamall. Ég tók þar líkingu af hvalskurði. Hér er leiðarinn:
Netið er fjölmiðill
Netið er fjölmiðill. Það veit ég og það veit Mogginn, það vita Newsweek og Times, CNN og Washington Post og allir aðrir fréttafangarar sem síðustu daga og vikur hafa slípað og brýnt netfréttamennsku og búið til flugbeitta hnífa. Kvennamál Clintons var hvalrekinn sem skóp þennan nýja skóla fréttamennsku. Fiskisagan flaug fyrst á Netinu, hún hófst til flugs í slúðurdálkinum Drudge Report. Fiskimenn frétta þustu að rekanum, skáru málið niður í stykki sem þeir gegnumlýstu og krufu til mergjar, fluttu fenginn á vefsíður sínar og stöfluðu þar upp stykkjunum.
Venjulegur netverji hefur hvorki tíma né nennu til að leita djúpt að tormeltum upplýsingum. Hann sprangar um vefinn og týnir upp það sem honum finnst bitastætt. Hann er auðginntur inn í botnlanga ef fordyri þeirra lofar krassandi innihaldi. Sölumenn frétta á Netinu hafa þróað nýja frásagnartækni, lært að brytja málin niður í gómsæta munnbita. Netverjar fá að smakka og biðja um meira og meira og áður en varði eru þeir búnir að kyngja heilum hval. Þessi tegund af frásagnartækni er nokkurs konar öfugur pýramídi þar sem niðurstöðum er slegið fyrst upp með örstuttri lokkandi samantekt svo netverjinn æpi á meira.
Á Netinu er líka hægt að hafa afrit af ýmsum frumgögnum svo sem málskjölum, ljósmyndum, myndbandsupptökum og hljóðupptökum. Það er líka eðli Netsins að hver sem er getur sent þar út fréttir, stórar fréttastofur eins og CNN eða einstaklingar í hlutverki Gróu á Leiti. Gömlu stóru fréttarisarnir hafa aðrar og stundum íhaldssamari viðmiðanir í sambandi við hvað er fréttnæmt en einstaklingar sem ekki eru bundnir af hagsmunum hópa og hræðslu við málsókn eða álitshnekki. Það kostar heilmikið í vinnutímum og aðstöðu að halda úti fréttaharki á Netinu, einhver verður að fjármagna útsendingar, hjá hefðbundnu fréttastofunum virðast tekjur fyrst og fremst koma í gegnum smáauglýsingar. Sennilega eru netfréttir þeirra núna reknar með tapi, gróði frá hefðbundnu fréttaútsendingunum borgar brúsann fyrsta kastið. Einstaklingar sem senda út fréttir á Netinu fá sjaldnast neitt fyrir sína vinnu, þetta er ný tegund af tómstundaiðju.
Núna í dag hefur netfréttavefur Morgunblaðsins (http://www.mbl.is) útsendingar og á næstunni mun Vísir, netfréttarit Frjálsrar fjölmiðlunar hefja útsendingar. Morgunblaðið hefur verið á vefnum árum saman en hér er reginmunur. Fréttir og myndefni er nú skrifað sérstaklega fyrir vefinn og sett fram með því öfuga pýramídaformi sem rætt var um hér að ofan. Hingað til hefur útgáfa Morgunblaðsins á vefnum verið eins og hið prentaða blað án mynda. Það er engin tilviljun að ég vel sama dag og Mogginn til að gefa fyrst út minn eiginn netfréttamiðill en hann hef ég nefnt: GULA PRESSAN - SKAMMtímarit.
Nafnið hef ég valið svo vegna þess að þessi miðill minn er helgaður óvandari fréttamennsku, flytur SKAMMir á SKAMMarlegan hátt og kemur sennilega út í SKAMMan tíma. Ég kvíði alls ekki samkeppninni við Moggann því að meðan fréttastofa hans flytur áhugaverðar fréttafyrirsagnir sem koma á óvart eins og að Kúvætar ætli að styðja innrás Bandaríkjamanna í Írak þá fjallar fyrsta útgáfa á mínum miðli um mál málanna í dag, kvennamál Clintons. Þar getur þú kynnt þér innviði málsins, skoðað ljósmyndir, hlaðið inn myndbandsupptöku á þegar Clinton faðmar Monicu, lesið málskjöl og skemmt þér eða hneykslast á bröndurum um málið.
Þess verður varla langt að bíða að hval reki aftur að landi eða festist í einhverju þeirra aragrúa neta sem fréttafangarar hafa lagt með ströndum. Það eru margir fjölmiðlar í viðbragðsstöðu, hafa notað tímann til að koma sér upp verkfærum og verkkunnáttu til að skera með ógnarhraða sem stærstan hluta af fengnum. Það eru engar fornar bækur sem segja til um hvernig svona hvalreka skuli skipta og það þarf ekki að spyrja neinn leyfis til að útvarpa fréttum á Netinu. Það tjáningarfrelsi sem nú ríkir á Netinu er vandmeðfarið og það er líka vandvarið.
GULA PRESSAN - SKAMMtímarit hefur slóðina: http://www.ismennt.is/vefir/ari/gulapressan
Reykjavík 1.febrúar 1998
Salvör Gissurardóttir
Mbl.is öflugasti fréttavefurinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2007 | 17:39
Teiknimyndasögur - ævintýri
Það tók langan tíma þangað til myndbandið byrjaði að spila, þetta virðist ekki vera eins hraðvirkt og Youtube. En ef myndbandið spilast ekki sjálfkrafa þá er hérna slóð beint það
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)