Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
12.4.2008 | 09:58
Kristín formaður
Kristín Helga var kosin formaður nemendafélags Borgarholtsskóla núna á fimmtudaginn og valdatími hennar hefst næsta vetur. Þetta var snörp kosningabarátta og Kristín og vinkonur hennar Þura og Lilja sem buðu sig líka fram í stjórnina stóðu í ströngu í vikunni til að ná hylli kjósenda. Þær létu m.a. búa til áróðursplakat og bökuðu kökur sem þær komu með í skólann. Þær komust allar í stjórnina.
Hér er mynd af kosningaplakatinu þeirra.
Það voru kosnar þrjár stelpur og tveir strákar í nýju stjórnina svo jafnréttismálin eru í góði lagi í Borgarholtsskóla. Það verður spennandi að fylgjast með félagslífinu hjá borgurum næsta vetur. Borgarholtsskóli er með yngstu framhaldskólum landsins og býr ekki að sömu aldagömlu hefðum og minn gamli skóli Menntaskólinn í Reykjavík. En kosningarloforð Kristínar og kó voru m.a. að stækka glæsiballið, gera bíladaga að árlegum viðburð halda listaviku og lazertagmót (hvað er nú það?) og vera flippuð á fimmtudögum.
Það er gaman að rifja upp félagslífið í MR. Þar var listalíf og sérstaklega leiklistarstarf með miklum blóma og margir sem voru um svipað leyti og ég í skólanum stýra núna listalífi þjóðarinnar . Ég man eftir Tinnu Gunnlaugsdóttur sem nú er þjóðleikhússtjóri þegar hún lék í Herranótt og ég man hve áberandi Hjálmar sem nú rektor Listaháskólans var í ýmis konar listaskrifum og framúrstefnuskrifum í skólablaðinu og ég var nú reyndar ennþá námsmey í Kvennaskólanum þegar ég fór á hina ógleymanlegu leiksýningu Bubbi kóngur.
Ég man vel eftir tveimur sem léku stór hlutverk í Bubba kóngi, annar var Kári sem ritar Íslendingabók nútímans sem er ekki lengur sögur af hvernig landnámsmenn skiptu milli sín jarðarskikum á landinu kalda og hrímuga heldur er Íslendingabókin núna kóðinn sem geymdur er í genamassa afkomenda þess fólks sem hingað sigldi fyrir þúsund árum. Hinn var Davíð Oddsson sem aldrei komst úr gervi Bubba kóngs og var okkar kóngur í marga áratugi og er ennþá. Miðja valdsins og sviptinganna í stjórnmálum á Íslandi færast bara eftir því hvernig Davíð flytur sig milli embætta, hvort hann er borgarstjóri, forsætisráðherra eða Seðlabankastjóri. Áður en Davíð var seðlabankastjóri þá tók ég bara eftir að hvað seðlabankastjórar væru flinkir að spila á píanó.
Svo man ég eftir Herranóttinni fyrsta árið mitt í MR, ég man eftir þegar ég heyrði Skraparotsprédikun flutta í fyrsta skipti. það var ræðusnillingur skólans hann Kjartan Gunnarsson sem stýrði Sjálfstæðisflokknum áratugum saman sem mælti fram prédikunina það ár. Það er gaman að rifja upp sögu þessarar hefðar en um hana má lesa hérna um upphaf íslenskrar leiklistarsögu (heimild Leikminjasafn Íslands). Þar stendur:
Í Skálholti höfðu piltar sem sé lengi haft í frammi hefðbundinn skrípaleik eða "gleðihátíð", eins og ein heimild nefnir það. Það var hin svonefnda Herranótt og fór hún fram við byrjun skólaársins. Hún fólst í því að sá piltanna, sem lenti í efsta sæti við röðun í efri bekk, var krýndur konungur, en aðrir léku ýmsa embættismenn, þ. á m. biskup. Einn þáttur þessarar athafnar var svokölluð Skraparotspredikun, sem "biskupinn" hélt og var skopstæling á stólræðum presta. Virðist hún hafa orðið vinsælt lestrarefni, a.m.k. eru til um tuttugu afskriftir af henni. Enginn veit hins vegar hver sá Skraparot var, sem ræðan er kennd við; hugsanlega einhvers konar leikbrúða sem piltar báru í skrúðgöngu um staðinn og "biskupinn" ákallaði svo. Texti dagsins, sem lagt var út af, gefur hugmynd um tóninn: "Hver sem misbrúkar mínar dætur á jólunum, hann mun ei sjá mína dýrð á páskunum, en hver sem ei misbrúkar mínar dætur á jólunum, hann skal sjá mína dýrð á páskunum." Í textanum kemur fram hverjar þessar "dætur" eru: tóbaksstubbur og kertisskar, sem voru piltum mikil nauðsynjavara um löng vetrardægur í dimmum og köldum vistarverum.
Nýju framhaldsskólarnir á Íslandi eiga eflaust eftir að koma sér smán saman upp hefðum eins og MR og það verða eflaust öðruvísi hefðir. Það verður líka þannig að þau sem eiga eftir að verða leiðtogar í menningu, listum og stjórnmálum á Íslandi í framtíðinni fá sína fyrstu skólun og tækifæri til að spreyta sig í ýmis konar félagslífi í framhaldskóla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2008 | 12:24
Þotuliðið, forsetinn, fjórða valdið, löggur og líkamsrækt
Það geta verið einhverjar stjórnmálalegar eða peningalegar skýringar á því að íslenskir ráðherrar leigi þotur til að komast beint á áfangastað. Ég held að fyrir hafi komið að vél flugmálastofnunar hafi verið notuð til að ferja ráðherra á milli staða þar sem ekki voru aðrir kostir í boði. Ég þekki auk þess ekki til annars en að Ingibjörg Sólrún og Geir Harde fari vel með fé almennings, þau hafa ekki tengst bruðli eða flottræfilshætti.
En mér finnst þessi nýja lína að ferðast með einkaþotum ekki vera það sem ég vil sjá í íslenskri stjórnsýslu. Það sem ég vil sjá er að forustumenn okkar deili kjörum með alþýðunni en loki sig ekki af og taki þátt í að skapa umhverfi þar sem fólki er mismunað. Það er rík tilhneiging til slíkrar þróunar, það má m.a. nefna að til stóð að koma upp sérstakri hraðafgreiðslu og þar með sérmeðferð í löggæslu fyrir þá sem ferðast á saga class. Þetta er afar viðsjárverð þróun. Það er líka óviðfeldið að forseti Íslands ferðist á einkaþotu í boði fyrirtækja eins og komið hefur fyrir.
Það væri reyndar sniðugt og gott fordæmi hjá ríkisstjórninni að fara fram á það að opinberir embættismenn sem eru í embættiserindum og borga ekki flugfarið úr eigin vasa sitji ekki á sagaclass heldur í almennu farrými. Ég held reyndar að það sé stefna hjá Ríkisútvarpinu, það var alla vega stefnan þar á sínum tíma, það er áhugavert hvort það hefur breyst með HF væðingu þeirrrar stofnunar.
Það hefur ekkert komið fram í fréttum sem sannfærir mig um að þessi þotuleiga hafi verið skynsamleg og réttlætanleg og að svona ferðamáti sé það sem íslenskir ráðherrar eigi að nota í framtíðinni. Mér finnst mikilvægt að íslenskir ráðamenn minni sjálfa sig á að íslensk þjóð er ekki nema rúmlega 300 þúsund manns og þeir hegði sér eftir því og api ekki upp siði sem tíðkast hjá einhverjum hundrað milljónaþjóðum þar sem fjarlægðin er óralöng milli ráðherra og almennings.
Í röksemdum er sagt: "Þá spöruðust um 5 vinnudagar alls sem reikna megi á u.þ.b. 200 þúsund krónur og dagpeningar upp á um 100 þúsund krónu". Það er frekar furðulegt að reikna vinnutap í 5 daga per hvern sem fór til að réttlæta einkaþotuleigu. Allir sem ég þekki sem pendla svona á milli Íslands og umheimsins nota hverja stund til að vinna, líka tímann sem þeir eru á ferðalögum í flugvélinni. Fólk er með fartölvur og síma með sér og það er víðast nettenging nema bara í háloftunum. Það tekur vissulega lengri tíma að taka tvö flug frekar en eitt en það er skrýtið á tímum upplýsingavæðingari ef það er talið jafngilda 5 vinnudögum. Það er eins og innbyggt í þetta sé sá skilningur að fólk vinni aldrei neitt nema það sé við eitthvað ákveðið skrifborð á ákveðinni skrifstofu.
Mér finnst líka afar óviðeigandi ef það verður línan í íslensku samfélagi að fjölmiðlum sé boðin frípláss með einkaþotum sem ráðherrar leigja. Hvernig eigum við að treysta því að fjölmiðill sem reiðir sig á þannig greiðasemi sé fjórða valdið sem gagnrýni stjórnvöld og veiti þeim aðhald?
Það er jafnóviðeigandi að blaðamönnum sé skutlað á erlenda fundi á vegum ríkisstjórnarinnar og að forseta íslands sé skutlað milli landa í einkaþotum í boði viðskiptaaðila. Forsetaembættið er sameiningartákn. það hefur líka þróast í að vera einhvers konar málsvari og upplýsingagjafi um Ísland á erlendri grund. Með í ferð forsetans eru oft fulltrúar fyrirtækja sem vilja ná samningum við fjarlæg ríki. Það er ekkert að því og Ólafur Ragnar hefur staðið sig vel í að kynna íslenskt athafnalíf og koma á tengslum. Það er hins vegar nauðsynlegt að það séu ákveðnar siðareglur í þessu og það er ekki við hæfi að forsetinn ferðist um í boði ákveðinna íslenskra eða fjölþjóðlegra fjármálafyrirtækja.
Úr því ég er komin í þennan ham þá er best að gagnrýna líka íslensk lögregluyfirvöld. Það kom fram í fréttum nýlega að lögreglumenn fengju fríkort í líkamsræktarstöð samkvæmt einhverjum samningi. Nú vil ég eins og aðrir Íslendingar að löggurnar okkar séu mössuð vöðvatröll og stundi líkamsrækt en er þetta í lagi? Samræmist þetta góðri stjórnsýslu að löggæslumenn þiggi sposlur og niðurgreiðslur frá ákveðnu fyrirtæki?
Svona er fréttin um þetta á vefsíðu Word Class
4.4.2008 10:32:00
LÖGGAN Í WORLD CLASS!Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og World Class hafa gert með sér samning sem hefur yfirskriftina Ókeypis í ræktina. Í honum felst aðgangur fyrir alla starfsmenn embættisins að líkamsræktarstöðvum World Class á höfuðborgarsvæðinu.Starfsmenn LRH geta nú æft endurgjaldslaust í World Class að uppfylltu því skilyrði að þeir mæti minnst vikulega í ræktina. Þeir sem það ekki gera verða þá sjálfir að greiða fyrir líkamsræktina. Hér er um tilraunaverkefni að ræða en embættið leggur mikla áherslu á öfluga heilsustefnu sem hvetur starfsmenn til að huga að eigin heilsu og vellíðan.
Það er hægt að réttlæta alla hluti en fyrir gott og óspillt samfélag þá skiptir gríðarlega miklu máli að starfstéttir stjórnsýslu, forseti og lögregla og fjölmiðlar hafi skýrar siðareglur og vinnureglur og tryggi sem best að engin hagsmunatengsl geti haft áhrif á störf þeirra og að ráðherrar loki sig ekki af í heimi munaðar.
![]() |
Þotuleigan var 4,2 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.4.2008 | 12:47
Barbapapahús
Tugþúsundir af sumarhúsum hafa sprottið upp á Íslandi undanfarin ár. Þau eru svo lík hvort öðru að það er stundum erfitt að rata um sumarbústaðabyggðir. Þetta eru oftast tréhús sem borin er á viðarolía og með veröld eða palli í sólarátt. Að innan eru sumarhúsin oftast viðarklædd með viðargólfum. Þetta eru falleg hús og mikið í þau borið en sumarbústaðastíllinn á Íslandi í dag er svo einsleitur að það er þreytandi fyrir augun, að innan er allt þetta mikla timbur og svo að utan eru þetta timburhús í timburlitum, falleg hús sem myndu fara vel í grónum skógi en eru sums staðar ennþá eins og óvelkomnir nýbúar, eins og furulundurinn á Þingvöllum og lúpínubreiðurnar í Skaftafelli.
Núna eru farin að sjást sumarhús sem eru meira í þeim gámastíl sem einkennir nútíma byggingarlist. Það er flott ég vona að fjölbreytni í byggingum aukist með fleiri gámalaga sumarhúsum, húsum úr einingum sem eru settar saman eins og fólk vill.
En það er skrýtið að ekki séu meiri tilraunir í gangi með byggingarstíl sumarhúsa í landi eins og okkar þar sem náttúran er svona sérstök og allt öðru vísi en annars staðar. Það er mismunandi frístundamenning eftir samfélögum, á meðan margir Norðmenn fara í fjallakofann sinn þá fara Danir í sumarhúsin sín við ströndina. Sumarhúsin á Íslandi eru líka í mismunandi umhverfi, sum eru við sjó og sum eru á hrauni og sum eru á sandi og sum eru innan um klettaborgir. Fæst eru þau staðsett í háum skógi, á mörgum stöðum eru þau í kjarrlendi, í íslenskum 30-50 sentimetra háum skógi.
Sumarhúsin falla oft ekki nógu vel að landslaginu og þau eru ekki nógu vel hönnuð til að standast íslenskan veðurofsa á berangri og ýmislegt annað t.d. eiga skemmdarvargar mjög auðvelt með að brjótast inn í mörg velglerjuð sumarhús. Og þau eru ekki nógu vistvæn.
Hér eru hugmyndir um öðruvísi hús, hús sem ef til vill henta sem sumarhús á Íslandi: Ten innovative green houses.
Ég er mjög hrifin af einni lausn þarna, Project Biodome en það eru hús sem minna mig mikið á húsin hans barbapapa. Ég las upp til agna sögurnar um barbapapa fyrir eldri dóttur mína fyrir næstum þrjátíu árum. Það voru þá nýstárlegar bækur og fyrstu barnabækurnar á íslensku sem fjölluðu beinlínis um umhverfisvernd.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2008 | 01:11
Bera ekki á túnin í vor
Ingibjörg Sólrún vill lækka tolla á pasta, kjúklingum og svínakjöti vegna þess að hún telur að svimandi tollar haldi uppi verði á lambakjöti, sem njóti hárrar tollverndar, framleiðslustyrkja, búi við útflutningsskyldu og sé markaðssett á erlendri grundu fyrir ríkissfé.
Ég er ekki alveg að fatta í hvað öll þessi niðurgreiðsla í lambakjöti fer. Það er eins og hún sé hvorki að nýtast bændum né neytendum. Það er alla vega arfavitlaust og reyndar ósiðlegt að framleiða hérna á Íslandi kjöt sem er niðurgreitt og selja það á miklu afsláttarverði í öðrum ríkjum. Það eru líka illa staddir bændur í þeim ríkjum, ég veit að bændur flosnuðu mjög margir upp í Eistlandi þegar Evrópusambandið fór að afsetja niðurgreidda ofgnóttina þar á spottprís og kippti þannig fótunum undan fátækum bændum.
Núna eru margir íslenskir fjárbændur að flosna upp. Ég þekki sjálf tvo bændur á fjárbúum í sitt hvorum landsfjórðungi sem ekki munu bera á túnin í vor og eru núna að selja í áföngum þann litla framleiðslukvóta sem þeir höfðu.
Ég held að það skiptu engu máli hvert verðið er á kjúklingum, svínakjöti og pasta þegar ástandið í búskapnum er orðið eins og það er núna hjá litlum fjárbúum. Búskapurinn hefur ekkert gefið af sér árum saman og þá náttúrulega enginn möguleiki á neinni uppbyggingu og nauðsynlegu viðhaldi á vélum og tækjum og húsum. Hækkanirnar sem nú ríða yfir verða því náðarhöggið á búskap sem hefur verið að deyja og dragast saman í mörg ár.
![]() |
Tollfríðindi skili sér í vasa almennings |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.4.2008 | 09:38
Mávahlátur, klifur Uglu og draumur Gyðu
Ég horfði á bíómyndina Mávahlátur í sjónvarpinu í gær. Frábær mynd þar sem plottið minnti mig á lagið Goodbye Earl með Dixie Chicks en það fjallar um örlög manns sem er saknað... af fáum. Myndin Fried Green Tomatoes er nú líka um sama þema. Gaman líka að fylgjast með þroskasögu stúlkubarnsins Öggu sem leikin er af Uglu.
Listamenn og skáld geta skrifað svona sögur og sungið svona söngva án þess að augljós ofbeldisboðskapur verkanna stuði. Ég held að það sé vegna þess að þetta eru verk sem flutt eru í rými ofbeldisins, í rými vestrænnnar afrþreyingarmenningar þar sem blóðslóðin í sakamálasögum er rauði þráðurinn sem bindur saman sundurbútuð konulíkin.
Draumur Gyðu - fyrir fimm árum
Við héldum upp á fimm ára afmæli Femínistafélagsins þann 1. apríl. það var náttúrulega einn femínískur gjörningur, Ugla og fleiri femínistar klifruðu í skjóli nætur upp á héraðsdóm Reykjavíkur og komu fyrir bleiku skilti með áletruninni "Gerum við inni fyrst". hér eru myndirnar mínar frá afmælishátíðahöldunum.
Fyrir fimm árum var Femínistafélag Íslands stofnað, félag þar sem við öll sem vorum orðin leið á að búa við kynbundið ófrelsi, kúgun og ójafnrétti lögðum saman krafta okkar í lýðræðislegu félagi sem aldrei hefur stutt undir neins konar ofbeldi.
En það ætlaði allt um koll að keyra í Netheimum út af einni ræðu á framhaldstofnfundi félagins og við sættum miklum ofsóknum. Það var ræðan sem Gyða hélt sem stuðaði, ræða sem kölluð er Draumur Gyðu. en í þeirri ræðu er lýst draumi um að konur helli sápu í bjór ferðamanns sem talar ljótt, tali við atvinnurekanda til að krefjast hærri launa, já og límdu miða á bíl nauðgara með áletruninni "Svona gerum við ekki". Það var broslegt fyrir fimm árum að lesa skrif Andra Óttarssonar sem nú stýrir Sjálfstæðisflokknum, ég hélt reyndar fyrst að skrif hans væru grín. Hann skrifaði heilan greinaflokk og varaði við femínistahættunni miklu. En núna fimm árum seinna er sprenghlægilegt að lesa skrifa Andra. Hér eru greinarnar hans ef fleirum langar til að hlæja með mér:
Ég hef nú í gegnum tíðinni haft gaman af því að rifja upp skrif Andra honum til athlægis, hér er það sem ég skrifaði um þau á blogg fyrir fimm árum:
Þar er ennþá meira varað við femínistum og þeir bendlaðir á sama hátt og í vísun á batman.is við hreyfingu sem vill vernda hreinleika hins aríska kynstofns. Greinarhöfundur segir:
"Það er rétt að vara Félag íslenskra feminista við þessari braut. Eins öfugsnúið og það hljómar þá er félagið þegar komið í sömu spor og Félag íslenskra þjóðernissinna"
Svo varar greinarhöfundur við að umræðan sé farin að hafa áhrif:
"Umræðan á sér öll stað á vettvangi félagsins þ.e. á fundum og póstlista þess. Í ofanálag hefur umræðan greinilega áhrif...". Nú, það var alltaf tilgangurinn að hafa áhrif, ég skil eiginlega ekki í því að það sé vont í sjálfu sér:-)
Svo get ég barasta ekki skilið eftirfarandi setningu úr greininni öðru vísi en við höfum hvorki félagafrelsi né tjáningarfrelsi úr því við erum svona vond: "...Hópar og félög sem hvetja til lögbrota njóta hvorki verndar félagafrelsis né tjáningarfrelsis stjórnarskrár."
Svo segir greinarhöfundur líka:"...þá geta feministar ekki heldur hvatt til skemmdarverka, ofbeldis, innrásar inn í einkalíf sakaðra manna eða logið upp á menn sakir." Kannast einhver við að femínistar hafi gert eitthvað af þessu??? Í greininni er heilmikið fjallað um stjórn félagsins og því haldið fram að hún hafi leyft félagsmönnum að boða lögbrot á póstlista félagsins. Ég er í stjórn félagsins og ég barasta skil þetta ekki... Hefur einhver í stjórninni hvatt til lögbrota? Eða hefur stjórnin eða einhverjir í nafni félagsins gert eitthvað sem er ólöglegt?
Greinarhöfundur segir um stjórn félagsins "Hún hefur opinberlega tekið undir grófar aðgerðir gegn fjölmiðlunum vegna kláms sem jaðra við að vera ólögmætar". Ég veit ekki hvort hér er verið að vitna í Kastljósviðtalið við Katrínu eða þau kurteislegu bréf sem einstakir félagsmenn sendu til stjórnmálaflokka og Vísa þar sem þeir aðilar voru upplýstir um að þeir auglýstu á vefsetrum sem vísuðu á gróft og ósiðlegt efni sem niðurlægði konur. Ég vil hér með þakka þessum aðilum sem drógu auglýsingar til baka úr þessum miðlum fyrir að hafa brugðist svona fljótt við. Ég vil líka þakka þeim fjölmiðlum sem hafa fylgst með umræðunni hérna og í kjölfarið orðið meðvitaðri um orðnotkun varðandi konur.
Orðalagið "..jaðrar við að vera ólöglegt" er afar óljóst og vissi ég ekki áður að það og þessar vísanir í félagafrelsi og stjórnarskrá væri notað með þessum hætti af lögfræðingum. Þessi seinni grein endar svo með því að greinarhöfundur skilgreinir hvað eru "hinir alvöru femínistar".
Það kemur manni í gott skap að lesa þessar greinar á www.deiglan.com með greininni "Hinar hættulegu öfgar" sem birtist 2. maí á www.murinn.is
http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=858&gerd=Frettir&arg=4 og kannski skoða myndirnar frá 1. maí skrúðgöngunni okkar http://www.feministinn.is/fyrstimai og horfa á þetta hættulega öfgalið:)
Umfjöllunin á Múrnum er greinilega háðsádeila á þá sem nú hafa skorið upp herör gegn femínistum. Ég er ekki jafn viss um að greinarnar á Deiglunni séu grín, það kemur alla vega ekki nógu skýrt fram.
Núna fimm árum seinna þá er draumur Gyðu líka draumur minn.
Friðarboðskapur stuðar meira en söngvar um ofbeldi
Það er fróðlegt að lesa um afdrif Dixie Chicks. Það voru ekki lög eins og Goodbye Earl sem stuðuðu, lög þar sem ofbeldi er upphafið og vegsamað heldur var það friðarboðskapur og ummæli eins hljómsveitarmeðlims um Íraksstríðið, gagnrýni á bandaríkjaforseta og sem stuðaði svo að þessi sönghópur var úti í kuldanum í mörg ár. Hún sagði á hljómleikum: Just so you know, were on the good side with yall. We do not want this war, this violence, and were ashamed that the President of the United States is from Texas.
En Dixie Chicks eru nú ekkert tibúnar til að beygja sig í duftið og láta af samfæringu sinni. Þær syngja um það í laginu Not ready to make nice.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nú hefur Háskóli Íslands tekið á máli bróður míns og háskólarektor ritað honum bréf þar sem hún átelur vinnubrögð hans og segir þau hafa rýrt traust skólans. Þetta bréf er samt ekki áminning skv. stjórnsýslulögum heldur átala sem ég held að hafi ekkert lagalegt gildi. Það er mitt mat að HÍ bregðist rétt og skynsamlega við þessi máli og taki af mildi á yfirsjón starfsmanns sem hefur verið dæmdur í Hæstarétti fyrir brot á höfundarrétti. Stjórn HÍ er stjórnvald og ber að hlýða landslögum og þeim túlkunum á lögum sem felast í Hæstaréttardómum.
Hannes stóð sig vel í Kastljósviðtalinu og ég er ekki í vafa um að hann hefur mikið lært af þessu máli. Hann gerði mistök sem fræðimaður, mistök em hann gengst fúslega við, Hann segir Ég hefði átt að vanda mig betur" og Mistökin eru til að læra af þeim
Það ekkert að því hvernig HÍ tekur á þessu máli og hvernig ætlunin er að bregðast við með því að setja starfsreglur en fram kemur í Mbl : "Rektor hefur sett af stað vinnu innan skólans um setningu starfsreglna þar sem meðal annars verður tekið á þeim álitaefnum sem hafa komið upp í tengslum við mál dr. Hannesar til að fyrirbyggja að mál af þessu tagi komi upp aftur."
En það sem mér finnst meiriháttar undarlegt er hvernig umfjöllun sumra fræðimanna og listamanna á Íslandi er um þetta mál og hve sýn þeirra er þröng og einsleit og hvernig þeir taka sér stöðu sem gæslumenn höfundarrétthafa og hliðverðir á því sviði hver má segja hvað um hvern á hvaða hátt. Ég héld að þessi hópar - fræðimenn og listamenn og allir þeir sem vinna við einhverja sköpun áttuðu sig betur á hve hroðaleg kyrkingartök höfundarréttarlög hafa á tjáningu, sköpun og dreifingu og notkunarmöguleikum á hugverkum. Ég er forviða yfir að menningarsetur eins og kistan.is skuli ekki hafa áhuga á því fjalla um þetta mál og önnur höfundarréttarmál út frá því sjónarhorni heldur einsetja sér að koma upp raddkór til að hæða og smána bróður minn. Sjá nánar grein mína Kistan.is - leikvangur fáránleikans
Ég var hissa á bloggi hjá Hlyni sem er starfandi listamaður, það er skrýtið að listamaður skrifi þetta rætna og viðbjóðslega blogg Hannes Hólmsteinn rekinn frá Háskóla Íslands
Hlynur segir m.a.
Ef HÍ ætlar í alvöru að komast á blað meðal bestu háskóla í heimi er það augljóst að það verður að segja Hannesi Hólmsteini upp störfum. Maðurinn er dæmdur lögbrjótur fyrir ritstuld. Háskólarektor hlýtur að semja um starfslok við Hannes svo hann geti tekið pokann sinn.
Þessi söfnun fyrir aumingja Hannes er fullkominn brandari. Þrátt fyrir að vera aðal frjálshyggjugúrú landsins hefur hann alla ævi verið á ríkisspenanum. Var alltaf hjá Ríkisútvarpinu en ekki á Stöð 2 og er nú "prófessor" hjá ríkisháskólanum Háskóla íslands en ekki hjá einkaskólanum HR eða bara Bifröst. Maðurinn er er fullkomlega óhæfur kennari hvað þá meira.
Ég tjáði mig í athugasemdum við það blogg:
Ég veit ekki hvort þú ert starfandi myndlistamaður Hlynur eða hvort þú starfar við eitthvað annað í dag. En ég vil benda þér á að kynna þér hvernig staðan er í höfundamálum í dag, sérstaklega höfundarmálum sem tengjast hinu starfræna og nettengda rými sem sífellt fleiri listamenn kjósa sem efnivið og vettvang verka sinna. Höfundarréttarlög eru gjörsamlega á skjön við þann veruleika sem við búum við í dag og er mjög hamlandi fyrir alla sköpun og vinnu með efni.
Fyrir blómlegt og skapandi listalíf er lífsnauðsyn að ekki séu of miklar hömlur lagðar á tjáningu. Eitt tjáningarform nútímans og hluti af listsköpun er Remix og framleiðsla hluta er meira að færast í átt að mods, hacks, diy hugsun er andstæðan við fjöldaframleiðslu, færiband og tilbúnar lausnir - hún er uppreisnarandi, remix eða hakkarahugsun þar sem ekki á endilega að nota hluti á þann hátt sem vanalegt er eða sem þeir eru framleiddir fyrir heldur tengja upp á nýtt, endurblanda og endurhanna.
Það er verulega mikið í húfi fyrir listamenn og alla sem vinna að einhvers konar sköpun að sem minnstar hömlur séu lagðar á tjáningarfrelsi - ekki bara tjáningarfrelsi til að enduróma og endurtaka heldur líka tjáningarfrelsi til að raða orðum upp á nýtt og endurblanda og endurhanna efni frá öðrum.
Í fljótu bragði sé ég bara eina lausn í sjónmáli á meðan samfélagið lagar sig að þessum nýja veruleika - það er að skapandi fólk sniðgangi algjörlega og vinni ekki með efni sem ekki er með opnum höfundaleyfum.
Það er skrýtið að listamenn og listavefir eins og kistan.is taki þátt í aðför að Hannesi með þessum hætti. Ég skrifaði blogg um það Kistan.is - leikvangur fáránleikans
Hlynur svaraði í athugasemd.
Já, Salvör ég er starfandi myndlistarmaður og hef einmitt fjallað heilmikið um tjáningarfrelsið og einnig um réttindi listamanna, líka á eigin verkum.
Ég skoðaði þau verk sem Hlynur benti á, hann segir þar að fyrir sér vaki: "The work is intentionally provocative, and my hope is to encourage discussion about these themes."
Ég er ekki alveg viss um hvort Hlyni sé alvara með bloggi sínu um Hannes, hvort hann sé virkilega svona grunnur og blindur af heift eða hvort þetta blogg sé ef til vill listsköpun - svona til að stuða og reyna á þolmörk tjáningarfrelsins. Ég vona að það sé það síðara. Þess má reyndar geta að ég hélt á sínum tíma að 2500 innantómar tjáningar Stebbafr á málefnin.com sem voru allar með risamynd af Stebba sjálfum væru listrænn gjörningur sem mér þótti reyndar mjög smartur. En Stebbifr hefur nú fyrir flutt sig á moggabloggið og hefur að sumu leyti sama ritstíl þar, svona zombíaritstíl þannig að maður er ekki alltaf viss hvort hann er vélmenni sem endurskrifar fréttir eða maður. En megi þúsund blóm blómstra og megi Stebbifr ná nýjum hæðum í sínum ritstíl. En vonandi verða ekki of margir sem tjá sig á einn hátt, vonandi verður okkur ekki öllum þröngvað í sama mót og vonandi verður ekki bara einn viðurkenndur tjáningarmáti.
Ég veit ekki hversu beitt listsköpun Hlyns er varðandi tjáningarfrelsið, ég vona alla vega að einhvern tíma eigi listamenn á Íslandi beittari verk varðandi tjáningarfrelsi en skrifa á veggi með rauðu bleki á tveimur tungumálum að Osama bin Laden sé terroristi.
Það er ekki nóg að maður verði að stúdera lög og lesa hæstaréttardóma til að fá botn í Hannesarmálin, það eru líka komin inn í íslenskuna alls konar ný orð, orð eins og fótnótufræðingar, gæsalappalið, allsherjartilvísandir og rittaka. Svo er líka núna með bréfi háskólarektors sem kallað er átala komið inn eitthvað nýtt mínuspunktakerfi í mat á störfum háskólakennara.
Vonandi mun hatur á Hannesi og óbeit á þeim sem stýrðu íslensku samfélagi í kringum árþúsundamótin samkvæmt hugmyndafræði sem Hannes mótaði ekki blinda þeim fræðimönnum og listamönnum sýn á að það er virkilega mikið að varðandi höfundarréttarmál og það lagaumhverfi sem við búum við núna eru algjörlega á skjön við þá átt sem samfélagið stefnir inn í.
Hannesarmálið vekur mikla athygli á Íslandi. En önnur dómsmál íslensk vekja þó meiri athygli heimsbyggðarinnar á Netinu. Úrskurður í Istorrent-málin vekur vonargneista sum staðar erlendis , sjá hérna Iceland Rules Torrent Files Not Copyrighted
Því miður er alþjóðasamfélagið þó þannig að þeim samfélögum sem upp hafa vaxið á Netinu og þar sem hugverk varin eignarétti flæða á milli eftir þeim nýju farvegum sem nettæknin hefur gert mögulega er kennt um allt, líka hryðjuverkaógnina, sjá hérna:Mukasey: piracy funding terror - Yahoo! News
![]() |
Átelur vinnubrögð Hannesar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.4.2008 | 12:13
Kistan.is - leikvangur fáránleikans
Vefsetrið kistan.is er núna leikvangur fáránleikans, nápleis þar sem fræðafólk á sviði lista og bókmennta safnast saman og tjáir sig með því að hrækja á fólk og hæðast að því. Guðbjörg Kolbeins lýsir vel stemmingunni á Kistunni í blogginu Kistan krossfestir Hannes
Svona lítur forsíðan út á kistan.is út núna, vefritið er undirlagt í að hæða Hannes bróðir minn þar sem margir eru tilkallaðir til að hæða hann og smá og heimta opinbera aftöku hans.
Það er átakanlegt að lesa þær mörgu greinar sem nú trjóna efst á kistan.is Menningarvefur sem leyfir sér svona umfjöllun og svona efnistök verður ekki annað en fúll og staðinn forarpyttur. Það er sennilega sambland af von um einhverja athygli frá íslensku samfélagi, von um lestur og umfjöllun og því að þeir sem reka kistan.is hafa ekkert annað að segja og hugsa um sem veldur þessum efnistökum.
Menningarvefir eins og kistan.is og samfélög eins og Reykjavíkurakademían ættu að vera og hafa verið ferskvatnslindir og rennandi vatn í íslensku samfélagi, vatn sem rennur yfir flæðiengi þar sem frjóangar nýrrar hugsunar ná að vaxa upp, vatn sem býr til farvegi þar sem nýir menningarstraumar ryðja sér braut í leysingum. En þessi samfélög eru feig ef þau taka eingöngu eftir og fjalla ekki um nema eina þverskurðarmynd af heiminum, eina spegilfágaða yfirborðsmynd í spegli sem búinn er til úr stöðnu vatni.
Hinn sifraði Egill lýsir vel hreyfingarleysi og viðburðaleysi í hugsun Reykjavíkurakademíunnar í hannesarumfjöllun í blogginu: Vitlaus dómur yfir Hannes en þar segir hann m.a:
Hins vegar fengu margir þetta á heilann, ekki síst fólk sem tengist Reykjavíkurakademíunni. Um daginn barst mér í hendur einhvers konar afmælisrit fyrir Sigurð Gylfa Magnússon sagnfræðing fimmtugan. Ég fletti bókinni og sá að þarna var verið að fjalla um Hannes. Það flökraði að mér að þessi meinti ritstuldur væri líkt og hið eina sem hafði drifið á daga þeirra í Reykjavíkurakademíunni; eini háskinn sem þetta fólk hafði lent í.
Að líf þess hefði verið gjörsamlega viðburðasnautt ef Hannesar hefði ekki notið við.
Hópur fræðafólks og sumir fjölmiðlar eyddu ótrúlegu púðri í þetta mál. Aðalástæðan var auðvitað sú að Hannes var ekki talinn heppilegur maður til að skrifa um Halldór. Hann átti ekkert með það. Hann tróðst inn í vitlaust partí.
Margir sem nú eru kallaðir til á vefsritinu kistan.is til að hrækja á Hannes eru fræðafólk sem fæst við að greina orðræðu og málpólitík. Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði en mér finnst að það hljóti að vera verðugt viðfangsefni að greina orðræðu þessara fræðimanna, hvaða sýn á samfélag og eignarétt og vald blæs í gegnum skrif þeirra.
Hér eru nokkur ummæli á kistan.is sem stuðuðu mig sérstaklega.
Hallfríður Þórarinsdóttir, doktor í mannfræði og forstöðumaður MIRRU
Hallfríður Þórarinsdóttir hefur m.a. skrifað ágæta grein um orðræðugreiningu
Hallfríður skrifar:
2. Á rektor að aðhafast í málinu?
Að sjálfsögðu. Háskóli Íslands missir allan trúverðugleik ef HHG fær að sitja áfram óáreittur í stöðu sinni. Það er ósanngjarnt gagnvart öllum heiðarlegum fræðimönnum stofnunarinnar.
Segja honum upp. Hvernig eiga aðrir kennarar við stofnunina að geta krafist þess af nemendum sínum að þeir virði grunnreglur í akademískum vinnubrögðum ef prófessor við eina stærstu deild skólans gerir það ekki? Ef rektor segir ekki Hannesi upp er HÍ orðinn að einhverskonar leikhúsi fáránleikans.
Markmið HÍ að verða einn af hundrað bestu háskólum í heimi getur tæpast átt að innihalda slíkt siðleysi og lögbrot.
3. Ef svo, með hvaða hætti?
Það er mjög áhugavert að greina þessi ummæli Hallfríðar og setja þau í samband við að hún hefur fjallað mikið um orðræðu og vald. Það er líka skrýtið hve mikla vanþekkingu á stjórnsýslulögum ummæli hennar bera með sér og hve litla innsýn hún virðist hafa varðandi mannréttindi og vinnureglur í stjórnsýslu. Þess má geta að þegar ég kalla kistan.is leikvang fáránleikans í fyrirsögn þessa bloggs þá er það sótt til orða Hallfríðar sem líkir HÍ við leikhús fáránleikans. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á að mannréttindi og lög sem tryggja mannréttindi eru ekki bara fyrir okkur góða fólkið og þá sem hafa skoðanir í samhljómi við okkur heldur líka fyrir hina, líka fyrir Hannes.
Gauti Kristmannsson, lektor í þýðingarfræðum við HÍ
Gauti svarar svohljóðandi á kistan.is:
2. Á rektor að aðhafast í málinu?
Já.
3. Ef svo, með hvaða hætti?
Segja prófessornum upp starfi, hann hefur þverbrotið grundvallarreglur þær sem háskólamönnum ber að starfa eftir. Á þetta hefur HHG sjálfur bent á í grein á vefsíðu sinni að sé venjan að gera við háskóla erlendis.
4. Hvað finnst þér um auglýsingu stuðningsmanna Hannesar sem birtist í blöðunum um helgina?
Hún er ódýr spuni. Í fyrsta lagi mun prófessorinn vera eignamaður, einnig hafa þeir dómar sem fallið hafa á hann og valda honum kostnaðarauka verið vegna afbrots og auðgunar annars vegar og opinberu og ósönnuðu illmælgi gagnvart öðrum einstaklingi hins vegar. Einu gildir hvort sá einstaklingur telst vera auðmaður eða ekki.
Þessi ummæli Gauta stuða mig verulega. Mér virðist til hans leitað sem sérfræðings sem er í starfi við sömu stofnun og Hannes vinnur hjá. Samt bera orð hans með sér að hann er jafnlítið inn í stjórnsýslulögum eins og Hallfríður og með jafnbrenglaða sýn á mannréttindi þeirra sem hann forsmáir. En það sem ég er mest forviða á er að hann tjái sig um fjármál samstarfsmanns síns sem á í fjárhagsþrengingum og orðræða hans ber með sér að hann hlakkar yfir óförum annarra. Ég held líka að Gauti viti akkúrat ekkert um fjárhagsstöðu bróður míns. Síðast þegar ég vissi var kostnaður vegna þessarra tveggja málaferla kominn langt á þriðja tug milljóna og bæði þessi málaferli snúast að stórum hluta til um tjáningarfrelsi. Það er hins vegar ljóst að ennþá meiri kostnaður mun hlaðast upp.
En Gauti hefur líka sitt tjáningarfrelsi. Megi hann bulla sem mest þar sem hann vill um fjármál bróður míns svo fremi að hann virði lög um friðhelgi einstaklinga og megi hann kalla allt sem hann vill "ósannaða illmæli". Það er hins vegar spurning um hvort svona illyrmisleg umfjöllun um samstarfsmann í opinberri stofnun er sæmandi og samræmanleg við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Seinast þegar ég vissi var hún það ekki.
En það hefur gripið um sig einhvers konar hjarðhegðun og múgæsing hjá nokkrum hópi fræðimanna við HÍ sem úthrópa Hannes og fjalla um hann og hans verk eins og bloggarar fjölluðu um meintan morðingja hundsins Lúkasar um árið. Ég held að þeir sem eru í þessum hópi fræðimanna átti sig ekki á alvarleika sinnar orðræðu af sömu ástæðu og bloggarar ærðust í Lúkasarmálinu. Fólk spanar og æsir hvert annað upp og missir sjónar á því að hvað það er sjálft að gera. Fólki verður ekki sjálfrátt, það heldur að það sé allt í lagi að úða ógeðslegri illmælgi og meiðandi orðræðu yfir aðra. Í þessu tilviki er þetta leikvangur fáránleikans því einmitt er farið gegn Hannesi á þeim forsendum að hann hafi dirfst að fara yfir einhver manngerð mörk í skrifum sínum og orðræðu og ekki farið eftir þeim manngerðu stígum sem ævisagnaskrif eiga að fylgja. Það er hjákátlegt og grátlegt í senn ef fræðimenn átta sig ekki á því að þeir eru reknir áfram af blindri heift og þeir eru að taka Lúkasinn á samferðamann sinn og fara sjálfir yfir öll mörk velsæmis í orðræðu sinni.
Íris Ellenberger
Íris er ein af þeim sem tjáir sig á kistunni. Orð hennar stuða mig nú ekki heldur koma mér til að brosa. Íris segir:
Dómurinn er nokkuð strangur en ég er þó sammála honum að mestu leyti enda er ég mjög hlynnt gæsalöppum.
Þetta er nú ekkert fyndin setning en málið er að ég var í gærkvöldi á afmælishátíð Femínistafélagsins/ 7 ára bloggafmæli mínu og þá var sýnd verðlaunamynd úr stuttmyndasamkeppni Femínistafélagsins en Íris vann einmitt þá keppni með mynd sinni "Brjótum upp formið" sem var ansi góð og byltingarkennd , svona hugmynd um að ef þú getur ekki unnið eftir mynstrinu þá sé bara að brjóta það upp. Ég hugsa að ég eigi alltaf eftir að brosa yfir verkum Írisar í fræðunum og hugsa hvort hún muni brjóta upp formið þar.... eða bara halda sig í tryggu og öruggu skjóli innan gæsalappanna.
Kistan.is er ekki ein í illmælginni. Það var illyrmisleg umræða hjá nafnleysingjunum á malefnin.com um fjársöfnunina fyrir Hannes. Margt sem þar er sagt er þrungið mannfyrirlitningu og sumir virðast njóta þess að hlakka yfir óförum annarra. Ég get nú samt ekki gert að því að ummæli málverjans Sölku fengu mig til að brosa. Hún sagði:Væri nú ekki betra að "kenna Hannesi að veiða sinn eiginn fisk" í stað þess að "gefa honum fisk"??
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
1.4.2008 | 20:17
7 ára bloggafmæli
Moggabloggið er tveggja ára í dag. Fyrsti apríl er bloggdagur Íslands því svo vill til að það er einmitt bloggafmæli mitt. Ég byrjaði að blogga á mínu einkabloggi 1. apríl 2001.
Ég held upp á bloggafmælið mitt á Thorvaldssen í Austurstræti í kvöld. Allir velkomnir í partíið.
Fyrsta bloggið mitt var Álitsgjafar Íslands
Það er svona:
Álitsgjafar Íslands
Í helgarblaði DV í gær var ein opna sem bar yfirskriftina: Álitsgjafar Íslands - fólkið sem segir okkur hvað er rétt og hvað er rangt og hvað okkur finnst. Þarna voru myndir og nöfn á 31 karlmanni og einni konu og svo smávegis texti um álitsgjafargetu hvers og eins. Mér finnst gaman að skoða myndir og ég skoðaði þessar vandlega, sá að ég kannaðist ekki við neinn nema þá sem voru með mér í skóla í gamla daga eða eru eitthvað skyldir mér. Hef reyndar áður séð þessa einu konu, hún heitir Sigrún og hennar framlag sem álitsgjafi er að sögn blaðsins það að armæðast yfir fjarveru kvenna í fjölmiðlum og ástæðum þess. Mér finnst næsta ótrúlegt að allt þetta fólk sem ég þekki lítið sem ekkert til og fylgist ekkert með hvað er að gera hafi áhrif á hvað mér finnst um hlutina.
Fjölmiðlar um fjölmiðla um fjölmiðla...
Reyndar virðist mér að í þessum hóp séu annars vegar þáttastjórnendur á hefðbundnum fjölmiðlum sem láta móðan mása um hvað þeim finnst um hitt og þetta og svo menn sem í krafti þess starfs sem þeir gegna eru alltaf spurðir þegar viss mál eru á dagskrá. Svo er það nú þannig að þegar fréttastofurnar þurfa eitthvað uppfyllingarefni milli ráðherraviðtalanna þá er oft haft viðtöl við þá sömu aftur og aftur. Svo er það líka bara góð sparnaðarleið hjá pressunni og ljósvakamiðlunum að hafa bara fréttir og viðtöl hvert um annað - forsíða DV kannski viðtal við fréttamann á RUV og svo fréttaskýringarþáttur á RUV sem er kannski endursögn á einhverju úr Mbl. Þannig geta fjölmiðlarnir fjallað mest um aðra fjölmiðla og þrengt sjónarhornið þannig að úr verður bara fjölmiðlun um fjölmiðlun um fjölmiðlun um fjölmiðlun .... fyrir fjölmiðlafólk.
Valdið sem orðræðan býr til
Það er svosem ekkert tiltökumál þó að það birtist einhver bullgrein í DV um hverjir séu álitsgjafar á Íslandi. Það er bara skemmtilegra að hafa svona skapandi skrif og blaðið leggur greinilega metnað sinn í að vera gott daglegt safn af nútímaþjóðsögum og uppspuna. Ég held að í blaðið skrifi núna helst engir nema þeir sem eru vel skólaðir í þjóðfræði og faraldsfræði kviksagna. Það er samt umhugsunarefni er að með því að segja að einhver sé álitsgjafi þá verður hann að álitsgjafa eða alla vega fær eins konar völd í krafti þess að einhver heldur að hann hafi áhrif og hamrar á því við aðra. Ef við lifðum ennþá í einangruðu samfélagi þar sem einu boðin sem berast um samfélagið væru þessi skekkta mynd sem hefðbundnir fjölmiðlar gefa af valdinu - þessi mynd sem er byggð að hluta til á óskhyggju þeirra sem ráða yfir rödd sem ómar lengra en annara um að þeirra sé mátturinn og dýrðin - þá myndum við ef til vill trúa og þannig ýta undir valdið sem orðræðan býr til. En tímarnir eru breyttir og enginn þarf nú að treysta á fjölmiðlarisa og opinberar fréttastofur sem einu rásina sem lýsir og skýrir framvindu atburða. Rödd hvers einstaklings getur hljómað og náð til þúsunda í gegnum ljósþræði Netsins en þær raddir sem þar kveða nú eru ekki samvalinn kór heldur sundurlausar og hrjúfar og stundum eins og gargandi hávaði.
Mun frásagnarstíll breytast?
Þeim fjölgar óðum sem tjá skoðanir sínar, viðhorf og flytja fréttir af tilveru sinni á Netinu. Í sumum tilvikum er það í gegnum netrit gróinna áhrifaafla - eins konar framlenging, umbreyting og útvíkkun á annarri áróðusstarfsemi en í sumum tilvikum er þetta nýtt form, tjáningarform sem Netið hefur gert mögulegt. Einstaklingar sem tjá sig og halda skrá yfir viðburði og áhrifavalda í lífi sínu. Það er næstum hlægilegt í dag að halda því fram að svoleiðis einkarásir séu ógnun við vald hefðbundinna fjölmiðla - það þarf ekki annað en leggjast um stund í að skoða þessa vefannála eða vefleiðara (weblogs) hérlendis og erlendis til að sannfærast um að um að hér er gjörbreytt fréttamat og frásagnarstíll, hér ægir saman frásögnum af persónulegri reynslu og einkalífi og útleggingum á heimsviðburðum og afkomunni hér á skerinu. Skrifin eru stundum eins og hömlulaus spuni og fara yfir öll mörk og viðmið um hvað við teljum nú sæmandi er að fjalla um í opinberri orðræðu. En getur verið að svona tegund af tjáningu eða ritun sé nær almenningi - getur verið að þarna örli á ritstíl og menningu sem mun teygja sig yfir í margs konar miðlun í framtíðinni - getur verið að framsetning frétta og frásagna í hefðbundnum fjölmiðlum í dag sé eins og steinrunnið ritmál sem hefur fjarlægst það mál sem raunverulega er talað í landinu?
Undir hulinshjálmi
Hvað sem þessum pælingum líður þá hlýtur umræða þar sem margir og mismunandi þegnar þjóðfélagsins taka þátt í að vera lýðræðilegust og reyndar líka sennilega gjöfulust því þá heyrast sem flest sjónarmið. Umræða er ekki jafnt og atkvæðagreiðsla en opinber orðræða getur skapað vald eða ýtt undir valdaleysi. Við lifum á tímum fjölbreytileikans en ekki fjöldaframleiðslunnar en það er ekki að sjá að orðræða í hefðbundnum fjölmiðlum endurspegli þá þegna sem búa í þessu landi. Margir hópar og menningarkimar eru þar ósýnilegir. Það er meira segja hægt að varpa hulinshjálmi yfir helming þjóðarinnar- allar konur - eins og gert var í DV greininni um álitsgjafana. En ef orðræðan í hefðbundnum fjölmiðlum á Íslandi í dag er eingöngu til að styrkja völd hinna innvígðu þá er ástandið síst skárra hvað varðar netmiöla. Þar er ansi einsleitur hópur einstaklinga hvað varðar kyn, aldur og aðra þætti sem núna halda úti sínum eigin fréttamiðlum eða atburðaskrám á Netinu. Það eru möguleikar fyrir alla að nota það tjáningarfrelsi sem stjórnarskráin tryggir en ennþá eru afar fáir sem nota þá.
21.3.2008 | 10:56
Róbotar og sjálfvirkni og mannréttindabarátta
Í fjósum voru kýr og kálfar
mjólkuðu kýrnar sig kannski sjálfar?
þessi ljóðlína er í söngnum um hina kvenmannslausa sögu Íslendinga (texti eftir Dagný og Kristján) einum af beittum ádeilusöngvum í baráttusöngum kvennabaráttunnar. Þessi kaldhæðni texti um hinar sjálfmjólkandi kýr hljómaði vel á árunum eftir kvennafrídaginn 1975 en textinn er ekki eins grípandi í dag.
Málið er nefnilega að íslenskar kýr eru löngu farnar að mjólka sig sjálfar í róbotafjósum nútímans, þær skammta sér sjálfar fæðu úr sjálfvirkum og tölvustýrnum fóðurskömmturum og valsa um í lausagöngufjósum þar þær víkja öðru hvoru fyrir önnum köfnum róbótum sem eru þar á sveimi allan sólarhringinn að moka flórinn.
Meira segja í skúringum þar sem einu framfarir virtust á tímabili vera að moppan kom í staðinn fyrir skúringakústinn eru núna komnir róbotar, ég get ekki beðið þangað til ég er komin með einn svona til að skúra gólfin hjá mér
Þessi tími sem við lifum á núna þar sem allt er tengt saman og getur verið tölvustýrt á þráðlausan hátt mun örugglega ýta fremar undir svona sjálfvirkni og stýringar. Vonandi verður þetta tækni sem nýtist okkur öllum, tækni þar sem venjulegt fólk getur stýrt umhverfi sínu og létt sér verkin.
Eitt sniðugt verkfæri fyrir krakka til að læra forritun er forritunarmálið Scratch en því má hlaða niður ókeypis á http://scratch.mit.edu Þetta forritunarmál hentar krökkum alveg frá 8 ára aldri og fullorðnir hafa líka gaman að þessu. Þetta er svona myndræn forrit sem höfðar vel til þeirra sem vilja nota tölvur í alls konar skapandi og listrænnar iðju.
Í fyrradag var ég að skoða með nemendum mínum hvernig við getum kynnt fyrir ungum börnum ýmis konar stýringar og skynjara með aðstoð Scratch. Við notuðum Scratchboard (sjá mynd hér til hliðar) en það eru tölvuspjöld sem hægt er að kaupa (kosta 20 dollara stykkið) og þau tengjast gegnum USB tengi við tölvur. Þetta er afar einfalt verkfæri og virkaði mjög vel, það var hægt fyrir unga krakka að forrita þannig fígúrur á skjánum að þær bregðast við hljóði og birtu og ýmis konar rofum. Ég held að það sé nauðsynleg færni fyrir börn í dag að læra að forrita ýmis konar sjálfvirkni. Sennilega á vinnuumhverfi barna í dag í framtíðinni eftir að verða þannig að þau verða að fylgjast með, vakta og forrita ýmis konar sjálfvirkni í umhverfi sínu.
Eins og með alls konar tækni þá er hægt að nota hana til að gera líf okkar betra og jafna lífskjörin. Það á fyrir okkur öllum að liggja að verða eldri og ef við náum háum aldri þá er alveg öruggt að við höfum ekki sömu krafta og orku og í dag. Það eru fáir sem hafa eins mikinn hag af því að tækni í samfélaginu sé nýtt á sanngjarnan og uppbyggjandi hátt eins og þeir sem eru á miðjum aldri og horfa fram á að verða aldraðir og ef til vill farlama í framtíðinni. Hvernig getur tækni og sjálfvirkni í daglega lífinu hjálpað þessum hópi að stýra aðstæðum sínum?
En því miður er heimurinn þannig að tæknin er oft notuð til að eyðileggja og í hernaðartilgangi, sjá þessa grein í Wired Build your own war bot
Ég held að einn liður í mannréttindabaráttu nútímans og í því að búa til veröld sem ég vil sé að reyna að beina notkun á tækni í farvegi sem gera líf fólks einfaldara og bæta lífsgæði. Hvernig við notum tækni og sjálfvirkni og hvernig aðgengi allra jarðarbúa er háttað að þekkingu og færni til slíks er mikið mannréttindamál.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.3.2008 | 10:17
Dónalegur borgarstjóri
Óskar Bergsson borgarfulltrúi okkar Framsóknarmanna hefur haldið uppi málefnalegri gagnrýni á vinnubrögð núverandi borgarstjórnarmeirihluta, sérstaklega hvernig óheyrilega var bruðlað með almannafé við uppkaup á húsum og kastað fyrir róða öllum vinnubrögðum góðrar stjórnsýslu þegar Sjálfstæðismenn notuðu fé borgarbúa eins og spilapeninga þegar Ólafur Magnússon var ginntur til liðs við borgarstjórnarflokk Sjálfstæðismanna.
Ólafur borgarstjóri tekur hins vegar málefnalegri gagnrýni og spurningum Óskars ekki vel. Hann sýndi Óskari dónaskap og yfirgang í orðum en hefur nú sem betur fer séð að sér og dregið til baka ummæli sín. Ólafur Magnússon er góður maður og enginn efast um hugsjónir hans að vernda minjar um sögu Reykjavíkur. Það er vissulega mikilvægt fyrir okkur öll að farið sé að gát við umhverfismál og að ekki sé brotið allt og bramlað sem minnir á forna tíð. En Reykjavík er ekki eingöngu minjasafn um forna tíð heldur athafnasetur og höfuðborg ríkis sem á mikið undir samskiptum sínum við aðrar þjóðir og að infrastrúktúr hérna sé svo góður að fólk vilji búa hérna og starfa. Ólafur Magnússon er ekki góður borgarstjóri þegar litið er til stóru málanna sem munu skipta máli um hvort Reykjavík verður kraftmikið athafnasvæði og þekkingarsetur.
Það er bara sorglegt að í forsvari í Reykjavíkurborg sé maður sem hefur svona þrönga sýn og einstrengingslega sýn á hlutverk borgar eins og Ólafur og sem getur ekki tekið þátt í fundum án þess að sýna þeim sem tala af einhverri skynsemi dónaskap.
Sjá hérna:
Vandaðri stjórnsýslu gefið langt nef
frá hrifla.is:
18. mars 2008 Borgarstjórnarflokkur framsóknarmanna
Borgarstjóri dregur til baka ummæli sín um borgarfulltrúa Framsóknarflokksins
Í upphafi borgarstjórnarfundar í dag kvað Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, sér hljóðs og dró til baka fyrri ummæli sín um Óskar Bergsson borgarfulltrúa Framsóknarflokksins frá síðasta fundi borgarstjórnar Reykjavíkur. Ummæli þessi féllu eftir að borgarfulltrúi Framsóknarflokksins beindi fyrirspurnum til borgarstjóra varðandi aðkomu aðstoðarmanns hans að deiliskipulagsvinnu við Laugaveg, og voru ummælin á þann veg að borgarstjórn setti niður með nærveru Óskars.
Í ræðu borgarstjóra í dag segir að fyrirspurnin hafi komið honum á óvart, orðaskiptin í kjölfarið hafi verið nokkuð hvöss og þar hafi fallið orð sem hefðu betur verið látin ósögð. Einnig að í þeim hafi falist yfirlýsingar sem borgarstjóri hefði ekki viljað láta falla um persónu annars borgarfulltrúa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)