Þotuliðið, forsetinn, fjórða valdið, löggur og líkamsrækt

Það geta verið einhverjar stjórnmálalegar eða peningalegar skýringar á því að íslenskir ráðherrar leigi þotur til að komast beint á áfangastað. Ég held að fyrir hafi komið að vél flugmálastofnunar hafi verið notuð til að ferja ráðherra á milli staða þar sem ekki voru aðrir kostir í boði. Ég þekki auk þess ekki til annars en  að Ingibjörg Sólrún og  Geir Harde fari vel með  fé almennings, þau hafa ekki tengst bruðli eða flottræfilshætti. 

En mér finnst þessi nýja lína að ferðast með einkaþotum ekki vera það sem ég vil sjá í íslenskri stjórnsýslu. Það sem ég vil sjá er að forustumenn okkar deili kjörum með alþýðunni en loki sig ekki af og taki þátt í að skapa umhverfi þar sem fólki er mismunað. Það er rík tilhneiging til slíkrar þróunar, það má m.a. nefna að til stóð að koma upp sérstakri hraðafgreiðslu og þar með sérmeðferð í löggæslu fyrir þá sem ferðast á saga class. Þetta er afar viðsjárverð þróun. Það er líka óviðfeldið að forseti Íslands ferðist á einkaþotu í boði fyrirtækja eins og komið hefur fyrir.

Það væri reyndar sniðugt og gott fordæmi hjá ríkisstjórninni að fara fram á það að opinberir embættismenn sem eru í embættiserindum og borga ekki flugfarið úr eigin vasa sitji ekki á sagaclass heldur í almennu farrými. Ég held reyndar að það sé stefna hjá Ríkisútvarpinu, það var alla vega stefnan þar á sínum tíma, það er áhugavert hvort það hefur breyst með HF væðingu þeirrrar stofnunar.

Það hefur ekkert komið fram í fréttum sem sannfærir mig um að þessi þotuleiga hafi verið skynsamleg og réttlætanleg og að svona ferðamáti sé það sem íslenskir ráðherrar eigi að nota í framtíðinni. Mér finnst mikilvægt að íslenskir ráðamenn minni sjálfa sig á  að íslensk þjóð er ekki nema rúmlega 300 þúsund manns og þeir hegði sér eftir því og api ekki upp siði sem tíðkast hjá einhverjum hundrað milljónaþjóðum þar sem fjarlægðin er óralöng milli ráðherra og almennings.

Í röksemdum er sagt: "Þá spöruðust um 5 vinnudagar alls sem reikna megi á u.þ.b. 200 þúsund krónur og dagpeningar upp á um 100 þúsund krónu". Það er frekar furðulegt að reikna vinnutap í 5 daga per hvern sem fór til að réttlæta einkaþotuleigu. Allir sem ég þekki sem pendla svona á milli Íslands og umheimsins nota hverja stund til að vinna, líka tímann sem þeir eru á ferðalögum í flugvélinni. Fólk er með fartölvur og síma með sér og það er víðast nettenging nema bara í háloftunum. Það tekur vissulega lengri tíma að taka tvö flug frekar en eitt en það er skrýtið á tímum upplýsingavæðingari ef það er talið jafngilda 5 vinnudögum. Það er eins og innbyggt í þetta sé sá skilningur að fólk vinni aldrei neitt nema það sé við eitthvað ákveðið skrifborð á ákveðinni skrifstofu.

Mér finnst líka afar óviðeigandi ef það verður línan í íslensku samfélagi að fjölmiðlum sé boðin frípláss með einkaþotum sem ráðherrar leigja. Hvernig eigum við að treysta því að fjölmiðill sem reiðir sig á þannig greiðasemi sé  fjórða valdið sem gagnrýni stjórnvöld og veiti þeim aðhald?

Það er jafnóviðeigandi að blaðamönnum sé skutlað á erlenda fundi á vegum ríkisstjórnarinnar og að forseta íslands sé skutlað milli landa í einkaþotum í boði viðskiptaaðila. Forsetaembættið er sameiningartákn. það hefur líka þróast í að vera einhvers konar málsvari og upplýsingagjafi um Ísland á erlendri grund. Með í ferð forsetans eru oft fulltrúar fyrirtækja sem vilja ná samningum við fjarlæg ríki. Það er ekkert að því og Ólafur Ragnar hefur staðið sig vel í að kynna íslenskt athafnalíf og koma á tengslum. Það er hins vegar nauðsynlegt að það séu ákveðnar siðareglur í þessu og það er ekki við hæfi að forsetinn ferðist um í boði ákveðinna íslenskra eða fjölþjóðlegra fjármálafyrirtækja.

Úr því ég er komin í þennan ham þá er best að gagnrýna líka  íslensk lögregluyfirvöld. Það kom fram í fréttum nýlega að lögreglumenn fengju fríkort í líkamsræktarstöð samkvæmt einhverjum samningi. Nú vil ég eins og aðrir Íslendingar að löggurnar okkar séu mössuð vöðvatröll og stundi líkamsrækt en er þetta í lagi? Samræmist þetta góðri stjórnsýslu að löggæslumenn þiggi sposlur og niðurgreiðslur frá ákveðnu fyrirtæki?

Svona er fréttin um þetta á vefsíðu Word Class

4.4.2008 10:32:00
LÖGGAN Í WORLD CLASS! 

 Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og World Class hafa gert með sér samning sem hefur yfirskriftina Ókeypis í ræktina. Í honum felst aðgangur fyrir alla starfsmenn embættisins að líkamsræktarstöðvum World Class á höfuðborgarsvæðinu.

Starfsmenn LRH geta nú æft endurgjaldslaust í World Class að uppfylltu því skilyrði að þeir mæti minnst vikulega í ræktina. Þeir sem það ekki gera verða þá sjálfir að greiða fyrir líkamsræktina. Hér er um tilraunaverkefni að ræða en embættið leggur mikla áherslu á öfluga heilsustefnu sem hvetur starfsmenn til að huga að eigin heilsu og vellíðan. 

Það er hægt að réttlæta alla hluti en fyrir gott og óspillt samfélag þá skiptir gríðarlega miklu máli að starfstéttir  stjórnsýslu, forseti og lögregla og fjölmiðlar hafi skýrar siðareglur og vinnureglur og tryggi sem best að engin hagsmunatengsl geti haft áhrif á störf þeirra og að ráðherrar loki sig ekki af í heimi munaðar. 


mbl.is Þotuleigan var 4,2 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flottur pistill eins og þín er von og vísa, og ég er 100 % sammála. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.4.2008 kl. 14:55

2 Smámynd: Hundshausinn

Þú spyrð hvort "það samræmist góðri stjórnsýslu að löggæslumenn þiggi sposlur og niðurgreiðslur frá ákveðnu fyrirtæki? Í þessu tilviki "Word Class" - á sennilega að vera "World Class".  Litla rauðvínsglasið hefur sennilega gert gæfumuninn.
Þú bendir hins vegar á að miklu skipti að "starfstéttir stjórnsýslu, forseti og lögregla og fjölmiðlar hafi skýrar siðareglur og vinnureglur og tryggi sem best að engin hagsmunatengsl geti haft áhrif á störf þeirra og að ráðherrar loki sig ekki af í heimi munaðar". Er nokkur hætta á slíku meðan umfjöllunin er rekin fyrir galopnum tjöldum?

Hundshausinn, 9.4.2008 kl. 20:46

3 identicon

Cactus Buffsack (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 15:37

4 Smámynd: Heiða  Þórðar

Vá þú ert flott!

Heiða Þórðar, 10.4.2008 kl. 21:32

5 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæl Salvör

 Ég get tekið undir flest í þinni góðu grein. Hins vegar er ég á öðru máli en þú varðandi einkaþotuna fyrir Ingibjörgu og Geir í þessu tilfelli. Það eru áður óþekktir umbrotatímar í efnahagsmálum okkar og mjög mikilvægt að ráðherrar séu hér til þess að taka slaginn. Ég hefði tekið hattinn ofan fyrir þeim ef þau hefðu tekið sig til og gert samning við Norðmenn um notkun á sameiginlegri mynt norsku krónunni. Það hefði verið djörf og góð stjórnun.

Sigurður Þorsteinsson, 11.4.2008 kl. 07:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband