Kjaransbraut - skemmtilegasti vegur Íslands

Núna ganga allir Laugaveginn, gönguleiðina milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Ég hef einu sinni fyrir um það bil aldarfjórðungi gert tilraun til að ganga þá leið. Við urðum að snúa við aftur inn Landmannalaugar því við fundum ekki skálann við Hrafntinnusker, stikurnar voru fenntar á kaf og það var snjófok. Jörðin var alhvít þarna. Þetta var samt í júní. Ég man hvað ég var hrædd á tímabili, við vorum þrjú fullorðin og Ásta dóttir mín lítil í ferðinni, þau sem voru með mér fóru á undan að leita að skálanum og ég missti sjónar á þeim í þoku og hélt um tíma að ég væri ein  villt með ungt barn einhvers staðar upp á hálendinu um nótt í snjó og kulda. Einhvern tíma langar mig til að reyna aftur við þessa leið, það er flott markmið í lífinu að láta ósigra ekki buga sig heldur reyna aftur og læra af reynslunni. Það gerir ekkert til þá að 25 ár líði milli tilrauna og kannski hefur loftslagshlýnunin unnið með mér, kannski er ólíklegra núna að þurfa að snúa við vegna snjókomu í Hrafntinnuskeri.

Það er líka önnur leið sem mig langar til að ganga. Það er fallegasti vegur á Íslandi og líka sá hrikalegasti, það er vegurinn milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Ég er hissa á því að sú leið sé ekki eins vinsæl og Laugavegurinn, sennilega hafa bara svo fáir uppgötvað þessa leið. Það er hægt að keyra þessa leið á bílum, alla vega stóran hluta hennar en ég held að það sé ekki alltaf fært og alls ekki fyrir óvana að fara um verstu kaflana.  Þetta er sérstaklega skemmtileg gönguleið, umhverfið er töfrandi og engu öðru líkt.

Vegurinn  sem tengir Lokinhamradal  er meistarastykki Elís Kjaran ýtumanns og hvergi er eins skrýtinn vegur á Íslandi. Ég held að vegurinn sé höggvinn inn í surtarbrandslag sem er mýkra efni en annað berg þarna.

 Lokinhamradalur var á sínum tíma einn afskekktasti dalur landsins, þar voru tveir bæri Lokinhamrar og Hrafnabjörg. Guðmundur Hagalín skáld fæddist og ólst upp á Lokinhömrum og hann hefur skrifað mikið um uppvaxtarár sín. Frægustu skáldrit Guðmundar gerast líka í svona umhverfi, frægasta saga hans er Kristrún í Hamravík og hún hefði nú alveg getað búið í Lokinhamradal. Guðmundur Hagalín er frábært skáld og rithöfundur en það er eins og hann hafi fallið í gleymsku undanfarin misseri, allt kastljósið er á samtíðarmann hans Halldór Laxness. En það er alveg þess virði að heimsækja Lokinhamradal sem pílagrímsför og bókmenntagöngu á bernskuslóðir og mótunarstað Guðmundar Hagalíns.

Núna 21. júli fór fram hlaup á Vestfjörðum, sjá nánar á vesturgata.net Þar er margar myndir sem sýna hið stórbrotna og ævintýralega landslag þarna.  Hér er kort af veginum.


Vindur, vindur vinur minn

Hér er fyndið og hugljúft myndband um hvernig Kári er tekinn í sátt af samfélaginu

Svo er hérna skemmtilegt blogg um vindmyllugerð  frá ungum strák í Malawi sem byggir vindmyllu til að vinna rafmagn fyrir fjölskyldu sína. Strákurinn heitir William Kamkwamba og er bara 19 ára og bloggið hans segir heilmikið frá samfélaginu í þorpinu hans.

Hér er vefur um virkjun vindafls á Íslandi

Svo eru skólarnir á Íslandi með vefsíður um orkugjafa, hér er orkuvefur sem settur er upp hjá Norðlingaskóla


Fjórtán einkenni á fasisma

Deyr hann eða lifir hann? Ef hann deyr, á hvaða blaðsíðu í bók bókanna verður það? Sem betur fer er auðvelt að finna svarið á Netinu fyrir okkur sem ekki nennum að lesa bókina spjalda á milli, ég fann það hérna  (SPOILER aðvörun, ekki smella á tengilinn ef þú vilt ekki vita hvernig sagan fór!!!)

Barátta góðs og ills fer víðar fram en í galdraveröld Harry Potters. En hvernig getum við borið kennsl á illskuna sem kraumar í umhverfi okkar, illsku sem lætur heilar þjóðir missa stjórnina í heldur  illmenna sem vinna voðaverk. Hér er góð grein Fourteen Defining Characteristics Of Fascism sem lýsir hvaða fjórtán einkennum við getum  leitað eftir:

  1. vaxandi þjóðernishyggja
  2. lítil virðing fyrir mannréttindum
  3. bent á óvininn/sökudólginn
  4. áhersla á her
  5. kynjamisrétti
  6. ritskoðun fjölmiðla
  7. ofuráhersla á þjóðaröryggi
  8. trú og ríkisstjórn samtvinnuð
  9. völd stórfyrirtækja vernduð af ríkisstjórn
  10. verklýðshreyfingin máttvana
  11. fyrirlitning og lítilsvirðing á menntamönnum og listamönnum
  12. áhersla á glæpi og refsingar
  13. valdaklíkur og spilling
  14. kosningasvik
Það er áhugavert að nota þetta greiningartæki á þau ríki sem núna eru valdamest t.d. skoða þróunina í Bandaríkjunum undanfarin ár.

 


Myndasyrpa að vestan

Hér eru nokkrar myndir sem ég tók á  Vestfjörðum nýlega. Ég er að prófa myndaalbúm hjá slide.com. Það er hægt að búa til myndasýningu þar með alls konar fídusum.

le="width:400px;text-align:left;">

Nýr Youtube spilari

Nú er hægt að búa til sinn eigin spilara á Youtube. Ég bjó til spilara fyrir þau vídeoblog sem ég hef sett þar inn. Ef allt virkar eins og það á að gera þá koma sjálfkrafa öll video sem sem ég set hér eftir inn í Youtube í spilalista (playlist) sem ég kalla Salvor videoblog inn í þennan spilara.

 


101 Reykjavík og Huldufólk 102

Skáldjöfur okkar Hallgrímur Helgason skrifaði bókina 101 Reykjavík um landeyðuna linu hann Hlyn sem væflast um í þingholtunum. Hallgrímur er nú reyndar alinn upp á skíðum í einhverju úthverfi (fella- hóladæmi ef ég man rétt) og þekkti lítið til miðbæjarlífsins þó það sé sögusviðið. Enda skilst mér að póstnúmerið sé tilkomið vegna þess að það  er tölvukóði og vísar til tölvuveraldar sem er bara með tvíundarkerfi og þar sem sögupersónur synda áfram í þröngu rými. 101 Reykjavík er líka saga ungs reykvísks karlmanns sögð af reykvískum karlmanni.

En hvað skyldi þá titillinn Huldufólk 102 merkja?  Er það kannski framhald af 101 Reykjavík? Reyndar ekki því að Huldufólk 102 (sjá slóðina http://www.huldufolk102.com) er kvikmynd eftir  Nisha Inalsingh um huldufólk á Íslandi. Ég fékk bréf frá Nishu þar sem hún sagði að myndin yrði sýnd í New York þann 22 júlí. Ég kemst nú ekki á sýninguna en ég skoðaði trailerinn, hann er á youtube: 

Vonandi fæ ég einhvern tíma að sjá þessa kvikmynd. Ég hugsa að hún endurspegli viðhorf útlendinga, viðhorf fólks eins og Nishu sem býr í New York til skrýtna fólksins á hjara veraldar. Ef til líka viðhorf heimsins gagnvart Íslendingum. 

Ég heyrði sjálfan mig segja eina setningu í þessum trailer, ég segi að þetta séu samsíða heimur "It is parallel world". Nisha kom hérna til Íslands fyrir einhverjum árum og tók þá viðtal við marga þar á meðal mig. Ég veit ekki hvort hún hefur notað eitthvað úr því viðtali.

Hér er viðtal við Nishu þar sem hún lýsir kvikmyndinni (á mov formi)


Það er soldið  skrýtið að lesa um okkur íslenska álfaskoðendur lýsingu eins og  "and the way the Icelandic believers are presented as perhaps eccentric, but never delusional. " og svona er kvikmyndinni lýst:

 What a challenge Inalsingh has undertaken in this film. Not only is the main character an intangible entity, but it is one American audiences may not intimately understand. Icelandic culture, with its pagan and Viking roots, is rife with mythological wonder. Their topics of conversation might be lost on less mystically inclined outsiders. Inalsingh shows that there is nothing wildly illogical about believing in the unproven, and viewers can certainly take a lesson from that notion

Áhugi heimsins á íslensku huldufólki er mikill, kannski frekar áhugi fólks sem brosir að því að fólk hérna skuli trúa á álfa "the little people" sem flestir yfir fimm ára aldri trúa ekki lengur á. 

En hérna er það sem ég hef skrifað um engla alheimsins og 101 Reykjavík 

 Vængstýfðir englar

Þar sem jökullinn ber við loft 

Að vera karlmaður 


Hvar eru selirnir?

Ég hef lengi fylgst með hóp af selum í Grafarvoginum skammt frá árósi Elliðaáa. Þeir voru oft margir saman á skeri þarna, ég sá alltaf seli þegar ég gekk eftir göngustígnum meðfram sjónum. Það er gaman að fylgjast með leik þeirra og hversu forvitnir þeir virðast um fólk, sérstaklega börn. Núna í sumar bregður svo við að ég sé enga seli. Það getur verið að selir fari til norðlægari slóða að sumarlagi og komi aftur í vetur. Ég vona það.  Ég hins vegar veit að selir lifa á fiski og þeir eru miskunnarlaust drepnir þar sem hagsmunir laxveiðimanna eru í húfi.  Einu sinni var mikið um sel í Norðurá í Borgarfirði sem og í öðrum laxveiðiám. Það er fróðlegt að vita hvaða skoðun Stangveiðifélag Reykjavíkur hefur á selum og hvort það félag telji að útrýma eigi sel og hvort félagið hafi staðið fyrir einhverju því sem bægi sel frá þessu svæði.


Two worlds meeting

Á þessari mynd úr fjörunni í Grafarvogi eru leikskólabörn að horfa út á sjóinn og sjá má selahóp sem gægist upp úr sjónum.

Annars finnst mér þessi pólska tilkynning frá Stangveiðifélagi Reykjavíkur vera afar móðgandi fyrir Pólverja á Íslandi og einnig þær upplýsingar að í öllum upplýstum tilvikum hafi verið um karlmenn frá Póllandi að ræða. Þetta er eins móðgandi fyrir Pólverja á Íslandi eins og ég ásakaði félaga í Stangveiðifélagi Reykjavíkur um að drepa selina í Grafarvogi.

Það er reyndar orðið svo mikið fjölmenningarsamfélag á Íslandi að nú virðist nauðsynlegt að tilmæli til fólks séu á fleiri en einu máli, gjarnan bæði á ensku og íslensku. Ég tók eftir því að í tilkynningu sem kom frá borgaryfirvöldum í vikunni um hreinsunardaga í hverfinu mínu þá var texti bæði á íslensku og ensku. Mér finnst ekkert að því og mér finnst ekkert að því að tilmæli og upplýsingar séu á íslensku, ensku og pólsku - ensku af því það er það mál sem flestir skilja og pólsku af því það er það mál sem stærsti innflytjendahópur okkar talar. En ef aðstæður verða þannig að t.d. í verslunum þar sem sums staðar eru skilti sem segja að það séu öryggismyndavélar um allt og allir þjófnaðir verði kærðir þá séu þau skilti bara á pólsku þá mótmæli ég.

Hmmmmm... hvernig ætti ég að mótmæla þessu? Kannski væri árangursríkast að gera fara með veiðistöng í Elliðaárnar og bera sig að eins og maður ætlaði að fara að veiða og láta grípa sig glóðvolgan og játa glæpsamlegan tilgang. Þá væri fullyrðingin "í öllum upplýstum hafi verið um karlmenn frá  Póllandi að ræða" strax ósönn.  Verst að ég kann ekkert með veiðistöng að fara.


mbl.is Bréf um veiðiréttindi birt á pólsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ugla getur ekki verið í almennilegri fýlu út í kirkjuna

Ég ráðlegg fólki að lesa bloggið hjá Baldri Kristjánssyni  Séra Carlos

Þar segir Baldur :

"Séra Carlos Ferrer sem hefur verið settur af í Tjarnarprestakalli vegna þess að fólki í annarri sókninni líkaði ekki við hann.  Séra Carlos hefur verið einhver allra frumlegasti og gagnlegasti prestur þjóðkirkjunnar......... Nú má enginn skilja orð mín svo að ég vilji að fólk sé svipt réttinum til þess að ákveða hver messi yfir því. Þann rétt á fólk vitaskuld að hafa og líka úrræði til þess að losna við ómögulega menn.  En manni hnykkir óneitanlega þegar einhver allra gáfaðasti og frumlegasti prestur þjóðkirkjunnar verður fyrir barðinu á almannavaldinu á meðan við sauðirnir erum látnir í friði."

Ég veit alls ekkert um innri mál kirkjunnar og þekki ekkert til í Tjarnarprestakalli en það sem ég þekki til Carlosar Ferrer þá finnst mér Baldur hafa náð að lýsa honum vel. Ég hugsa að ég myndi taka þátt í safnaðarstarfi ef Carlos Ferrer væri sóknarprestur minn. 

Annars get ég ekkert kvartað yfir kirkjunni hérna í Laugarnesprestakalli þar sem ég bý, mér virðist þar hafi verið mikið og gott starf unnið og dóttir mín tók þátt í barnastarfi þar öll sín uppvaxtarár, ég held hún hafi í mörg ár ekki mátt sleppa að fara í barnamessu á hverri helgi og jós yfir okkur bænum þangað til uppreisnarandi unglingsáranna kom yfir hana. Ég man hins vegar aldrei eftir að hafa farið í kirkju nema á fermingardaginn þegar ég var að alast upp á Laugarnesveg enda foreldrar mínir fráhverfir guðstrú og trúðu bara á sæluríki kommúnista og samvinnuhreyfingarinnar.  

Það er ekki mikið í tísku hjá uppreisnargjörnu ungu fólki að ganga til liðs við þjóðkirkjuna. Ég held að prestur geti því ekki fengið meira hrós en eftirfarandi orð sem aktívistinn og femínistinn Ugla skrifaði í maí síðastliðnum á bloggið  Fimm og þrír um prestinn í Laugarneskirkju: 

"Í Mogganum um helgina var viðtal við Bjarna Karlsson, snilling og sóknarprest í Laugarneskirkju. Hann fermdi mig og skólafélaga mína. Hann er svo góður prestur og fermingarstarfið var svo skemmtilegt að ég hef aldrei getað farið í almennilega fýlu út í kirkjuna síðan - sama hvað ég reyni. Mæli ekki með því að fólk kynnist honum vilji fólk halda neikvæðri og stofnanalegri mynd af kirkjustarfi."

IMG_0203

 Hér er Ugla að spila á gítar  og hljómsveitin  Byssupiss myspace.com/byssupiss á vakningarsamkomu femínista á Laugaveg 22 þann 19. júní  2006 þar sem  þær tróðu upp undir mynd af biðjandi presti sem smarta rauða hárkollu.


Svamlið í Varmá og áhyggjulausir foreldrar í Hveragerði

varma1í Kastljósi kvöldsins var birt myndskeið um krakka að hoppa niður kletta og flúðir  í Reykjafossi í Varmá í Hveragerði. Sigmar hóf þessa frétt með setningu um hve áhyggjulausir foreldrar í Hveragerði gætu verið, krakkar á leikjanámskeiði væru svo uppteknir í fossahoppinu.

Ég þekki ekki vel til aðstæðna þarna en ég þekki til þriggja tilvika þar sem ungmenni lömuðust algjörlega fyrir lífstíð eftir að hafa stokkið svona niður kletta út í vatn eða stungið sér til sunds í grunnar sundlaugar eða tómar og lent með höfuðið á steini eða sundlaugarbotni.

Núna er ungur piltur á spítala í Reykjavík vegna slíks slyss sem gerðist fyrir nokkrum mánuðum. Hann er  lamaður fyrir neðan háls. Mér sýndist þær aðstæður sem voru þarna  vera þannig að afar óhyggilegt er að leyfa börnum sem eru á leikjanámskeiði á vegum bæjarfélags að stökkva niður flúðir og kletta og í fleiri en einu tilviki þá stukku börnin þannig að þau höfðu geta komið niður á höfuðið. Það er skrýtið að foreldrar í Hveragerði hafi ekki áhyggjur af þessu.

varma2

 


Fyrsta flugferðin - síldarævintýri Loftleiða

Ég var að skoða skemmtilegt fræðsluefni um 70 ára sögu flugs á Íslandi.

Loftleiðir sem síðar varð risinn í millilandaflugi Íslendinga var stofnað af nokkrum ungum mönnum árið 1944. Þeir höfðu verið í flugskóla í  Vesturheimi og þegar þeir komu heim þá höfðu þeir með sér 4 sæta Stinson flugvél. Þeir komust ekki að hjá Flugfélagi Íslands og stofnuðu því sitt eigið flugfélag og byrjuðu farþegaflug til Ísafjarðar. 

raufarhofn-1960-sildarstulkur2-thjodviljinn-gudgeir-magnusson Þeir leituðu líka að síld úr lofti. Samningar um síldarleit úr lofti skipti verulegu máli fyrir Flugleiðir fyrstu árin. Alfreð Elíasson og Kristinn Olsen bjuggu allt sumarið 1944 í tjaldi við Miklavatn í Fljótum og gerðu út á síldina. Þeir flugu í allt að 300 klst. Flugleiðir missti líka fyrstu vélina sína í síldarævintýrinu því í  vertíðarlok laskaðist Stinson vélin í flugtaki á vatninu og gjöreyðilagðist þegar hún var flutt til Reykjavíkur með vörubíl og vörubíllinn  rakst í símalínu.

Næsta sumar var Loftleiðir með tvær vélar í síldarleit og  farþegaflutningum. Svo byrjar millilandaflugið árið 1945 en fyrsta flug yfir hafið með íslenskri áhöfn haustið var farið 1944. Árið 1947  er félagið komið með skymastervél sem tekur 46 farþega.

Það er gaman að velta fyrir sér hve saga flugsins er samofin alls konar manngerðum reglugerðum og fyrirstöðum og leyfum. Árið 1948 fengu Loftleiðir leyfi fyrir áætlunarflug milli íslands og USA. Flugleiðir staðsetja sig í Luxemburg vegna þess að þeir stóðu utan alþjóðasamtaka flugfélaga og furstadæmið í Luxemburg líka. þeir koma flugfélag á Bahamaeyjum til að geta flogið þotum því að heimild Bandaríkjastjórnar til farþegaflugs var bundin við hægfleygar flugvélar. Leifsstöð er byggð árið 1987 og þegar fyrsta skóflustungan er tekin að byggingunni þá fara 460 þús farþegar árlega um Keflavíkurflugvöll  en árið 2006 eru þeir orðnir 2 milljónir og upphaflega Leifsstöðin sem þó er ekki nema tuttugu ára er löngu orðin allt of lítil. 

Núna í dag þekki ég nokkra sem vinna erlendis og pendla milli Íslands og Evrópu, fara stundum í dagsferðir og stundum nokkurra daga ferðir og taka flugvélarnar til og frá vinnu eins og strætisvagna.  Það er gaman að velta fyrir sér hver þróunin verður næstu fimmtíu ár í fluginu og það getur verið að það þróist öðruvísi en við sjáum fyrir núna, það getur verið að það komi til einhverjir nýir notkunarmöguleikar á flugvélum, eitthvað nýtt síldarævintýri.

Ég rifja hérna upp mína fyrstu flugferð, það var síðsumars 1970, ég var unglingur og hafði fengið vinnu í mötuneytinu upp í Þórisós en frændi minn Páll Hannesson var með fyrirtæki sem var með stíflugerð fyrir virkjun við Þórisós. Hann var að fara upp í Þórisós með lítilli flugvél og ég fékk far með og annar frændi minn líka. þetta var nokkuð einkennileg lífsreynsla, vélin hoppaði og skoppaði og hristist til og frá, við flugum í skýjaþykkni og  einu sinni kom allt í einu í ljós snarbratt fjall og vélin snögglega beygði fyrir fjallið og svo var farin önnur leið, eitthvað meðfram sjónum því lengi sá ég ólgandi stöndina á suðurlandi. Frændur mínir og flugmaðurinn sögðu ekkert á leiðinni og ég náttúrulega ekki heldur.

Svo um síðir lenti flugvélin á einhverri sléttu upp á hálendinu og menn komu á jeppum frá búðunum til móts við frænda minn. Þá fyrst fékk ég að vita að þeir hefðu allir talið sig í lífshættu á leiðinni og þessi flugferð  væri nú ekki eðlileg og við hefðum verið nærri því að hrapa þegar við næstum rákumst á fjallið, eitthvað sem ég vissi ekki því ég hafði engan samanburð. En eftir þessa flugferð hef ég aldrei verið hrædd í flugi. 

En hvað verður það sem knýr framþróun í flugi næstu áratugi og hverju mun það breyta? Verður leitað aftur að síld með flugvélum eða verður uppsveifla í flugi á olíuvinnslusvæðum í sjó þegar búið verður að finna olíu og farið að  vinna hana eða verður uppsveifla í flugi með ferðamenn bæði yfir haf og hálendi? Eða verða einhverjar vörur svo dýrmætar t.d. afurðir úr fiskeldi eða einhverri lífefnarækt að þær verða ferjaðar með flugi frá upprunastað á markað? Verða eftirlitsferðir og rannsóknarferðir með flugvélum um heimskautasvæði atvinna einhverra? Verður kannski hægt að senda vörur á milli svæða með fjarstýrðum mannlausum flugvélum?

Myndin er af síldarstúlku á Raufarhöfn, mynd frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, þar má fletta upp myndum frá síld og flugsögu þar. Hér er  ítalski flugbáturinn I-SLAN í Reykjavíkurhöfn í júní 1932.

  Ágúst 1924, flugvél. Fyrsta flugið til Íslands.

fyrsta-flugin-island

  1928 Súlan, flugvél Flugfélags Íslands, sjósett frá Steinbryggjunni.

sulan1928-akureyri


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband