Fyrsta flugferðin - síldarævintýri Loftleiða

Ég var að skoða skemmtilegt fræðsluefni um 70 ára sögu flugs á Íslandi.

Loftleiðir sem síðar varð risinn í millilandaflugi Íslendinga var stofnað af nokkrum ungum mönnum árið 1944. Þeir höfðu verið í flugskóla í  Vesturheimi og þegar þeir komu heim þá höfðu þeir með sér 4 sæta Stinson flugvél. Þeir komust ekki að hjá Flugfélagi Íslands og stofnuðu því sitt eigið flugfélag og byrjuðu farþegaflug til Ísafjarðar. 

raufarhofn-1960-sildarstulkur2-thjodviljinn-gudgeir-magnusson Þeir leituðu líka að síld úr lofti. Samningar um síldarleit úr lofti skipti verulegu máli fyrir Flugleiðir fyrstu árin. Alfreð Elíasson og Kristinn Olsen bjuggu allt sumarið 1944 í tjaldi við Miklavatn í Fljótum og gerðu út á síldina. Þeir flugu í allt að 300 klst. Flugleiðir missti líka fyrstu vélina sína í síldarævintýrinu því í  vertíðarlok laskaðist Stinson vélin í flugtaki á vatninu og gjöreyðilagðist þegar hún var flutt til Reykjavíkur með vörubíl og vörubíllinn  rakst í símalínu.

Næsta sumar var Loftleiðir með tvær vélar í síldarleit og  farþegaflutningum. Svo byrjar millilandaflugið árið 1945 en fyrsta flug yfir hafið með íslenskri áhöfn haustið var farið 1944. Árið 1947  er félagið komið með skymastervél sem tekur 46 farþega.

Það er gaman að velta fyrir sér hve saga flugsins er samofin alls konar manngerðum reglugerðum og fyrirstöðum og leyfum. Árið 1948 fengu Loftleiðir leyfi fyrir áætlunarflug milli íslands og USA. Flugleiðir staðsetja sig í Luxemburg vegna þess að þeir stóðu utan alþjóðasamtaka flugfélaga og furstadæmið í Luxemburg líka. þeir koma flugfélag á Bahamaeyjum til að geta flogið þotum því að heimild Bandaríkjastjórnar til farþegaflugs var bundin við hægfleygar flugvélar. Leifsstöð er byggð árið 1987 og þegar fyrsta skóflustungan er tekin að byggingunni þá fara 460 þús farþegar árlega um Keflavíkurflugvöll  en árið 2006 eru þeir orðnir 2 milljónir og upphaflega Leifsstöðin sem þó er ekki nema tuttugu ára er löngu orðin allt of lítil. 

Núna í dag þekki ég nokkra sem vinna erlendis og pendla milli Íslands og Evrópu, fara stundum í dagsferðir og stundum nokkurra daga ferðir og taka flugvélarnar til og frá vinnu eins og strætisvagna.  Það er gaman að velta fyrir sér hver þróunin verður næstu fimmtíu ár í fluginu og það getur verið að það þróist öðruvísi en við sjáum fyrir núna, það getur verið að það komi til einhverjir nýir notkunarmöguleikar á flugvélum, eitthvað nýtt síldarævintýri.

Ég rifja hérna upp mína fyrstu flugferð, það var síðsumars 1970, ég var unglingur og hafði fengið vinnu í mötuneytinu upp í Þórisós en frændi minn Páll Hannesson var með fyrirtæki sem var með stíflugerð fyrir virkjun við Þórisós. Hann var að fara upp í Þórisós með lítilli flugvél og ég fékk far með og annar frændi minn líka. þetta var nokkuð einkennileg lífsreynsla, vélin hoppaði og skoppaði og hristist til og frá, við flugum í skýjaþykkni og  einu sinni kom allt í einu í ljós snarbratt fjall og vélin snögglega beygði fyrir fjallið og svo var farin önnur leið, eitthvað meðfram sjónum því lengi sá ég ólgandi stöndina á suðurlandi. Frændur mínir og flugmaðurinn sögðu ekkert á leiðinni og ég náttúrulega ekki heldur.

Svo um síðir lenti flugvélin á einhverri sléttu upp á hálendinu og menn komu á jeppum frá búðunum til móts við frænda minn. Þá fyrst fékk ég að vita að þeir hefðu allir talið sig í lífshættu á leiðinni og þessi flugferð  væri nú ekki eðlileg og við hefðum verið nærri því að hrapa þegar við næstum rákumst á fjallið, eitthvað sem ég vissi ekki því ég hafði engan samanburð. En eftir þessa flugferð hef ég aldrei verið hrædd í flugi. 

En hvað verður það sem knýr framþróun í flugi næstu áratugi og hverju mun það breyta? Verður leitað aftur að síld með flugvélum eða verður uppsveifla í flugi á olíuvinnslusvæðum í sjó þegar búið verður að finna olíu og farið að  vinna hana eða verður uppsveifla í flugi með ferðamenn bæði yfir haf og hálendi? Eða verða einhverjar vörur svo dýrmætar t.d. afurðir úr fiskeldi eða einhverri lífefnarækt að þær verða ferjaðar með flugi frá upprunastað á markað? Verða eftirlitsferðir og rannsóknarferðir með flugvélum um heimskautasvæði atvinna einhverra? Verður kannski hægt að senda vörur á milli svæða með fjarstýrðum mannlausum flugvélum?

Myndin er af síldarstúlku á Raufarhöfn, mynd frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, þar má fletta upp myndum frá síld og flugsögu þar. Hér er  ítalski flugbáturinn I-SLAN í Reykjavíkurhöfn í júní 1932.

  Ágúst 1924, flugvél. Fyrsta flugið til Íslands.

fyrsta-flugin-island

  1928 Súlan, flugvél Flugfélags Íslands, sjósett frá Steinbryggjunni.

sulan1928-akureyri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband