Bloggfærslur mánaðarins, október 2011
28.10.2011 | 13:14
Vitni að Hruni
Í gær fór ég í Hörpu í fyrsta sinn. Þar var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn með ráðstefnu, ráðstefnuna Iceland's Recovery. Ég fór vegna þess að ég vildi hlusta á Krugman og fleiri ágæta fræðimenn tjá sig um íslenskan veruleika og ég fór sem andófsmaður, í andófi gegn kasínókapítalisma og þeim hækjum sem hann styðst við. Ég fór líka vegna þess að ég vil taka þátt í að afhjúpa blekkingu, blekkingu um að allt sé á uppleið á Íslandi og það hafi tekist að ná tökum á "vandanum" með aðferðum og hugmyndafræði IMF.
Ráðstefnan eða sá hluti hennar sem ég sat (eftir hádegi) kom á óvart. Ekki glærusýningar með stöplaritum úr hagtölum, Ekki heldur ávarp Steingríms Sigfússonar fjármálaráðherra, þar kom ekkert á óvart nema hvað hann færði IMF miklar þakkir fyrir veitta aðstoð og hvað hann eyddi miklu púðri í að segja hvað honum þætti sárt að allir kröfuhafar og innistæðueigendur hefðu ekki fengið bætt upp í topp og hvað Ísland ætti ekki að vera fordæmi því þetta mál væri allt svo leiðinlegt, menn sem ríki ættu að borga skuldir sínar. Orðræða Steingríms var eins og hann hefur talað síðan hann komst til valda nema hann er kokhraustari núna, í staðinn fyrir "við-í-miðju-björgunarstarfinu" er kominn tónninn "við-erum-búin-að-ná-tökum-á-vandanum".
En það kom á óvart hvernig sumir töluðu og orðræða þeirra endurómaði varnaðarorð yfir kerfi sem ekki er í lagi, kerfi sem getur sprungið þá og þegar með miklum hvelli. Og þá var ekki verið að tala um neitt íslenskt hrun. Þannig var Simon Johnson afar áhugaverður, hann áttar sig vel á stöðu Íslands og hefur fylgst vel með hvað hér er að gerast og hann áttar sig líka vel á stöðu hagkerfa heimsins í dag. Það sem hann sagði var grafalvarlegt en hann sagði það með hárfínum húmor þannig að þau aðvörunarorð sem hann hrópaði út í salinn voru eins og glettni.
Hann sagði m.a. "Only the Paranoid will survive" í þeirri merkingu að það sé mikilvægt að gera ráð fyrir þeim möguleika að allt fari á versta veg (worst case scenario) og hann fór með salinn inn í heim samtíðarmanna í heimskreppunni miklu og hvernig fólk hefði þá haldið að kreppan væri búin áður en hún skall á ennþá alvarlegri og hvernig það hefði verið vanmetið á þeim tíma hvernig hagsveiflurnar berast út um kerfið. Bæði Simon Johnson og Paul Krugman lýstu áhyggjum á hvað gæti gerst ef brotlending yrði í evrulandi og hvaða áhrif sú brotlending gæti haft á USA og þar með heimshagkerfið.
Það var ekkert minnst á Kína á þessari ráðstefnu, nema það kom fram að allt benti til að IMF myndi flytja höfuðstöðvar sínar til Kína fyrr en seinna því sjóðurinn þarf skv. skipulagsskrá að vera staðsettur þar sem hagkerfið er stærst. Þó það hafi ekkert verið rætt þá velti ég fyrir mér hvaða áhrif það hefur fyrir kínverskt hagkerfi ef USA brotlendir. Gríðarlegir fjármunir frá Kína eru bundnir í USA og raunar fjármagna USA stjórnvöld sig núna á kínversku fé.
Það var hollt að fá greiningu utanaðkomandi á Íslandi og m.a. kom fram hve lítið útflutningur frá Íslandi breytist þó aðstæður hafi verið útflutningi afar hagstæðar. Það sé vegna þess að 2/3 hlutar útflutning séu ál og fiskur og þar ráðist útflutt magn ekki af efnahagsaðstæðum hérna. Þessi framleiðsla er þannig að það er ekki hægt að gera eins og sumum öðrum greinum, framleiða meira og meira ef það er hagstætt verð (leyfilegur veiddur fiskur er fast magn og kvótinn ræðst ekki af því hvað fæst mikið í evrum eða dollurum fyrir fiskkílóið).
Það var líka athyglisvert að sjá og finna hvað hagfræðingar lesa mismunandi í stöðuna og eru ekki allir á sama máli um aðferðir. Sumir þeirra eru mjög arrogant og nefni ég þar t.d. Jón Daníelsson sem lítur á sjálfan sig og þær kenningar sem hann boðar eins og web 2.0 módel í hagfræði (hann notaði sjálfur slíka samlíkingu), nýir og ferskir straumar í takt við tímann. En þegar ég hlusta á Jón Daníelsson þá hlusta ég á róbotahagfræðing úr smiðju þeirrar hagfræði sem aflandseyjan City of London er byggð á, hagfræði sem smellpassar við þannig samfélagsgerð, passar eins vel eins ráðstjórnarríkjahagfræði passaði við járnbræðslur Sovétsins áður en það kerfi féll saman í kringum 1989. Ég gat ekki merkt annað en Krugman væri verulega á öndverðum meiði og ég held að Krugman átti sig miklu betur en Jón Danielsson í þeim brotalömum sem eru í því kerfi sem núna getur hrunið þá og þegar og átti sig líka á því að bak við tölur er fólk og samfélag fólks.
Það stakk mig verulega hve mikill samanburður var á þessari ráðstefnu í máli margra á Írlandi og Íslandi og látið í veðri vaka að Írland hefði gert mistök en Ísland gert það rétta, að láta bankana falla og sjáið bara hvernig fór fyrir Írlandi. Það er ekki svo, það var ekki mögulegt fyrir Ísland að gera annað í stöðunni og sú ástæða sem Bretar og Þjóðverjar hafa fyrir að vilja hneppa íslensku þjóðina í skuldafangelsi vegna netbanka er sú sama og núna er alls staðar í fjármálakerfum heimsins. Eignir þínar eru sýndarpeningar á reikningum en það má fyrir alla muni ekki fréttast að það sé ekkert á bak við þessar tölur, það má ekki niðurskrifa tapaðar skuldir vegna þess að þá lítur bókhaldið ekki nógu vel út, þá er ekki hægt að blekkja lengur.
En margar skuldir í heiminum í dag eru sýndarskuldir, skuldir sem enginn borgunarmaður finnst að nema að með klókindum og bellibrögðum sé hægt að koma einhverjum í þannig aðstöðu að honum sé þröngvað til að borga þessa skuld og allra best virkar blekkingin ef hann virkilega trúir sjálfur að hann eigi að borga. Það er því miður alltaf auðveldast að blekkja og hlekkja þá sem eru valdalausastir í orðræðu og þjóðfélagi og þá sem þegar eru í hlekkjum. Þess vegna taka öflug stjórnvöld (og valdalaus stjórnvöld eins og hin íslensku) þátt í blekkingarleiknum og koma skuldafjötrum á almenning.
Vandamál Íra val ljóst alveg frá þeim tímum sem bankarnir féllu á Íslandi. Í umrótinu þeirra daga sogaðist fé frá útjöðrum evrulands yfir í staði eins og þýskaland eða alls staðar sem peningamenn töldu að þeir væru í vari og mikið frásog var Írlandi og við lá hruni. Stjórnvöld þar brugðu á það ráð að tryggja allar innistæður í bönkum að fullu og höfðu á þeim tíma það traust að það tókst að hemja útflæðið og raunar streymdi fé sem rekið var á flótta annars staðar þá um skeið til Írlands. Það var alveg ljóst öllum sem á horfðu og um það var rætt á efnahagsvefsíðum að fyrr eða síðar kæmi að írskum skuldadögum.
Írar höfðu með þessari aðgerð keypt sér frið um stundarsakir og höfðu til þess traust. Smæð Íslands og stærð íslenskra banka var hins vegar þannig að það var engan hægt að blekkja og hugsanlega munum við sjá það í afturbliki sögunnar þegar lengra líður frá að íslenska hrunið varð á þessum tíma einfaldlega vegna smæðar landsins sem og þess hvernig það var staðsett á jaðrinum. Það var áhugavert og nýtt fyrir mig að einhver erlendu fyrirlesaranna (man ekki hver, minnir Johnson) taldi áhrif af gengismunaviðskipta (carry trade) sem sérstaklega tengdust Íslandi ofmetin, það hefði gerst allst staðar að peningar leituðu úr hinum gömlu miðju Evrópu (Þýskaland) þar sem vextir voru ofurlágir yfir í jaðrana og hann varaði við væntingum ríkja varðandi evruland, þjóðríkin héldu að með því að komast þangað inn þá fengju þau lága vexti en þannig yrði það ekki, þau yrðu þýskaland.
Fyrir utan varnaðarorð Simon Johnson og glögga sýn hans á hagsveiflu nútímans, myntir og viðskipti landa á milli þá fannst mér Gylfi Zoega bera af og lýsa vel þeirri tilfinningu sem ég hef gagnvart því sem gerðist og er að gerast á Íslandi. Paul Krugman mæltist vel eins og ég átti reyndar von á en ég les oft pistla hans á Nytimes.com
Þegar íslensk stjórnvöld (já hinn sami Steingrímur og có) reyndu að tjónka við okkur og fá okkur til að kokgleypa Icesave þá var gjarnan notuð orðræða um að við værum á brún hengiflugsins. Núna tala íslensk stjórnvöld (já hinn sami Steingrímur og có) um að núna séum við á uppleið og búin að ráða við vandann. En þannig var ekki tónninn í lok ráðstefnunnar í Hörpu. Það er alveg ljóst að það er alvarlegt ástand í efnahagsmálum í okkar heimshluta og það getur vel farið kollsteypur og dómínóáhrif þeirra geta orðið ófyrirsjáanlegar og svo stórar að okkur órar ekki fyrir því.
Þetta var tilfinningin sem ég fékk eftir þessa ráðstefnu. Það getur verið að þessi samkoma í Hörpu sé punktur á tímalínu þess ástands sem varir núna, punktur milli þess ástands sem setti á stað hrun á Íslandi og leysti upp það samfélag sem hér var þá og þess ástands sem mun vara lengi og setja á stað öldur víða um lönd, öldur sem höfum ekki aðstæður og tæki til að meta núna hvar muni fjara út. En ef það gerist þá fylgir þeim stóröldum "social disruption", breytingar á samfélagi sem ekki eru hagfræðilegar og það getur verið byltingar og stríð og breyttar þjóðfélagsgerðir og allt þar á milli. Þó að IMF hafi óumdeilanlega farið mjúkari höndum um Ísland er það hefur gert í öðrum löndum þá er það að endurreisa sams konar hagkerfi og féll saman, hagkerfi sem virkar illa í þeirri samfélags- og framleiðslugerð sem við stefnum inn í.
Ef til vill erum við vitni. Vitni að því sem Slavoj Žižek kallar fjörbrot kerfis sem er að eyða sér sjálfu og við getum í bjartsýni okkar vonað að við taki öðruvísi kerfi, kerfi almenninganna (commons). En það getur líka farið á verri veg.
Slavoj talaði um nýlega á Wall Street mótmælunum með manngerðum endurómi (human microphone) og þá sagði hann :
They tell you we are dreamers. The true dreamers are those who think things can go on indefinitely the way they are. We are not dreamers. We are awakening from a dream which is tuning into a nightmare. We are not destroying anything. We are only witnessing how the system is destroying itself.
Hér er grein með torgávarp Slavoj á Wall Street
Orð hagfræðinga þegar þeir tala til almennings og tala mál sem fólk skilur geta verið áhrifarík. Þannig er slagorð þeirrar hreyfingar sem mestar vonir eru bundnar við í dag, hreyfingar sem hófst á Wall Street en sækir einnig rætur í evrópsk mótmæli og mótmæli í mið-austurlöndum og breiðist um heiminn sótt í orðræðu hagfræðingsins Stiglitz, sótt í grein sem hann skrifaði í Vanity fair um 1% fólkið.
Upp risu 99%.
Evran hefði ekki bjargað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.10.2011 | 07:59
Skrýtin umsvif Skúla .... og sérbankaþjónustan
Í mörgum löndum sem sem bóla fjármagns hefur sprungið eins og gerðist á Íslandi þá er slagnum milli alþýðu (99 % fólksins) og fjármálaelítu (1% fólksins) ekki lokið við það heldur verður í kjölfarið gífurleg eignatilfærsla og það myndast ástand hamfarakapítalisma. Við á Íslandi ættum að skoða hvað gerist annars staðar við svipað galopið kapítalískt aflandseyjuhagkerfi og einnig að læra af hvað gerðist á Íslandi þegar Björgólfur kom frá Pétursborg með sitt fé inn í íslenskt bankakerfi og hvað skamman tíma tók að setja hér allt á hvolf og breyta samfélaginu, atvinnulífinu, stjórnmálalífinu og fjölmiðlum í skopparakringlur sem skoppuðu í kringum hans hagsmuni og sog afar fárra manna á auðlegð Íslands. Í þessu sogi voru bankarnir eins og háþrýstiryksugur. Í ljósi þessa þá er eðlilegt að við spyrjum spurninga um aðkomu og umsvif Skúla Mogesens núna í íslensku athafnalífi. Hann er skrifaður fyrir félagi, Títan en hrein eign þess mun ekki vera nema 35 milljónir en félagið hefur samt haft mikil umsvif, keypt hér upp eignir. Skúli hefur líka keypt sig inn í MP banka og keypt hús og jarðir og sitt hvað smálegt og stórt. Það er engin ástæða til annars en skoða aðkomu manna eins og Skúla og ráða í hver greiðir leið þeirra og hvort þeir eru að vinna að uppkaupum í ástandi hamfarakapítalisma og tryggja hagsmuni fjárfesta, hugsanlega sín sjálfs en hugsanlega líka annarra sem eru ekki í sviðsljósinu en eru vinir Íslands eða úlfar í sauðagæru?
Við vitum að erlendir fjárfestar eins og Endre Røsjø og Joe Lewis http://en.wikipedia.org/wiki/Joe_Lewis_(British_businessman) hafa tengst MP banka og það er fróðlegt að fara yfir feril þeirra og velta fyrir sér hvort slíkir menn og fjárfestingar þeirra eru það sem við viljum á Íslandi. Viljum við keppast við að búa í haginn fyrir slíka fjárfesta, fjárfesta sem hafa sópað til sín fé með gjaldeyrisbraski eins og Joe Lewis eða fjárfesta sem hafa verið í vafasömu samkrulli til að komast yfir orkulindir í fjarlægum löndum eins o og Endre Rosjo.
Kannski er besta leiðin til að komast yfir eignir á Íslandi í dag að vera tengdur í banka og ekki skaðar að hafa ýmis samband til að fá sérfyrirgreiðslu í bönkum. Bestu sérfyrirgreiðsluna fá þeir sem eiga bankana, þannig var það á björgólfatímanum og þannig virðist það vera núna. Það er margt sem bendir til að Skúli Mogesen hafi fengið sérstaka fyrirgreiðslu í björgólfsbankanaum fyrir hrun, afar sérstaka.
Ég vil hér benda á pistil Sigrúnar Davíðsdóttur um sérbankaþjónustunaÞ
MP og endursýningin http://www.ruv.is/pistlar/sigrun-davidsdottir/mp-og-endursyningin
Ég lími hann hér inn:
MP og endursýningin
20.04.2011
Skúli Mogensen fer fyrir hópi fjárfesta sem eru að endurfjármagna og ná undirtökunum í MP banka. Spegillinn kannar viðskipti Skúla við Landsbankann 2003. Oz virtist framsækið fyrirtæki en draumarnir rættust ekki. Í kjölfarið lá svo skuldaslóð. Margir trúðu á að fyrirtækið ætti mikla möguleika, keyptu hlutabréf í Oz á gráa markaðnum og fóru illa út úr því. Landsbankinn hafði lánað Skúla Mogensen einn milljarð. Af því voru rúmlega 400 milljónir afskrifaðar, samkvæmt gögnum sem Spegillinn hefur undir höndum.
***
Margt af því sem gerðist í íslensku viðskiptalífi á 10. áratugnum varð eins og aðalæfing fyrir uppsveifluna og hrunið áratuginn á eftir. Það var mikið kapp og ekki alltaf mikil forsjá. Gullæði greip um sig, það var Oz og Íslensk erfðagreining. Það fóru margir flatt á viðskiptum með bréf þeirra á gráa markaðnum sem er, eins og nafnið bendir til, ógagnsær og ætti aðeins að vera fyrir fagfjárfesta. En ekki á Íslandi.
Oz var tæknifyrirtæki og eins og oft er með slík fyrirtæki reyndu menn fyrir sér með hitt og þetta, allt mjög snjallt en viðskiptamódelið gekk ekki upp. Samningur við Ericsson lofaði góðu en kom of seint, dotkom bólan sprakk.
Það sem einkennir oft frumkvöðla í tæknigeiranum er gríðarleg einbeiting á viðfangsefnið. Öðruvísi hefst þetta ekki. Þetta er þrotlaus vinna, menn uppskera iðulega lítið lengi framan af, endalaus barningur og öldungis óvíst hvort þetta verði nokkurn tíma barn í brók. Þetta er hin klassíska frumkvöðlasaga. Og oft sagt að besta leiðarljósið sé vonin um að skapa gott fyrirtæki, ekki gróðavonin.
Tilfinningin með Oz er að þar hafi gróðinn átt að vera heldur skjótfengnari. Og athyglin verið á öðru braski, ekki bara verið að byggja upp öflugt fyrirtæki. Lánasaga Skúla Mogensens hjá Landsbankanum bendir í þessa átt.
Spegillinn hefur undir höndum afskriftayfirliti Landsbankans frá 30. júní 2003. Þar segir að Skúli hafi gengið í Sérbankaþjónustu Landsbankans árið 2000 ,og tók veruleg lán í bankanum á því ári og setti að veði hlutabréf sín í Oz og önnur hlutabréf sem hann fjárfesti í. Skuldir Skúla urðu hæstar rúmar 1.000 milljónir króna árið 2001. Hækkuðu meðal annars það ár vegna gengislækkunar krónunnar.
En hvernig var þessi Sérbankaþjónustu Landsbankans?* Þetta var einkabankaþjónusta, átti að vera fyrir gulltryggða eignamenn og svo mikið einkamál að lán til þeirra voru ekki afgreidd í lánanefnd bankans. Það átti enginn að vita um lánin nema sá sem fór með málin í Sérbankaþjónustunni og auðvitað átti að velja viðskiptavinina vel. Það mistókst þó í tilfelli Skúla.
Skúli skuldaði persónulega rúman milljarð. Að veði voru að mestu óskráð hlutabréf. Í árslok 2001 yfirtók bankinn um helminginn af hlutabréfunum sem hann hafði að veði en þau voru að hrapa niður í nánast ekkert. Hlutabréf Skúla í Oz voru metin á 2-3 milljarða en fóru niður í lítið. Þá stóð enn eftir 500 milljón króna skuld. Þegar kom fram á 2003 afskrifaði bankinn þetta allt. Setti 421 milljón króna til að mæta fyrirsjáanlegu útlánatapi í þessu máli og lagði til að afskrifaðar yrðu endanlega 400 milljónir króna.
Þetta er sagan úr afskriftaryfirlitinu. Árið 2004 afskrifaði Landsbankinn svo 45 milljónir á Oz Communications. Það lán var tryggingalausir tékkar.
En hvernig var þá staðan hjá Oz árið 2000 og 2001 þegar Skúli er að taka lán upp á milljarð til hlutabréfakaupa? Hún var reyndar ekki burðug. Heildartap Oz á fyrsta ársfjórðungi 2000 nam tæpum 100 milljónum sem var ríflegt tap miðað við að tapið allt árið 1999 var tæpar 70 milljónir króna. Veltan allt árið 1999 var um 70 milljónir, var 130 milljónir á þessum fyrsta ársfjórðungi 2000. Þetta eru ekki tölur sem virðast réttlæta lán út á bréf á gráa markaðnum upp á milljarð. Og það er varla rífandi jákvætt fyrir fyrirtæki að forstjórinn sé með hugann við eigið brask.
Sagan sem þarna er sögð er af umsvifamanni sem ætlar ekki að bíða eftir að fyrirtækið sem hann er að byggja upp skili arði heldur tekur lán til hlutabréfakaupa. Og þetta er líka kunnugleg saga um banka sem tekur léleg veð og þarf síðan að afskrifa eftir því. Þess má geta að í breskum bankaheimi og reyndar víðast á þroskuðum mörkuðum líta bankar ekki við óskráðum bréfum sem veðum. Bara alls ekki.
Bankinn afskrifar þarna yfir 400 milljónir króna. Á þessum tíma kostuðu meðal einbýlishús 20-24 milljónir svo afskriftin hefði dugað fyrir 17-20 einbýlishúsum, híbýli fyrir 80-100 manns. En bankinn fékk reyndar aldrei mikið af þessum milljarða láni sínu til baka. Hér er áhugavert að hafa í huga að lánin eru veitt áður en Björgólfsfeðgar koma að bankanum en afskriftirnar verða eftir aðkomu þeirra.
Það hefur áður verið nefnt að það er leiðinlegt að vera með stöðuga neikvæðni þegar menn taka til höndunum og byggja eitthvað upp. Það er ekkert útilokað að Skúli hafi lært af óförum Oz og óförunum sem Landsbankinn létti af honum. En sagan um endurreisn MP banka á sér kunnuglegar hliðstæður. Þarna kemur til sögunnar Íslendingur sem hefur selt fyrirtæki erlendis, þó ekki vitað hvort það eru þeir peningar eða lán, líkt og þegar Björgólfur Thor Björgólfsson og faðir hans keyptu Landsbankann. Samkvæmt heimildum Spegilsins þekkjast þeir Skúli og Björgólfur Thor vel frá fornu fari. Svo eru það erlendir fjárfestar sem eru engir fagfjárfestar í bankageiranum. Og fenginn mætur maður sem stjórnarformaður en sem hefur þó hvorki reynslu af né sérþekkingu á bankarekstri. Og menn stefna á 15-20 prósenta arðsemi eigin fjár sem er bratt í umhverfi með 1-5 prósenta vexti. Það er erfitt að verjast þeirri hugsun að þetta hljómi allt eins og endurflutningur á gömlu leikriti.
*Þessi lýsing á Sérbankaþjónustunni var höfð eftir heimildarmanni sem áður vann í Landsbankanum. Eftir flutning pistilsins fékk Spegillinn þær upplýsingar frá öðrum fyrrum starfsmanni að viðskiptavinir þjónustunnar hefðu verið sérvaldir, bestu viðskiptavinir bankans með að lágmarki 50 milljónir í reiðufé í eignastýringu. Þeir áttu að geta fengið skjóta lánafyrirgreiðslu en með samþykki lánanefndar 1 þar sem stjórnendur bankans sátu. Stjórnendur vissu því hverjir fengu lán í gegnum Sérbankaþjónustuna. - Það breytir því þó ekki að í tilfelli Skúla Mogensen tókst ekki vel til og mál hans ollu, samkvæmt heimildum Spegilsins, miklu hugarangri í Landsbankanum.
Stofna nýtt flugfélag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.10.2011 | 11:19
Greiningardeildir lögreglu, greiningardeildir bankanna og áhættusamfélagið
Á bólutímanum fyrir Hrun þá las ég stundum netpistla eða hlustaði á fjölmiðla í morgunssárið þar sem sagðar voru fjármálafréttir dagsins. Véfréttirnar sem birtu spádóma sína um stöðu í núinu og horfurnar í framtíðinni voru greiningardeildir bankanna. Núna er það spilavirki sem greiningardeildir bankanna rýndu í hrunið með brauki og bramli og enginn tekur lengur mark á bankaspeki, við vitum sem er að það sem kemur úr þeim ranni er lítið annað en veruleikablekking þeirra sem lifa á blöffi og braski.
Rétt áðan þá fannst mér ég vera komin aftur í tímann, mér fannst ég vera að rýna í sama textann, lesa fréttir frá greiningardeildum sem voru á vaktinni, sem sáu óvinina sitja á fletjum fyrir og voru sjálfir í þjónustu bjargvættarins og kunnu best allra að greina og meta hvar væru hættur og ekki aðeins það, hversu mikil hætta væri á ferð á hverjum stað og stundu.
Í tíma greiningardeilda bankanna þá var samfélagið sett fram eins og hringrás sem gengi fyrir peningum og út á að skúffa saman fé í hrúgur sem kallaðir voru sjóðir með því að vita hvaða hlutabréf í hvaða hlutafélögum og sjóðum poppuðu upp og niður - að því er virtist út af því hvernig önnur bréf í einhverjum öðrum félögum poppuðu upp og niður og leikurinn gekk út á að geta sem nákvæmast greint hvað væri á leið upp og hvað væri á leið niður og hve mikið.
En tími greiningadeilda bankanna er liðinn og það sem fékk mig til að kippast við núna í morgun var lestur skýrslu sem vitnaði í greiningardeildir lögreglu. Það er skýrsla frá Ríkislögreglustjóra, skýrsla sem er bara til vegna þess að grunur var um að lögreglan hefði brotið lög eða farið í kringum lög með því að einstakir aðilar tengdir lögreglu væru í einkabisness við lögreglu, skýrsluna má sjá hérna:
http://www.innanrikisraduneyti.is/media/frettir-2011/Aths.-rikislogreglustjora-4.10..pdf
Það er svo svipuð orðræða í þessari skýrslu og var fyrir Hrun í bankafréttunum að það læddist að mér sá grunur að kannski væri þetta eins, kannski væri þessar greiningardeildir lögreglu álíka merkilegar og greiningardeildir bankanna voru. Kannski væri mat þeirra og sýn á tilverunni álíka brenglað og sú sýn greiningardeilda bankanna sem lýsti heiminum sem risastóru kasínó var, sú sýn sem lýsti þeim sem sátu við fjárhættuspilin sem bjargvættum og stórmennum.
Greiningardeildir bankanna tóku þátt í og voru stórir gerendur í því ð spinna upp lygavef og breiða yfir samsæri gegn íslenskum og erlendum almenningi, samsæri sem fjölmargir tóku þátt í, ekki bara þrjátíu útrásarvíkingar heldur víðfeðmt net valdamanna í fyrirtækjum, bankastofnunum, stjórnsýslu og pólitík með mörgum hjálparkokkum sem hilmdu yfir og tóku þátt í blekkingarleiknum gegn broti af ránsfengnum.
Greiningardeild lögreglu leitar nú að ólgu, leitar að glæpamönnum áður en þeir fremja glæpina og leitar að hvar hún á að bera niður í leit sinni að óvininum. Þessa ólgu og þennan óvin finnur hún í æstum og örvæntingarfullum almenningi sem hennar hlutverk sé að hemja. Sérstök hætta er á hópamyndun, ekki síst hópum sem setja ekki fyrir sig almenningsálitið og hópum eins og hústökufólki. Svo virðist greiðsluvilji almennings vera að minnka og fréttir um stjórnarfarið fyrir hrun gætu leitt til þess sem greiningardeild bank... lögreglu kallar öfgafull viðbrögð.
Það er eitthvað við þetta innblik í orðræðu lögreglu sem fær mann til að skynja hvernig lögreglan lítur á sig og hvernig hún lítur á okkur, almenning í landinu. Lögreglan eru vaktmenn og varðliðar sem hlusta á tikkið í tímanum og leita eftir hvar eitthvað gæti komið upp sem gæti umbylt þessu kerfi sem við búum við, þessu kerfi fanga og fangavarða þar sem fangarnir eru skuldaþrælar sem þarf að aðgæta að hegði sér vel, haldi áfram að vera með greiðsluvilja og passa upp á að safnist ekki saman í hópa, þá er voðinn vís. Allra hættulegast ef hóparnir kæra sig kollótta um almenningsálitið.
Grípum niður í skýrsluna með álitum frá greiningardeildum bank.... ég meina greiningardeildum lögreglu og skoðum orðfærið þar:
Þann 30. september 2009 gaf greiningardeild út nýtt hættumat þar sem varað var víð margvíslegri ógn. Sem fyrr var niðurstaða greiningardeildar sú að spenna myndi aukast í þjóðfélaginu á næstu vikum og mánuðum.
Óvænt rás atburða og nýjar upplýsinga tengdar hruni íslenska fjármálakerfisins gætu á skammri stundu raskað þeim viðkvæma stöðugleika sem ríkti. Boðað hafði verið að á næstu vikum yrði gerð opinber Rannsóknarskýrsla Alþingis um hrun íslenska fjármálakerfisins. Að hálfu nefndarinnar hafði verið upplýst að skýrslan myndi innihalda upplýsingar sem yrðu þjóðinni erfiðar.
Þann 7. október 2009 varaði greiningardeild við að margir óttuðust að missa húsnæði sitt á næstu vikum og mánuðum. Það kynni að kalla fram öfgafull viðbrögð. Umræðan í þjóðfélaginu gæfi til kynna að greiðsluvilji almennings færi minnkandi. Því ástandi kynnu að fylgja hópamyndanir og mótmæli. Örvænting innan vissra þjóðfélagshópa færi vaxandi og margvíslegir þættir gætu snögglega aukið ólgu í þjóðfélaginu.
Þegar ég les þennan texta þá er ég alltaf rugluð, þetta gæti verið skrifað af greiningardeildum dáinna banka og mér finnst ekkert sem skilur að lögreglu í núinu og banka sem hrundu, ekkert sem segir mér að þetta séu stofnanir sem ég eigi að treysta og vinna með. Af hverju á ég að treysta þeim sem lítur á almenning sem óvininn og talar mál og talar máli þess kerfis sem hrundi yfir okkur?
Svo leggur greiningardeild mat á sjálfa sig og réttlætir kaup lögreglu á búnaði af fyrirtækjum í eigu lögreglumanna. Halló, ég er ekki að lesa fréttir frá greinigardeildum bankanna fyrir Hrun, þetta er annað, þetta er eftirhruns Ísland sem nú kallar:
"Reynsla af hættumati greiningardeildar er sú að spár hennar hafa gengið eftir. Ákvarðanir lögreglu um ráðstafanir sem gripið hefur verið til, þar með talið kaup á búnaði, hafa tekið mið af þeim. Greiningardeild telur ennþá vera ríkjandi alvarlegt þjóðfélagsástand og lítið þurfi að gerast til þess að uppúr sjóði. Lögreglan starfar ennþá samkvæmt viðbúnaðarskipulagi lögreglu vegna alvarlegs þjóðfélagsástands..."
Sennilega eru báðar þessar keimlíku stofnanir - greiningardeildir banka og greiningardeildir lögreglu - afsprengi þess áhættusamfélags sem við búum við og félagsfræðingar eins og Giddens og Rick hafa fjallað um. Ég velti fyrir mér hvort einhver von sá að breyting verði á ástandinu og þegar ég lít aftur í tímann þá man ég áður eftir svona gríðarlega óréttlátu ástandi, það var þegar "við náðum tökum á verðbólgunni" og gerðum "þjóðarsátt".
Það var á árunum þegar opinberir starfsmenn og margar starfsstéttir bjuggu við föst laun og 70% verðbólgu og verðtryggðar skuldir. Sigurvegarnir skrifa söguna og þeir láta sinn sannleik koma fram, ekki sannleik þeirra sem misstu húsnæði sitt á misgengisárunum, ekki þeirra sem fluttu úr landi heldur valdamanna sem búa til þjóðarsátt úr hörmungum sumra. Heldur þeirra sem gerðu sátt við bankaheiminn og settu upp kerfið sem blóðsaug almenning 1985 og gerir það líka núna, kerfi sem virkaði um tíma og var alveg samkvæmt verðbólguhagfræðingum eins og Milton Friedman. Það er nú kannski kaldhæðni örlaganna að fréttamaður sem steig sín fyrstu pólitísku spor á misgengisárunum þegar örvæntingarfullt ungt fólk sem var hneppt í skuldafangelsi vegna verðtryggingar á þessum árum og var í forsvari fyrir hóp sem fólkið stofnaði, Sigtúnshópinn - skuli núna vera æðsti yfirmaður þeirrar löggæslu sem þarf núna að hafa aðgætur á því að fólk sé að stofna hópa.
Lögreglan fór að lögum við innkaup | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.10.2011 | 12:37
Facebook aðgangi mínum lokað
Ég hef ásamt fjölda fólks staðið að undirbúningi að samstöðumótmælum 15. október á Lækjartorgi. Það kom í minn hlut að búa til facebook viðburð, kvaðningu til fólks að skrá sig og ég hef reynt að skrifa inn á vegg þar ýmislegt sem varðar viðburð okkar á Lækjartorgi og alheimsmótmælin ásamt því að setja upp vefsíðu fyrir Occupy Reykjavík.
Það hafa yfir 400 manns þegar skráð að þau muni mæta og mörg hundruð segjast kannski ætla að mæta. Seinast í morgun þá setti ég inn tengill þar í lítið myndband sem ég tók í gærkvöldi þegar fólk var að búa sig undir morgundaginn, mála skilti til að andæfa heimskapítalismanum og flauta til leiks og prófa tæknibúnað. Hér er það vídeóbrot:
Svo ætlaði ég að setja inn nokkrar myndir af undirbúningnum en þá brá svo við að búið var að loka facebookaðgangi mínum. Ég kemst því ekki á facebook og bregð því á að skrifa hér á moggabloggið til að koma á framfæri því sem ég vildi setja á vegg viðburðarins í morgum og hvetja fólk til að mæta á alþjóðlegu samstöðumótmælin á Lækjartorgi kl. 15.
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir af undirbúningi okkar. Fleiri myndir má sjá á
http://www.flickr.com/photos/salvor/sets/72157627773365007/with/6245682035/
Ég vil líka benda á http://soundcloud.com/tokumtorgin en þar setti ég inn nokkur viðtöl í útvarpi við þá sem hafa undirbúið mótmælin 15. október. Einnig vil ég benda á að við erum með twitter tokumtorgin (sjá hérna http://twitter.com/#!/tokumtorgin ) og vefsíðuna http://www.esjan.net/reykjavik/
Mismunun víða mótmælt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)