Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
2.5.2007 | 08:47
Geta bara karlmenn talað um skatta?
Það var methallærislegt að sjá í Kastljósi gærdagsins hvernig það voru bara karlmenn sem fjölluðu um skattamál og hve kynskipt umræðan var annars vegar um heilbrigðismál þar sem voru fimm konur og einn karl og um skattamál þar sem voru sex karlar.
Það er líka magnað hve grunn og yfirborðsleg umræðan er í svona þáttum, ég velti fyrir mér hver sé ástæðan - er það vegna þess að þessi miðill sjónvarpið og sá knappi tími sem hver viðmælandi hefur þar og hve lítið af bakgrunnsupplýsingum koma fram sem veldur því?
Ég sakna þess að ekkert ítarefni sé með svona umfjöllun þannig að fólk geti betur borið saman stefnu flokkanna. Þegar ég sá um vef Femínistafélagsins þá setti ég upp sérstakan kosningavef fyrir femínista fyrir síðustu kosningar, heimsótti kosningaskrifstofur og setti inn upplýsingar um stefnu flokkanna í kvenfrelsismálum. Mér hefði ekki fundist ofverkið hjá þáttum eins og Kastljósinu að taka saman hliðarupplýsingar og setja á vef með svona þáttum, annars vegar um heilbrigðismál og hins vegar um skattamál. Það er kannski gallinn að fréttastofurnar lifa í núinu og útsendingunni og hafa ekki almennilega áttað sig á hina sítengda og margflækta og tengda samfélagi Netsins og telja kannski ekki það vera í sínum verkahring að
Eða er umræðan svona grunn út af því að þeir sem skipuleggja þessa þætti gera það frekar illa og virðast ekki hafa unnið mikla heimavinnu? Hér vil ég t.d. nefnda að í upphafi þáttarins var fjallað um stimpilgjöldin og gengið á röðina "hvað finnst þínum flokki um stimpilgjöldin?" og svo kom í ljós að allir vildu þau burt. Út af hverju var þá verið að eyða dýrmætum tíma þáttarins í þetta lítilfjörlega mál sem allir eru sammála og sem almenningur hefur sennilega afar lítinn áhuga á? Ég leyfi mér líka að efast um að allur þorri fólks viti hvað stimpilgjöld eru. Eiginlega fékk ég ekkert út úr þessari umræðu um hver skilin eru milli flokka nema helst að vinstri grænir hafa skýrari afstöðu en aðrir þ.e. vilja fjármagnstekjuskatt og hækkun á frítekjumarki í áföngum.
En hvers vegna voru bara karlmenn í þessari umræðu um skattamálin? Ekki getur það verið vegna þess að þetta var svona djúp speki og mikil sérfræði að það hefur enginn kona treyst sér í að fjalla á ábúðarmikinn hátt um þennan málaflokk. Hvað var talað um í þessum þætti? Spyrillinn hjá Kastljósi sagði í byrjun að hann vildi fara hringinn og spyrja fulltrúanna nokkrurra spurninga. þessar spurningar voru:
1. stimpligjöldin á að fella þau niður?
2. fjármagnstekjuskattur á að hækka hann eða fella hann niður eða hafa hann óbreyttan?
3. hver eiga skattleysismörk að vera í krónutölu?
4. hvernig hyggist þið borga þennan reikning? (þ.e. hækkun á skattleysismörkum)
Þetta var allt og sumt sem rætt var í þættinum. Ég held það hefði ekki þurft neinn umræðuþátt um þetta, það hefði verið best að fá flokkana til að senda inn skriflega svör og bakgrunnsupplýsingar og setja á vefsíðu RÚV. það hefði verið eins upplýsandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.5.2007 | 22:44
300 kýr í fjósi
Ég fór ekki í 1. maí gönguna í dag, ég hef samt oftast farið í þessa göngu, það hefur verið einn af árlegum ritúölum í lífi mínu. Ég hef haft gaman af því að velja mér skilti að ganga undir og svo vera með eigin skilti og spá í hvernig þau skilti sem fólk heldur á loft endurspegla tíðarandann. En ég fór heldur ekki í göngunni 1. maí fyrir tíu árum. Ég heyrði í fréttum í kvöld að það hefði verið tímamótadagur því þá hefði Tony Blair tekið við stjórnartaumum í Bretlandi. Það er samt ekki það sem mér er minnistæðast um þennan dag fyrir tíu árum heldur það að 1. maí þann dag þá var ég allan daginn í biðröð fyrir utan skrifstofu Borgarskipulags í Reykjavík.
Það var þannig að þá var lóðum í Reykjavík úthlutað eftir reglunni "fyrstir koma, fyrstir fá" og það var verið að úthluta fyrstu lóðunum í Staðahverfinu í Reykjavík, hverfinu sem dregur nafn sitt af Korpúlfstöðum og er byggt út úr túnum þess býlis.
Þeir sem eins og ég ætluðu sér að fá lóð á góðum stað tóku enga sjensa heldur biðu yfir einn sólarhring í biðröð þangað til skrifstofan opnaði 2. maí og það mátti skila inn lóðaumsókninni. Ég hafði mörgum árum áður heillast af fjörunni og strandlengjunni fyrir neðan Korpúlfsstaði og ennþá finnst mér þetta einn fallegasti staðurinn í Reykjavík. Ég var númer 2 í biðröðinni og fékk lóð. Það var engin brjáluð eftirspurn eftir lóðum í úthverfum Reykjavíkur þá, reyndar voru aðstæður þannig að það þótti snarbilað fólk sem sóttist eftir lóðum og vildi byggja sjálft því þá var verðlagið á húsum þannig að tilbúin hús í grónum hverfum voru svona helmingi ódýrari en áætlaður byggingarkostnaður.
Það var því við hæfi að fara í dag í pílagrímsferð á jörðina Korpúlfsstaði og skoða vinnustofur listamanna sem voru opnar almenningi í dag. Þar var í dag opnuð Sjónlistarmiðstöð. Fyrir tæpum áttatíu árum voru þarna 300 kýr í fjósi. En hér eru nokkrar myndir sem ég tók í dag á Korpúlfsstöðum. Myndaalbúmið er hérna með 27 myndum: http://salvor.blog.is/album/Korpulfsstadir/
Vinnustofurnar eru sumar með upprunalega gólfinu. Þetta hefur verið eldhús starfsmanna í fjósinu á Korpúlfsstöðum.
Landslag bernskunnar
Þuríður myndlistarkona í vinnustofu sinni á Korpúlfsstöðum. Þar sýndi hún olíumálverk af hestskinnum og af jurtum í úthaga. Þuríður er alin upp á sömu slóðum og ég, hún er alin upp á Laugarnesbýlinu þar sem við börnin í hverfinu lékum okkur og faðir hennar var þar með hesta og kindur.
Myndlistamennirnir útskýrðu fyrir gestum hvernig þeir unnu verkin sín, hér er Elli að segja frá því hvernig hann tekur ljósmyndir inn um glugga hjá fólki og listakona að segja frá hvernig hún blandar litina.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.5.2007 | 14:09
Loddaraskapur og hálfsannleikur í fjölmiðlum
Seinni Kastljósþátturinn um ríkisborgararéttarmálið var góður og upplýsandi og fagmannlegur. Það má hins vegar velta fyrir sér hvaðan Kastljós fékk umsókn stúlkunnar sem lesin var upp í þættinum, því eftir því sem ég best veit er umsóknin einkagögn sem hún lagði fram til opinberrar nefndar (Guðjón Ólafur, Bjarni Ben. og Guðrún Ögmunds) og mér skilst að það sé eina fólkið sem fékk að lesa gögnin frá umsækjendum. Ef Kastljós hefur komist yfir þessa umsókn öðru vísi en beinlínis frá stúlkunni sjálfri og með samþykki hennar þá er sennilega ólöglegt hjá þeim að birta þessi gögn þ.e. lesa upp umsókninni. Þetta er sennilega brot á upplýsingalögum. Þeir átta sig væntanlega á því en taka áhættuna eins og fjölmiðlar gera jafnan í skúbbinu, áhættu á að enginn ákæri þá og/eða afleiðingar dóms/ákæru verði minni en ávinningur af að koma með góða frétt.
Mér finnst það fróðlegt að fjölmiðlar hafa upplýst að ástæður fyrir því að umræddri stúlku var veittur ríkisborgararéttur á svo skjótan hátt voru fremur lítilfjörlegar amk ef þetta er rétt sem fram kom í Kastljósi. Það breytir nokkuð viðhorfi mínu til þessa máls, svo ég segi bara hreinskilnislega þá er ég steinhissa og trúi þessu varla og finnst skrýtið að hægt sé að fá ríkisborgararétt á svona auðveldan hátt á Íslandi. Ég vil gjarnan að Ísland sé griðastaður fólks sem þarf að flýja heimkynni sín og ég hef skammast mín mikið hve Íslendingar hafa staðið sig illa í að taka á móti flóttamönnum þannig að ég hélt að það væri erfitt að fá ríkisborgararétt á Íslandi. Það er einkennilegt og tortryggilegt hvernig alsherjarnefnd afgreiddi þetta mál. Mér finnst að þessi nefnd (Bjarni Ben. Guðjón Ólafur og Guðrún Ögmunds) verði að svara betur fyrir það.
Kastljósumfjöllun Helga Seljan verður hins vegar seint talið dæmi um góða fréttamennsku. Ef Kastljós bjó þegar yfir þeim upplýsingum sem komu fram í þættinum á mánudagskvöldi þ.e. hafði undir höndum umsókn stúlkunnar og þetta var einhver liður í að grilla stjórnmálamenn og fylla Kastljósið af djúsí fréttaefni kvöld eftir kvöld þá er þetta dæmi um afspyrnuslæma fréttamennsku. Framganga Helga Seljan í Rúv verður ennþá siðlausari og rustalegri ef maður gerir ráð fyrir að hann hafi þegar séð þessa umsókn og viti fyrir hverjar þessar sérstöku ástæður eru sem stúlkan sótti um.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.5.2007 kl. 07:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
það sem Helgi Seljan gerði vitlaust er að hann hegðaði sér eins og pólitískur andstæðingur viðmælanda síns, andstæðingur sem vill koma höggi á veikan blett á andstæðingi og knésetja hann með öllum ráðum. Helgi Seljan er á launum hjá okkur öllum, hann starfar á opinberum fréttamiðli sem vissulega á að vera fimmta valdið og veita stjórnsýslunni aðhald og fletta ofan af misfellum og skrýtnum vinnubrögðum þar.
Þessi afgreiðsla á undanþágu sem um ræðir er hins vegar afgreiðsla alsherjarnefndar (Guðjón Ólafur, Bjarni Ben. og Guðrún Ögmunds) og það er sú afgreiðsla sem er afar einkennileg. Jónína Bjartmarz ber ábyrgð á því sem hún ber ábyrgð á og það er sem þingmaður og sem umhverfisráðherra og sem nefndarmaður í nefndum sem hún tekur þátt í en hún ber ekki ábyrgð á því þó fólk henni tengt hljóti einkennilega greiða fyrirgreiðslu hjá einhverri nefnd sem hún hefur ekki haft einhver afskipti að.
Auðvitað hefur Jónína hjálpað stúlkunni að fóta sig í kerfinu og bent henni á leiðir. Skárra væri það nú. En það er ekkert óeðlilegt við að fólk leiðbeini fjölskyldum sínum hvort sem það eru þingmenn eða ekki. Það var ekkert athugavert við það að fjölmiðlar spyrðu Jónínu út í þetta mál en það er ekki hægt að kalla orðræðu Helga Seljan spurningar. Það er frekar árásir. En Helgi Seljan var að ráðast á rangan aðila og á röngum forsendum. Það er mjög hættulegt ef fjölmiðlar verða þannig og segja einhvern hálfsannleika og gangast upp í loddaraskap.
Flest fólk er illa að sér í gangvirki stjórnsýslunnar og það er auðvelt að afvegaleiða fólk með skrípafréttamennsku og búa til sökudólga og búa til sök. Það er hins vegar ekki hlutverk ríkisfjölmiðils að gera það.
Í vetur hefur verið sleginn nýr tónn í fréttamennsku á Íslandi. Það er viðbúið að þessi fréttamennska teygi sig inní stjórnmálaumræðu. Þetta hófst með Byrgismálinu og teygði sig yfir í önnur sambærileg mál og varð eins konar samkeppni milli sjónvarpsstöðva. Vissulega er þetta afhjúpandi fréttamennska og við verðum margs vísari um hvernig farið var með lítilmagnann í íslensku samfélagi. En þetta hafa líka verið tímar þar sem ógæfa annarra og eymd hefur verið gerð að áfergjulegu fréttaefni - svipað eins og í sakamálaþættum þar sem kvöl fórnarlamba morðingja og kvalalostara er sýnd í nærmynd og dvalið við pyntingarsenurnar.
Þetta hefur verið vetur hinna blörruðu bölla í fjölmiðlaumræðu á Íslandi.