Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
13.3.2007 | 14:13
Ástandið í Bolungarvík
Ég hef fylgst með Vestfjörðum alveg frá því systir mín flutti þangað þá nýútskrifuð úr Kennaraháskólanum. Hún réði sig sem skólastjóra í Holt í Önundarfirði, þar var þá lítill sveitaskóli fyrir bændasamfélagið í firðinum. Svo kynntist hún Jóa sem bjó hinu megin við Breiðadalsheiðina á bóndabæ inn í Syðri Dal í Bolungarvík. Þetta var áður en göngin komu og tilhugalíf þeirra var svaðilfarir yfir heiðina á snjósleðum þegar ekki var fært. Sem var nú ansi oft... held ég alltaf nema á sérstökum mokstursdögum og þá voru snjómoksturstæki alltaf á ferðinni því annars lokaðist vegurinn strax aftur. Ég man hvað mér fannst ógnvekjandi að fara Breiðadalsheiði í fyrsta sinn - lærði að marga metra há ísbrúnin sem var höggvin þarna út var kölluð stálið. Það er hvergi eins og í vestfirskri náttúru og vetrarveðrum sem manni verður ljóst smæð mannsins og hve leikurinn er ójafn - leikur mannsins við náttúruna.
Ég hafði aldrei komið til Vestfjarða fyrr en ég heimsótti systur mína í Holt og ég man eftir að mér fannst í fyrstu allt varðandi Vestfirði fyrst og fremst hrikalegt og lífsbaráttan þar hrikalega hörð. Brjálaður veðurofsi, byggðin strjál og víða að fara í eyði, samgöngur erfiðar og fólkið að flytjast burt. Ég man í fyrsta skipti þegar ég kom til Flateyrar, við ókum eftir strandgötunni og þetta var rétt eftir ofsaveður af sjó og sums staðar höfðu rúður sem vísuðu að sjónum brotnað og sums staðar var nelgdar spýtur fyrir gluggana til að mæta hamförunum. Þetta var líka rétt eftir brunann í frystihúsinu og hluti af þorpinu var brunarúst. Það var samt einhver villta vestursbragur þarna og falleg húsalínan með gömlum tréhúsum. Síðan þá hef ég oft komið til Vestfjarða og hrífst alltaf meira og meira af náttúru og mannlífi þar, þetta er byggðalag sem er engu öðru líkt á Íslandi, þetta er heimskautaland okkar og hvergi eru fjöllin tignarlegri og brattari.
Frá því ég kom fyrst til Vestfjarða fyrir um fimmtán árum þá hefur margt breyst. Bjarta hliðin er að samgöngumál hafa batnað og munu batna með vegabótum og göngum í Bolungarvík. Vestfirðingar hafa líka eins og aðrir landsmenn fengið betra samband og aðgengi að þjónustu gegnum Internetið. Dökku hliðarnar eru margar. Þyngstu raunirnar eru sjóflóðin, snjóflóðið á Flateyri og Súðavík. En Vestfirðir er sjómannasamfélag og sums staðar eru búsetuskilyrðin orðin þannig að það annað hvort fiskast ekki eða aflaheimildir eru ekki lengur í byggðalaginu. Það eru margir mælikvarðar sem hægt er að nota um hvernig ástandið er - ein er sú að fylgjast með hvort fólk flytur á svæðið, hvernig aldursamsetning er, hvert er atvinnuleysið, hvað mörg hús standa tóm og hvort fólk flytur í burtu.
Það er sama hvaða mælikvarða maður notar - ef maður skoðar ástandið á Bolungarvík þá er ljóst að það byggðalag er í kreppu. Ég held ekki að það muni breytast þó það komi betri akvegur. Ég held heldur ekki að það muni breytast við meiri möguleika á menntun og háskólasetur. Ég held að fólk noti alveg eins betri samgöngur til að keyra í burtu frá stöðum þar sem allt er að hverfa og ég held að fólk noti alveg eins meiri menntun til að drífa sig í burtu. Til langs tíma verður ekki spornað við þeirri þróun að dagar fiskimannasamfélagsins eru horfnir eða að hverfa í plássum eins og Bolungarvík. Það er eins gott að horfast strax í augu við það. Og velta fyrir sér hvað kemur í staðinn.
Ríkisstjórn samþykkir að skipa nefnd vegna ástands atvinnumála á Vestfjörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.3.2007 | 13:13
Sögur úr Hafnarfirði
Á forsíðu Mbl. í dag er sakbending Ásu, roskinnar móður og Konráðs, miðaldra sonar hennar úr Hafnarfirði sem harma örlög fjölskyldu sinnar og kalla nafngreinda menn til saka fyrir að hafa sent soninn til vistunar á Breiðavík fyrir mörgum áratugum.
Orðalag greinarinnar er með sama hætti og þær greinar sem að undanförnu hafa birst um sama mál t.d. "hún er ómyrk í máli og hefur ekkert fyrirgefið", inngrip barnaverndarnefndar er kallað "aftaka fjölskyldu" og móðirin Ása kallar til saka marga aðila og segir:
Mér er mjög kalt til þeirra sem tóku drenginn og höfðu afskipti af mínu heimili þá og síðar. Ég man einkum eftir Val Ásmundssyni, Sveini Guðbjartssyni, Huldu Sigurðardótur og séra Braga Benedikssyni. Þetta fólk og raunar fleiri aðilar, sýndi mér valdníðslu að tilefnislausu....Það ruddist inn á heimili mitt, stjakaði við mér og lét eins og ég væri varla til, virti mig ekki frekar en gólfið sem það gekk á."
Ása segir líka "Það sem þetta barnaverndarfólk gerði drengnum mér og fjölskyldunni mun ég aldrei fyrirgefa - ekki heldur hinum megin.
Ég finn til með móðurinni og ég held að málefni fjölskyldu hennar hafi ekki verið leyst á farsælan hátt og það hafi verið valtað yfir hana vegna þess að hún var fátæk einstæð móðir sem gat ekki barist nógu mikið á móti.
En hver er réttur þeirra aðila sem vinna á vegum barnaverndaryfirvalda? Eg held að flest eða öll mál sem komast til barnaverndaryfirvalda séu viðkvæm og heitar tilfinningar og barnaverndaryfirvöld séu alltaf ásökuð af málsaðilum - annað hvort fyrir afskipti sín eða fyrir afskiptaleysi sitt. Barnaverndaryfirvöld eru bundin trúnaði og aldrei er í fjölmiðlum veittar upplýsingar um einstök mál jafnvel þótt aðilar að málinu (oftast foreldrar sem eru að missa forræði yfir börnum) segi sögu sína í örvæntingu augljóslega til að fegra sinn hlut og margt bendi til að sagan sem þar birtist sé röng.
En nú er ný lína - margir nafngreindir aðilar sem hafa unnið að barnaverndarmálum og starfi með börnum og ungmennum í erfiðum aðstæðum eru núna nafngreindir í hverri blaðagreininni á fætur annarri og bornar á þá þungar sakir um glæpsamlegt athæfi fyrir mörgum áratugum, ofbeldi og svik og yfirhilmingar með kynferðisofbeldi. Það er engu lagi líkt hvernig núna er í fjölmiðlum farið með þann hóp sem hefur undanfarna áratugi unnið að þessum málum og mér finnst nú verði að spyrna á móti. Það er eitthvað verulega gloppótt í íslensku réttarkerfi og íslensku samfélagi ef svona umræða getur endalaust haldið áfram - einhliða frá sjónarhóli þeirra aðila sem mega tala.
En sumt í þessari frásögn lýsir vel félagslegum veruleika á Íslandi eins og þetta brot úr frásögn sonarins:
Það er eins og með stéttaskiptinguna í Hafnarfirði. Hún var undarleg, svona þegar litið er til baka. Ein fjölskylda sem átti banka átti allan bæinn. Það þurfti að vera réttum megin í öllu mögulegu til að eiga séns. Vera í FH en ekki Haukum, manni var haldið niðri eins og mögulegt var, til að viðhalda stéttaskiptingunni......Og mér finnst undarnlegt til þess að hugsa að meðan barnaverndarnefndin var önnum kafin við að skipta sér af heimili okkar, þar sem hvorki var drykkjuskapur, ofbeldi né kynferðisleg misbeiting, þá gerði þessi sama nefnd ekkert til að hjálpa Thelmu Ásdísardóttur og systrum hennar, sem fjöldi fólks vissi að voru misnotaðar og höfðu reynt að gera aðvart þar um.
Ef mál þessara tveggja barna eru skoðuð - annars vegar afskipti af stráknum Konráð sem hnuplaði úr búðum og hins vegar afskiptaleysi af þægu stelpunni Thelmu þá er ef til vill skýringin að hluta sú að barnaverndaryfirvöld voru meira á vaktinni fyrir uppvexti þeirra barna einstæðra mæðra sem virtu ekki hin helgu vé einkaeignaréttarins heldur en uppvexti þeirra barna sem voru kúguð og misnotuð á heimilum þar sem báðir foreldrar voru.
Ása Hjálmarsdóttir segist aldrei munu fyrirgefa, ekki heldur hinum megin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.3.2007 kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.3.2007 | 22:55
Myndbrot frá baráttusamkomu
Hér er vídeóklipp frá baráttusamkomu Bríetar 8. mars. Ég kom ekki fyrr en ræðurnar voru búnar þannig að það er bara skemmtiatriðin. Ein aðalskemmtunin er náttúrulega að gera grín að bloggurum sem reyna að tala niður femínista. Í þessu myndbroti sem er 7. mín. að lengd þá er fyrst trúbatorinn Ólöf og svo troða upp tvær karlkyns ráðskonur Femínistafélagsins með reynslusögur úr baráttunni og svo er ljóðaupplestur og fjöldasöngur. Myndin er nú mjög óskýr en hljóðið er í lagi. Litla digital vélin mín er ekki sérlega ljósnæm og svo varð ég að klippa þetta til í camtasia sem gerði myndina svona óskýra. Það er pirrandi að geta ekki klippt til vídeóið beint á vefnum. Ég held reyndar að bráðum muni Adobe bjóða upp á svoleiðis þjónustu og þá væntanlega í gegnum Photobucket.com sb. þessa fréttatilkynningu frá þeim í febrúar: "Today, Adobe and Photobucket announced a partnership to integrate Adobe web-based video remix and editing technology directly into the Photobucket user experience, giving 35 million Photobucket users direct, free access to world-class digital video editing tools."
Set hérna líka inn tilraun með sama vídeó á jumpcut.com
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.3.2007 kl. 05:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.3.2007 | 11:18
Baráttukvöld Bríetar 8. mars - Konan með hýjunginn undir höndunum
Femínistar brugðu á leik á baráttukvöldi Bríetar í gærkvöldi á Laugaveg 22.
Hér eru myndir sem ég tók á gleðinni
Þær má líka skoða sem "slideshow" hérna
Ég tók líka myndir í fyrra:
Myndir frá 8. mars 2006
Margir voru í skemmtilegum búningum, skreyttir límmiðum og með svuntur. Mér fannst skemmtilegasti búningurinn um hinn loðna femínista en eins og allir vita þá verður maður kafloðinn og dýrslegur um leið og maður gengur femínismanum á hönd. Annars orti meistari Megas einu sinni ljóð "Konan með hýjunginn undir höndunum". Ég þarf að finna þann texta. Kannski það sé hægt að syngja hann á svona femínistablótum með klassískum femínistalögum eins og "Sísí saumar á Susuki" og Svarthvíta hetjan mín og "Þori, vil ég get ég".
8.3.2007 | 21:04
Dr. Gunni og dr. Guðbjörg, varúlfurinn Gummi og frú Kolbeins
Það er áhugavert að fylgjast með viðbrögðum við greiningu Guðbjargar Kolbeins á forsíðu á fermingarbæklingi Smáralindar. Árni Svanur gerði ágæta samantekt á umræðunni hérna : Bloggað um myndlestur Málið snýst um að fræðimaður í fjölmiðlun túlkar mynd á forsíðu í auglýsingabæklingi sem sendur er inn á heimili á Íslandi. Hún túlkar myndina sem þekkta uppstillingu úr klámmyndagerð. Ég þekki ekki nógu mikið til klámmyndauppstillinga til að ég geti dæmt um það.
Það er hins vegar augljóst þeim sem vill sjá að myndin er sviðsett þannig að líkami stúlkunnar er til sýnis (það er nú verið að auglýsa föt svo það er nú ekkert að því) og uppstillingin snýst ekki um að miðla valdi og hugrekki - uppstillingin er frekar dúkkuleg og gínuleg, stúlkan er sýnd eins og leikfang - Manni finnst þetta eins og uppstilling á líflausri barbiedúkku það sem útlimum er baðað út í loftið svona til sýnis en þessi uppstilling minnir ekkert á aktion manninn sem strákarnir leika sér með. Reyndar minnir uppstillingin og klæðnaðurinn mig á margar teikningar og uppstillingar úr manga teiknimyndasögunum japönsku.
Það er áhugavert að sjá hvernig bæði blaðamenn á Fréttablaðinu og bloggarar eins og Eyþór Arnalds reyna að hæðast að Guðbjörgu með því að kalla hana frú og doktor. Það eru nú ekki venjulega skammarorð en það er alveg augljóslega gert í þessu samhengi til að gera lítið úr Guðbjörgu og sérfræðiþekkingu hennar. dr. Gunni sem ritar hinn snjalla pistil dagsins Fagra kvenveröld hefur verið nefndur doktor síðan elstu menn muna. Það er áhugaverður hæðnistónn í þessari frétt: Frú Kolbeins klagar Smáralind fyrir klám og það má lesa milli línanna að gagnrýni Guðbjargar sé einhvers konar pempíuskapur hjá "frú". Myndi pistillinn hafa verið "Herra Þorbjörn klagar Smáralind" ef karlkyns fjölmiðlafræðingur hefði birt pistil með greiningu sem blaðamanni féll ekki?
Það er dáldið fyndið að fylgjast með því hve sterk viðbrögð pistill Guðbjargar vakti hjá sumum en ég er nú samt hrædd að vera mikið á ferli á næstunni á fullu tungli því pistillinn vakti upp varúlfinn í Guðmundi Steingrímssyni sem er núna stjórnmálamaður í atkvæðaleit og engir eru nú alla jafna viðmótþýðari og blíðari. Ekki Guðmundur þó þegar kvenkyns fjölmiðlafræðingar dirfast að lesa annað út úr myndum en hann sér. Hann segir:
Þetta er yfirgengilegt kjaftæði. Kryppan skýst upp. Mér vaxa vígtennur. Klær. Hár. Þið sjáið mig spangólandi uppi á Vífilfelli ef þetta heldur svona áfram. Ég meika þetta ekki.
Úff... fegin er ég að búa ekki nálægt Vífilfelli. Þessi viðbrögð minna mig á viðbrögðin sem voru á málefnin.com um árið þegar ég dirfðist að telja hversu margar myndir voru af konum og körlum í dagblöðunum. Það var ekki nóg með það að ég dirfðist að telja heldur birti ég líka niðurstöðuna. Það kallaði á gusu alls konar fúkkyrða frá karlkyns málverjum sem breyttust í varúlfa eins og Guðmundur bara af því að aðrir sáu heiminn öðru vísi en þeir.
En mín prédikun til heimsins á þessum merkisdegi 8. mars er sú sama og ég hef sagt aftur og aftur og á eftir að segja oft í framtíðinni. Verum umburðarlynd fyrir skoðunum og heimsýn sem er ekki sú sama og við höfum. Fögnum fjölbreytileikanum en hann felst líka í því að fólk sem hefur ekki sömu skoðun og viðhorf og við sjálf á líka rétt á að við sýnum því virðingu og kurteisi og helst að við reynum að hlusta á það en breytumst ekki strax í öskrandi varúlfa.
Frú Salvör
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.3.2007 | 20:05
Álag á stjórnmálamenn og kosningaskjálfti
Félagsmálaráðherra fékk aðsvif í dag og varð að gera hlé á ræðu sinni. Hann var að mæla fyrir þingsályktunartillögu um jafnréttisáætlun til næstu fjögurra ára. Ég vona að Magnús jafni sig sem fyrst en þetta atvik ætti að minna okkur á hve gífurlegt álag er núna á stjórnmálamenn, sérstaklega stjórnmálamenn sem eru í forsvari fyrir málaflokka og verða bæði að höfða til kjósenda og verja gerðir síns ráðuneytis. Það hefur nædd mikið um félagsmálaráðuneyti síðustu mánuði. Ég er líka á því að starf stjórnmálamanna í eldlínunni hafi orðið mun erfiðara með tilkomu svo margra fjölmiðla og hinni nýju tísku í fjölmiðlun sem er eins konar sambland af gerð heimildarefnis, söguritun og sakbendingu sem og því að núna er bloggmenning í algleymingi á Íslandi - þættir eins og kompás og kastljós keppast við að toppa hvern annan í blörruðum böllum og afhjúpunum og krónikan, mannlíf og dv reyna að skúbba í hverju blaði með nýju hneyksli og nýjum uppljóstrunum. Margir þættir enda með einhverjum sem grætur sárt og harmar örlög sín og upp hefst leit að sökudólgunum. Öll þessi yfirgengilega fjölmiðlun grefur og grefur - grefur undan valdinu og býr til nýtt vald.
Ráðherra varð að gera hlé á ræðu sinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.3.2007 | 19:54
Fermingarbæklingur Smáralindar og Bókamarkaðurinn
Guðbjörg Hildur Kolbeins skrifar myndræna lýsingu á forsíðu fermingarbæklingsins frá Smáralind. Ég þarf að sjá þessa forsíðu til að mynda mér skoðun.
Það er áhugavert að spá í hvaða fegurðarímynd er haldið að ungum stúlkum á þessum tímamótum í lífinu sem fermingin er. Ferming er manndómsvígsla á milli barnæsku og fullorðinsára. Það er líka áhugavert að spá í hvaða gjafir krakkar fá við þessi tímamót og hve kynlegar myndir þar eru á ferð. Fá krakkarnir fararskjóta sem eykur frelsi þeirra - í tíð mömmu minnar var það hestur eða reiðtygi eða hnakkur í tíð nútímabarna er það fararskjóti út í sýndarveröld tölvuleikja og út í hið viðfeðma Internet. Mig minnir að þegar ég fermdist hafi fermingarbörn fengið úr og skatthol og græjur. Hvers vegna úr? Hvers vegna er það veganesti við þessi tímamót að geta mælt tímann?
Nú kosta tímamælingar svo lítið að enginn gefur úr lengur. Eða tíminn er ekkert dýrmætur lengur.
En varðandi fegurðarímynd þá keypti ég á Bókamarkaðnum um helgina bókina Brosað gegnum tárin eftir Sæunni ólafsdóttur. Bókin fjallar um fegurðarsamkeppnir á Íslandi. Ég hlakka til að lesa hana, mér finnst fegurðarsamkeppnir últra flott fyrirbæri, það toppar þær ekkert nema þá helst mótmæli gegn fegurðarsamkeppnum. Hér er listi yfir bækurnar sem ég keypti á bókamarkaðnum. Ég get ekki lesið neitt mynstur út úr þeim nema bara að ég held ennþá áfram að kaupa bækur þó að allir bókaskápar séu yfirfullir og ég hafi mjög lítinn tíma til að lesa.
- Brosað gegnum tárin
- Annað Ísland - Gullöld Vestur-Íslendinga í máli og myndum
- Heimspeki á tuttugustu öld
- Rómanska-Ameríka
- Arfur og umbylting
- Hlálegar ástir
- List skáldsögunnar
- Furðulegt háttalag hunds um hánótt
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.3.2007 | 15:11
Klámkvöld karlahóps 7. mars
Hvet fólk til að mæta á klámkvöld karlahóps Femínistafélags Íslands 7. mars kl. 20 um klám í kynjuðu umhverfi.
Hvað er klám og hvað er erótík?
Þessi fína skilgreining er eftir Dionnu Russels: "Klám er efni sem tengir kynlíf og/eða kynfæri við misnotkun eða vanvirðingu á hátt sem virðist styðja, afsaka eða ýta undir þess konar hegðun. Erótík er hins vegar kynferðislega örvandi efni sem er laust við kynjamismunun, kynþáttarfordóma og fordóma gegn samkynhneigðum og sýnir virðingu fyrir öllum manneskjum og dýrum sem þar birtast."
4.3.2007 | 15:42
Ungdomshuset og Faderhuset
Það var skrýtin frétt sem ég las áðan á mbl.is um að Ungdomshuset í Kaupmannahöfn verði jafnað við jörðu og að eigendurnir ætli að tilkynna það. Þetta stangast mjög á við þær upplýsingar sem eru um þetta hús á Wikipedíu. Þar kemur nefnilega fram að húsið er friðað. Brugsen keðjan ætlaði að kaupa húsið til að rífa það á sínum tíma og byggja þarna stórmarkað en gat það ekki út af friðun. Það er stórmerkileg saga þessa húss og atburðir síðustu daga og mánaða sýna að þetta hús er ennþá snúningsás í dönsku samfélagi. Það verður nú fyrst allt vitlaust fyrir alvöru ef þetta hús verður rifið, ég held svei mér þá að ég myndi bara mæta þarna í mótmælastöðu gegn því ef ég væri stödd í Kaupmannahöfn. Það var í þessu húsi sem hugmyndin um 8. mars sem alþjóðlegan baráttudag kvenna kom fram.
Það er mikil gerjun í dönsku samfélagi og þessi barátta um húsið er myndræn birting á henni. Það er kristinn bókstafstrúarsöfnuður sem heitir því skemmtilega nafni Faderhuset sem er núna eigandi hússins. Það er nú dáldið skrýtið að þessi söfnuður hafi keypt húsið af borginni því íbúarnir og notendur hússins voru ekkert að létta söluna og voru hreinskilnir í út á hvað hún gengi, þeir auglýstu á stórum borða utan á húsinu á sínum tíma "Til salg sammen med 500 autonome, stenkastende voldspsykopater fra helvede."
Mér finnst myndrænt og kaldhæðið að lesa að borgarstjórinn í Kaupmannahöfn hefði verið í skíðafríi þegar uppþotin urðu, minnti mig svolítið á Bush bandaríkjaforseta sem líka er alltaf í alls konar fríum. Sérstaklega kaldhæðið þar sem það það er einmitt andstæðan við hina flötu Danmörku að stunda skíði og svo líka skrýtið að borgarstjórinn hafi verið svona óviðbúinn.
Mér sýnist yfirvöld í Kaupmannahöfn ekki hafa sýnt neina sérstaka stjórnvisku í hvernig þau takla svona mál. Þó húsið yrði jafnað við jörðu þá mun ólgan vaxa og sá hópur sem skipulagði mótmælin og götubardaga mun skipuleggja eitthvað á stærri mælikvarða seinna. Það er eitt óskynsamlegasta sem stjórnvöld gera í svona aðstæðum að þjappa andstæðingum sínum saman um einhvern málstað - já næstum búa til málstað með gerðum sínum eða því sem þau gera ekki. Ég held að það sé líka ekki góð stjórnvöld sem ekki geta séð fyrir eða alla vega spáð hvaða afleiðingar gerðir muni hafa. Ég held nú reyndar að ribbaldalýður og fólk í leit að fæting hafi dregist að Ungdomshuset og þetta sé eins konar barátta við fólk sem fylgir ekki leikreglum samfélagsins.
Um Ungdomshuset í dönsku wikipedíu
Ungdomshuset á Norðurbrú verður jafnað við jörðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
3.3.2007 | 23:36
Stelpa eins og ég
Hér er skemmtilegt 7. mín. myndband "Girl like I" þar sem nokkrar blökkustúlkur segja frá hvernig þær fá sífellt skilaboð úr umhverfinu um að það sé ljótt að vera svartur, það sé ljótt að vera eins og þær. Þær segja hins vegar svo fjörlega frá að maður getur brosað með þeim - alveg þangað til sýnt er þegar blökkubörn eru látin velja hvernig dúkku þau vilji leika að og hver sé vonda dúkkan. Það er of sorglegt til að maður geti brosað yfir því.