10.1.2007 | 12:03
Ekkibloggsaga Íslands 2. hluti
Í svarhala á kaninkublogginu um forsögulega bloggara þá dusta ýmsar fornaldareðlur í íslenskum bloggheimi af sér rykið og rifja upp hvenær þeir byrjuðu að blogga eða urðu meðvitaðir um að þeir væru bloggarar. Nú eða ekki bloggarar. Það er stórt skref í þroskasögu hvers bloggara þegar hann kemur út úr skápnum og fattar að hann er bloggari og þorir að viðurkenna það fyrir heimsbyggðinni. Egill ekki bloggari hefur ekki stigið það skref en hann hefur þó útskýrt bloggsagnfræði sína þannig að bloggið hafi orðið til í hans huga árið 2005. Það er náttúrulega eins góð sagnfræði og hver önnur, það ættu allir að skrá sína útgáfu af veraldarsögunni eins og persónulega þroskasögu. Það er nefnilega sannleikskorn í þessu, atburðir verða til þegar við lesum um þá eða verðum meðvituð um að þeir hafi gerst. Fyrirbæri verða til þegar við gefum þeim nafn og þegar við getum lýst þeim með einhverju táknkerfi.
Einn af fyrstu bloggurum og sennilega sá fyrsti sem eitthvað bloggaði um menningu og samfélagsmál Már sá ljósið í maí 1999 samkvæmt því sem hann skráir í risaeðlusvarhalann. Hann segir 7. janúar 2007 :
Mig grunar að ég hafi verið fyrstur íslenskra bloggara til að verða meðvitaður um að heimasíðan mín félli undir skilgreininguna weblog, en það gerðist í maí 1999 og sú uppgötvnum þótti mér svo merkileg að ég bloggaði um það.
Már og vinur hans Bjarni Rúnar héldu lengi að þeir væru einu bloggararnir á Íslandi. Þetta var á forsögulegum tíma um svipað leyti sem Völuspá og Hávamál voru skrifuð og telja bloggfræðingar líklegt að eftirfarandi erindi hafi einmitt verið ort um um ástandið sem forsögulega blogg Más lýsir:
Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman
þá varð eg villur vega.
Auðigur þóttumst
er eg annan fann:
Maður er manns gaman.
Már lýsir forneskju og einsemd íslenska bloggheimsins á síðasta árþúsundi svona:
"Á þessum tíma voru íslenskar bloggsíður svo fáar og langt á milli þeirra, að engin samfélagsvitund hafði enn myndast. Hver bloggaði í sínu horni. Ég og Bjarni Rúnar álitum okkur tvo vera einu bloggarana á íslandi fyrsta hálfa árið sem við blogguðum, eða svo."
22.1.03
( 7:16 PM ) Salvor GissurardottirMinningarorð um Blogg dauðans
Blogg dauðans svipti sig lífi í bloggheimi í dag. Athöfnin var látlaus, hjartnæm kveðjuorð og þakkir til þeirra sem ömuðust ekki við blogginu. Líka alls kyns spök orð og vísur. Líka um píslarvætti og ofsóknir. Soldið jesúlegt. En hvert fara dauð blogg? Er til framhaldslíf utan bloggsins? Mér virðist Bloggari dauðans trúa á framhaldslíf og annan stað í nýjum heimi. Enda virkar hann rammheiðinn og vill ekki veslast upp af einhverju innanmeini heldur deyja sem hetja í orrustu. Handanheimar bloggara eru lagskiptir, ódáinsakrar fyrir þá sem deyja píslarvættisdauða. Eða eins og hann segir sjálfur um næsta áfangastað sinn:
"Hvert? Kannski á ódáinsvelli að hitta aðra bloggara sem hafa verið stalkaðir burt af netinu. Hvert sem Bloggari dauðans fer, ekki reyna að finna hann því hann vill engan hitta."
Ég er strax farin að sakna Bloggs dauðans. Svo knöpp orðnotkun og mikil speki um litla hluti. Eða kannski lýsa því sem skipti máli með hversdagslegum dæmum. Fyndið. Úrillt. Gáfað. Lesið. Bókmenntalegt ádeilublogg. Textinn oft á tíðum hrein snilld, bloggið sem byrjaði með svona setningu:"Menn skulu ekki ímynda sér að þeir fái hér yfirlit yfir þau partí sem ég mæti í, þaðanafsíður hvað ég geri í þeim."
Annars er eftirlætisetningin mín úr Bloggi Dauðans hið mikla innsæi í sænskt samfélag sem var í blogginu á Lúsíudaginn seinasta, kannski af því hann sagði þá eitthvað sem mér fannst eins og ég hefði alltaf hugsað en ekki getað orðað fyrr en Bloggari dauðans orðaði það. Hann lýsti Svíþjóð með rauðum pulsum og "...Öllum skiltunum sem á stendur: Ejutgång. Hvarvetna þar sem eru margar hurðir í Svíþjóð hanga skilti með orðinu ejutgång. Einhverjum hefði kannski þótt nærtækara að merkja hvar leyft sé að fara út. Svíum finnst mikilvægara að koma á framfæri hvar það sé bannað."
Ég hugsa að Bloggari Dauðans finni alltaf útgönguleið.
Flokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 12:16 | Facebook
Athugasemdir
Hvað ertu að reyna að segja?
Steinn E. Sigurðarson, 14.1.2007 kl. 14:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.