Myspace fjölmiðlamanna

Það er oftast svo vont netsamband hjá kaninkubloggurum að ég les þau blogg ekki nema endrum og eins. Það má segja að sá menningarkimi þess útskers sé álíka mikið í alfaraleið  og upplýsingahraðbrautin mikla liggur um Ísland og álíka algengt að þangað sé allt sambandslaust.

Það sem einkennir þau blogg er að þau eru held ég öll vinstri græn og í öðrum skrýtnum hreyfingum og svo er kaninkubloggurum uppsigað við moggabloggið og hafa um það háðuleg orð. 

Rakst á þessa miklu speki hjá Birki: 

Mér sýnist sem Mogga-bloggið sé að verða að MySpace fjölmiðlamanna. Þar blogga fjölmiðlamenn öllum stundum, helst hver um annan, og helst ekki án þess að vitna í bloggfærslu hjá hinum. Svo eiga allir “blogg-vini” sem þeir setja myndir af í hliðarstiku og skiptast svo á kveðjum við og kommenta svo hjá hinum og þessum til að láta vita að þeir séu nú líka með í umræðunni. Þetta virkar semsagt nákvæmlega eins og MySpace. Ég bíð spenntur eftir því hver verður fyrstur til að þakka Birni Bjarna fyrir “addið”.

Moggabloggið er sniðugt bloggkerfi og bloggsamfélag, bæði af því það er einfalt og hraðvirkt og áreiðanlegt bloggkerfi og þar skrifa margir samfélagsrýnar sem hafa eitthvað að segja. Það er auðvelt að mynda samfélög þar og tengja bloggskrif við fréttir og fylgjast með bloggum hjá öðrum. Það er vissulegt líkt Myspace en reyndar líka fjölmörgum vinsælum netsamfélögum öðrum. 

Ég gerði vefsíðu um myspace, sjá hérna.  

Sennilega er sú þróun sem við erum að sjá núna hjá Morgunblaðinu á vefnum undanfari af þróun sem mun halda áfram og breytast í kerfi eins og digg.com og newsvine.com þar sem fréttirnar eru skrifaðar af lesendum og það er í sífellu greidd atkvæði um fréttir og vinsælustu fréttirnar poppa upp á forsíðunni.

Ég fylgist öðru hvoru með vinsælustu tæknifréttunum á digg og þar eru athugasemdirnar líka metnar og þær eru oft mikilvægari og meiri fengur en fréttin sjálf. Fréttirnar á digg.com eru nefnilega oft líka eins og fréttir í hefðbundnum fjölmiðlum, þær eru dulbúnar auglýsingar sem er plantað inn af þeim sam hafa hagsmuna að gæta og eru að selja einhverja vöru eða þjónustu. Þannig verða örugglega sum blogg líka. Þannig er Myspace. Þar er fullt af gervifólki sem er ekki til í raunveruleikanum, það eru prófælar sem eru búnir til gagngert til að vingast við unglingana og reyna svo að pranga inn á þau einhverjum vörum. Það er líka hægt að kaupa sér vini á Myspace, það skiptir máli fyrir upprennandi tónlistarmenn að láta líta út fyrir að þeir eigi marga aðdáendur  strax þegar þeir koma sér upp Myspace síðu. Þess vegna er hægt (á svörtum, ekki opinberlega) að kaupa sér vini þar í þúsundatali.


mbl.is Viðgerð á Cantat 3 mun trufla netsamband hjá Rannsókna- og háskólaneti Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband