19.9.2009 | 14:38
Landið og miðin og ættarveldi Jóns Bjarnasonar í stað ættarveldis Einar Guðfinnssonar
Hvað er Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gera í því að tryggja öllum Íslendingum aðgang að landi sínu og fiskimiðum?
Hver á kvótann og í hverra eigu eru bújarðir á Íslandi? Er ástandið þannig á Íslandi í dag að hér búa 300 þúsund manns og eingöngu örfáir þeirra ráða yfir bróðurpartinum af landbúnaðarframleiðslu Íslands og megninu af kvótanum?
Einu sinni flutti Jón Bjarnason ræður um hættuna á að bændur verði réttlitlir leiguliðar en hvað gerir Jón núna til að sporna gegn því að rétturinn til að framleiða landbúnaðarvörur á Íslandi þ.e. fiskveiðikvóti og mjólkurkvóti verði séreign nokkurra stórra aðila? Hvað gerir hann til að tryggja aðgang Íslendinga að landi sínu né miðum? Er Jón að gæta hagsmuna örfárra stóreignarbænda og útgerðarmanna og tryggja áhrif ættmenna sinna eða er hann að gæta hagsmuna allra Íslendinga? Líka okkar sem búum hérna á mölinni og eigum hvorki bújarðir né fiskiskip og þaðan af síður þorskvóta eða mjólkurkvóta?
Eigum við hinir kvótalausu og jarðnæðislausu þurrabúðarmenn engan rétt? Er landbúnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti bara að vinna fyrir þá sem eiga framleiðslutæki núna og hjálpa þeim að halda stöðu sinni og stækka?
Undanfarin ár hefur átt sér stað mikil uppkaup á jörðum á Íslandi. Hugsanlega eru sumar jarðir keyptar upp með framtíðarhagsmuni í huga og spákaupmennsku m.a. varðandi fiskeldi eða aðstöðu við sjó. Hugsanlega er núna eftir bankahrunið eignarhald á sumu yfirveðsettu jarðnæði í höndum fjárfestingaraðila. Hugsanlega er núna aukin ásókn erlendra aðila í jarðir t.d. til að fjárfesta fé sem innilukt er í landinu vegna gjaldeyrirhamla. Hvernig er höndlað og möndlað með jarðir og fiskiskip núna? Ég skrifaði hugleiðingu um jarðakaupin á sínum tíma og hér er líka vísun í frétt í mbl.is
Lífsval ehf og síðasta galdrabrenna á Íslandi - salvor.blog.is
Uppkaup á jörðum - Morgunblaðið á Netinu - mbl.is
Ísland er sérstakt land á mörkum heimskautasvæðins, land með fengsæl fiskimið og sérstaka náttúru og jarðfræði. Hvernig landið er nýtt og hvernig hafa yfirráð yfir landinu ætti ekki að vera í höndum örfárra stórra og fjarlægra framleiðenda orku, landbúnaðarvara og sjávarfangs. Það hlýtur að vera krafa okkar að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra gæti hagsmuna allra Íslendinga til langs tíma en ekki einstakra hópa.
Ísland er lítið land og allir eru skyldir öllum hérna en það er bara þannig að það er erfitt að sjá hvort eitthvað hafi breyst frá þeim tímum þegar Einar Guðfinnsson var sjávarútvegsráðherra og gætti hagsmuna ættmenna sinna. Jónas Kristjánsson segir á bloggi sínu jonas.is þetta:
04.09.2009
Ættarvæðing Kaupþings
Þegar græðgisvæðingin var á fullu, kom Ásgeir Jónsson í Kaupþingi mér fyrir sjónir sem spunakarl hennar. Hann var annan hvern dag í sjónvarpsfréttum að tala um, hvað allt væri frábært, sérstaklega bankarnir. Eftir hrunið hefði mátt búast við, að hann færi í felur. En hann er enn í bankanum og er enn að tala í sjónvarpi um vandamálin. Það stafar auðvitað af, að hann er sonur Jóns Bjarnasonar, landbúnaðarráðherra Vinstri grænna. Og nú er systurdótti Jóns orðin stjórnarformaður Kaupþings, fulltrúi Vinstri grænna í stjórninni. Sérstaka gát þarf að hafa á Jóni. Hann er í gamla ættvæðingar-stílnum.
Mikið vildi ég að ég hefði einhverjar vísbendingar um að Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra sé að gæta hagsmuna allra Íslendinga. Ég satt að segja efast mjög um það.
Þó ég sé ekki samflokksmaður Steingríms og Jóhönnu þá efast ég ekki um heildarsýn þeirra og að þau eru að vinna að heill allra Íslendinga þó ég efist nú reyndar stundum um framsýni Steingríms og víðsýni Jóhönnu.
Margir kúabændur stefna í gjaldþrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Er andstaða við kvótakerfið innan Framsóknarflokksins?
Sigurður Þórðarson, 19.9.2009 kl. 16:06
Eftir Hrunið fyrir ári síðan þá virkar efnahagskerfi okkar ekki. Kvótakerfi bæði í fiskveiðum og landbúnaði eru kerfi til að 1) takmarka aðgang að því hverjir mega framleiða 2) færa verðmæti á milli.
það er eðlilegt að öll kerfi séu núna til skoðunar. Sérstaklega er ég í þessari færslu að benda á hve mikið hallar á þéttbýlið og raunar alla sem ekki eiga kvóta. Það er eðlilegt að við spyrjum núna hvort eigi að halda í kerfi sem virkar ekki.
Svo ég tali persónulega fyrir mig þá finnst mér mjög mikilvægt forsenda þess að ég geti myndað mér skoðun á kvótakerfum að ég viti hver á kvótann. Þannig er það ekki núna. Almenningur veit ekkert hver á kvóta í sjávarútvegi, kannski veit enginn það vegna þess að kvótinn er veðsettur upp í rjáfur til fjármálafyrirtækja sem eru veðsett upp í rjáfur sem síðan eru átt af einhverjum innlendum eða erlendum fjármálafyrirtækjum sem er eins ástatt fyrir.
Ef svo er. Er þá ekki skynsamlegt að hverfa hægt og bítandi frá núverandi kvótakerfi?
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.9.2009 kl. 16:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.