19.12.2006 | 18:54
Siðferði á Netinu - Að skjóta fólk
Ég var í morgun á skemmtilegum hugflæðisfundi um siðferði á Netinu. Akkúrat núna þá finnst mér mikilvægast í því samhengi vera hversu óvarðir margir netverjar - ekki síst börn og unglingar - eru fyrir alls konar aðilum sem nálgast þau af annarlegum hvötum. Þá á ég ekki eingöngu við einhverja netperra, ég á alveg eins við aðila sem eru að selja einhverja vöru eða þjónustu eða ánetja unglinga einhverri neyslu og gera það á lævísan og siðspilltan hátt eins og áfengisauglýsingarnar á pose.is og 69.is og einnig aðila sem selja kynlífsþjónustu eða beinlínis gera út á svik og pretti m.a. með því að búa til falska prófíla á myspace og þykjast vera manneskjur sem vilja vingast við einhverja en eru bara að reyna að selja sína vöru. Reyndar virkar þetta í báðar áttir, hljómlistarmenn á Myspace eru að reyna að kynna sig og selja tónlistina sína og búa til aðdáendahópa og það er allt í lagi svo fremi sem tilgangur þeirra sé augljós og markaðssetningin heiðarleg.
Það voru nokkrir bloggarar á fundinum og einn þeirra notaði góða líkingu um hvernig nú hinn almenni borgari hefur aðgang að sínum eigin fjölmiðli, sínu eigin bloggi og það fylgdi þessu vald , við höfum öll heyrt talað um fjölmiðla sem fjórða valdið og það mætti líkja þessu valdi við byssu og það væri ekki víst að sá sem hefði byssuna kynni að nota hana, það væri ekki víst að viðkomandi vissi og skildi að það er ljótt að skjóta fólk.
Það var líka umræða um það villta vesturs siðferði sem þessa daganna ríkir í netheimum á Íslandi. Svona siðferði þar sem almenningur veltir þeim upp úr tjöru og fiðri sem hann dæmir þrjóta og hengir þá upp í gálga. Ég sá á bloggi í morgun umfjöllun og vísun í powerpoint show sem ég veit að hefur gengið á Netinu. Þar eru nokkrar myndir af fullorðnum manni í ýmsum stellingum, andlitið er auðþekkjanlegt og með fylgir umræða sem sögð er hafa átt sér stað milli unglingsstúlku og viðkomandi manns og sagt er að sendandi sé móðir hennar. Þessi sena er sláandi lík þeirri gsm símasenu sem birt var í síðasta Kompás þætti. Ég er ekki fylgjandi neinni linkind við þá sem fremja auvirðilegan verknað og mér finnst að brot þeirra sem fremja alvarlega glæpi ættu að vera vel auglýst og allt í lagi að birta nöfn og myndir af dæmdum sakamönnum ef telja má að það hindri einhverja glæpi í framtíðinni. Í þessu tilviki var ekki um það að ræða að og ekki einu sinni víst að athæfi mannsins teljist saknæmt skv. íslenskum lögum. Sá sem dreifir þessu powerpoint showi eða birtir það á Netinu er eins og barn sem hefur fengið hríðskotabyssu og veit ekki og skilur ekki að það má ekki skjóta fólk.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:03 | Facebook
Athugasemdir
Þetta umrædda mál kom í Kastljósi áðan. Það eru ekki bara bloggarar sem eru börn með hríðskotabyssur, núna eru allir byrjaðir að skjóta hvern á annan. Kompás, Kastljós, löggur og læknar, trúarleiðtogar og meðferðarstofnanir. Þetta er vitskert veröld.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.12.2006 kl. 20:44
Ég skil samt ekki aðdróttunina seinast, á ég að hafa sakfellt einhvern? Ég hef í bloggum um kompásþáttinn gætt þess að tala af varfærni og skrifa ekkert sem gefur til kynna að ég telji einhvern sekan.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.12.2006 kl. 20:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.