15.12.2006 | 14:53
Tóm steypa hjá Orðinu á götunni
Bloggið Orðið á götunni er orðið þreytt á amstrinu sem fylgir því að vera að skúbba og skúra á hvurjum degi alla ranghalana í íslensku þjóðlífi. Sennilega bara komið í jólastuð og ætlar að fara að föndra og baka með börnunum eins og allir hinir.
Það er hins vegar tóm steypa sem stendur á útgöngublogginu hjá þeim:
" Ólíkt því sem var þegar Orðinu á götunni var hleypt af stokkunum í byrjun júní síðastliðnum er nú hægt að velja milli fjölmargra góðra bloggsíðna þar sem fjallað er óstaðfestar fréttir, orðróm og lesið á milli línanna í fréttum hefðbundinna fjölmiðla. Það er mjög góð þróun og stuðlar að öflugri þjóðfélagsumræðu.
Mikið af því sem áður var aðeins rætt á göngum og í hinum frægu reykfylltu bakherbergjum er nú um leið komið út á netið og því er orðið erfiðara en áður fyrir menn að reyna að stýra umræðunni í þann farveg sem þeir kjósa. Hún öðlast þvert á móti sjálfstætt líf. Stjórnmálamenn og forystumenn í viðskiptalífi hafa ekki lengur efni á tjá sig ekki um erfið mál og hið sígilda áhyggjuefni um að hægt sé að misnota völd yfir fjölmiðlum er ekki jafn aðkallandi."
Í fyrsta lagi þá hefur árum saman verið nóg af slúðri og óstaðfestum fréttum og orðróm á Netinu. Það hefur jafnt verið á bloggi sem og á spjallvefjum s.s. malefnin.com.
Í öðru lagi þá er ekkert erfiðara nú en áður "að stýra umræðunni í þann farveg sem þeir kjósa". Það er blekking að bloggheimur bjóði upp á einhvers konar óhefta tjáningu það sem einhverjir óskilgreindir þeir geta ekki stýrt umræðunni. Sá sem ræður leikreglunum og á eða hefur einhver áhrif á virkni miðsins getur alveg stýrt umræðunni. Einmitt þessi fjörugi samfélagsvettvangur sem nú er að myndast hérna á moggablogginu er alveg undir hælnum á Morgunblaðsveldinu og það er hægur leikur að stýra umræðunni þar og beina kastljósi að ákveðnum bloggurum eða passa að ekkert kastljós beinist að öðrum. Það hefur farið fram fjörug umræða á femistapóstlistanum einmitt um moggabloggið og hvernig það beinir kastljósinu að ákveðnum aðilum sem flestir hafa það sér til ágætis að vera karlkyns.
Í þriðja lagi þá er Bloggið á götunni bara hvítvoðungur í bloggheimum og það er bara krúttlega barnalegt hjá því að segja allt hafi breyst frá því að þeir byrjuðu að blogga núna í sumar. Það hefur ekki mikið breyst síðan þá og ef þeir skynja það ekki þá hafa þeir bara einfaldlega ekki fylgst vel með nógu lengi. Og það er alveg eins hægt að misnota vald yfir fjölmiðlum, ný miðlunarform eins og blogg raska vissulega valdahlutföllum með tíð og tíma en það er engin trygging fyrir því að völd yfir fjölmiðlum verði ekki misnotuð. Þvert á móti er þróunin sú alls staðar í heiminum að það er tilhneiging til að vefþjónustur og netsamfélög þjappist í stórveldi með alls konar fjölmiðlum, dæmi um það er Google og Yahoo sem núna kaupa upp hverja vefþjónustuna á fætur annarri og fjölmiðlaveldi Murdochs sem keypti Myspace og íslenska útgáfan af netsamfélagi/fjölmiðlaveldi þar sem moggablogg er einn þáttur.
En ég ráðlegg öllum sem hafa áhuga á því að hinir nýju miðlar endurspegli þann margbreytileika sem er í samfélaginu og þar hljómi líka rödd þeirra sem sæta kúgun og þöggun og hafa litla möguleika til að tjá sig í þjóðmálum í dag að fylgjast vel með alþýðlegri fréttamennsku og þá sérstaklega að fylgjast með Dan Gillmor sem er gúrúinn á þessu sviði. Ég sótti eins dags óráðstefnu (unconference er tískan í þessum geira) sem hann stýrði í Boston í ágúst síðastliðnum. Hér er smávídeóklipp sem ég tók þar:
Annars var þessi bloggpistill tilraun hjá mér til að blogga eins inntakslaust og ég gæti svona blogg um frétt um að blogg væri hætt að blogga. Ég leit yfir fréttir á moggabloggi og valdi mér frétt til að blogga um og valið stóð á milli þess að blogga um fréttina að bloggið Orðið á götunni væri hætt að blogga eða fréttina að það væri bara ein lyfta um helgina opin í Bláfjöllum. Mér fannst sú frétt afar áhugaverð en hætti mér ekki út í mjög langt blogg um það vegna þess að ég veit ekkert um skíðaíþróttir og einhver myndi kannski fatta það. Það hefði nú kannski verið sniðugt að blogga um það.
Bloggsíðan Orðið á götunni í tímabundið frí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Tölvur og tækni, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 15:05 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.