5.6.2009 | 19:02
Haldið áfram að blekkja almenning
Það er átakanlegt að hlusta á nýársávarp Geirs Haarde um áramótin 2008, áramótin fyrir hrunið. Hann talaði þar um sterka stöðu skuldlauss ríkissjóðs og lagði áherslu á auðlegð þjóðarinnar. Svo bað hann Guð að blessa Ísland og hvarf sjálfur af vettvangi. En mér sýnist ekki mikið hafa breyst, það eru komnir við stjórnvölinn menn af sama sauðarhúsi, menn sem viðhalda sams konar blekkingarleik. Í staðinn fyrir að taka á vandamálinu og gera haldhöfum skuldakrafna grein fyrir stöðunni og fara fram á niðurfellingu krafna eða mál fyrir dómsstólum þá svínbeygja íslensk stjórnvöld sig undir þá skipan sem Gordon Brown og ráðherra hans Darling vildu hafa. Það er nú reyndar tímaspursmál hvort þeir menn verða við stjórnvöl í sínum ríkjum þegar gengið verður til Icesave samninga.
En blekkingarleikur stjórnvalda vegna Icesave er mikill. Málið er sett fram eins og þetta sé einhver díll fyrir Íslendinga að fá að selja sig og afkomendur sína í ánauð.
Ríkisstjórn Íslands heitir núna Vinstri-græn-Samfylkingarrauð en það er alveg ljóst hverjum þessi ríkisstjórn er að þjóna og hverra erinda hún gengur. Það er ekki erinda íslensks almennings eða almennings í öllum löndum, fólks sem núna er að flosna upp og missa alla afkomumöguleika. Ríkisstjórn Íslands stendur með fjármagnseigendum, ríkisstjórn Íslands stendur á móti fólkinu í landinu.
Ríkisstjórn Íslands er að selja okkur undir óhemjuháar stríðsskaðabætur út af stríði sem við vissum aldrei að við værum í sem þjóð. Stríðið sem háð er í heiminum í dag er fjármálastríð, það er reynt að fella heilu samfélögin með því að læsa þau inn í myrkviði fjármálafrumskóga sem enginn botnar neitt í nema þeir sem hafa girt skóginn af og grafið undirgöng fyrir sjálfa sig til að ferðast um. Núna hefur verið kveikt í þessum fjármálafrumskógi og hann stendur ennþá í ljósum logum eins og helvíti á jörðu. Samt lætur ríkisstjórn Íslands eins og þær leikreglur sem myrkviðahöfðingjarnir unnu eftir og bjuggu til séu þær leikreglur sem eigi að gilda eftir sem áður.
Við viljum öðruvísi og réttlátara samfélag, samfélag þar sem einhver fjármálafrumskógur sem vex yfir landamæri margra ríkja getur ekki svipt okkur frelsi og lífsafkomu á örskotsstundu.
Breska ríkisstjórnin horfir til langs tíma og hungrar í orku og auðlindir sem Ísland hefur yfirráðarrétt á. Það er ekki mikil áhætta að semja um lán með ríkisábyrgð Íslendinga og það er mikill aflsmunur milli þessara þjóða. Það er ömurlegt hvað hin vanhæfa íslenska ríkisstjórn hafði lítið í spindoktora Gordons Browns og ekki hefur hin nýja ríkisstjórn meiri burði. Það mátti samt ekki á milli sjá hvor var vanhæfari, sú hin íslenska sem hrundi í janúar eða sú breska sem nú er að liðast í sundur.
Það eru þannig aðstæður í heiminum í dag að það er sjálfsagt að kasta til hliðar öllum þeim kerfum sem komu okkur á hliðina og þar með talið að virða ekki þær skyldur að borga skuldir og semja upp á nýtt um skuldir og fjárhagsskuldbindingar. Það eru þannig aðstæður að það er betra að stokka upp hin fjármálalegu spil og gefa upp á nýtt heldur en að búa til þannig þjóðfélagsaðstæður að þar muni geysa linnulaust stríð milli stjórnvalda og almennings og milli hópa innbyrðis og fólk flosni upp og lendi á vergangi. Það er þannig að margt fólk á Íslandi getur ekki borgað þær skuldir sem skyndilega hafa fallið á það. Ríkissjóður Íslands getur heldur ekki borgað þær skuldir sem á hann hafa fallið samkvæmt einhverjum samningum sem segja að netbanki í Bretlandi sem þjónar breskum aðilum sé í íslenskri lögsögu.
Það er bara gálgafrestur að borga ekkert núna, það er þýlyndi við bresk stjórnvöld, þau vilja semja og það eru augljósir hagsmunir þeirra að vilja geta sett einhverjar tölur í reikninga hjá sér, það er engin áhætta fyrir þau að fá ríkisábyrgð frá Íslandi, ábyrgð sem er tryggð í auðlindum Íslands og framtíðarafrakstri lands og þjóðar.
Það er átakanlegt hversu litaðar fréttir eru af því hvernig staðið er að þessum samningum, samningum sem eru ekki neinir venjulegir samningar heldur nauðasamningar milli smáríkis og ríkis sem er herveldi sem beitti hryðjuverkalögum.
"Skuldabréf sem Landsbankinn mun koma til með að gefa út vegna Icesave-reikninganna kemur til með bera 5,5% vexti. Lánið er til fimmtán ára og ekkert þarf að greiða af því næstu sjö árin. Miðað við vextina kemur lánið til með að hækka um 37,4 milljarða króna árlega, sé miðað við núverandi gengi. Höfuðstóll lánsins er 680 milljarðar króna.
Um er að ræða skuldabréf með ríkisábyrgð. Á þessum sjö árum sem ekki þarf að greiða af höfuðstól skuldabréfsins verður reynt að selja eignir Landsbankans upp í skuldina."
Á tímum eins og þessum þar sem stjórnvöld eru vanmáttug og vanhæf er raunar aðeins ein leið fyrir almenning. það er að grípa til sinna ráða og bindast samtökum og reyna að keyra í gegn breytingar. Við þurfum líka að átta okkur á því að almenningur í öðrum löndum glímir við sama vanda, þar eru stjórnvöld alls staðar að ganga erinda markaðarins, að reyna að byggja upp að nýju kerfi sem hrundi af því það virkar bara ekki lengur. Það þarf nýtt kerfi og það ætti að byggja á samvinnu ekki samkeppni.
Hækkar um 37 milljarða árlega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:23 | Facebook
Athugasemdir
Því miður vorkennir okkur enginn. Við komum okkur í þessa vitleysu vegna lélegs eftirlits og botnlausrar eyðslu. Nú súpum við seyðið af brugginu sem við brugguðum okkur, og megum þakka okkar sæla fyrir að sleppa svona vel. Reynum að líta einu sinni í eigin barm frekar en væla yfir illsku heimsins!
GH (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 19:16
Borgar ekki bara ESB reikninginn fyrir okkur?
Björn Heiðdal, 5.6.2009 kl. 20:04
Hver eru þessi "Við" sem þú talar um? Ég neita að vera í þeim hópi. Ég hef reynt eins og ég get að fylgjast með þjóðmálum og efnahagsmálum og hef reynt að taka þátt í að breyta samfélaginu fyrst með þátttöku í Kvennalistanum og síðan í Femínistafélaginu og svo með þátttöku í Framsóknarflokknum og nú síðast með að taka þátt í að stofna Íslandsdeild Attac (sjá attac.is). Ég hef sjálf ekki tekið lán síðan 1986 og hef ekki hegðað mínu lífi í neinni botnlausri eyðslu enda kostar þar ekki mikið það sem ég met mest í lífinu. Ég held að við séum margir Íslendingarnir í þessum hópi og það er ýmislegt í samfélaginu sem hélt okkur valdalausum og þaggaði niður raddir okkar.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 5.6.2009 kl. 20:06
Salvör þetta er það sem við þurfum því miður að borga eftir útrásarvíkinga frjálshyggjunnar frá 1991-2008.Við erum því miður tilneydd til þess.
sæi (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 20:15
Sama sauðahúsi; þú meinar sama fólkið, er það ekki ?. Samfylkingin er enn við völd og með öllu vanhæf á að taka á skuldum óreiðumannanna á annan hátt en að varpa þeim á saklausan almenning hér.
Mig langar til að leggja hér inn einstaklega góða lýsingu á veruleikanum frá ofurbloggaranum Jakóbínu:
"Flækja hagsmuna, bræðralaga og vitneskju um misgjörðir gerir það að verkum að stjórnmálamenn, með fortíð, geta ekki tekið ákvarðanir sem vinna gegn hagsmunum þeirra sem rændu þjóðina. Þeir sem ekki hafa hreinan skjöld þurfa að standa vörð um leyndardóma fortíðarinnar og geta því ekki unnið af heilindum að velferð þjóðarinnar. Leyndardómar fortíðarinnar hindra lærdómsgetu þeirra og menga menningarkima stjórnmálanna með athöfnum sem einkennast af dómgreindarleysi.
Stjórnmálamenn sem runnu niður í hyldýpi græðgi, siðlausrar hegðunar og virðingarleysis við meðbræður sína trúa enn á léttvægar lausnir og fix" (Hættulegir þjóðinni, 4. júní 2009)
Þetta er kjarni málsins í dag.
Kveðja
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 20:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.