Blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar 4. júní 1989

torg-hins-himneska-fridar-tibet-talknafjordur.jpg Í dag eru 20 ár liðin frá voðaverkunum á Torgi hins himneska friðar, hér er wikipedia grein um atburðina Tiananmen Square Protests of 1989 Þetta torg er Austurvöllur þeirra í Kína en í því ríki býr meira en milljarður og þau þurfa náttúrulega meira svigrúm enda er Torg hins himneska friðar stærsta borgartorg í heimi, það er yfir 40 hektarar og það er nálægt miðbæ Peking í Kína

Skömm Kína er mikil út af þessum voðaverkum.

Hér er grein úr Morgunblaðinu frá júní 1989:

 FJÖLDAMORÐIN Í PEKING: Torg hins himneska friðar blóði drifinn vígvöllur

Það er ekki gott um vik fyrir fólk í Kína að minnast þessara atburða. Það er lífshættulegt fyrir það. Stjórnvöld þar láta eins og voðaverkin  hafi aldrei gerst og vilja endurskrifa söguna og raunar banna allan fréttaflutning. Svo langt hafa stjórnvöld gengið að þau hafa núna út af því að 20 ár eru liðin og þau búast við mótmælum klippt á margar upplýsingaleiðslur frá Kína til umheimsins. Kína er lögregluríki og stjórnarhættir þar eru ekki í lagi og tjáningarfrelsi og upplýsingafrelsi borgara þar er ekki virt.

Við sem erum ekki ennþá í lögsögu slíkra ríkja ættum að leggja saman krafta okkar og styðja mannréttindabaráttu í Kína, ekki tipla á tánum í kringum ríki sem er að verða eitt voldugasta ríki í heimi, ríki sem er að vígvæðast og mun í fyllingu tímans sýna vígtennurnar. Viðskiptahagsmunir skipta vissulega máli en mannréttindabarátta er ennþá mikilvægari hvort sem það er á torgum í Kína, í fjalllendum Tíbets eða í sjávarplássum  á Íslandi.

hér fyrir neðan  lími ég inn Morgunblaðsgreinina frá 1989, gleymum ekki voðaverkum stjórnvalda og berjumst saman fyrir mannréttindum og lýðræði!

FJÖLDAMORÐIN Í PEKING: Torg hins himneska friðar blóði drifinn vígvöllur Óstaðfestar fréttir herma að allt að 7.000 manns hafi verið myrtir Peking. The Daily Telegraph, Reuter.

SKRIÐDREKAR óku um götur í miðborg Peking snemma í gærdag að kínverskum tíma. Skothvellir kváðu við og eldar loguðu í strætisvögnum og farartálmum sem námsmenn og stuðningsmenn þeirra höfðu reist til að hindra árás hermanna sem talin var yfirvofandi. Slagorð höfðu verið máluð á strætisvagnanna áður en eldur var lagður að þeim og á einum þeirra sagði "Hefnum blóðbaðsins 4. júní". Tæpum sólarhring áður höfðu kínverskir hermenn gráir fyrir járnum og studdirskriðdrekum látið til skarar skríða gegn umbótasinnum, sem haldið hafa til á Torgi hins himneska friðar í miðborg Peking undanfarnar vikur og krafist lýðræðis og upprætingu spillingar í landinu. Án sýnilegstilefnis hófu hermenn vopnaðir hríðskotabyssum skothríð á fólkið á torginu.

Blóðbaðið var óskaplegt en fréttir herma að 3.000 til 7.000 manns hafi verið á torginu er fjöldamorðin voru framin. Stjórnvöld hafa enn ekki skýrt frá því hversu margir féllu, en erlendir sendimenn telja að a.m.k. eitt þúsund manns hafi verið myrtir á Torgi hins himneska friðar og í nærliggjandi götum. Aðrar heimildir herma að talan sé mun hærri. Fréttaritari Reuters-fréttastofunnar í Peking kvaðst í gær hafa heyrt óstaðfestar fregnir þess efnis að 7.000 manns hefðu verið myrtir á laugardag. Dagblað hersins í Kína lýsti árásinni sem miklum sigri yfir "gagn byltingarmönnum".

Fjöldamorðin voru framin á aðfaranótt sunnudags að kínverskum tíma en fyrstu fréttir af atburðum þessum bárust til Vesturlanda um klukkan 16 að íslenskum tíma á laugardag. Að sögn sjónarvotta hófst árás hersins klukkan 4 á aðfaranótt sunnudags að kínverskum tíma.

Skyndilega varð miðborg Peking ljóslaus. Námsmennirnir á torginu ákváðu að fara hvergi og hófu að syngja "Internationalinn", baráttusöng kommúnismans. Skömmu síðar þustu hermenn vopnaðir hríðskotabyssum út úr Alþýðuhöllinni miklu við Torg hins himneska friðar. Umleið birtust brynvarðir liðsflutninga bílar á torginu. Segja sjónarvottar að fjöldi manns hafi látist og særst er vagnarnir óku yfir tjöld námsmanna sem þeir höfðu komið þar upp.

Í fréttaskeytum Reuters-frétta stofunnar segir að talið sé að 6.000 til 7.000 manns hafi verið á torginu er herliðið hóf skothríð. Sjónarvottar segja að hermennirnir hafi skotið á fólkið, sem var óvopnað, og lítt hirtum hvar byssukúlurnar lentu. Fólkið lagði á flótta í átt að götum í nágrenninu. Hermennirnir tóku einnig á rás og hleyptu af vopnum sínum á hlaupunum. Fólkið hrópaði: "glæpa menn, glæpamenn". Skipulögð fjöldamorð hafa ekki verið framin í Peking með þessum hætti í þau 40 ár sem kommúnistar hafa ráðið ríkjum í Kína.

Fótum fjör að launa

Um klukkan 5.30 að kínverskum tíma birtust sex skriðdrekar og óku þeir yfir farartálmana í átt að torginu. Að sögn Grahams Hutchings, fréttaritara breska dagblaðsins The Daily Telegraph í Peking, lögðu þúsundir manna á flótta er bryndrekarn ir birtust. Sjálfur átti hann fótum fjör að launa. Fólkið hljóp inn í hliðargötur en skriðdrekarnir fylgdu á eftir. Ærandi vélbyssuskothríð kvað við og eldglæringarnar úr byssuhlaupunum sáust greinilega í myrkrinu.

Skriðdrekarnir óku í röð að torginu og komu inn á það úr austri en áður höfðu hermenn haldið inn á torgið úr norðri og vestri. Fréttaritari The Daily Telegraph telur að þá hafi um 3.000 umbótasinnar verið á torginu. Bryndrekarnir óku yfir allt það sem fyrir þeim varð og herma sjónarvottar að fjöldi manns hafi orðið undir þeim er þeir óku niður Changanbreiðgötuna framhjá Peking-hóteli og inn á torgið. Um 15 brynvarðir liðsflutningavagnar fylgdu skriðdrekunum. Einn skriðdrekinn ók á fullri ferð að eftirlíkingu að bandarísku Frelsisstyttunni, sem námsmenn höfðu komið upp á torginu. Styttan, sem gerð var af listnemum í Peking-háskóla og kölluð "Lýðræðisstyttan" féll til jarðar og tættist í sundur undir járn beltum skriðdrekans.

Hollir forsetanum

Talið er að herliðið sem framdi fjöldamorðin heyri undir 27. herinn en hann er að jafnaði staðsettur í Hubei-héraði í miðhluta landsins. Herinn er sagður vel þjálfaður og agaður en hann er talinn hollur Yang Shangkun, forseta Kína. Vitað er að Yang sem er 82 ára að aldri hvatti til þess að mótmæli námsmanna yrðu barin niður af fullri hörku og virðist svo sem hann hafi nú náð að treysta stöðu sína innan valdakerfisins. Hugsanlegt er talið að hann komi til með að berjast um völdin við Deng Xiaoping, hinn eiginlega leiðtoga kínverska kommúnistaflokksins.

Reuter


mbl.is Clinton gagnrýnir Kínverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband