Betri stofur með útsýni út á Esjuna

Ég las í Morgunblaðinu í dag  um byggingu Tónlistarhússins, um peningahítina sem núna er eitt helsta  atvinnuskapandi verkefni á höfuðborgarsvæðinu  en verður fyrir mér ekki annað en líkhús þeirrar hugmyndafræði sem hér réði ríkjum fyrir Hrunið og minnisvarði um samfélag þar sem fólk skiptist í valdalausan almúga, gamalt ættarveldi á brauðfótum og nokkra fjárglæframenn og  óhæfa stjórnsýslu og ríkisstjórn sem dinglaði eins og strengjabrúður í spottum fjárglæframanna, fjárglæframanna sem afhentar voru peningargerðarvélar samfélagsins, vélar sem þeir notuðu til að byggja upp fjárhagslegar svikamyllur sem gerðu þeim kleift sölsa undir sig atvinnufyrirtæki á Íslandi og leggjast í víking erlendis út af peningastefnu sem öskraði á vaxtamunaviðskipti.

Þegar spilaborgin hrundi eins og hún hlaut að gera fyrr eða síðar þá hrökkvum við upp almenningur á Íslandi og erum á einhvern hátt sem við skiljum ekki orðin ábyrgðarmenn fyrir alþjóðlegum fjárglæfrum, fjárglæfrum sem við hefðum aldrei samþykkt ef við hefðum haft vitneskju um hvað væri að gerast.

En mér finnst átakanlegt að lesa um þetta fína glanshús, lesa um að núna séu ríki og bær að byggja hús sem alls ekki er hannað fyrir íslenska alþýðu heldur stásshús á einum besta stað í Reykjavík, hús sem er hannað fyrir  einhverja hástétt, hús það sem eru VIP stofur, hús sem byggir á sömu hugmyndafræði og skipting fólks í þá sem eiga og hafa völd og þá sem eiga ekki og hafa ekki völd, skiptingu í þá sem ferðast á fyrsta og öðru farrými í flugvélum, skiptingu í þá sem mega sitja í betri stofum á flugvöllum, skiptingu sem meira segja gekk svo langt að það átti að búa hérna til röð ríka fólksins með einkavæddri löggæslu á flugvöllum

Það er engin trygging fyrir því að hérna spretti ekki upp spilltur forréttindaaðall að hér sé vinstristjórn, það þarf bara að skoða sögu fyrrum kommúnistaríkja til þess.  Fyrir hrun Ráðstjórnarríkjanna var kerfið þar orðið gjörspillt,  það voru sérstakar dollarabúðir þar sem innlend valdastétt mátti versla og gat verslað munaðarvarning sem ekki fékkst annars staðar. Valdastéttin í Sovétinu hafði mörg hlunnindi sem alþýðu bauðst ekki og þar var ástandið líka þannig að hún réði allri fjölmiðlun og allri löggæslu í landinu og kæfði niður allt andóf.

Vel upplýstur almenningur sem lætur sig stjórnmál varða og tekur þátt í þeim og öflug stjórnarandstaða getur hindrað að hér byggist aftur upp kerfi þar sem fáir kúga og arðræna fjöldann. Eitt það mikilvægasta er að almenningur hafi aðgang að upplýsingum og þá ekki bara að upplýsingum sem matreiddar eru ofan í hann af ríkjandi stjórnvöldum og málpípum þeirra, heldur óheft flæði af upplýsingum og þekkingu sem viðað er sem víðast að.

Stjórnvöld byrja að blekkja nánast áður er þau skrifa undir sína eiðstafi, við sjáum það á núverandi ríkisstjórn sem núna passar sig á því að upplýsa okkur ekki um hve staðan er alvarleg í atvinnumálum og skuldamálum þjóðarinnar, sennilega réttlætir þessi ríkisstjórn það með því að segja að það sé mikilvægt að koma fram full af bjartsýni og tala kjark í fólkið.  Svona hafa allar ríkisstjórnir verið og átakanlegast er náttúrulega þegar fyrri forsætisráðherra og utanríkisráðherra fóru erlendis til að sannfæra heimsbyggðina og okkur  um að hér væri allt í góðu með íslensku bankanna, þannig blekktu þau umheiminn og þannig blekktu þau líka Íslendinga.  

Við þurfum ekki stjórnvöld  til að tala í okkur kjark og  við þurfum ekki meiri blekkingar. Við þurfum heiðarleg stjórnvöld sem vinna með fólkinu, ekki bara kjósendum sínum og þeim sem gefa fúlgur í flokkssjóði, við þurfum framsýn stjórnvöld sem skilja gangverk atvinnulífs og hvernig þar er að breytast með tækni og alþjóðavæðingu, stjórnvöld sem geta samhæft átak margra og við þurfum stjórnvöld sem skilja og skynja að þó Ísland sé eyland á landakorti heimsins þá er íslenskt samfélag og íslenskt atvinnulíf ekki eyland, það er samofin og samflækt hagkerfi og mannlífi alls heimsins og áföll sem dynja yfir annars staðar munu einnig keyra okkur niður.

Við þurfum líka stjórnvöld sem skilja og skynja að Ísland er staðsett í útjaðri  svæðis sem verður mikið átakasvæði á næstu árum eða áratugum og Ísland hefur auðlindir sem aðrir girnast. Við þurfum stjórnvöld sem selja ekki þegna sína í ánauð og selja frá þeim allt sem getur orðið þeim til bjargar. Við þurfum stjórnvöld sem átta sig á breytingum á valdajafnvægi í heiminum og haga utanríkisstefnu út frá því. Við þurfum líka stjórnvöld sem blekkja ekki almenning með því að látast ráða einhverju sem þau ráða alls ekki og við þurfum stjórnvöld sem viðurkenna að þau ráði ekki við ástandið nema í samvinnu við almenning og  ýmsar stofnanir og félagasamtök í landinu. Við þurfum stjórnvöld sem vinnur með og fyrir fólkið í landinu en skynjar ekki almenning sem sinn helsta óvin.

Við þurfum stjórnvöld sem átta sig á því að allra mikilvægast á svona krepputímum er að jafna lífskjör og aðstöðu þá deilast byrðarnar jafnar niður og þá er minni hætta á ólgu og uppþotum og þá er líka minni hvati í hatramma kjarabaráttu. Einn liður í því er að hækka skatta á tekjur yfir ákveðnu hámarki, ekki eingöngu til að auka tekjur ríkissjóðs heldur til að draga úr misskiptingu vinnunnar.

Það samfélag sem nú síðustu mánuði hefur myndast á Íslandi er samfélag gífurlegrar misskiptingar, misskiptingar milli þeirra sem hafa vinnu og þeirra sem hafa ekki vinnu.  Það er reynsla allra annarra þjóða að það er stórkostleg samfélagsleg hætta í miklu atvinnuleysi að fólk sem er lengi atvinnulaust fari ekki aftur út á vinnumarkað. Þetta kerfi sem er núna býr til gjár milli þeirra sem hafa vinnu og þeirra sem eru atvinnulausir. 

Það eru margar aðgerðir sem stjórnvöld í samvinnu við aðra geta gripið til sem geta deilt vinnumagni í samfélaginu. Ein er sú að gera með óbeinum hætti mjög dýrt fyrir fólk að vinna mikið og vinna eftirvinnu t.d. með aukinni skattprósentu. Önnur leið væri að minnka vinnuvikuna í samvinnu við stéttafélög. Þriðja leiðin væri að gefa ákveðnum aðilum á vinnumarkaði í opinberri þjónustu orlof þannig skilyrt að stofnunin réði fólk af atvinnuleysisskrá í staðinn. Fjórða leiðin væri að taka upp styrkjakerfi í sambandi við nám og auka námsframboð. Það er miklu hagkvæmara fyrir samfélagið að hafa fólk í uppbyggilegu námi heldur en iðjulaust á atvinnuleysisbótum.

Fimmta leiðin er að setja á stað atvinnubótavinnu og atvinnubótaverkefni sem í dag heita atvinnusköpunarverkefni eða átaksverkefni en ég vara eindregið við að það verði atvinnubótavinna sem felst í að byggja hús, allra síst skrauthús sem verða peningahít um aldur og æfi eins og tónlistarhúsið. Við höfum allt of mikið af húsum, það getur vel farið svo að Reykjavík skreppi saman og íbúum hér á landi fækki.

En við þurfum áfram um langan aldur umferðarmannvirki og hafnarmannvirki, við þurfum öðruvísi infrastrúktúr svo sem  léttlestir og  aðstöðu fyrir rafmagnsbíla, við þurfum orkuver, við þurfum fallegt vel við haldið umhverfi, við þurfum almenningsgarða, útivistarsvæði og torg.  Við þurfum ekki að fylla upp í rústasvæðin með nýjum gagnlausum húsum, við þurfum meiri náttúru, meira umhverfislandlag og fallegri og stílhreinni borg. Umhverfisframkvæmdir og fegrun borgarsamfélagsins getur verið arðbær ef horft er til þess að það mun ráða hvar fyrirtæki setja sig niður og hvar ferðamenn koma hversu góð aðstaða er þar.

Við þurfum líka að byggja upp nýsköpun á sviði þekkingar, við ættum að nota tækifærið í dýpstu hyljum kreppunnar þegar vinnuafl er nóg til að byggja upp þá grunna sem við gætum og munum líklega byggja á blómlegan atvinnurekstur þegar ísköldum vetri  fjármálakreppunnar lýkur. Við þurfum að búa til  öðruvísi infrastrúktúr í atvinnulífi, það er allt öðruvísi samspil birgja, neytenda og framleiðenda núna.

Við þurfum atvinnulíf og samfélag sem byggir á samvinnu, ekki samkeppni.

 

 


mbl.is Tónlistarhús 650 millj dýrara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hefur þú á tilfinningunni að kommúnistar séu komnir hér til valda eða ertu að draga athyglina frá öðru? Það var ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sem einkavinavæddi bankakerfið á sínum tíma og lét bankana leika lausum hala eftir það.

Í þeim skilningi eru kjósendur þessara flokka ábyrgðarmenn fyrir fjárglæfrum og svikastarfsemi sem fylgdi í kjölfarið. Það er afar einfalt og auðskilið. Töluverður hluti Sjálfstæðiskjósenda yfirgaf flokkinn af þeim sökum í síðustu kosningum. Framsókn tókst með gylliboðum um niðurfellingu skulda að hala inn svolítið fylgi. Þjóðin situr eftir með sárt ennið en hún áttar sig vel á hverjir bera ábyrgðina.

Sverrir (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 10:15

2 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

heilshugar sammála þér Salvör

Jón Snæbjörnsson, 18.5.2009 kl. 10:36

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Sverrir: Ég er ekki að draga athygli frá neinu, eingöngu að vara við því að ríkisstjórnir munu alltaf leitast við að blekkja. Stærsta blekkingin er að ríkisstjórnir telja fólki trú um að þær geti skapað störf. Risastór blekking var líka að ríkisstjórn sem kóaði með fjárglæframönnum, ríkisstjórn sem átti að vita betur. Þar er svo sannarlega sú ríkisstjórn sem Framsóknarflokkurinn sat seinast í (til 2006) svo sannarlega ekki undanskilin enda sýndi síðasta stjórnarkjör í Framsókn það mjög vel að þar var gríðarlegt kall á endurnýjun.  Það þarf að fara fram uppgjör í öllum flokkum og flokksmenn að kalla eftir upplýsingum m.a. um hvernig fjármálamenn hafa styrkt flokka, ekki bara í beinum framlögum í flokksjóði heldur líka varðandi annað t.d. borgað húsnæði.

Varðandi einkavæðingu bankanna þá er alveg ljóst að hún var ekki gæfuspor og stjórnvöld stóðu hörmulega að eftirliti. Stjórnvöld í öðrum vestrænum löndum gerðu það líka, breskt fjármálaeftirlit stóð sig afar illa. Reyndar kom það mér mjög á óvart að íslenskt fjármálaeftirlit væri ábyrgt fyrir einhverjum netbönkum sem gerðu út á breska kúnna, ég var furðu lostin þegar ég komst að raun um það. Ég hafði ekki frekar en almenningur á Íslandi vitað hvernig lögsaga banka er, ég taldi  að bankaeftirlit hér á Íslandi væri að fylgjast með bönkum hér á landi, bönkum sem sinntu Íslendingum.  En það er hreint út sagt ótrúlegt hvað fólk háttsett í stjórnsýslu hefur tengst þessu og lagt blessun sína yfir þetta. Það getur hreinlega ekki verið að Þorgerður Katrín hafi ekki áttað sig á því hve óeðlilegt bankakerfið og viðskiptahættir þess voru á Íslandi.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 18.5.2009 kl. 11:14

4 identicon

Sammála Salvöru - við þurfum ekkert "táknrænt" núna, aðeins heiðarleika og aðhald.

Ömurlegar þessar VIP stofur - tilgangur þeirra er jú einvörðungu sá að sumir geti sýnt öðrum að þeir hafi efni á að hafa læstar dyr milli sín og annarra. Það eru engin önnur "þægindi" sem í þessu felast.

Saga class er af sama meiði. Hvers vegna þarf að draga fyrir Saga Class, svo almenningur sjái ekki þegar verið er að bera einhverjar kræsingar á borð fyrir hina (sem borguðu væntanlega fyrri þær?).  Nei, það er ekki málið. Innihaldið er eingögnu það, að geta sýnt öðrum , "ég er fínn og þú ert skólp".

Vinstri stjórn á ekki, fremur en aðrir, að taka þátt í slíku.

ragnar (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 11:24

5 identicon

Það er reyndar svo merkilegt að þegar ráðist var í byggingu Tónlistarhússins þá urðu allir flokkar sammála. Reynslan hefur kennt mér að þá þurfi fyrst að vera á varðbergi þegar hallelújakór helstu forystumanna myndast eins og í því tilviki.

Sverrir (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 11:36

6 identicon

Þetta hús verður mjög atvinnuskapandi næstu ár, við í ferðaþjónustunni erum búin að bíða lengi eftir því. Við sjáum enga tengingu við þetta hús og peningamennina 2007 nema að peningamenn ásædust það og fengu næstum því. Kreppan bjargaði því frá peningamönnunum, núna á það kannski eftir að gera eitthvað gagn.

Þetta var það eina sem ferðaþjónustan kom í gegn á þessum uppgangsárum bankanna. Núna á að reyna taka það af okkur af því að það á að hafa verið hluti af þessu bankadæmi. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 13:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband