Steingrímur og konan undir jökli

Það einblína allir á ferðamannaiðnað sem eitthvað sem bjarga á okkur út úr ógöngum kreppunnar, alla vega eitthvað sem er í blússandi uppgangi. Þannig er staðan ekki bara á Íslandi, ég les grein eftir grein á Netinu þar sem fólk ætlar sjálft að herða sínar sultarólar í sinni heimabyggð og fara að stunda sjálfsþurftarbúskap og gera svo út á alla túristana sem það telur að muni hegða sér eins og túristar fyrri ára hafa gert. En það er heimskreppa og eins og það sé ekki nóg þá æðir plága yfir heiminn, plága sem byrjaði sem Inflúensufaraldur í Mexíkó en enginn veit hversu hættuleg verður. Það er því engin líkindi til að ferðamenn heimsins hegði sér eins og þeir gerðu í fyrra og hitteðfyrra og haldi áfram að kaupa lúxus eins og dýrar sumarleyfisferðir og fara á fjölmennar ráðstefnur. Það hlýtur að verða samdráttur í þannig ferðum. 

Það vinnur margt með Íslandi núna sem ferðamannalandi. Náttúran og áhugi á norðlægum slóðum, fólk vill flýta sér að sjá jöklana áður en þeir hverfa. Svo er ekki amalegt að fyrir túrista með evrur og dollara er allt orðið miklu, miklu ódýrara hérna þannig að hér er hægt að velta sér upp úr lúxus og láta innfædda stjana við sig, það þarf ekki að borga þeim hátt kaup fyrir það.  Það líka vinnur með ferðamennsku á Íslandi að orkuverð hefur lækkað og þá væntanlega eldsneyti á flugvélar og þar með  kosnaðurinn við að ferja fólk til landsins.

Það er mjög sennilegt að framtíð Íslands sé björt sem ferðamannalands fyrir náttúrutúrista og ég hugsa og reyndar vona að túristar flykkist til Reykjavíkur, ekki út af villtu næturlífi, drykkjulátum og nektarstöðum og spilavítum heldur út af því að hér er heimskautaborg með sérstæða menningu og tengsl við þá undarlegu og stórbrotnu náttúru sem er hér allt í kringum okkur, borg þar sem dýrasta djásnið er ekki tóm tunna eins og geymarnir í Öskjuhlíðinni og ekki gjáfægt og glerjað líkhús kreppunnar eins  og tónlistarhúsið  heldur fjallið Esjan sem gnæfir við himinn. Ég vona að ferðamenn sem koma til Reykjavíkur meti það betur að geta tekið strætó upp að fjallrótum Esjunnar, fjallsins sem er inn í borginni, geta lagt á brattann og  horft af fjallinu á Reykjavík og náttúruna í kring, meti það betur en sitja í tónlistarhúsinu sem var byggt fyrir blóðpeninga og hlusta á tilbúna niðinn í Perlunni sem er engin perla, bara minnismerki um  kúlusukk í kúlulánasamfélagi.

Aðstæður sem eru í heiminum núna munu hins vegar ekki vinna með ferðamennsku þar sem seldar eru dýrar svaðilfarir á norðurslóðir. Ég hef ekki séð neinar tölur og upplýsingar um hvernig íslenska ferðasumarið kemur undan kreppuvetri nema að  fréttaskot þar sem fréttamenn hafa eftir hótelum í Reykjavík að bókanir séu góðar fyrir sumarið.  Svo var nýlega rétt fyrir kosningar stutt viðtal í kvöldfréttum Rúv við eina konu sem rekur hótel eða einhvers konar ferðamennsku innan Vatnajökulsþjóðgarðar, sú kona sagðist ekki hafa orðið vör við neina kreppu, allt í blússandi uppgangi hjá þeim þarna undir jökli.  Svo vildi til að Steingrímur hinn úrræðagóði sjáandi sem núna stýrir fjármálum Íslands var í kosningaþætti RÚV sama kvöld og hann er alltaf sannfærandi hann Steingrímur, hann vitnaði í konuna undir jökli sem sinn aðalheimildarmann um hin gríðarlegu sóknarfæri sem við ættum í ferðamennskunni, allt væri í svífandi uppgangi þar. Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég hlustaði á fjármálaráðherrann, ég hugsaði með mér, hvernig fer fyrir þessari þjóð ef þeir sem víðast ættu að leita fanga um gögn og vísbendingar og þeir sem best ættu að spá um ástandið hefðu ekki fyrir því að leita annað en hlusta á fréttirnar á RÚV og taka augljóslega tilbúna frétt svona "góðu fréttina í enda fréttatímans" þessa frétt sem sett er eftir búið er að lesa upp allar hörmungafréttirnar og gjaldþrotafréttirnar. 

Hvað verður um Ísland með svoleiðis fjármálastjórn, fjármálastjórn sem lætur ekki svo lítið að rýna í þau gögn sem þó eru tiltæk víða? Er hægt að treysta svona efnahagsstjórn? Eða er þetta 2009 útgáfan af traustri efnahagsstjórn?


mbl.is 30% fækkun farþega á Keflavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Takk fyrir þetta Salvör. Kúlusukk er réttnefni.

Guðmundur St Ragnarsson, 6.5.2009 kl. 21:38

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ágæt grein - en er þetta ekki vont orð - ferðamannaiðnaður. Er ekki réttara að nota orðið ferðaþjónusta. Þetta er ekki iðnaður í þeirri merkingu sem ég legg í orðið.

Hjálmtýr V Heiðdal, 6.5.2009 kl. 22:25

3 identicon

Flott grein hjá þér. En gleymum ekki að í sumar lítur úr fyrir að við verðum ferðamenn í eigin landi - það hlýtur að skapa eitthvað í hagfræðinni - allavega sparar það gjaldeyrir!

Það er erfitt að fá húsnæði um land allt það er mikið uppbókað og það er flott.

Svo megum við ekki gleyma að við höfum undanfarin ár þrátt fyrir rigningar átt miklu betri sumur - hitastig hærra en þægilegt og það eru ferðamenn frá "heitari" slóðum að sækjast eftir.

Fyrir 20 árum kom vinur minn til Íslands ásamt konunni sinni, henni var alltaf kalt EN hans eina umkvörtunarefni var að veðrið var of gott - hann var kominn til að upplifa síbreytilegt veður.

En reyndar fæ ég smá aulahroll þegar ég geng um miðbæinn og sé hverja TÚRISTABÚÐINA á fætur annarri með eins vöru opna -- minnir á myndbandaleigurnar forðum daga!

En skemmtilegar undantekningar eru frá þessu sem betur fer!!!

Við siglum skútunni á sléttum sjó fljótlega ef við hættum öllum barlómi, því hlutirnir hafa oftast tilhneigingu til að fara betur en maður heldur

Regína Eiriksdottir (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 10:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband