23.4.2009 | 13:36
Milljónir og grilljónir
Ég er ekki að fatta hvernig allt samfélagið núna er í þrúgandi meðvirkni með þeim sem eru við völd núna en hafa engar lausnir og þeim sem hrökkluðust frá völdum í búsáhaldabyltingunni án þess að hafa neinar lausnir þá. Það er rexað og pexað um milljónir í einhverjum prófkjörum fyrir nokkrum árum en það er ekkert talað um þær svimandi háu tölur sem eru í því hyldýpi sem íslenska þjóðin er um það bil að steypa sér út í. Við höngum á bjargbrúninni en við eigum bara fjölmiðla og stjórnmálaflokka sem kunna að tala um milljónir en verða ráðvilltir og týndir þegar talað er um grilljónir. Eina undantekningin er Framsóknarflokkurinn sem setur fram efnahagstillögur sem hagfræðingar hafa samið með stjórnmálamönnum, tillögur sem einhver von er um að geta virkað.
Samfylkingin æpir bara "Evra, evra, EBE strax" og Vinstri Grænir æpa "Ekkert ál". Sjálfstæðismenn segjast ætla að taka upp evru í samstarfi við IMF þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að það sé hægt. Ál og málmsteypuiðnaður heimsins er á hvínandi kúpunni og það er ekkert sem bendir til að einn eða neinn muni reisa hér álver á næstunni. Þó við setjum hvínandi blúss á að ganga inn í EBE þá tekur mörg, mörg ár að uppfylla skilyrði til að taka upp Evru og eins og málin standa og munu standa ef skuldabyrði verður ekki létt af íslensku þjóðinni þá munum við aldrei, aldrei geta uppfyllt þau skilyrði.
Hér er gjaldþrota þjóð og hér eru gjaldþrota heimili. Markaðsverðmæti þeirra eigna sem fólk á hafa hraðfallið eins og allt í því gjörningaveðri fjármála sem skall á heimsbyggðina. Það er eins og stinga höfðinu í sandinn að horfa á þetta eins og hér sé spurning um að jafna tekju- og gjaldahlið fjárlaga og hegða sér eins og Geir Haarde þegar hann ár eftir ár hrósaði sér af traustri efnahagsstjórn.
Við verðum að horfast í augu við kerfishrun þar sem öll verðmæti breytast í fljótandi miðla. Verð á orku og olíu hefur lækkað og lækkað, verð á húsnæði hefur lækkað og lækkað, verð á matvælum hefur lækkað og lækkað, verð á málmum hefur lækkað og lækkað. Fjármálakerfi heimsins hefur frosið fast. En það fastasta af öllu föstu eru skuldir. Ástandið er þannig að skuldir eru bara tala í einhverjum yfirlitum, það er engin von að stór hluti skulda og krafna sem bankar heimsins hentu á milli sín í einhverjum afleiðuboltaleik muni nokkurn tíma fást. Enda eru allar ábyrgar fjármálastofnanir löngu búnar að afskrifa þessar skuldir.
Hvað skyldu skuldavöndlar húsnæðislána á Íslandi seljast á alþjóðlegum peningamarkaði? Fyrir 1 % af verðmæti? Fyrir 5 % af verðmæti? Örugglega ekki meira þegar undirmálslánin amerísku seljast fyrir slikk og Ísland er eins og eitur í fjármálaheiminum, orðspor landsins er þannig að enginn vill lána hingað fé.
Málið er að nú er kjörin staða til að segja: Við léttum af ykkur skuldurum ánauðinni, þið þurfið ekki að vera í skuldaánauð sem þið munuð aldrei losna úr. Allir græða ef þið komist á fæturnar aftur og getið tekið þátt í að búa aftur til blómlegt atvinnulíf. Allir tapa ef þið Íslendingar verðið eins og ánauðugir bændur í Rússlandi fyrir tíma byltinga þar, í skuldafangelsi frá kynslóð til kynslóðar.
Kannski verðið þið ekki ánauðugir, víst getið þið Íslendingar farið úr landi og þá myndast pláss fyrir aðra uppflosnaða úr öðrum löndum þar sem ástandið er ennþá verra til að koma hingað til að flýja heimkynni sín og lifa áfram við eymd á þessari eyju sem hefur selt allt sem það átti í hendur einhverrar ósýnilegrar fjármálaelítu sem býr á öðrum eyjum sem við þekkjum bara nafnið á.
Eina leið ykkar Íslendingar út úr þessum vanda er að létta skuldaánauð af almenningi og neita að borga skuldir sem sagt er að íslenska þjóðin skuldi.
Ég hef áfram sömu tillfinningu varandi núverandi ríkisstjórn og ég hafði gagnvart seinustu ríkisstjórn, þessari vanhæfu. Mér finnst núverandi ríkisstjórn vera að leyna einhverju mjög mikilvægu og hilma yfir einhverju, blekkja okkur til að halda að ástandið sé á stiginu "þetta bjargast" en á meðan skipið sekkur þá sé fólk önnum kafið við að koma ákveðnu undan í björgunarbátana en það séu ekki björgunarbátar fyrir alla.
Hvað verður um okkur sem komumst ekki í björgunarbátana?
Mikilvægustu kosningarnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég skil ekki hvers vegna þú segir samfélagið allt meðvirkt núverandi valdhöfum.
Þú segir í því sambandi " það er rexað og pexað um millljónir í einhverjum prófkjörum fyrir nokkrum árum það er ekkert talað um það hyldýpi sem íslenska þjóðin er um það bil að steypa sér út í".
Þig virðist skorta skilning á stöðu hins almenna borgara sem stendur frammi fyrir kosningu. Við vissum ekki betur en allt væri í fínu með stöðu landsins, enda skorti ekki fullyrðingar valdamanna um að allt væri í góðu lagi. Svo kemur "hrunið" og síðan hafa "fréttirnar" lekið út í smáskömmtum og flest allar verið af verra taginu.Það er ekki óeðlilegt að við endurskoðun afstöðu okkar til stjórmálaflokka, leiðtoga þeirra og annara valdamanna landsins.Nú virðist sem stjórnmálabaráttan hafi seinustu ár verið greidd að miklu leiti af aðilum í efnahagslífinu sem etv hafa verið að reyna að tryggja stöðu sína með styrkveitingum.Þá kemur upp spurningin um hverjum sé treystandi til að gæta hagsmuna þjóðarinnar og í því sambandi er fyrri ferill lykilatriði.Sér í lagi þar sem upplýsingar um fjárhagslega stöðu landsins og framtíðarspár um valkosti okkar liggja ekki á lausu.Fjölmiðlaþjónustan sem við getum nýtt okkur til upplýsingaöflunar er léleg en forystumenn stjórnmálaflokkanna virðast ekki hafa gert neinar alvarlegar tilraunir til að brjótast gegnum þá hindrun til að upplýsa okkur um : Hvað Gerðist?, Hver er staðan?, Hvernig Leysum við Vandann?.
Ég skil færsluna þína sem hvatningu til að kjósa Framsóknarfjlokkinn, "sem setur fram efnahagstillögur sem hagfræðingar hafa samið með stjórnmálamönnum. Tillögur sem einhver von er um að gæti virkað". Þá veit ég það: Ef ég með efnahagstillögum sem einhverjir hagfræðingar sömdu með einhverjum stjórnmálamönnum og sem einhver von er um að gætu virkað á ég að kjósa Framsóknarflokkinn!
PS. Þú talar um "Þið Íslendingar". Ert þú ekki ein af okkur? Hvaða björgunarbáta ert þú að tala um?
Agla (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 15:07
Færslan þín, Salvör, pirraði mig svo mikið, að ég "googled" þig og sá að Google gefur tengla á störf þín við K.H.I í upplýsingatækni á menntavísindasviði og sem deildarsérfræðing í forsætismálaráðuneytinu osfrv.osfrv. Þú veist áreiðanlega hvað þú ert að tala um svo spurningin er einföld : Á ég að krossa við Framsókn (og hversvegna þá frekar en hina)?
Agla (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 15:52
Sæl Agla, ég var að koma af kosningaskrifstofunni þar sem ég er einmitt búin að vera í allan dag að sannfæra fólk um hvers vegna það eigi að kjósa Framsókn. Gaman að fá tækifæri til þess líka á blogginu. ég er að fara út úr dyrunum núna en ætla að blogga seinna í kvöld eða snemma í fyrramálið sérstakt svar til þín undir titlinum "Svar til Öglu"
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 23.4.2009 kl. 19:14
Sæl Salvör Kristjana,
Þakka fyrir loforðið um svarið.Það er enn ekki komið. Samt hefur þú bloggað tvisvar í dag. Ég kem til með að fylgjast með blogginu þínu.
Þú hefur haft endalaus tækifæri til að "sannfæra" okkur blogglesendur um hversvegna við eigum að kjósa Framsóknarflokkinn svo mér finnst óþarfa kurteisi að þakka mér fyrir að hafa gefið þér tækifæri til að tjá þig hvað það snertir.Þú notaðir samt ekki tækifærið!
Ég sagði að færslan þín hefði pirrað mig en nú er þetta allt grafið og gleymt því færslur hverfa fljótt á mbl. blogginu eins og þið flokksbundnu bloggarar vitið.Ég beini þess vegna þessum orðum að þér persónulega, Salvör.
Í færslunni mæltir þú greinilega með að kjósendur krossuðu við Framsóknarflokkinn. Þú varst með gagnrýni á ýmsa aðra stjórmálaflokka en gafst litlar upplýsingar um stefnu Framsóknarflokksins nema þá helst að "Eina leið ykkar Íslendinga út úr þessum vanda er að létta skuldaánauð af almenningi og neita að borga skuldir sem sagt er að íslenska þjóðin skuldi".Í mínum eyrum hljómar þetta eins og fljótfærnisleg þýðing úr ensku. Kannski úr Silfrinu? Og náttúrulega nefndir þú líka þetta með "efnahagstillögurnar sem hagfræðingar hafa samið með stjórnmálamönnum"!
Ég vonaðist eftir betri málafærslu frá þér fyrir hönd Framsóknarflokksins svona rétt fyrir kosningar. Mér sýnast þrjár mögulegar skýringar á málflutningi þínum: 1) Flokkurinn hefur ekki betri rök en þú berð fram. 2) Þú ert lélegur málsvari flokksins . 3) Þú vanmetur dómgreind og menntun lesenda og hugsanlegra kjósenda flokksins. Ég hallast að skýringu tvö og þrjú , sem eru jú ná tengdar. ERGO: Ég get ekki tekið þig alvarlega.
Ég hef lesið bloggfærslur þínar seinustu 12 mánuði til að kynnast þeirri þér sem þú birtir í færslunum.Þú hefur margt þér til ágætis. Fyrirsagnirnar eru góðar og þú ert vel ritfær en þú ristir grunnt málefnalega séð.Hvað t.d. með efnislegt innihald færslunnar 22.1.2009 undir fyrirsögninni" Samvinnuhugsjónin er eina vitið " eða seinustu færsluna um Mörgæsirnar og opna hugbúðnaðinn (þar sem þú gefur mjög einhliða skammtíma sjónarmið , sem kom mér mjög á óvart miðað við að þú hefur starfað sem lektor í upplýsingatækni á menntavísindasvæði KHI og ættir þess vegna að vera inn í málunum).
Ég skil ykkur Framsóknarmenn (og konur) ekki.Þið hafið ekki "sannfært" mig um eitt eða neitt.Ég trúi ykkur ekki.. Ég treysti ykkur ekki . Þú , svo maður taki afskaplega ómerkilegt dæmi um ábyrgðargðartilfinningu fulltrúa stjórnmálaflokka , sagðir að það væri gaman að fá tækifæri til að sannfæra fólk hversvegna það eigi að kjósa Framsóknarflokkinn og þú myndir"blogga svar seinna í kvöld eða strax ...." en þú efndir það ekki.
Agla (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 21:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.