Litli Neró. Hvar var Sigurður Kári þegar Reykjavík brann?

nero.gifÞað er gott að Alþingi skuli ræða um sumarannir í skólum. Það er mikilvægt að fólk skilji og viti hver vandi skólafólks er núna, það er ekki betur sett en farandverkafólk í þeirri kreppu sem núna lamar Ísland. Það  fyrsta sem fyrirtæki og stofnanir skera niður  eru  framkvæmdir yfir sumarið og að ráða fólk í sumarafleysingar.

Það er mikilvægt að taka á bráðavanda skólafólks og heimila en það er óendanlega mikilvægt að takast á við að byggja hér upp betra samfélag til framtíðar og breyta þeim leikreglum og umgjörð sem leiddi okkur í ógöngur. Einn liður í því er stjórnlagaþing og breytingar á stjórnarskrá. Það skilja því miður ekki erindrekar þeirra sem komu okkur í Hrunið, þeir þurfa lengri tíma til að átta sig á hve glæpsamlega komið var fram við almenning á Íslandi.

Ungi sjálfstæðismaðurinn Sigurður Kári er plöggaður reglulega inn í fréttir á mbl.is og nýjasta spekin sem er höfð eftir honum á þingpöllum í dag er þessi:

"Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist styðja það eindregið að teknar væru upp sumarannir við Háskóla Íslands. Sagði hann gagnrýnivert hjá sitjandi ríkisstjórn að einbeita sér að breytingum á stjórnarskránni í stað þess að einbeita sér að lausnum sem gagnast gætu atvinnulífinu og heimilum landsins. Líkti hann ráðherrum ríkisstjórnarinnar við Neró sem spilaði á fiðlu meðan Róm brann, því nú væri fyrirtækin og heimilin í landinu að brenna meðan meirihlutinn setti alla sína orku í gæluverkefni. Sagði hann ráðherrana spila við falskan undirleik Framsóknarflokksins."

Þessi orðræða er grátbrosleg. Sérstaklega þegar haft er í huga þessi samlíking Sigurðar Kára um Neró og rifjað upp að þegar búsáhaldabyltingin braust út og upplausnarástand var í Reykjavík og eldar voru tendraðir við Alþingishúsið og þar barið á pönnur og potta og aðeins tímaspursmál hvenær bálreiður fólksfjöldi ræðist inn í þinghúsið þá stóð Sigurður Kári þar í pontu og flutti ávarp - talaði fyrir því að leyfa ætti sölu brennivíns í búðum.  

Stuðningsmenn Sigurðar Kára eru dáldið pirraðir yfir að hæðst skuli vera að því hve mikið á skjön hann og flokkur hans var við íslenskan veruleika og segja það hafa verið tilviljun að þetta mál hafi einmitt verið á dagskrá þennan dag og Sigurður Kári þannig gerður hlægilegur og afkáralegur. En tilviljun og ekki tilviljun, það var fátítt fyrir Hrunið að Sigurður Kári væri að beita sér fyrir öðru en sölu á víni í búðum, það virðist hafa verið hans helsta hugðarefni og hugsjón í þingstörfum.

Það er gott að Sigurður Kári skuli vera að þroskast og átta sig á því að þetta brennivínssöluhugðarefni er voða  2007 og virkar lítið núna til að halda atkvæðum kjósenda. Við erum nefnilega núna öll í timburmönnunum eftir valdasetu Sjálfstæðisflokksins og við þurfum engan afréttara. Við þurfum að viðurkenna vanda okkar, horfast í augu við ástandið og öll þjóðin þarf að fara í meðferð. 

Hér er vídeó sem ég tók fyrir framan Alþingishúsið 20. janúar síðastliðinn, einmitt þegar Sigurður Kári var innan dyra að tala eina ferðina ennþá um nauðsyn þess að selja brennivín í kjörbúðum:


mbl.is Spurst fyrir um sumarannir á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergljót Aðalsteinsdóttir

Gott hjá þér að benda á þetta Auðvitað hefur þessi maður sem vill skera niður alla samfélagsþjónustum og segja upp ríkisstarfsmönnum ekki raunverulegan áhuga á velferð stútenta það tekur tíma að finna út lausn sem er viðunandi fyrir stútenta og vonandi tekst það en við vitum að nú þrengir að ríkissjóði einmitt vegna manna einsog Sigurðar Kára og frjálshyggjunnar sem hleypti vildarvinum í eigur ríkisins og er ekkert auðvelt að halda öllu í horfinu einsog var þessi málfluttningur hjá Sigurði Kára og hans líkum er fullkomlega ábyrgðarlaus og dæmir sig sjáfur.

Bergljót Aðalsteinsdóttir, 3.4.2009 kl. 14:28

2 identicon

Ég held að þetta sé ekki alveg rétt söguskýring hjá þér Salvör.

Ástæða þess að ég (og líklega margir fleiri) mættum þarna til að mótmæla var sú að þarna var um að ræða fyrsta fund eftir rúmlega mánaðarlangt frí alþingismanna sem þeir tóku sér þrátt fyrir hrunið og áttu umræðuefnin að vera eftirfarandi : 

1. Óundirbúinn fyrirspurnatími.

2. Vátryggingastarfsemi (heildarlög, EES-reglur) 225. mál, lagafrumvarp viðskiptaráðherra. 1. umræða.

3. Greiðslur til líffæragjafa (heildarlög) 259. mál, lagafrumvarp félags- og tryggingamálaráðherra. 1. umræða.

4. Sala áfengis og tóbaks (sala léttvíns og bjórs) 37. mál, lagafrumvarp SKK. 1. umræða.

5. Olíugjald og kílómetragjald (endurgreiðsla gjalds) 40. mál, lagafrumvarp HöskÞ. 1. umræða.

6. Andstaða við eldflaugavarnakerfi í Austur-Evrópu 49. mál, þingsályktunartillaga SJS. Fyrri umræða.

7. Tóbaksvarnir (reykherbergi á veitingastöðum) 57. mál, lagafrumvarp JM. 1. umræða.

8. Stjórnarskipunarlög (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) 58. mál, lagafrumvarp KHG. 1. umræða.

9. Prófessorsembætti á sviði byggðasafna og byggðafræða 59. mál, þingsályktunartillaga ÁJ. Fyrri umræða.

10. Skipafriðunarsjóður 60. mál, þingsályktunartillaga MS. Fyrri umræða.

11. Áhrif markaðsvæðingar á samfélagsþjónustu 66. mál, þingsályktunartillaga ÖJ. Fyrri umræða.

12. Umferðarlög (forgangsakreinar) 93. mál, lagafrumvarp SVÓ. 1. umræða.

13. Fjármálafyrirtæki (kynjahlutföll í stjórnum) 111. mál, lagafrumvarp SVÓ. 1. umræða.

Þarna ætlaði fjórflokkurinn því að ræða um brennivín, kynjakvóta,  byggðasöfn, gamla báta og sprengjur í A-Evrópu.

Ekkert átti hinsvegar að fjalla um ástandið eða hvað gera átti fyrir þær þúsundir sem misst höfðu vinnuna eða voru að fara að missa vinnuna.  Enginn ætlaði sér að ræða um hvað það var sem kom okkur í núverandi ástand.  Allir lokuðu augunum.

Þú getur svosem blásið þig hása um ágæti B-listans, en staðreyndin er á endanum sú að enginn þessara flokka hafði rænu á að fjalla um það sem máli skipti.  Enginn.

Þetta var það sem fyllti mælinn hjá mér og þar sem ég tel mig vera ósköp venjulegan mann, þá tel ég að líkt eigi við hjá mörgum öðrum er þarna mættu þann 20.janúar 2009.

Sigurður Kári er kjánaprik, það vita nú svosem allir þeir sem eru með greind ofan frostmarks, en þú notar hann hér sem blóraböggul til að fela getuleysi þíns flokks á þessum tíma.  Um hvað var Framsókn annars að ræða á þessum fyrsta fundi eftir frí...gamla báta?

Björn I (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 15:54

3 identicon

Við erum nefnilega núna öll í timburmönnunum eftir valdasetu Sjálfstæðisflokksins og við þurfum engan afréttara. Við þurfum að viðurkenna vanda okkar, horfast í augu við ástandið og öll þjóðin þarf að fara í meðferð.

Eitthvað finnst mér þú misminna, Salvör, því að það var ekki eingöngu Sjálfstæðisflokkurinn heldur líka Framsóknarflokkurinn, sem skópu þetta Ísland sem fór á húrrandi fyllerí og engist núna.

Það er t.d. ráðhús Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem stendur fyrir því að taka svo mikið af fé úr grunnskólanum, að kennslustundum fækkar og þar með kennurum. Ég sé fram á að lítið verði um kennarastörf í boði í Reykjavík, þar sem skólar fá ekki greitt það sem kennarar hækka í launum frá janúar sl., 1.4% flatur niðurskurður og 7. tíminn lagður af þannig að kennarinn fær ekki borgað fyrir hann en börnin verða að vera í skólastofunni sinni (þar sem kennarinn á að vinna) án þess að vera á ábyrgð kennarans.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 16:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband