1.4.2009 | 01:32
Smart hjá Samfylkingunni að vinna áfram með þetta álfaþema
Nú þegar ég er svona innvikluð í kosningabaráttuna (ég er í 4. sæti hjá Framsóknarflokknum í Reykjavík suður) þá finnst mér gaman að sjá hvaða liði andstæðingarnir stilla upp og hvernig þeir hyggjast heygja sína baráttu. Mér sýnist ágætis fólk þarna á listum hjá Samfylkingunni, sérstaklega gaman er að sjá konur í efstu sætum sem voru með mér í Kvennalistanum á sínum tíma, Steinunn Valdís og Sigríður Ingibjörg voru bandamenn mínir í kvennalistanum í gamla daga og ennþá miklir femínistar eins og ég.
Það rifjast hins vegar upp fyrir mér að þetta var einmitt tilfinningin sem ég hafði í Reykjavík eftir síðustu kosningar, mér fannst vera ágætis lið í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Hins vegar hefur spilast óttalega grautarlega úr málum hjá þeim nema þegar þau hafa Framsókn til að styðja sig við. Það minnir mig nú á að þannig er því líka farið með þá ríkisstjórn sem núna situr.
Annars hreifst ég mikið af myndinni af rauðsól og höfuðleðrinu á Jóhönnu sem fylgdi með fréttinni. Mér fannst þetta hljóta að vera eitthvað framhald af þessu álfaþema sem Davíð Oddsson tengdi við Samfylkinguna í meinfyndinni útgönguræðu sinni um síðustu helgi. Merkilegt að hann skuli hafa náð að stela senunni frá því að þá helgi var skipt um hausa á tveimur stærstu stjórnmálahreyfingum á Íslandi, þessi umskipti mörkuðu endaloks tímabils einkavæðingar á Íslandi... en enginn tók eftir þessum Bjarna eða hvað sem hann heitir sem var kosinn í Sjálfstæðisflokknum og enginn tók eftir að landsfundur Samfylkingarinnar fjallaði um eitt eða neitt eða að þar hefði verið kosið um eitthvað - allir eru ennþá að hlæja að bröndurum og meinfýsi Davíðs Oddssonar... já á milli þess sem þeir eru að gúgla og tékka á því hvernig nýjasti seðlabankastjórinn gúglast.
En mér finnst smart hjá Samfylkingunni að ætla að takla kosningabaráttuna með svona álfaplakötum með Jóhönnu í rauðsól eins og fylgdi með þessari moggafrétt. Dáldið fyndið líka, ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að taka þessu, setti mogginn þetta plakat inn til að gera gys að forsætisráðherra og flokki hennar?
Þetta er virkilega listrænt plakat og minnir á huldar lendur og yfirskyggða staði.
Listar samþykktir í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:39 | Facebook
Athugasemdir
Æi nei Salvör - ekki þú!
Mér hefur yfirleitt þótt þú málefnaleg og góður penni.
Ekki er ég flokkspólitísk - en ágæta Salvör - ekki falla niður á þetta plan. Ekki gera svo lítið úr kynsystrum þínum - ekki gera svo lítið úr sjálfri þér.
Ég held áfram að lesa bloggið þitt - en þú sem frambjóðandi - ekki gera svona lítið úr íslenskum kjósendum, með svona skrifum.
Kveðja
Alma Jenny Guðmundsdóttir, 1.4.2009 kl. 02:09
Hæ Alma, takk fyrir að ætla að lesa áfram bloggið mitt
En ég átta mig bara alls ekki á hvernig þér fannst þetta blogg "gera svo lítið úr kynsystrum þínum" og gera lítið úr íslenskum kjósendum. Við skulum aðeins staldra við. Fyrrum forsætisráðherra flytur ræðu sem er mjög meinfýsin í garð allra sem komu honum frá völdum, ekki síst núverandi forsætisráðherra og notar kröftugt myndmál, segir að hún sé eins og álfur út úr hól og líti út eins og álfur. Útgönguræða hans var eins og innganga hans í íslensk stjórnmál, þetta var eins og spaugþáttur í útvarp Matthildur.
þjóðin hefur hlegið að ræðunni undanfarna daga, gúglað nýja seðlabankastjórann og drukkið milksjeik Össurrar og spáð í hvort Jóhanna sé eins og álfur út úr hól. Svo er framboðslisti Samfylkingar kynntur í stærsta netfjölmiðli landsins og þá fylgir með því eitthvað ótrúlega hlægilegt plakat sem getur ekki annað en myndað hugrenningatengsl við álfameinfýsnina hjá fyrrum forsætisráðherra.
Ég horfði lengi undrandi á þetta plakat af Jóhönnu undir rauðsól og spáði í hvort þetta væri virkilega frá Samfylkingunni, kannski hefði einhver auglýsingastofa unnið þetta og meiningin væri að keyra kosningabaráttuna á þessari ímynd og skemmti mér vel, mér fannst sú hugmynd ferlega fyndin, ekki síst vegna ræðu Davíðs.
En svo get ég bara ekki ímyndað mér að Samfylkingin hafi sjálf skaffað þetta plakat heldur hlýtur mogginn að hafa sett þetta sérstaklega saman til að hæðast að Jóhönnu. það er nú reyndar umhugsunarefni hvers vegna, hvers vegna er fyrsta kynningin á framboðslistum Samfylkingarinnar undir þessu afkáralega plakati? Vonandi er morgunblaðið ekki með þessu að taka afstöðu á móti einhverju ákveðnu stjórnmálaafli.
En ég get ekki gert að því að ég hlæ líka að bröndurum fyrrum forsætisráðherra og mér finnst ekkert að því að skopast á góðlátlegan hátt að andstæðingum í kosningabaráttunni og benda á hve álfalegt þetta plakat er.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 1.4.2009 kl. 08:32
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.4.2009 kl. 12:21
Ég er sammála Ölmu, þú gerir lítið úr þér með svona skrifum. Ég hef oft lesið bloggið þitt og nú varð ég mjög undrandi, sérstaklega hvað þú ert hrifin af DO og ræðunni hans þar sem hann ræðst á fleiri manns af miklum óþverraskap. Erla Ósk Ásgeirsdóttir sem er á lista hjá Sjálfgræðismönnum bloggaði um daginn og sagði að DO hefði ekki talað fyrir sinn munn í þessari ræðu og ræðan væri honum ekki til sóma.
Hannes Hólmsteinn aðalnáhirðir, tók hana á beinið fyrir að hafa haft aðra skoðun en heittrúaðir Sjallar og sumir Framsóknarmenn á ræðu DO. Það er alltaf það sama hjá þessum mönnum ef fólkið í Flokknum fer ekki eftir leikreglum DO þá fær það pólitíska aftöku og nær aldrei áfram í Flokknum. Þeirra hatursfulla og hefnigjarna ástand sér til þess að þetta fólk sem ekki fer eftir línunni þeirra er lagt í einelti og útskúfað og hótað öllu illu. Verði þér að góðu að vera í náhirðinni.
Svanhildur (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 13:13
Afsakaðu þetta Salvör. Ég klippti þarna inn mynd sem sást til að byrja með. Hún var af auglýsingu fyrir kvikmyndina ELF og mundi hafa passað sem áframhald myndarinnar af Jóhönnu.
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.4.2009 kl. 15:18
Svanhildur: það er nú dáldið fyndið að þú áteljir blogg mitt. Ertu til í að lesa það aftur og skoða vel að þó það sé ansi háðslegt (já, mér finnst þetta plakat metfyndið, ég hlæ alltaf þegar ég horfi á það ) þá er hæðni mín ekki dónaleg og raunar vandlega vafin inn í hrós um plakatið enda sagði Snorri Sturluson að oflof væri last. En það skemmtir mér ennþá meira að þú sem þykist þess umkomin að hallmæla mér fyrir góðlátlegt grín að víðáttuhallærislegu plakati skulir í næstu setningu tjá þig um aðra með því að kalla á þá "aðalnáhirðir". Það er dáldið DV leg orðanotkun, þar er aldrei minnst á DO án þess að nota orðið "náhirð". Fólk gerir lítið úr sjálfu sér með svona orðanotkun um andstæðinga.
Ég bendi á að ég hæli mínum andstæðingum með mörgum fögrum orðum, bæði sem manneskjum og fyrir listrænan smekk úr af plakatinu. Enda finnst mér þetta í alvöru flott plakat. Hallærislegt að vísu en flott samt. Það er nú eitthvað annað mitt hrós og oflof en svona náhirðartal.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 1.4.2009 kl. 21:56
Ég get ekki séð glæpinn sem Salvör framdi þarna og les út úr þessu bara hennar gömlu kímnigáfu. Og finnst óþarfi að dæma hana svona hart að ósekju og bara leiðinlegt. Og enn verra að ætla svo að nota ljót orð eins og náhirð um það. Fólk les ekki sama spaug úr öllu og það hlýtur fólk að vita.
EE elle (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 22:38
Að vísu finnst mér myndin líka drepfyndin. Og þó maður þori næstum ekki að segja það. (Og ekkert ljótt skot á nokkurn mann).
EE elle (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 22:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.