30.3.2009 | 16:04
Hvað er mest spennandi við kosningarnar 25. apríl?
Svar: Hvort ríkisstjórn verður mynduð með eða án Framsóknarmanna.
Málið er að eins og oft áður þá verður það Framsóknarflokkurinn sem verður hverfisteinninn í íslenskum stjórnmálum. Staðan er þannig núna eftir algjört hrun á Íslandi að íslenskir kjósendur hafa sömu fjóra flokkana og áður og svo geta þeir valið nokkra kverúlanta eins og Sturlu vörubílstjóra, Ástþór forsetaframbjóðanda, Sævar Síselski fulltrúa þeirra sem dvelja í 101 Reykjavík og svo Selfyssinga sem kunna ekki vel á tölvupóst.
Framboðin utan fjórflokkanna eru ekki beint gæfuleg.
En hvernig standa málin varðandi fjórflokkana? Ég get svarað því með Framsóknarflokkinn. Framsóknarflokkurinn hefur gengið í gegnum algjöra endurnýjun og margir hafa lagst á eitt við að breyta flokknum og hverfa aftur til þeirrar félagshyggju og samvinnuvinnubragða sem flokkurinn stendur fyrir. Það tekur hins vegar langan tíma að breyta stjórnmálaflokkum og þessum breytingum er ekki lokið í Framsóknarflokknum. En það er óhætt að fullyrða að Framsóknarflokkurinn hefur breyst mest fjórflokkanna og er sá stjórnmálaflokkur sem áttar sig best á ástandinu og er tilbúnastur til að vinna að lausnum. Hér er mynd af nokkrum af frambjóðendum Framsóknarflokksins við kosningarnar 25. apríl:
Allt bendir til að ekki sé hægt að mynda hér starfhæfa stjórn án þess að bæði Vinstri-grænir og Samfylking komi að þeirri stjórn. Það er margt gott fólk í þessum flokkum en það er ekkert sem bendir til þess að þessir flokkar hafi eitthvað breyst við það að allt féll á hliðina á Íslandi og ríkið rambar á barmi gjaldþrots. Landsfundur Vinstri-græna var bara já-og-amen samkoma og flokkurinn hegðar sér ennþá eins og hann sé í stjórnarandstöðu í góðæri. Einu tillögurnar eru að setja himinháa eignaskatta og tekjuskatta, eignaskatta á eignir sem eru hafa gufað upp og skila engum tekjum lengur. Samfylkingin endurnýjaði hjá sér með Jóhönnu sem er vissulega félagshyggjumanneskja og meinar ábyggilega að hún vilji standa vörð utan um heimilin og hún var ansi grimm í félagsmálaráðuneytinu í den og passaði upp á sína málaflokka.
Það var fínt í góðærinu en því miður er núna afar erfitt ástand sem krefst nýrra lausna og stjórnvöld verða að geta tekið ákvarðanir, ekki bara um hvernig eigi að eyða meiri peningum í samneyslu heldur líka um niðurskurð, kerfisbreytingar og aðgerðir til að reyna að blása lífi í lamað athafnalíf í landinu. Það er bara þannig að til að við náum að halda hér uppi velferðarsamfélagi þá þarf að vera fólk og fyrirtæki sem stendur undir greiðslum til velferðarmála. Satt að segja tók ég ekki eftir neinni breytingu á Samfylkingunni og prófkjöri þeirra og landsfundi nema það að Sigríður Ingibjörg flaug upp í öruggt þingsæti af því hún sagði sig úr bankaráði Seðlabankans eftir að hafa setið þar í nokkra mánuði. Það er sem sagt uppgjör Samfylkingarinnar við fortíðina í hnotskurn, það er sektin sem Samfylkingin finnur hjá sér fyrir að hafa blekkt þjóðina, beitt sér fyrir óheftri einkavæðingu og gengið erinda auðjöfra og þeirra sem vildu eiga alla fjölmiðla í landinu og stýra allri umræðu í landinu.
Það er ekki svo miklir valkostir eftir kosningar varðandi stjórnarmynstur. Það er sem sagt spurning um tvo staðnaða flokka Samfylkingu og Vinstri-Græna og hugsanlega fara leikar svo eftir kosningar að þessir flokkar gætu myndað starfhæfa en mjög veika stjórn. Veika vegna þess að þinglið þeirra verður samsett af sólóistum sem margir hverjir virðast alls ekki skilja það vandamál sem Ísland stendur frammi fyrir núna, kannski einmitt af því að þeir eru hluti af vandamálinu og tóku þátt í að búa það til. Svo eru þessir tveir flokkar að mörgu leyti eins og andstæðir pólar, Samfylkingin hjakkar í ESB eins og einhverju trúboði og vilja álhúða Hafnarfjörð en Vinstri-Grænir fylgjast ekkert með álverðinu í heiminum og halda að ennþá hafi einhver áhuga á að byggja álver hérna.
Það er við svona aðstæður sem það skiptir öllu máli hvort Framsóknarflokkurinn sem hefur einn flokka gengið í gegnum algjöra uppstokkun geti með yfirvegun sinni og skynsemi tryggt stöðugleika í íslenskum stjórnmálum. Íslenskur almenningur ætti að hugsa sig um að átta sig á því að ef Framsóknarflokkurinn hefði ekki gripið inn í þá væri Ólafur Magnússon kannski ennþá borgarstjóri í Reykjavík og það væri styrjaldarástand í Ráðhúsinu og ef Framsóknarflokkurinn hefði ekki gripið inn í og komið ríkisstjórn Geirs Haarde frá völdum þá væri enginn fjórflokkanna við völd á Ísland núna.
Satt að segja þá eru allar líkur á að hérna hefði verið algjört upplausnarástand og óvíst að hægt hefði verið að koma við lýðræðislegum kosningum, verið gæti að fólk upptendrað af búsáhaldabyltingu og ráðleysi og dáðleysi stjórnvalda væri búið að taka yfir opinberar byggingar og allt væri hér í glundroða og ringulreið og götubardagar í miðbænum.
Það eru þannig aðstæður í íslensku samfélagi ennþá að það er þörf á að sem flestir stjórnmálaflokkar komi að því að stýra landinu eftir kosningar og það er ennþá besti kosturinn að hér verði einhvers konar þjóðstjórn. Því miður tókst það ekki og ef það getur ekki orðið af þjóðstjórn þá er besti kosturinn fyrir íslenskan almenning að Framsókn komi að því að tryggja hér stöðugleika og skynsemi og fái hina stjórnmálaflokkana til að horfast í augu við hið gríðarlega vandamál sem við stöndum frammi fyrir og fái þá til að gera eitthvað í því. Ekki sitja auðum höndum og halda að það gufi upp af sjálfu sér.
Um síðustu helgi hélt Framsóknarflokkurinn frambjóðendaráðstefnu og með þessu bloggi eru svipmyndir frá henni. Sjá hérna fleiri myndir.
Þetta eru myndir af fólkinu sem er reiðubúið að reisa við Ísland.
Þolinmæði framsóknarmanna þrotin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:39 | Facebook
Athugasemdir
Framsókn verður ekki með í næstu ríkisstjórn, því VG og Samfylkingin munu fá yfirgnæfandi meirihluta þingmanna á nýju þingi.
Jakob Falur Kristinsson, 30.3.2009 kl. 16:21
Jakob: Ég er ekki alveg viss um að svo verði þó margt bendi til þess. Þá er kanski ágætt að vita af Framsókn. En hvað veit ég?
Kveðja
Finnur Bárðarson, 30.3.2009 kl. 16:26
Ef VG og Samfylking mynda ein ríkisstjórn þá er veruleg hætta á að hér þurfi að kjósa fljótlega aftur. Það er ávísun á stöðugleika og skynsemi að hér verði Framsókn við stjórn.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.3.2009 kl. 16:38
Hlustaði á Sigmund í morgun. Það verður að segjast eins og er að fáir koma fram af jafn mikilli yfirvegun og hógværð en hann. Hann hefur óneitanlega góð áhrif. Ég held að það væri góða staða að SJálfstæðismenn yrðu einir á bekknum
Finnur Bárðarson, 30.3.2009 kl. 17:19
Framsókn í tilvistarkreppu getur aldrei orðið stjórntæk að óbreyttu.
Framsókn þjáist af flökti og þarfnast þar af leiðandi styrkrar handar til að leiða sig endanlega í gröfina. Það yrði það besta sem gerðist fyrir íslensk stjórnmál. Nútíma Framsókn er mesta ólíkindatól íslenskrar stjórnmálasögu og ekki hið minnsta vit í að reiða sig á hana lífs né liðna þó ég beri kannske ekki mikinn kvíðboga fyrir afturgöngunni.
Þórbergur Torfason, 30.3.2009 kl. 23:07
Þórbergur: Ég ráðlegg þér að ráðast gegn Framsókn með rökum og tillögum og þinni greiningu á ástandinu en eyða ekki tíma þínum í að gera lítið úr fólki sem tekur þátt í að umbreyta stjórnmálaflokki sem stendur á gömlum merg. Það eru þannig aðstæður núna að það er best að hlusta á það stjórnmálaafl sem er rótfast og styrkt fyrir en líka það sem fylgist með tímanum og blekkir ekki fólk. Framsókn er klettur í hafinu en ekki gjallhrúga sem sprettur upp í eldgosi og fýkur burt í næstu ágjöf.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.3.2009 kl. 23:47
Því miður Salvör ertu einmitt að lýsa þessum gamla gjallhaug í nýju jakkafötunum. Þarna fer fólk fram, otað af Ólafi Ólafssyni, Finni Ingólfssyni, Valgerði Sverrisdóttur og svo mætti lengi telja. T.d. formannsföðurnum sem á ekki góðan málstað að verja frá fyrri tíð.
Ég er alls óhræddur að kveða Framsókn niður ef enginn annar treystir sér í það þarfaverk Salvör.
Þórbergur Torfason, 31.3.2009 kl. 00:03
Það lýsir þér frekar en Framsóknarflokknum að kalla andstæðinga þína í stjórnmálum gjallhaug. Það er góð vinnuregla þegar maður berst við skrímsli að passa sig að verða ekki að skrímsli sjálfur. Því mun ég leitast við að svara þér og öðrum af virðingu þó þú teljir það málstað þínum til framdráttar að velja háðugleg orð. Við bara höldum okkar striki og reynum að vinna af heilindum að velferð Íslands.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 31.3.2009 kl. 02:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.