yfir 13 milljarðar í glanshús

Eftir hrunið þá höfum við litið hvert á annað  og spurt - Hvernig gat þetta gerst, af hverju vissum við ekkert, hvernig vorum við blekkt? Við höfum bent á marga sökudólga, við höfum bent á hvernig umræðan var í þjóðfélaginu og hve lítilsvirt og fótum troðið lýðræðið er í landinu. Við höfum séð að þeir sem áttu að veita aðhald eins og fjölmiðlar og stjórnarandstaða gerðu það ekki, fjölmiðlar brugðust okkur, þeir voru enda í eigu þeirra sem köstuðu á milli sín fjöreggi íslensku þjóðarinnar. 

En hvernig er ástandið núna? Er hér upplýst þjóð sem veit hvaða skuldbindingar eru á hana lagðar og sem gagnrýnir og fylgist með hvað er að gerast? Eru hér ábyrgir fjölmiðlar sem kafa ofan í málin og segja okkur kost og löst á þeim valkostum sem við stöndum frammi fyrir og sem segja okkur satt og rétt frá og án þess að sjónarhorn þeirra sé brenglað og þeir tísti af fagurgala tl þess sem hefur valdið hverju sinni? 

Við getum svarað þessari spurningu mjög auðveldlega með því að greina hve fyrirsögnin er þegar 13. milljarðar af fé Íslendinga eru bundnir í einni byggingu, í einu musteri og minnisvarða og grafreit yfir þá tíma þar sem blekkingarhula lagðist yfir Ísland og við vorum ginnt og blekkt til að taka ekki eftir að siðblindir og gráðugir menn knúnir áfram af eiginhagsmunum og gróðahvöt tóku yfir Ísland.

Fyrirsögnin í Morgunblaðinu núna er ekki að nú sé verið að binda 13 milljarða í einu húsi, fyrirsögnin er "Allt að 600 störf vegna framkvæmda við Tónlistarhús". Það er engin rýni á það hvers vegna þessi ákvörðun var tekin eða gagnrýni á hana, núna kóar fjölmiðillinn Morgunblaðið með stjórnvöldum á sama hátt og fjölmiðlar kóuðu með útrásarvíkingum og lofsungu þá á sinni tíð.

13 milljarðar er mikið fé fyrir gjaldþrota þjóð. Hvaðan á það fé að koma? Er eitt glanshús í miðbænum virkilega besta fjárfestingin til að skapa störf á Íslandi núna? Hvers vegna eru ríki og borg ekki knúin svara og beðin að rökstyðja ítarlegar að nú eigi að halda áfram með þetta hús? 

Er í lagi að stjórnvöld skuldbindi okkur svona með einu pennastriki? Vitum við hverjir valkostirnir eru? Hvaðan eiga þessir peningar að koma? Og hvers vegna er þessi blekking að þetta hús verði bara tímabundið í eigu ríkis og borgar, hver í ósköpunum ætti að vilja kaupa þetta hús? Eða stendur til að eyða morðfjár af fé sem við eigum ekki en verðum að taka að láni í að byggja glanshús til að gefa það svo einhvern tíma í framtíðinni til einhverra aðila í nýrr einkavinavæðingu?


mbl.is Allt að 600 störf vegna framkvæmda við Tónlistarhús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnur Bárðarson

Mér skilst að það yrði margfalt dýrara fyrir okkur þegar til lengri tíma litið að viðhalda hálfbyggðu húsi í mörg ár. Hinn kosturinn er að rífa það til grunna en þá er hætta á alls kyns skaðabótakröfum. Það er spurning hvor kosturinn er betri.

kveðja

Finnur

Finnur Bárðarson, 20.2.2009 kl. 12:47

2 Smámynd: Finnur Bárðarson

bara bæta því við að mér finnst húsið forljótt

Finnur Bárðarson, 20.2.2009 kl. 12:48

3 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Salvör, það sem er svakalegast við byggingu Tónlistarhússins er hvernig ákvarðanatakan var í upphafi í ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks en þá fór ekki fram umræða um fjármögnun verkefnisins sem kostar allt að 20 milljarða fyrir utan ýmsar byggingar sem áttu að fylgja verkefninu.

Það eina sem kom fram við afgreiðslu málsins á alþingi var heimildargrein sem hljóðaði upp á að uppfylla samning Austurhafnar.  Afgreiðslan var með svipuðum hætti og þegar Grímseyjarferjan var keypt sem fékk þó heilmikla gagnrýni á sínum tíma en ákvörðunin um byggingu Tónlistarhúsins var þó  margfalt stærra mál.

Sigurjón Þórðarson, 20.2.2009 kl. 14:56

4 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Af hverju fögnum við ekki að í miðju svartnættinu að það skuli ákveðið að halda hér uppi menningarlegri reisn?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 20.2.2009 kl. 18:10

5 identicon

Sæl, Salvör.  Innilega sammála þér um þetta og teldi best að láta húsið grotna niður til ævarandi áminningar um óráðsíuna.   Þetta hús verður fokdýrt í rekstri og aldrei neitt annað en fjárhagsleg byrði almennings.   Tel menningarlega reisn ekki háða steinkumböldum en þeir sem eru á öndverðri skoðun ætti að vera opinn sá kostur að taka yfir þetta hús, reisa það og reka.

LÁ 

lydur arnason (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 03:20

6 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Varðandi Klakahöllina, þetta risastóra kreppumonument í Reykjavík þá vil ég taka fram að ég er ekki endilega á því að þetta hús hefði verið látið grotna niður. Reyndar hefði mér fundist flott statement að sprengja það í loft upp og byggja þarna á rústunum upp eitthvað sem er meira í takt við þá heimsýn og þá sjálfsmynd sem við höfum nú sem þjóð - kannski eitthvað sem væri meira í samhljómi við náttúru landsins.

 Húsi og starfsemin sem samkvæmt teikningum er fyrirhuguð í húsinu er alveg á skjön við þann veruleika sem ég skynja. Þetta eru draumórar "Ísland sem fjármálamiðstöð heimsins" og "við þurfum flott hús fyrir flotta fimm stjörnu elítutúrista sem koma hingað". 

Ég vil ekki að miðbær Reykjavíkur sé yfirtekinn af einhvers konar heimstúrisma og uppbygging þar sé miðað við að hér sé verið að reisa risastóra túristamiðstöð. Ég held að þá séum við búin að missa sjónar á því um hvar borgir snúast og líka hvað það er sem er aðdráttarafl Íslands og Reykjavíkur bæði fyrir okkur sjálf og líka fyrir þá erlendu gesti sem koma að heimsækja okkur.

Sennilega dragast flestir af Íslandi vegna þeirrar náttúru sem hér er og að Reykjavík vegna náttúru og umhverfis og menningar.  Fyrir marga túrista eru bárujárnsklædd hús í Grótaþorpinu mun athyglisverðari en klakahallir og kreppumonument.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 22.2.2009 kl. 11:53

7 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Hins vegar getur verið að eftir yfirvegun og að hafa fengið að hlusta á tillögur annarra þá hefði ég komist á þá skoðun að best væri að halda áfram með húsið en taka það undir aðra starfsemi en upphaflvega var fyrirhuguð.

Mér finnst það allra mikilvægasta að þarna á þessum ægifagra stað í miðju hjarta Reykjavíkur þá verði tryggt að verði starfsemi sem laðar að marga Reykvíkinga, starfsemi sem styður við menningu okkar en ekki starfsemi sem brýtur hana niður.

Alþjóðlegur elítutúrismi og verslunarhús til að selja alþjóðlegt glingur er ekki eitthvað sem styður við menningu okkar. Allra, allra versta eru hugmyndir um einhvers konar alþjóðleg skemmtihús eða spilavíti. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 22.2.2009 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband