7.1.2009 | 20:58
Andlitslaus andspyrna og nornaveiðar
Ný fatatíska er að ryðja sér til rúms á Íslandi. Hún sækir efnivið í erlenda tísku, minnir mig á Zorró bækurnar og Skugga teiknimyndasögurnar sem ég las í bernsku en þar var hetjan alltaf í dulargervi. Vonandi fær þessi nýja tíska fljótlega einhver einkenni Íslands og má benda mótmælendum á að koma sér upp zapatista vetrarhúfum, þær henta miklu betur fyrir íslenskar aðstæður næstu mánuði en þessir skjóllitlu klútar. Ég skynjaði trendið fyrir ári síðan og póstaði einmitt þá í janúar leiðbeiningar um hvernig átti að gera svona húfur, sjá hérna Föndur dagsins : Zapatista vetrarhúfur
En það er áhugavert að skoða hina andlitslausu andspyrnu og hvern hún teiknar upp og persónugerir nú sem andstæðinga og hvaða persónur hún tengir hrun íslenska bankakerfisins.
Er það Bjarni bankamaður eða einhver af þeim íslensku auðmönnum sem mokuðu fé til sín og skildu okkur eftir í forinni með skuldirnar og áhyggjurnar og baslið? Nei. Bjarni mætti keikur til leiks á brunaútsölurnar á Íslandi og fékk inni í kastljósi og fjölmiðlum með kombakk.
Eru það hinir auðugu eigendur íslenskra fjölmiðla og einkaþotueigendur og dílerar Íslands sem ráðist var á og persónugerðir fyrir hrunið? Eru það Björgúlfsfeðgar, er það Jón Ásgeir sem hinir andlitslausu ráðast á? Eða einhver af þeim tuttugu eða þrjátíu sem settu Ísland á hausinn?
Eru það mennirnir sem ennþá eiga nánast alla íslensku fjölmiðla, mennirnir sem ennþá halda í marga valdaspotta hérna og eru í þeim fjárhagsvandræðum mestum að þeir reyna að selja einkaþoturnar og stunda vöruskipti með hlutafé og halda sig til hlés þangað til góður tími kemur til að kaupa upp meira af Íslandi.
Hver á allar fasteignir miðsvæðis í Reykjavík? Hafa hinir andlitslausu áhuga á því að rekja slóðina frá eignarhaldsfyrirtæki yfir í eignarhaldfyrirtæki yfir í ennþá eitt eignarhaldsfyrirtæki .... eða tapa þeir þráðinum í kerfi gerviviðskipta sem voru einmitt gerð í því augnamiði að láta okkur tapa þræðinum?
Voru alþingismennirnir Pétur Blöndal eða Illugi Gunnarsson sem urðu skotspænir hinna andlitslausu? Ærin eru tilefnin ef saga þessara manna er skoðuð.
Er ef til vill myndrænna og auðskildara að setja upp klút og fara um miðbæinn og staðnæmast við banka þar frekar en að rekja fjármálaslóðina þar sem aðrir hafa líka dulbúist en ekki með dulum fyrir andlitið heldur með þeim klækjum sem nútíma kasínókapitalismi og bankaleynd gerir mögulega.
Í fréttinni stendur:
"Fjöldi fólks með svartar grímur krafðist breytinga í íslensku þjóðfélagi, afsagnar yfirmanna bankanna sem setið hefðu í skjóli gamla valdakerfisins og ábyrgðar ráðamanna."
Svo kom fram að mótmælendur hefðu á táknrænan hátt borið Elínu Sigfúsdóttur bankastjóra út. Er hún ábyrg fyrir hruni íslenska bankakerfisins, er hún persónugervingur þess sem andspyrnan á Íslandi á að beinast að?
Það hentar ágætlega útrásarvíkingum, stjórnmálamönnum og öðrum þeim sem núna vilja ekki læti í kringum sig og sína fjármálagerninga að það mæði á Elínu Sigfúsdóttur bankastjóra. En þeir sem hafa fylgst með ferli Elínar vita hve ómaklegar þessar árásir eru.
Vissulega var hún einn af stjórnendum í Landsbankanum fyrir hrunið en hún hafði starfað í Landsbankanum frá árinu 2003 og þar áður í meira en aldarfjórðung í íslenskum bönkum. Vissulega hafði hún ofurlaun miðað við okkur hin. Það má vel gagnrýna hver launakjör yfirmanna í bankakerfinu voru fyrir hrunið.
En mér vitandi er ferill Elínar Sigfúsdóttur í bankakerfinu flekklaus. Raunar þekki ég hana vel því við urðum vinkonur strax í háskóla og unnum saman í mörg ár á sumrin meðfram háskólanámi í bókhaldi. Allir sem hana þekkja hafa sömu sögu að segja, Elín er úrvalsmanneskja sem allir treysta og öllum er hlýtt til.
Elín komst ekki í þá stjórnunarstöðu sem hún gegndi í bankakerfinu með plotti og vinskap við spillta pólítíkusa. Hún vann sig upp og það tók langan, langan tíma. Elín var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans þegar hrunið varð. Hún hafði áður starfað í Búnaðarbankanum gamla í tuttugu og fimm ár, byrjaði í hagdeild og vann sig upp en flutti sig svo yfir í Landsbankann þegar Kaupþing tók yfir Búnaðarbankann.
Ef ég man rétt þá var Elín ein fyrsta konan til að sitja í bankaráði íslensku bankanna og það voru ekki auðjöfrarnir og fjárhættuspilararnir sem völdu hana til þess starfa. Það voru samstarfsmenn hennar, hún var fulltrúi grasrótarinnar, fulltrúi starfsmanna bankans í bankaráðinu og hún hefur alltaf notið trausts samstarfsmanna sinna.
Það eru ekki margar konur sem hafa náð langt í íslensku bankakerfi og það er áhugavert að sjá að skyndilega við algjört hrun íslenska bankakerfisins eru konur kallaðar til að stýra tveimur af þremur bönkum. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið nauðsynlegt rétt eftir hrunið að þar kæmi til fólk sem hefði einhverja þekkingu á þessum stofnunum m.a. vegna þess uppgjörs gamla og nýja tímans sem óhjákvæmilega þarf að fara fram.
Það hafa komið upp á yfirborðið samningagjörðir m.a. afskrifun skulda upp á hundruðir milljóna við lykilstjórnendur í bönkum. Þessir samningar um niðurfellingu skulda og að láta einkafyrirtæki yfirtaka skuldina eru mjög vafasamir og hneyksli að fólk sem hefur þegið slíka umbun stýri nýju bönkunum. Þessir samningar voru gerðir hjá Glitni við lykilstjórnendur þess banka. En mér vitanlega tengist Elín Sigfúsdóttir ekkert slíkum óheiðarlegum fjármálagörningum og raunar hef ég ekki heyrt af niðurfellingu skulda vegna hlutabréfakaupa bankastarfsmanna í Landsbankanum.
Ég held að það sé allt í lagi að beina gagnrýni margra þéttingsfast í ákveðna átt, það virkar vel að fókusera á ákveðið takmark. En það er hættulegt ef andlitslausir andspyrnumenn gerast ginningarfífl þeirra sem gjarnan vilja láta athyglina beinast frá sér yfir á þá sem eru núna í hreinsunarstörfum eftir bankahrunið.
Elín borin út úr bankanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:25 | Facebook
Athugasemdir
Vinkona Elínar! Ert þú hlutlaus í dómum? Konunnar sem ekki vildi upplýsa um laun sín. Konunnar sem var náinn samstarfsmaður bankastjórans! Konunnar sem þú segir hafa notið trausts samstarfsmanna - sem alls ekki njóta allir trausts úti í samfélaginu. Hverjir eru helst andlitslausir í þjóðfélaginu? Það eru ekki endilega þeir sem bera klúta fyrir vitum heldur hinir sem þagað er um eða halda sér til hlés. Hvar er hinn sítalandi Vilhjálmur Egilsson eða Hannes sem ég hef tekið eftir að hafa horfið síðustu vikur. Það er full ástæða til að mótmæla veru bæði Birnu og Elínar sem báðar fluttust beint yfir (glæpa-) strikið úr gamla í nýja bankann! Það mætti alveg taka fleiri svona t.d. Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóra, hvers hlutabréfaviðskipti hafa enn ekki verið skoðuð af Fjármálaeftirlitinu (ef svo væri hefði hann orðið að víkja úr starfi mundi ég ætla!).
Ragnar
Ragnar Eiríksson, 7.1.2009 kl. 21:32
Það er gott að eiga góða vinkonu eins og við eigum vonandi flestar. Það kemur þessu máli bara ekkert við. Elín og Birna eru of tengdar bönkunum sem fóru í þrot til að sátt geti ríkt um setu þeirra í Nýju bönkunum.
Sigrún Unnsteinsdóttir (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 21:51
Nei.
Auðvitað er ég ekki hlutlaus.
Þess vegna tók ég skýrt fram að Elín er vinkona mín.
Tek líka fram að umræddur Hannes er bróðir minn.
Ísland er lítið land
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 7.1.2009 kl. 21:58
Elín er einn af höfundum IceSave. Hún setti okkur á hausinn með hinum.
Salvör, við getum bara gert eina stóra aðgerð í einu. Hvernig væri að þú kæmir með góðar hugmyndir að mótmælum sem beinast gegn útrásarvíkingunum og settir þær inn á bloggið þitt?
Nonni, 7.1.2009 kl. 22:56
Salvör,
Ég vissi að Hannes var bróðir þinn - en það er ekki þér að kenna ef svo má
segja, allir fara sínar leiðir í lífinu. Má segja að Hannes hafi valið
vonda leið fyrir okkur, en það gera nú Húnvetningar oft! Og vinir eru
alltaf af hinu góða en "vinur er sá er til vamms segir"! Þú bauðst
eiginlega upp á andmæli með skrifum þínum. Hitt er svo alveg rétt að það
er sorglegt að vera að "sparka" í smápeð þegar menn eins og Ólafur Ólafsson
ganga lausir og krefjast milljarða - 188.500.000.000 kr og ég get alla vega
ekki einusinni sparkað í hann! Ljóta óværan þessi maður!
Ragnar
Ragnar Eiríksson, 7.1.2009 kl. 23:59
Salvör - ég get mjög vel skilið að þér hugnist ekki það fólk sem ákveður að hylja andlit sín, eftir fúkyrði einhverrar ungrar stúlku í þinn garð á gamlársdag, auk ljótra skrifa.
Þetta grímuklædda fólk, þurfti m.a. að taka niður grímur sínar á gamlársdag, á meðan var verið að hlú að þeim, af slysadeild LSH eftir að hafa fengið piparúða í augun,
Þar kom að læknir sem svívirti þá sem þar var verið að hlú að, og sýndi af sér framkomu sem gersamlega var ólíðandi.
Hvernig á því og öðru fólki eftir að líða, ef viðkomandi svæfingarlæknir tekur við þeim á sjúkrahúsi, þekkir andlit þeirra, þar sem hann lagði sig fram um að koma sem næst þeim og sjúkraliðum.
Elín Sigfúsdóttir er eflaust góð vinkona. Það veit ég sjálf að Hreiðar Már Sigurðsson var afskaplega góður drengur. Það breytir því ekki að hann, ásamt t.a.m. Elínu Sigfúsdóttur (Í öðrum banka þó), hafa ryksugað upp íslenskar eignir og fjármagn og mun, mun meira til.
Elín er að sjálfsögðu ein af stjórnendum Landsbankans gamla, sem ber ábyrgð á Ice-save - og glæpurinn ekki minni að þegja um það sem fram fer í kringum mann, stefna heilli þjóð og næstu kynslóðum í þrot.
Í þessu máli finnst mér að þú ættir að leggja á vogarskálarnar hvorir séu meiri ,,glæpamenn og nornir" - þeir stjórnendur bankanna allir (gömlu bankanna og NLB og Glitni í dag), eða það unga fólk sem mótmælir þeim skertu möguleikum sem verið er að bjóða þeim og börnum þeirra upp á.
Alma Jenny Guðmundsdóttir, 8.1.2009 kl. 00:39
Vel skrifuð grein Salvör. Ekki langt að bíða uns byltingin fer að éta börnin sín. Það gera allar "byltingar" á endanum. Lestu blogg seyðkonunnar og þá sérðu hvað ég meina.
Svanur Gísli Þorkelsson, 8.1.2009 kl. 03:03
Fólk er leiðitamt. Það áhersluatriði þarf að slá aftur og aftur. Ég er ekki í nokkurri aðstöðu að meta störf Elínar en gott er að lesa hvernig þú tekur upp hanskann fyrir hana, eins og fyrir Hannes bróður þinn um árið. Ég var ekki sammála þér á þeim tíma sem þú skrifaðir. En eftir að hafa lesið 200 bls. í bókinni "Free Culture" e. Lawrence Lessig, hallast ég að því að lögin á hvers grundvelli Hannes var dæmdur, hafi verið verr samin en til stendur.
Mér finnst þú slá streng í færslu þinni sem hljómar sannverðugt, Elín er ekki og getur ekki verið aðalábygðarmaður þess hvernig komið er. Miðað við það hvernig ein hönd þvær aðra hér í þessu samfélagi og einn bendir á annan, þá er ekki erfitt að sjá hvernig mótmælendur, með eða án grímu, geta tvístrast með mótmælum sínum.
Eins gott að til séu vönduð félög eins og Borgarafundur.org, Raddirfolksins.org og Neyðarstjórn kvenna, til að gefa okkur stefnu, sem stjórnvöld hafa hingað til meinað okkur (annað en Pollýönnu).
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 07:31
vá hvað þið eldra fólk er fullt af fordómum og hvar er stuðningur við okkur sem eigum erfa DRASLIÐ eftir ykkra klúður.
Uffff ekki býð ég í það að þið eigið börn eða afkomendur.
Bara Steini, 8.1.2009 kl. 11:48
Það er gott að vera ungur og reiður í dag "bara Steini". En hvað erfðum við? Kynslóðin á undan ykkur? Við fengum verðtrygginguna og erum að borga fyrir þá sem fengu "eignir sínar og námslán" frítt - þ.e. skuldirnar eyddust upp í verðbólgu. Þessvegna eru til skuldlausar eignir í dag - eignir kynslóðarinnar á undan okkar. En við - við fáum endalausar verðbætur fyrir utan að súpa seyðið af fyrri kynslóð.
Og okkar kynslóð á börn líka- og börnin eruð þið meðal annars. Hvernig heldur þú að það sé að vera foreldri sem ekki getur veitt börnum sínum fjárhagslegan stuðning inní framtíðina. Og vera nú þegar búin að eyða hálfri ævinni í vinnu? Allt tapað. Við höfum ekki eins mikinn tíma til að vinna okkur út úr þessu og þið.
Blessað unga fólkið. Hvernig væri að hætta að væla og gera eitthvað uppbyggilegt sem sýnir það að þið séuð verðug til að stýra þessari þjóð í framtíðinni. Þið hafið allt lífið framundan - hvernig væri að byrja að nota það.
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 8.1.2009 kl. 14:26
Lísa. Satt er þetta hja þér og ekki mundi eg bjoða i að þurfa að horfa upp a börn min þjast.
ÞESSVEGNA ERUM VIÐ AÐ GERA SEM VIÐ GETUM.
Bara Steini, 8.1.2009 kl. 15:13
Var nú ekki að tala um að láta þau "þjást" - væri bara ágætt ef maður gæti stutt þau meira fjárhagslega. Annars hefur margur séð um sig sjálfur án stuðnings án nokkurra þjáninga................
Hvað eruð "þið" annars að gera? Eruð "þið" með lausnina?
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 8.1.2009 kl. 22:01
Við eða afsakið eg er að allavega reyna fjarlæga vandamálið....
Eg er ekki hæfur frekar en þau sem sitja við stjorn að koma einhverju nyju af stað
Bara Steini, 8.1.2009 kl. 22:51
Bara Steini: Vandamálið er ekki þar sem er auðveldast að vera með sprell, það er ekki í bankabyggingu sem eru niðri í bæ nálægt öllum kaffistofum bæjarins. Og það er ekki skynsamlegt að persónugera það í þeim sem eru í hreinsunarstörfum eftir hrunið, þó þeir hafi verið valdir til þeirra hreinsunarstarfa einmitt vegna þess að þeir gjörþekktu starfsemina fyrir hrunið.
Vandamálið um hvernig uppbyggingu er hagað á Íslandi felst í því að uppræta valdið eins og það er núna - í fjölmiðlum sem eru í eigu þeirra sem steyptu okkur í glötun - í stjórnsýslu sem er stýrt af aðilum sem voru bæði einráðir og þröngsýnir og sáu ekki fyrir í hvaða átt heimurinn myndi fara - í siðspilltu samfélagi þar sem nautnir og fíkn og græðgi og hamslaus neysla var lofsungin og búin til skurðgoð úr þeim sem mest sukkuðu, mestu eyddu og mestu fjárglæfranna stunduðu - í samfélagi þar sem árum saman var gert grín af okkur sem höfum reynt að opna augu fólks fyrir augljósum mannréttindabrotum og mannlegri niðurlægingu, sérstaklega hvað varðar kynbundið ofbeldi. Kynbundið ofbeldi er samt aðeins ein of mörgum birtingarmyndum þessa samfélags - samfélags sem lét réttlæti mælast í peningum, samfélag þar sem fólki var talið trú um að ef einhver peningaleg viðskipti væru þá væri réttlæti fullnægt.
Ef til vill kristallast þetta samfélag hvað best í hvernig brandarasmekk fjármálaráðherrann okkar hann Árni Matthíasen hefur, sjá hérna
Dvergakast og femínisk fyndni - salvor.blog.is
Sjá líka hérna:
http://www.flickr.com/photos/salvor/7215898/sizes/o/
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.1.2009 kl. 23:31
Vá. Takk fyrir Svarið Salvör. :)
En eg veit bara hreinlega ekki hvað maður á að gera.
Eyjan er að sökkva i fen atvinnuleysis og allsleysis og flest allir hunsa þær raddir sem eru að rísa og reyna eitthvað til að halda sér á lífi.
Ég get ekki setið lengur meðan þetta er svona.
Bara Steini, 8.1.2009 kl. 23:53
Sæll Steini. Veistu, ég held að við vitum flest hvernig þér líður og við séum alveg sama sinnis. Það er réttur almennings að mótmæla og þegar vel er að þeim staðið geta þau vissulega haft áhrif. Persónulega hef ég þá skoðun að betra sé að einbeita sér að ákveðnu baráttuefni, líkt og gert var þegar verkalýðurinn var með sínar kröfur hér í den (og fékk í gegn fyrir rest). Hafa skýra kröfu og biðja um lausnir. En það er bara mín skoðun.
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 9.1.2009 kl. 13:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.