Skríllinn mun eiga síðasta orðið

Ég varð fyrir miklum hótunum um ofbeldi frá tveimur mótmælendum á gamlársdag, hótunum sem  voru aggressívar og ruddalegar. Ég ætlaði að fara heim eftir að hafa farið á kaffihús en svo brá við að bíllinn minn sem ég hafði skilið eftir í Lækjargötu var lokaður inni því þar var urmull af lögreglubílum sem króuðu af götuna. Ég ákvað bara að doka við þangað til ég kæmist á stað og geng um götuna þar sem einhver mannsöfnuður var og fullt af löggum. Ég ákvað að mynda þetta viðfangsefni eins og annað þennan dag enda minn aktívismi fólginn í að skrásetja og sýna viðburði í gegnum mitt sjónarhorn, sjónarhorn sem oft er mjög frábrugðið því sem fjölmiðlar segja frá.  Ég hef reynt að segja frá því sem er að gerast í íslensku samfélagi í gegnum bloggsíðu mína eins og það kemur mér fyrir sjónir.  

En þegar ég kem að fólkinu og tek mynd af aðstæðum m.a. svartklæddri stúlku sem hafði hulið andlit sitt og var í einhvers konar dulargervi þá réðst hún að mér með óbótaskömmum, heimtaði að ég tæki ekki mynd þar sem hún kæmi inn á.

Þetta voru nú nokkuð súrrelískar aðstæður. Fyrir framan okkur var rimlahlið og tugur af óeirðalögreglu í viðbragðstöðu fyrir árás og fyrir aftan okkur á Lækjargötu voru nokkrir tugir af lögreglubílum og krökkt af löggum og hún var í dulargervi og í kringum okkur var eitthvað af fólki af götunni sem hafði safnast þar saman.  Hún öskraði líka hvort ég væri ekki systir Hannesar og ég náttúrulega játaði því eins og ég geri alltaf. Henni virtist eitthvað uppsigað við mig út af bróður mínum og því sem hún kallaði "þessa viðbjóðslegu vefsíðu þína" (átti hún kannski við þetta blogg?).  Svo kom önnur stúlka sem var miklu grófari, hún sagðist myndu ráðast á mig og taka af mér myndavélina ef ég hætti ekki að mynda.  Ég var nú ekki hrædd við það og tjáði viðkomandi að ég væri ekkert hrædd en minnug þess að sá vægir sem vitið hefur meira þá sá ég ekki að þetta væru heppilegar aðstæður til að enda árið í að lenda í slagsmálum þarna á milli óeirðalögreglu innan við rimlahlið og óeirðalögreglu á Lækjargötu, ég held satt að segja að það hafi ekki verið sniðugt móv hjá mér á þessum stað og stund að lenda í götubardaga. 

Þó ég hefði vægt þarna fyrir rugludöllunum þá héldu þær áfram að kasta í mig hnjóðsyrðum, ég áttaði mig ekki alveg á til hvers. Kannski voru þær að fara á taugum í þessum aðstæðum og ætluðu að gera eitthvað sem ég veit ekki hvað er , kannski voru þær bara búnar að taka borgaralega óhlýðni 101 og vissu ekki hvernig átti að hegða sér, kannski voru þær meðvitað að búa til hasar og reyna að skapa glundroða og æsa upp fólk og láta handtaka sig og vissu að það var betra að ákæran væri  að þær hefðu ráðist á mig heldur en lögreglumann. Kannski héldu þær að ég væri einhver afleggjari af bróður mínum og hugsaði eins og hann. Kannski finnst þeim bloggið mitt ömurlegt. Hvað veit ég?

Þó það stuði mig að vera sjálf þolandi svona lítilsvirðandi og truntulegrar hegðunar þá finnst mér þetta í aðra röndina fyndið, þetta var eiginlega svo absúrd hjá þessum gellum að vera að veitast að fólki og hóta þegar þær voru  sjálfar gjörsamlega innikróaðar og áður en ég kom þarna að þá virtust þær hafa verið að rífast við aðra vegfarendur. En sókn er stundum besta vörnin. 

Hér fyrir neðan er  mynd  sem ég náði af þessum herskáu stúlkum áður en þær urðu svo aggressívar og leiðinlegar og hótuðu að rífa mér myndavélina. Hér er líka myndin er af lófa annarrar sem hún setti fyrir myndavélina mína til að hindra mig í myndatöku.  Svo er hérna fyrir neðan líka mynd til að minna mig á hvers vegna ég birti á þessu bloggi myndir af þeim aktívisma og þeim mótmælum sem eru í gangi á Íslandi. Það er vegna þess að þeir fjölmiðlar sem bergmála valdið þ.e. dagblöð, ríkisfjölmiðlar og einkasjónvarpsstöðvar kölluðu lengi vel fólk eins og sést á myndinni hér fyrir neðan skríl. Ef þetta er skríll þá er ég líka skríll.

Skríllinn mun eiga síðasta orðið.

 IMG_3078 IMG_3079

--------------------------IMG_1934

IMG_2062
mbl.is Mótmælendum ógnað á gamlársdag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Ég vil þakka þér fyrir söfnun þína á ljósmyndaheimildum. Þar sem ég hef verið erlendis í haust hef ég þurft að reiða mig á fjölmiðla og verð að segja eins og er að einkaframtak þitt hefur fyllt upp í margar eyður.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 2.1.2009 kl. 21:23

2 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Kannski er Ólafur Klemensson sem situr í stjórn neytendasamtakanna og reiðir kreppta hnefanna framan í mótmælendur farinn að taka skyldum sínum í neytendasamtökunum alvarlega

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 2.1.2009 kl. 21:27

3 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Sá "aktivismi" sem nú er í gangi er bara venjulegt ofbeldi, bara eins og hvert annað ofbeldi. Svokallaðir "aktivistar" sem hafa sig í frammi langar bara til að berja einhvern, það er allt og sumt.

Á böllum í gamla daga var alltaf einhver sem fann fyrir ómótstæðilegri  þörf að ganga í skrokk á einhverjum. Hann manaði bara næsta mann og varð sér þannig út um einhvern til að berja.

Ég var á verbúð í Vestmanneyjum og varð oft vitni að allskonar "mótmælum". Flestir voru fínir en það var einn og einn "mótmælandi" sem leitaði uppi leiðindi eða bjó þau til ef þau fundust ekki.

Ég veit um dæmi þess að menn fóru heim og skiptu um föt til að geta tekið þátt í eftirballinu enda spariföt dýr.

Í den voru uppi svokallaðir slagsmálahundar, náungar sem voru góðir í því að vera vondir.

Það  þykir hins vegar ekki par fínt nú á dögum að lemja sér til skemmtunar. Þess vegna þarf að finna góðan málsstað til að lúskra á fólki.

Benedikt Halldórsson, 2.1.2009 kl. 21:35

4 identicon

Mér finnst áhugavert að þessi Eva sér ekkert að því að eyðileggja tækjabúnað fyrir milljónir króna, ráðast á starfsmenn óháðs fjölmiðils og grýta lögreglumenn, en þegar RÚÐA hjá henni er brotin, þá er gamanið búið!

Guðmundur (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 21:44

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Benedikt: Ef þú vilt endilega sjá ekkert nema það sem þú hefur ákveðið að sjá þá get ég ekki breytt því. En sá aktívismi sem ég hef tekið þátt í er ekki ofbeldi, það var einstaklega falleg og táknræn og listræn athöfn að safnast saman við stjórnarráðið á gamlársdag og tendra neyðarblys og hrópa á hjálp.

Svona svipað samsett óp og í frægu málverki






Sjá nánar Neyðarblys við stjórnarráðið

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 2.1.2009 kl. 21:56

6 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Ég er með "aktivisma" innan gæsalappa. Ef aðgerð á að vera til þess fallinn að breyta einhverju er algert lágmark að skipuleggjendurnir sjái til þess að hún fari ekki úr böndunum og kenni ekki lögreglunni um þegar illa fer. Um leið og ofbeldi er beitt hefur þeim mistekist sem stóðu fyrir aðgerðinni, jafnvel þótt um lítinn minnihlutahóp er að ræða.

Það vantar vel skipulagt óp.

Benedikt Halldórsson, 2.1.2009 kl. 22:58

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Takk fyrir fræðandi pistla og allar myndirnar. Ég er alveg sammála því að við fáumum ekki nema brot af þessum fréttum nema fyrir tilverknað fólks eins og þín. 

Sigurður Þórðarson, 3.1.2009 kl. 00:09

8 identicon

Sæl Salvör og bestu þakkir fyrir bloggið þitt og skrásetningu atburða.

Mátti til með að kasta á þig kveðju og launa þér hlý orð til mín í sambærilegum aðstæðum. Að hafa ekkert verra til saka unnið en að vera tengdur sínum nánustu verður tæpast talið til lasta. Hitt er annað og með öllu óþolandi að fá ekki að njóta þess að vera einstaklingur þrátt fyrir tengsl.

Baráttukveðjur

Anna

Anna Sigrún Baldursdóttir (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 01:20

9 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Anna Sigrún: Takk fyrir kveðjuna. Það er alltaf óþægilegt ef fólk ruglar skoðunum mínum saman við það sem bróðir minn stendur fyrir en það er reyndar augljóst merki um að fólk les ekkert af því sem ég skrifa:-)

Ég held að við verðum að sætta okkur við að einn hluti af okkur er einmitt uppruni okkar þ.e. fjölskylda og uppeldi og vissulega hafa syskini okkar áhrif á líf okkar. Ég er afar lítið höll undir skoðanir og gerðir bróðir míns en ég mun nú samt alltaf taka málstað hans ef  hann verður fyrir ósanngjörnum árásum sb. þetta skaðabótamál í Bretlandi.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 3.1.2009 kl. 21:13

10 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Salvör: Kannski á maður að byrja á því að tala um það sem vel er gert: Bloggið þitt er mjög gott og fræðandi.

Ég tel að bróðir þinn hafi verið lagður í einelti í mörg ár af ákveðnum aðilum.

Benedikt Halldórsson, 4.1.2009 kl. 20:56

11 identicon

Mér þykir leitt ef þér hefur verið sýndur dónaskapur. Ég veit auðvitað ekki hvað liggur þarna að baki en ég er þó nokkuð viss um að það hefur ekki verið löngun þessara stúlkna til að láta handtaka sig, það hefði verið auðvelt að fá þá ósk uppfyllta með öðru móti.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 01:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband