18.12.2008 | 23:18
Vinnukonur kerfisins og blaðafulltrúi Geirs Haarde
Íslensk samfélag hefur farið á hliðina og íslensk efnahagslíf molnað niður í einhvers konar duft. Það er hrikalegt ástand og sömu stjórnvöld og sáu ekki fyrir þennan vanda eða leyndu okkur stöðunni og reyndu ekkert til að koma í veg fyrir að allt sigldi í strand eru núna alveg ófær um að koma okkur á flot aftur. Þau eru meira ófær um að verja þjóðarskútuna fyrir ræningjum sem þyrpast á strandstað.
Hvernig gat þetta gerst? Hvar voru allir þeir Íslendingar sem höfðu púlsinn á efnahagslífinu, höfðu atvinnu sína af fjármálaeftirliti eða af því að stýra almenningshlutafélögum eða sitja í stjórn þeirra. Þessir menn verða nú að sitja fyrir svörum og segja okkur hvers vegna þeir tóku þátt í að hilma yfir hlutum sem voru ósiðlegir og hættulegt glæfraspil.
Það voru næstum eingöngu karlmenn sem voru leikendur á þessu sviði. Valdaleysi og áhrifaleysi íslenskra kvenna í að ráða yfir efnahagsmálum á Íslandi undanfarin ár hefur verið nánast algjört. Það hafa fáar konur fengið að komast að þeim kvörnum sem möluðu útrásarvíkingunum og fjárglæframönnunum það gull sem þeir hafa nú komið í lóg eða falið erlendis.Það voru þó einstaka konur sem voru í stjórn stóru almenningshlutafélaganna. Þeirra á meðal voru Guðfinna S. Bjarnadóttir sem nú er alþingismaður sem sat í stjórn Baugs árin 1998 - 2003 og í stjórn FL group , Inga Jóna Þórðardóttir eiginkona forsætisráðherra sem sat í stjórn FL Group og Ragnhildur Geirsdóttir sem var um tíma forstjóri Fl Group.
Ragnhildur hætti og fékk 130 milljónir í starfslokasamning. Hún hætti vegna þess að hún var ósátt við vinnubrögð við kaup á Sterling en ég varð ekki var við að hún ljóstraði upp um hvaða vinnubrögð voru í félaginu, mér virðist þegar ég les núna fréttir um hvað raunverulega gerðist að um hafi verið að ræða ósiðlega og óheiðarlega svikamyllu og sviksamleg viðskipti í almenningshlutafélagi.Fyrir aðeins örfáum vikum síðan gekk forstjóri FL Group, Ragnhildur Geirsdóttir, á dyr með aðeins dags fyrirvara, þar sem hún vildi ekki taka þátt í þessum fjármunahreyfingum Hannesar án heimildar stjórnar félagsins. Hún vildi einnig ekki taka þátt í kaupunum á Sterling þar sem hún taldi kaupverðið uppá 1.5 milljarð DKK algerlega óraunhæft." (Travel People Newsletter nov 2005)
Guðfinna Helgadóttir er trú Sjálfstæðisflokknum en það er erfitt að leysa eftirfarandi orð hennar núna og trúa á að hún sé forsjál og skynsöm í fjármálum og að hún vinni fyrir þjóðarhag Íslandinga. Guðfinna sagði fyrir síðustu kosningar:
"Traust efnahagsstjórn er stærsta velferðarmálið. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins skilja vel samspil efnahagslífs, verðmætasköpunar og velferðar.Flokknum er best treystandi til þess að leggja grunn að velferð fjölskyldunnar og samfélagsins í heild og boðar ábyrga velferðarstefnu á traustum grunni.Flestir Íslendingar vilja trausta stjórn á komandi árum undir forystu Geirs H. Haarde. Um 65% landsmanna vilja sjá Sjálfstæðisflokkinn áfram í stjórn og 54% landsmanna vilja að Geir H. Haarde verði áfram forsætisráðherra.Sjálfstæðisstefnan stuðlar að kraftmiklu og umburðalyndu samfélagi. Við sjálfstæðismenn viljum halda áfram í umboði þjóðarinnar að gera afburðasamfélag enn betra."(X-D)
Af hverju segir Guðfinna þetta? Hún sem er vel menntuð og hún sem var rektor í viðskiptaháskóla og sem sat í stjórn Baugs og Fl Group. Ef einhver hefði átt að aðvara okkur þá er það Guðfinna. Hún hlýtur að hafa séð öll hættumerkin, hún hlýtur að hafa áttað sig á hvað peningabólukerfi fjárglæframannanna var mikið glötunarleið. En nú er Guðfinna á Alþingi og árið sem hún fór inn á þing var hún tekjuhæsti þingmaðurinn, hún landaði háum starfslokasamningi frá viðskiptaháskólanum sem stóð í að mennta fólkið til að vinna í fjármálafyrirtækjunum. Hún hafði það ár helmingi hærri laun en forseti Íslands sjá þessa grein: Vísir - Guðfinna fékk tugmilljónir við starfslok hjá HR
Inga Jóna Þórðardóttir er líka vel menntuð. Hún er viðskiptafræðingur, hún hefur verið þátttakendi í stjórnmálastarfi á Íslandi í áratugi og hún sat í Fl Group. Ég hef aldrei efast um heiðarleika Ingu Jóna og ber fyllsta traust til hennar en hún hefði átt að aðvara okkur og hafa hærra um hvað henni fannst að. Ef hún og aðrir hugsandi og heiðarlegir menn á Íslandi hefðu gert það og gætt betur hagsmuna almennings og minna þess að hilma yfir með flokksbræðrum sínum og þeim sem höfðu óhefta markaðshyggju að leiðarljósi þá hefðum við ekki lent í þeirri stöðu sem við erum í núna.
Inga Jóna sagði sig úr stjórn Fl Group. Hún gagnrýndi stjórnina þar en hún gerði það ekki með neinum látum. Af hverju gerði hún ekki meira til að bæta almenningshlutafélög á Íslandi?Það var svo alvarlegt ástand að það hefði átt að kalla á meiri viðbrögð þeirra sem þekktu til en bara að segja sig úr stjórn og flytja eina ræðu á stjórnarfundi. Inga Jóna sagði á fundi:
"Inga Jóna Þórðardóttir bað um orðið eftir að Hannes hafði lokið ræðu sinni og gerði grein fyrir brotthvarfi sínu, sem tilkynnt var á stjórnarfundi 30. júní síðastliðinn. Hún sagði að á síðustu vikum hefði henni orðið það ljóst að starfshættir innan stjórnar félagsins hefðu ekki verið með þeim hætti sem hún teldi að samþykktir félagsins og starfsreglur segðu til um. Hún benti á að í ársskýrslu Flugleiða fyrir árið 2004 kæmi fram að stjórnin legði sérstaka áherslu á að viðhalda góðum stjórnunarháttum og tilgreindar væru sérstaklega leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja sem Verslunarráð Íslands, Kauphöll Íslands og Samtök atvinnulífsins komu að.
"Í veigamiklum atriðum er verulegur misbrestur á að farið sé eftir þeim reglum, sem í gildi eru," sagði Inga Jóna sem telur nauðsynlegt að gerðar verði ákveðnar ráðstafanir til að tryggja að stjórnunarhættir verði í fullu samræmi við þann ramma sem samþykktir félagsins og starfsreglur kveða á um.
"Þegar stjórnarformaður er jafnframt í fullu starfi sem slíkur, eins og er í FL Group, er enn brýnna að þessir hlutir séu í lagi og enginn velkist í vafa um verkaskiptingu forstjóra og starfandi stjórnarformanns. Að mínu viti verður það ekki gert nema með sérstakri samþykkt stjórnar sem hluta af starfsreglum," sagði Inga Jóna.
Hún benti á að í samþykktum félagsins og í starfsreglum stjórnar væri kveðið skýrt á um hlutverk og ábyrgð stjórnar gagnvart eftirliti með reikningshaldi og meðferð fjármuna félagsins. Samkvæmt þeim skyldi félagsstjórn taka ákvarðanir í öllum málum, sem telja verði óvenjuleg eða mikilsháttar. Þá sagði hún jafnframt að það væri alveg ljóst í hennar huga að allar stærri fjárfestingar og skuldbindingar gagnvart félaginu skyldu ræddar og undirbúnar og samþykktar í stjórn félagsins." (Baugsmenn og FL Group)
Það er furðulegt að þessar þrjár konur sem allar voru í aðstöðu til að aðvara okkur og unnu í eða fyrir almenningshlutafélög hafi ekki gert það. Þær voru vinnukonur þess kerfis sem núna er að hruni kominn og kóuðu með í þeirri ógnaröld sem ríkti í gróðærinu, ógnaröld ribbalda sem við erum fyrst að komast að núna.
Það er líka átakanlegt núna að fylgjast með sjálfskoðun fjölmiðla sem er nánast sjálfbær, þeir tala bara um hver aðra, gera að stórfrétt einhverja hleraða upptöku af Reyni Traustasyni að segja í einhverjum grobb-mannalátastíl einhverjum strákling að það væri ekki svo fréttnæmt að Sigurjón fyrrum bankamaður fengi ennþá að leggja í gamla bílastæðið sitt og vinna að ráðgjöf um málefni sem hann þekkir út og inn. Ég vil benda þeim sem vinna í þessum innhverfa fjölmiðlaheimi að beina kastljósinu að því að skoða hversu einkennilegt er að sami maður og einu sinni stýrði Kastljósinu hoppi svo þaðan yfir í FL Group og sé þar blaðafulltrúi og valhoppi svo í því parísarhoppi á Íslandi sem krosseignatengslin og krossvaldaþræðirnir hafa búið til og sé núna sérstakur blaðafulltrúi Geirs Haarde. Hvar voru fjölmiðlar fyrir ári síðan þegar þessi grein birtist í mbl.is? Hver var þekking þeirra og djúphygli varðandi íslensk efnahagsmál? Þessi þekking sem var svo mikil að það var valhoppað á milli Kastljóssins og almenningshlutafélaganna og Kristján hafði farið úr Kastljósþætti sjónvarpsins í að verða blaðafulltrúi FL Group. Gullaldaríslenskan hjá Flugleiðum grúpp
Kristján er persónugervingur þeirrar fjölmiðlun sem stunduð var í Rúv í gróðærinu. Núna segir hann að óljóst hverjar skuldbindingar Íslendinga séu Ég held að honum og öðrum fjölmiðlamönnum þessa tímabils sem gáfust auðmönnum á vald hafi aldrei verið ljóst hverjar skuldbindingar og ábyrgð þeirra var gagnvart almenningi á Ísland.
Er von að maður treysti ekki stjórnsýslunni á Íslandi í dag? Er von að maður treysti ekki manninum og flokkinum sem hefur öllu á botninn hvolft? Það er rétt að þegar öllu er á botninn hvolft og við vitum ekki hver lífsafkoma okkar er næstu áratugina þá skipta efnahagsmálin miklu máli. En þau eru ekki í góðum höndum hjá þeim sem hafa blekkt okkur og svikið og þeim sem hafa verið vinnukonur kerfisins og þagað yfir því sem þær áttu að hafa hátt um.
Ég hef í þessu bloggi notað orðatiltækið vinnukonur kerfisins yfir þrjár konur sem mér finnst að hafi brugðist. Raunar er orðfærið upprunalega komið frá Margéti Pálu sem notaði þetta um valdalausar konur sem væru í þjónustu ríkisins. Margir Sjálfstæðismenn tóku upp þessi orð Margrétar Pálu sem skammaryrði um okkur sem vinnum hjá ríkinu og sem fyrirheiti og lausnaryrði um betra samfélag fyrir okkur að hætta ríkisrekstri og fara að stofna eigin fyrirtæki.
Guðfinna þingmaður segir á bloggi sínu fyrir kosningar:
"Því kemur ekki á óvart að um 60% kvenna á íslenskum vinnumarkaði vinna hjá ríki og sveitarfélögum. Þessa staðreynd benti Margrét Pála Ólafsdóttir á í erindi sem hún flutti í mars sl. en hún er formaður Samtaka sjálfstæðra skóla eins og margir vita. Margrét Pála kallaði konur í opinberum rekstri vinnukonur kerfisins.
Á undanförnum árum hafa ríki og sveitarfélög dregið mjög úr eigin atvinnustarfsemi. Hér er ekki lengur rekin bæjarútgerð, ekki ríkisreknir bankar eða símafyrirtæki. Íslenskir karlmenn starfa flestir í einkageiranum, einungis um 20% þeirra starfa hjá hinu opinbera. Undanfarin ár hafa þeir í auknum mæli stofnað eigin fyrirtæki. "(Virkjum kraft og frumkvæði kvenna)
Þessi orð Guðfinnu eru nú ósönn í dag því akkúrat núna eru bankar ríkisreknir því núverandi stjórnvöld sem hafa sigld öllu í stand fylgja því leiðarhnoði markaðshyggju að einkavæða hagnaðinn en þjóðnýta tapið.
En hversu miklu frelsi skilaði óheftur markaðsbúskapur okkur? Ekki miklu núna þegar komið er að skuldadögunum. Ef til vill var frelsið bara blekking, sams konar blekking og sýndarhagnaðurinn sem búinn var til með því að feykja pappírspeningum fram og til baka og þyrla upp og kalla það verðmæti. þetta var alltaf frelsi hinna fáu. Gróðærið var ekki frelsistímabil kvenna á Íslandi. Gróðærið var tímabil þar sem sú hugsun náði yfirhöndinni að allt mætti réttlæta með peningum og allt væri falt.
Það er vissulega ekki gott að búa til þjóðfélag sem fjötrar suma þjóðfélagsþegna svo mikið niður að þeir geti sig hvergi hrært. En frelsið er ekki fólgið í því að innprenta fólki að umönnunarstörf og samfélagsþjónusta sem og öll framleiðslustörf og þjónusta eigi að vera drifið áfram af gróðahvöt og einstaklingshyggju og samkeppnissjónarmiðum og markaðshyggju.
Við höfum séð hroðalegar afleiðingar af þannig samfélagi, samfélagi þar sem völdin voru gefin eftir til þeirra sem stýrðu fyrirtækjunum og fjármagninu gegnum banka sem bjuggu til peninga með fjármálagjörningum og þeir sem vissu hvað var að gerast og hefðu átt að aðvara okkur og hefðu átt að grípa í taumanna gerðu það ekki, gerðu það ekki vegna þess að þeir trúðu á þetta kerfi.
Þeir trúa því ennþá að aðalmálið sé að byggja aftur upp sams konar kerfi. Þannig er því miður ekki málið og tilraunir til að gera það munu mislukkast hrapalega. Það þjónar ekki hagsmunum almennings á Íslandi að halda áfram að vera vinnukonur kerfisins. Það þarf að umbylta kerfinu. Það þarf skilning á því að það er miklu hagkvæmara fyrir alla að vinna saman og heildin græðir á því að allir leggi saman krafta sína og búið sé til samtryggingarkerfi og samvinnukerfi en ekki kerfi einstaklingshyggju þar sem einstaklingarnir rífa hvern annan á hol. Lykilorðið á ekki að vera samkeppni heldur samhjálp og samvinna. Það þarf líka að skilning á að kerfi sem telur peninga eina mælikvarða á verðmæti og kerfi þar sem uppbygging samfélags sem snýst alfarið í kringum svoleiðis mæld verðmæti er kerfi sem er að molna niður.
Við skulum hætta að vera vinnukonur slíks kerfis.
Mótmæli halda áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.12.2008 kl. 00:16 | Facebook
Athugasemdir
Vel mælt Salvör. Þetta snýst ekki um konur eða karla heldur heiðarleika og sanngirni.
Af þremur bankastjórum nýju ríkisbankanna eru tvær konur. Eru þær að gera rétta hluti?
Sigurður Haukur Gíslason, 19.12.2008 kl. 00:17
Þetta snýst reyndar mikið um karla og konur þ.e. að það sé einhverjum hóp sé ekki á kerfisbundinn hátt haldið valdalausum. Stór orsakavaldur fyrir hinu gífurlega hruni var einsleitni þeirra sem voru við völd og andvaraleysi þeirra má skýra að einhverju leyfi af því að aðeins ein rödd fékk að heyrast. Aðrar raddir voru kæfðar niður, stundum með dúsum eins og digrum starfslokasamningum.
Ég veit ekki um bankana núna hvernig þar er starfað. Það er gott að þar séu konur sem og karlar í toppstöðum en það eru bara bankastjórarnir sem eru 2 af 3 konur. Langflestir lykilstjórnendur eru karlmenn og það voru flest karlmenn sem fengu afskrifaðar skuldir sínar vegna hlutabréfakaupa. Það eykur ekki trúverðugleika þeirra manna og það er raunar furðulegt að ekki sé skipt um fleiri stjórnendur hjá bönkunum.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.12.2008 kl. 01:06
Á Svafa Grönfeldt rektor HR ekki líka heima á þessum lista? Var hún ekki í stjórn Landsbankans?
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 14:03
Mér sýnist Svafa Grönfeldt hafi fyrst komið inn í stjórn bankans fyrir tæpu ári síðan, sjá hérna http://www.landsbanki.is/index.aspx?GroupID=294&NewsID=7693&y=0&p=0
Ég vissi ekki að hún hefði verið í stjórn bankans.
það er ekkert að því að hafa verið í stjórn banka á Íslandi, það er hins vegar athugavert ef einhver sem átti að gæta hagsmuna almennings í almenningshlutafélagi gerði það ekki.
Það er margt sem bendir til að Baugur og FL Group hafi staðið í einkennilegum viðskiptum og þær konur sem ég tel upp voru í stjórnum þeirra félaga.
Hins vegar er eðlileg spurning hvort Svafa hafi gætt hagsmuna almennings í setu sinni í bankaráðinu, það er raunar spurning sem við ættum að spyrja um alla þá sem bæði stýrðu bönkunum og sátu í stjórn þeirra undanfarin misseri.
Sérstaklega finnst mér áhugavert að vita hverjir tóku ákvarðanir um að veita útrásarvíkingunum lán í eigin fyrirtækjum. Voru það kannski þeir sjálfir? Gerðu hinir í bankaráðinu engar athugasemdir við það?
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.12.2008 kl. 17:11
Svafa Grönfeldt var aðstoðarforstjóri Actavis, er það ekki nógu mikið útrásarfyritæki eða hvað ?
En varðandi þetta -> "Guðfinna Helgadóttir er trú Sjálfstæðisflokknum "
Það má vel vera að Guðfinna Helgadóttir sé trú Sjálfstæðisflokknum, en myndin að ofan, og tilvitnanir eru komnar frá Guðfinnu Bjarnadóttir fyrrverandi rektors Háskólans í Reykjavík og fyrrum stjórnarmanni í Baugi.
Það er ekki verra að vinna heimavinnuna, áður en lagt er í að skrifa langa grein. Að öðru leyti ætla ég ekki að skrifa langan pistil um þær ótalmörgu rangfærslur sem koma fram í færslunni.
Ingólfur Þór Guðmundsson, 29.12.2008 kl. 14:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.