Fjölmiðlar og eigendur þeirra

Núna er barist um yfirráð yfir fjölmiðlum á Íslandi. Sá sem á rödd þjóðarinnar og getur búið til sannleikann getur líka búið til þá ímynd að hann eigandinn sé góðmenni, nánast dýrlingur og það sem hann og þær kvarnir sem honum mala gull séu að vinna í þágu allrar þjóðarinnar. Á Íslandi í dag veit samt enginn neinn um hver á hvað, bæði vegna þess að krosseignatengslin liggja þvers og kruss og fyrirtæki sem á í fyrirtæki sem á í fyrirtæki sem á í .... sem er skráð á einhverri undarlegri eyju, ekki Íslandi. Eftir bankahrunið er það ekki einu sinni þannig að fjölmiðlarnir séu í eigu eigenda sinna því mestallt sem skráðir eigendur eiga er veðsett og það er þannig að raunverulegir eigendur eru lánadrottnarnir. 

IMG_2625

Það er ekkert nýtt að fjölmiðlar gangi erinda eigenda sinna sb. þetta nýja DV-mál.  Þegar á reynir þá munu fjölmiðlar alltaf gæta hagsmuna eigenda sinna (eða þeirra sem eiga skuldir eigendanna), annars eru þeir bara lagðir af. Frægt er þegar Björgúlfur ætlaði að kaupa DV til þess eins að leggja það niður og ástæðan var umfjöllun sem honum gramdist um fjölskyldu hans.

 

Fjölmiðlar sem eiga lífsafkomu sína undir auglýsingum eru náttúrulega háðir þeim sem auglýsa og það er því augljós slagsíða á fjölmiðlum að  að þeir hampa kaupmannastéttinni og þeim sem eiga fyrirtækin og hefur Morgunblaðið í gegnum árin gengið erinda þess hóps öðrum fremur. Líka erinda þeirra sem vilja viðhalda völdunum þar sem þau eru þegar.  Þannig hefur Morgunblaðið í gegnum tíðina verið málgagn kaupmannastéttar, ættarveldis og fjármagnseigenda. Tíminn var málgagn Samvinnuhreyfingarinnar og Þjóðviljinn málgagn verkalýðshreyfingar og alþýðu. Þegar flokksblöðin lögðust af þá breyttist íslenska fjölmiðlaumhverfið en það breyttist þannig að næstum öll pressan varð málgagn þeirra sem spiluðu matador um allan heim með peninga sem þeir bjuggu til í eigin bönkum. 

 

 


mbl.is Frétt DV stöðvuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hrein og klár flokksblöð voru kannski bara skárri, maður vissi hvar maður hafði þau ... en það verður að segjast að það er væntanlega langt i að alvöru blaðamennska verði stunduð á Íslandi. Það sem kemur okkur til bjargar núna er Netið, þar fer umræðan fram. Fólk sem áður hafði hvorki möguleika né þor til að tjá sig gerir það núna - auðvitað misvel, en það er hægt að skynja og skilja miklu betur þær hræringar sem eru í gangi með lestri netmiðla og bloggs heldur en lestri dagblaðanna - eða auglýsingapésanna eins og þau eru aðallega þessa dagana ... mér finnst þessi umræða sem fer fram vera ein helsta vonin um að stjórnvöldum og eigendum Íslands takist ekki að slá ryki í augum fólks, fá það til að gleyma ...

Ragnheiður (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 14:51

2 identicon

Einhvern veginn hefur mér þótt allt skárra en Morgunblaðseinveldið sem stóð yfir frá því ég man eftir mér og langt fram á mín fullorðinsár. Þegar það loksins hrundi með tilkomu Fréttablaðsins var það mikill léttir. Ég held að við séum svo vön ákveðinni ritskoðun og matreiðslu frétta frá þeirri skoðanaeinokun að  það mun taka tíma að koma hér upp upplýsandi fjölmiðlum.

Morgunblaðið slátraði umræðu og fólki miskunnarlaust og fréttaflutningur blaðsins var, eins og kemur hjá þér, í þágu ríkjandi ætta og valdastéttar.

Hálfrar aldar gömul, segi ég: Aldrei aftur Morgunblaðið!   

Jónína Óskarsdóttir (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 00:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband