Nýtt landslag fjölmiðla í netheimum - Barist við Murdoch og Belusconi

Það er upplausnarástand í íslensku samfélagi og það er engin rödd fjölmiðla sem almenningur treystir. Fjölmiðlar í einkaeigu voru flestir í eigu þeirra fjárglæframanna sem núna hafa rústað efnahag og æru Íslands og fjölmiðlum í ríkiseigu var stjórnað af fólki með sams konar hugmyndir, þar voru ofurtök Sjálfstæðisflokks og markaðshyggju. Sú tök eru þó núna tekist að linast og reyndar er afar óljóst hverjir stýra fjölmiðlum á Íslandi í dag en það er samt augljóst að einhver plott fara fram bak við tjöldin og einkafjölmiðlar og sú rödd rödd Íslendinga sem þar hljómar er föl þeim sem hæst býður.

Víst eru fjölmiðlar auglýsingapappír og umbúðir fyrir vörur, hugmyndir eða lífssýn sem eigendur fjölmiðla vilja selja almenningi. Það má vera hverjum manni ljóst að áhugi á fjölmiðlum á Íslandi er að miklu leyti tilkominn vegna þess að ýmsir vilja vera í þeirri stöðu að  móta hugsmyndir þeirra 300 þúsunda sem búa á Íslandi og fá fólk hérna til að sætta sig við aðstæður og  að fylkja sér um stjórnmálaleiðtoga sem eigendur fjölmiðla hafa velþóknun á.  Það getur því miður verið að aðalmarkmið sumra fjölmiðla sé að fá fólk til að sætta sig við að yfirráðum yfir  auðlindum Íslendinga og afrakstri af vinnu fólks hérna sé skákað til þeirra sem eiga fjölmiðlana og búa til þann veruleika eða öllu heldur þá blekkingu að raunverulegir eigendur fjölmiðla séu bjargvættir sem hafi hag almennings að leiðarljósi. 

Undanfarin ár hafa margir fjölmiðlar speglað athafnalíf á Íslandi þannig að stærstu og gráðugustu gerendur hafa búið til spegill ú fjölmiðlum sem þeir spegluðu sig í og spurðu hver fegurst væri á landi hér. Þeir fengu það svar sem þeir vildu úr speglinum í sínum eigin fjölmiðlum. Nú hefur sá spegill hins vegar brotnað og sú mynd sem við fáum af þessum gerendum er afskræmd, það er mynd sem er óhugnanlegri en af verstu stjúpum ævintýranna. Ef til vill er spegilmyndin núna of afskræmd, ef til vill er spegillinn svo margbrotinn, rákaður og beyglaður að það sem við núna sjáum sem grimmar og hvæsandi  ófreskjur með stingandi augu eru ekki annað en beygðir menn með  sama sársauka í augum og sést í augnaráði okkar allra Íslendinga núna.

Það var svo sannarlega ekki opin og heiðarleg umræða í fjölmiðlum sem náði til almennings um hvað væri að gerast í heimi kasínókapítalismans sem nú kreppir kalda skuldahönd um Ísland. Ástæður þess eru margar. Ein er sú að þeir sem helst hefðu verið líklegastir til að halda uppi andófi voru uppteknir í andófi gegn mörgu öðru og gættu ekki að því að gera t.d. kröfur um gagnsæi í fyrirtækjum og bönkum og að þeim væri vel stýrt. Í mörgum félögum á almenningur aðgang m.a. í gegnum lífeyrissjóðina sem eru einir stærstu fjárfestar á Íslandi.  Hvers vegna gera líka ekki almennir hluthafar kröfur um rekstur hlutafélaga og spyrja spurninga? Ég er reyndar byrjuð sjálf á aktívisma á þessu fyrirtækjasviði og hef rekið áróður fyrir því innan Femínistafélagsins að konur þurfi að skipta sér meira af atvinnulífi og seilast þar til áhrifa, ég  mætti m.a. á aðalfund HB Granda (gamla bæjarútgerð okkar Reykvíkinga) síðast og bauð mig fram í stjórnina og vakti athygli allra þeirra sem voru á aðalfundinum á því hve hroðalegt væri að engin kona kemur að stjórn þessa  félags sem á stóran hluta af fiskveiðikvóta Íslendinga.

Fjölmiðlar hafa ekki staðið sig vel á vaktinni undanfarin ár. Ef til vill höfðum við heldur ekki áhuga á fjármálafréttum, þær eru flóknar og snúnar og fjármálavafningarnir og fyrirtækjaflækjurnar í kasínókapítalismanum eru fáránlegar.

En ég hef nú samt sem einstaklingur háð mín fjölmiðlastríð og barist fyrir frelsi í netheimum. Það hefur reyndar ekki vakið mikla athygli hérlendis en ég átti um tíma í stríði við sjálfan Murdoch í desember 2005 og það var félagsnetið Myspace og vídeókerfið Youtube sem voru miðjan í því stríði. Hér er grein um það stríð í New York Times:

 Lesson for Murdoch: Keep the Bloggers Happy - New York Times

Hér eru mín blogg um það mál

Í vesturvíking - barist við Murdoch

Murdoch á núna bæði Wall Street Journal og Myspace

Myspace censorship continues

Misunderstanding??? MySpace swallows and silences YouTube
http://samkoma.net/videoblog/?p=19

Flushing Myspace Down the Tubes
http://samkoma.net/videoblog/?p=18

Mypspace in the Brave New world
http://samkoma.net/videoblog/?p=17

 Annað

Get out of Myspace, bloggers rage at Murdoch 8. January 2006

Breytingar í fjölmiðlaheimi og flutningur þeirra inn í netheima telur miklu skemmri tíma en ég áætlaði. Fjölmiðlakóngurinn Murdoch hefur reyndar spáð svona þróun lengi. Hann er framsýnn maður og hann hefur undirbúið fjölmiðlaveldi sitt undir þann heim. En það verður líka sú breyting að fjölmiðill þarf að spila með í web 2.0 umhverfi þar sem í kringum fjölmiðil þarf að vera félagsnet - eins og moggabloggið - eins og netsamfélögin myspace og facebook og umræða um fréttir. Þá þurfa vefmiðlar líka að geta tekið inn efni úr öðrum áttum t.d. spilað vídeó. Það sem Murdoch ætlaði að gera var að einoka allan pakkann og beita mjög lágkúrulegum aðferðum til að loka notendur í félagsneti inn í heimi sem væri algjörlega stjórnað af Murdoch samsteypunni. Þegar ég háði mitt stríð við Murdoch þá var Youtube lítið og óþekktur vefmiðill og ekki hefði mér grunað að velgengni þeirra yrði svona mikil. Ef til vill er Youtube og Google núna orðnir risar sem við eigum líka að vera á varðbergi gagnvart en Microsoft orðinn risi sem er  lítið hættulegur lengur.

Ég fagna því að Smuga komist í gagnið og hlakka til að sjá það vefrit. Vonandi gengur það ekki erinda manna með annarlega hagsmuni heldur túlkar meira sjónarmið almennings á Íslandi.

Ég ætla að halda áfram að vara við sömu aðferðum og Murdoch beitti og ég ætla líka að halda áfram að vara við ríkisstjórnum sem koma sér upp öflugum hryðjuverkavörnum. Mesta hættan er sú að sú barátta sem upphaflega beindist gegn hryðjuverkum beinist gegn almennum borgurum.

Annars er fjandvinur minn Murdoch ennþá að brasa í stríði þó stríðinu við mig sé lokið, hér er grein umnýjasta stríðið hans:

Mr. Murdoch Goes to War - The Atlantic (July/August 2008)


mbl.is Smuga á leiðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Tek undir þetta. Það vantar frjálsa óháða rödd og vettvang þar sem andstaða við ríkjandi ástand kemur skýrt fram. Ef hann hefði verið til staðar er hugsanlegt að ekki væri svona illa komið fyrir okkur.

Steingerður Steinarsdóttir, 6.11.2008 kl. 16:34

2 Smámynd: Kjartan Eggertsson

Sæl Salvör.

Sammál þér.

Ef farið er nokkur misseri til baka áttar maður sig á því að moggabloggið er bylting.  Ef ný fréttamiðill kemur til sögunnar sem túlkar sjónarmið almennings þá er nauðsynlegt að hann bjóði upp á bloggvef eins og moggabloggið.  Mbl.is hefur öðlast mun traustari sess en ella fyrir tilverknað moggabloggsins.

Kjartan Eggertsson, 6.11.2008 kl. 21:57

3 identicon

Hvernig væri að vekja athygli á lögunum hans BB sem nú eru á leið í gegnum alþingi?

Skilst að hluti lagana sé leynilegur, en í pakkanum eru að finna hryðjuverkarklausur, sem og "forvirku rannsóknarheimildirnar" hans BB, sem mun leyfa rannsókn og hleranir á mönnum án þess að nokkur grunur sé á því að viðkomandi hafi brotið, eða sé að brjóta af sér......

Er ekki fyndið að ekkert sé minnst á þessi lög, á meðan íslendingar eru reiðir vegna Bretanna og misnotkunar þeirra á eigin hryðjuverkalögum?

Auðvitað eru þessi lög misnotuð, eins og alltaf. ÞAð er eini tilgangur svona laga, að hrella borgarana.

Held að íslendingar gætu gert mikið til að fá breskan oh hollenskan almenning í lið með sér aftur, ef við sendum yfirvöldum hér skýr skilaboð og komum í veg fyrir svona lagasetningar hér. Það væri fordæmi sem örugglega væri velkomið í Bretlandi, sem og Evrópu og Ameríku, því fólk er nú þegar kúgað þar með slíkum lögum......og ótrúlegu eftirliti.

Vip gætum einnig sett fordæmi með því að setja lagasetningar er tryggja frjáls fjölmiðla, og frjálst og opið internet, sem eins og þú veist á undir högg að sækja. Ég held að þó nokkuð margir sjái það nú greinilega hversu mikilvægt það er, hið frjálsa internet.

magus (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 04:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband