Fínn fundur í Iðnó - hefðu bara getað sleppt að kalla alþingismenn á svið

Fundurinn í Iðnó var fínn, miklu betri en þessi mótmæli sem ég var í við Ráðherrabústaðinn á laugardaginn. Þau voru satt að segja dáldið eins og skrílslæti á köflum. Það er stundum örþunn lína á milli málefnalegrar umræðu og heiftúðugra skrílsláta þar sem lýðurinn hrópar á að einhver sé hengdur í gálga. Frummælendur á Iðnófundinum voru líka allir mjög góðir og það var líka þess vegna sem ég fór á fundinn. Svo voru fyrirspurnir og ég reyndi oft á fundinum að ná athygli svo ég gæti komið að fyrirspurn en mér tókst það því miður ekki.

Það voru margir sem tjáðu sig, flest karlar og margir að vekja athygli á eigin aðstæðum og sumir fóru að segja sögu af sjálfum sér og sínum aðstæðum og sínum lausnum á vanda þjóðarinnar. Sævar Síselski  sögupersóna í Geirfinnsmáli og Breiðuvíkurdrengur tróð upp með hugmynd sína að leigja Rússum Langanes fyrir sín umsvif, ekki þó hernað og svo væri allra meina bót ethanól framleiðsla sem mér skildist að ætti líka að vera á Langanesi. Ekki veit  náði ég alveg hvort Sævar hefur smitast af Al Gore, Ólafu Ragnari forseta og Össuri af þessari græn-orku bylgju og vilji búa til bíódýsil til að knýja bifreiðar eða hvort hann vildi bara koma sér upp drykkjarveigum. Nema hvort tveggja sé.

Ég var hins vegar ekki ánægð með hve mikið vægi þeir alþingismenn sem voru staddir á fundinum fengu. Ég er þreytt að heyra það fólk sem átti að gæta gæta hagsmuna okkar en gerði það ekki sverja af sér misgerðir sínar. Sérstaklega  á ég erfitt með að hlusta á menn eins og Illuga Gunnarsson, Sigurð Kára og Pétur Blöndal en þeir voru allir á fundinum og töluðu. Illugi hefur markvisst undanfarið ár reynt að stela orkulindum Íslendinga frá okkur á sama hátt og með sömu rökum og réttur til fiskveiða var færður útgerðarmönnum og bankarnir og peningargerðarbóluvél þeirra var færður vel völdum og velþóknanlegum aðilum sem komu okkur svo í þær aðstæður sem við erum í núna. Mér varð nú næstum óglatt þegar Illugi reyndi að afsaka hvernig fór með bankana, hvernig einkavæðingin hefði mislukkast vegna þess að það hefðu verið svo fáir eigendur. Man hann kannski ekki jafnvel og ég að þetta var matreitt fyrir okkur sem almenningshlutafélag þar sem allir Íslendingar fengu einmitt rétt til að eiga part í. En sumir fengu bara að eiga meiri part en aðrir og litlu hluthafarnir fengu ekki að ráða neinum.

Sigurður Kári hefur að ég best veit ekkert gert á þingi nema stundað hagsmunagæslu fyrir fjármagnseigendur og söluaðila áfengis, hans ákafasta áhugamál er að maður geti keypt áfengi hvar og hvenær sem er. Það var átakanlegt að á meðal Ísland brann í vítislogum þá flutti Sigurður Kári ennþá einu sinni einhverja af þessum áfengistillögum sínum. Frelsi Sigurðar Kára er frelsið Íslendinga til að drekka sig fulla á auðveldan hátt og viðskiptafrelsi vínkaupmanna. Var annars ekki Sigurður Kári ekki um daginn að berjast fyrir því að fá að flytja bíla úr landi og fá ríkisstyrki til þess?  Um Pétur Blöndal er best að hafa sem fæst orð. Það er maður sem hefur engar hugsjónir nema auðsöfnun og  lítur á það sem sína mestu hugljómum í lífinu að hirða upp "eigendalaust fjármagn". 

Sumir af þeim þingmönnum sem þarna voru eru þó saklausir af því að hafa verið hlaupatíkur fjármagnseigenda. Aldrei getur neinn sagt annað um Ögmund Jónasson en að hann hafi veitt þeim hvassa gagnrýni undanfarin ár og fyrir það á hann miklar þakkir skilið og aldrei hefur Mörður Árnason verið með fjármagnseigendum í liði. Bjarni Harðarsson okkar framsóknarmanna er líka óspjallaður af þeim sökum, ekki vegna Framsóknarflokksins heldur vegna þess að Bjarni er nýkominn á þing og ber ekki ábyrgð á sok þeirra sem stýrðu  bankamálum og einkavæðingu fyrir hans daga.   

Ég bind vonir við þessa borgarafundi og vil þakka þeim sem skipulögðu hann. Það var frábært að heyra erindi frummælenda, þau voru Einar Már Guðmundsson rithöfundur, Björg Eva Erlendsdóttir blaðamaður, Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og Vilhjálmur Bjarnason viðskiptafræðingur.

Það er samt íhugunarefni hverjir tala og hverjir eru sýnilegr á svona borgarafundum og mótmælaaðgerðum. Það var mjög áberandi í mótmælunum síðasta laugardag, þar klofnaði mótmælin í tvær fylkingar, út af hverju veit ég ekki. Það er líka íhugunarefni hvernig ný samskiptatækni getur gert okkur annað hvort kleift að búa til nýtt félagsnet sem er lýðræðislegra og leyfir fleirum að tjá sig eða getur orðið til að styrkja valdastöður þannig að hinir voldugu verði ennþá voldugri. Ég hugsa að blogg sé afar mikilvægt lýðræðistæki og stór partur af þjóðfélagsumræðu núna fer fram í bloggheimum, sérstaklega hér á moggablogginu.


mbl.is Húsfyllir í Iðnó - hiti í fundargestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir þennan frábæra pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.10.2008 kl. 00:28

2 identicon

Magnað var að heyra Sigurð Kára útskýra fyrir fundarmönnum að hann hefði ekki stutt frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur um afnám eftirlaunaóþverrans vegna þess að það gerði ráð fyrir að hæstaréttardómarar, þingmenn og ráðherrar byggju við sömu lífeyrisréttindi og opinberir starfsmenn. Í því fælust réttindi sem almennt launafólk nyti ekki. Forréttindi sem Sigurður sagðist ekki geta sætt sig við !! 

Samt samþykkti þessi þingmannsræfill eftirlaunafrumvarpið árð 2003. Grútspillt sjálftökufrumvarp um yfirgengleg forréttindi.

Var Sigurður Kári ef til vill að ljúga að kjósendum á fundinum? 

Pétur Blöndal sagðist vera eini þingmaðurinn sem flutt hefði tillögu um að allir landsmenn byggju við sömu lífeyrisréttindi. Samt var frammistaða hans jafnléleg og Sigurðar Kára árið 2003.

Þurfum við svona menn á Alþingi? 

Rómverji (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 00:42

3 Smámynd: Jón Halldór Eiríksson

Takk fyrir gott yfirlit af Iðnó fundinum.

Það er ömurlegt að hlusta á suma stjórnmálamenn þessi dægrin.   Var í þessu að enda við að hlusta á Guðna og Björn í endurtekningu Kastljós.    Maður fær hálfgerða velgju að hlusta á þá og spyr sig hvað eru þessir menn ennþá að gera í pólitík.   

Jón Halldór Eiríksson, 28.10.2008 kl. 00:46

4 Smámynd: Anna Karlsdóttir

ég var einnig stödd á hluta fundarins, fannst þingmennirnir sem mættir voru standa eins og styttur aftan við frummælendur. Og var auðvitað stoltust af mínum konum Lilju Mósesdóttur og Björg Evu Erlendsdóttur sem þora að segja það sem aðrir eru ragir við að segja.

Anna Karlsdóttir, 28.10.2008 kl. 00:47

5 identicon

Takk, Salvör, fyrir góða fundargerð.   

Ljótu andarungarnir verða varla svanir úr þessu. 

Kveðja,  LÁ

lydur arnason (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 01:22

6 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Sæl Salvör, 

Sé að þú hefur snúið þér að öðrum málum nú, skiljanlega.

  Bendi samt á að bæði blogg og tölvupóstar eru "public property" og að færsla þín til Birgittu Jónsdóttur, þar sem þú reynir að hræða hana til þess að taka réttmæt viðbrögð sín út af netinu, á engan rétt á sér.

Sendi hér með aftur netpóstinn, sem Birgittu barst frá Arnþrúði Karlsdóttur. Viðbrögð þín má sjá á bloggi Birgittu.  Hefur alltaf hingað til sýnst þú vera réttsýn og klár kona og skil hreinlega ekki hvað þér gengur til með þessu. 

------------------------------- 

"Birgitta. Lengi skal manninn reyna segir gamalt og gott máltæki og
sannarlega á það við um þig núna. Ég er viss um að móðir þín snýr sér
við í gröfinni yfir þeim ummælum sem þú viðhefur um mig. Viltu að ég
segi sannleikann um þig og hvernig þú komst fram við hana??????? Þetta
verður þér dýrkeypt.  AK"

---------------------------------------- 

Sérð þú virkilega sóma þinn í því Salvör að ráðast á manneskju, sem fær svona tilskrif -og hóta henni lögsókn ?  Og því að henni verði hugsanlega úthýst af bloggsíðu ?  Hvaðan kemur þú eiginlega ?

Hildur Helga Sigurðardóttir, 28.10.2008 kl. 04:39

7 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Takk fyrir góðan pistil.

Marta B Helgadóttir, 28.10.2008 kl. 08:39

8 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ég er sammála því að það var hallærislegt að láta þingmenn vera uppi á sviði. Þeir fengu og mikið vægi á þessum fundi. Illugi talaði um mislukkaða eignadrefingu í bankasölunni. Maðurinn er úr flokknum sem hefur stunda pólitísk hrossakaup með eigur ríkisins. Þetta er afneitun á hæsta stigi. Það voru nokkrar raddir í salnum sem voru andlýðræðislegar - í svona óróa koma alltaf upp fasískar hugmyndir. Mér fannst blaðakonan unga sem er dóttir Gunnars fundarboðanda, taka á þessu máli af skynsemi.

Hjálmtýr V Heiðdal, 28.10.2008 kl. 08:47

9 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Það er greinilegt að þú treystir þér ekki til að svara þínum eigin skrifum til Birgittur Jónsdóttur.  Viltu þá ekki a.m.k. birta þau sjálf hér ?

Hildur Helga Sigurðardóttir, 28.10.2008 kl. 09:43

10 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Já Salvör, það stóð nú ekki til að senda þér alla þessa runu hér að ofan, það bara verkaðist þannig.

Hins vegar væri áhugavert fyrir þá mörgu, sem lesa bloggið þitt, að komast að því hvað þú átt við með tali þínu um "skaðabótaábyrgð" Birgittu Jónsdóttur gagnvart Arnþrúði Karlsdóttur ?

Það eina sem Birgitta gerði var að gagnrýna framgöngu A.K. á  frekar misheppnuðum "mótmælafundi" um síðustu helgi, m.a. á þeim forsemdum að þarna væri að tala manneskja sem væri kunn að því að borga ekki sínu eigin starfsfólki laun.  Ætlar einhver að mótmæla því ? 

Í staðinn fékk Birgitta rætinn tölvupóst, þar sem henni var hótað því að nú yrði sóðast í sambandi hennar við látna móður sína -sem allir vita að Birgitta elskaði mikið og reyndist afar vel. 

Ennfremur; hvaða ástæður sérð þú til þess að Mbl.blog. ætti að "loka bloggi" Birgittu, "ef Arnþrúður snýr sér til þeirra" ?

Þarna eru stór spurningamerki á ferðinni, sem þú hlýtur að verða að svara, eftir greinina -sjá hér að ofan- sem þú sendir Birgittu varðandi þetta mál. 

Mér finnst þetta einhvernveginn ólíkt þér, Salvör.

En þar sem nú er tími uppgjörs og heiðarleika -ekki satt ?- hlýtur þú að vera öll af vilja gerð að segja okkur öllum hvað í ósköpunum þér gekk til.

Bestu kveðjur,

HHS 

Hildur Helga Sigurðardóttir, 28.10.2008 kl. 12:18

11 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Vá var verið að hóta henni Birgittu?

Hvað er eiginlega í gangi hérna?

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.10.2008 kl. 12:28

12 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ágæta Hildur Helga.

Ég átta mig á því að þú ert byrjandi í netheimum og hefur ekki mikla reynslu í orðræðu þar. Það hefur komið fram á öðrum umræðuþræði að þú hefur staðið í málaferlum við manneskju A. og telur að hún hafði komið illa fram við þig.  Bloggarinn B. ásakar A. um að hafa komið illa fram við mömmu sína sem nú er látin. A. sendir B. póst (einkabréf að ég tel) um viðkvæm einkamálefni (A. og mamman virðast hafa einhvern tíma verið vinir en urðu óvinir og í einkabréfinu hótar A. að ljóstra upp hve illa B. hafi komið fram við mömmu sína). B. bregst við með því að birta einkabréfið og leggja út af því á hátt sem var A. afar óvinveittur.  Ég þekki hvorki A. eða B. persónulega þó ég viti af því að þær eru litríkar konur sem látið að sér kveða á ýmsum sviðum.  En ég geri það sem ég geri iðulega og hef gert í mörg, mörg ár. Ég reyni að gæta mannréttinda þeirra sem eru hakkaðir í spað í umræðunni og ég bendi B. á hvað hún hefur gert rangt og bendi henni vinsamlegast á að leita til persónuverndar. Það hef ég sjálf oft gert t.d. má sjá hérna í tveimur bloggum:

 Orð í eignarfalli - salvor.blog.is

Hvar er andspyrnuhreyfingin á Íslandi?

Ég hef góða reynslu af starfsfólki persónuverndar, það er sérfræðingar á þessu sviði og ég hef farið eftir því sem fólk þar hefur ráðlagt mér m.a. að fjarlægja upptökur -sem ég reyndar setti inn aftur eftir að ég hafði tekið út fólk sem hafði lýst því yfir að það vildi ekki vera á upptökunni.

Þessi athugasemd mín á bloggi B. er alveg í samhljómi við annað sem ég hef gert og hvernig ég hyggst haga orðræðu minni í framtíðinni. Ég hyggst aðvara fólk sem hefur farið yfir strikið og biðja það að gæta að sér. Það er ekki hótun enda hef ég engin verkfæri til að hóta fólki eða neina löngun til þess.

Það er ráðist af hörku á þá sem voru útrásarvíkingar, stjórnmálamenn og eftirlitsaðilar fjármála og stýrðu bönkum undanfarin ár.  En það er líka ráðist á alla sem tala. Mér virðist að orðræða B. komi til af því að henni líkaði ekki að A. talaði á mótmælafundi.  Ég gerði sams konar athugasemd á bloggi Jennýar Önnu í fyrradag þar sem ég bað hana að taka út rætnar athugasemdir um föður og afa fólks sem talaði á mótmælafundi. Tek fram að það tengist A. ekki neitt en athugasemd mína má sjá við  þetta  blogg  Sameinuð stöndum við- sundruð föllum við

En ég átta mig ekki á því hvort þú telur Hildur Helga að það samrýmist góðri fjölmiðlum og tjáningu í vefrými að þú sem augljóslega ert með öllu vanhæf að tjá þig um mál sem tengjast A. skulir núna ráðast margoft á mig í athugasemdum við  blogg sem ekkert hefur með deilur A. og B. að gera og skulir voga þér að líma inn einhverja glás af bloggi og athugasemdum við blogg sem það varðar. Ef eitthvað er "harassment" þá er það þetta.  Má ég ekki benda fólki á að tjá sig á siðlegan hátt og gæta að mannréttindum og persónuvernd?

Ég mun þurrka út það blogg og athugasemdir sem þú límir inn hérna og hugsanlega tjá mig um þetta mál þar. Það er rétti vettvangur fyrir þessa umræðu.

Ég vil svo taka fram að ég lít á allar þessar konur þ.e. Hildi Helgu, Arnþrúði og Birgittu sem mikla kvenskörunga sem hafa margt viturlegt fram að færa. Þeirra tíma er hins vegar ekki vel varið núna að þrátta hver við aðra og draga látnar manneskjur inn í þær deilur.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.10.2008 kl. 14:43

13 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Hildur Helga: Sá þegar ég hafði lesið betur athugasemdir að það var ekki ætlun þín að afrita inn allt bloggið hjá B. heldur mistök. Mér brá reyndar við það en þetta sýnir að maður á aldrei að ætla fólki það versta. En þú hefur ekki rétt fyrir þér að tölvupóstar um viðkvæm persónuleg málefni  sem augljóslega eru ekki ætlaðir fyrir sjónir almennings séu "public property". Það stangast algjörlega við mína réttarvitund og þær siðareglur sem ég og aðrir netnotendur höfum. Annars hafa sennilega risið málaferli út af þessu og ágætt að þú vísir í niðurstöðu

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.10.2008 kl. 14:53

14 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Heil og sæl Salvör,

Það er gott og sanngjarnt að þú gerir þér grein fyrir því að það eina sem ég ætlaði að afrita inn á síðuna þína var þitt eigið bréf til Birgittu.  Aths. við það hefðu svosem alveg mátt fylgja með, en voru plássfrekari en svo að ég hefði látið þær fylgja að óþörfu -enda væntanlega enn til á síðu Birgittu Jónsdóttur.

Þú tekur hins vegar líka út  þín skrif til B.J.  Hvers vegna ? 

Varla eru þau einkamál ?  Enda birt á blogginu.

 Eina manneskjan sem hefur smekk í sér til að nota látinn ættingja -og það í hótunarskyni- er Arnþrúður Karlsdóttir í tölvupósti til B.J.

Ég er ósköp einfaldlega sammála þeim fjölmörgu sem hafa tjáð sig -flestir á undan mér- um þetta mál á bloggsíðu Birgittu, um það að í þessu tilviki hafi hún gert rétt í að birta þennan póst.   Hann var greinilega ætlaður til þess að hræða hana og hrella og með því að opinbera hann gerði hún hann að engu.

Það er ekkert launungarmál að ég þurfti að fara í málaferli við Arnþrúði Karlsdóttur vegna vangreiddra launa -vann málið- og ég hef svo sannarlega enga löngun til að hafa frekari samskipti við þá konu.  Mér rann hins vegar ósköp einfaldlega blóðið til skyldunnar þegar ég sá þetta skelfilega ljóta hótunarbréf sem hún sendi Birgittu og því tjáði ég mig um það, þar sem mér fannst Birgitta þurfa á stuðningi að halda.  Ekki var ég nú ein um það -og veit ekki til þess að þeir ca. 70 bloggarar, sem tjáðu sig um þessar tvær færslur B.J. hafi allir átt inni vangoldin laun hjá A.K. (Og þó kannski sumir...)

Fer svo ekki ofan af því að það er sérkennilegt að þú skulir tjá þig um það að Mbl. kunni "að loka bloggsíðu" B.J. ef Arnþrúður kýs svo.  Það væri nú aldeilis innlegg í málfrelsið.

Á þá að loka fyrir Útvarp Sögu í hvert skipti sem A.K. les þar upp tölvupóst, sem hún segir vera frá Jónínu Ben. ? (Veit að ég er voðalega græn, enda bara búin að vera blaðamaður í 28 ár).

Bið þig svo að lokum, Salvör, að birta hér, á þinni eingin ágætu bloggsíðu, bréfið sem þú sendir Birgittu varðandi þetta mál.

Bestu kveðjur,

HHS 

Hildur Helga Sigurðardóttir, 28.10.2008 kl. 16:40

15 identicon

 fundurinn var fínn í gær þó ekki kæmust allir að.

Bjarni Harðarson og Sævar Ciesielski að munnhöggvast minnti mann samt soldið á Kardemommubæinn, ekki síst í þssu gamla húsi - manni leið eins og í leikhúsi á köflum þarna, haha.  

annars er kominn tími á beint lýðræði hér á landi. svissneska módelið:

kjósa um allt. allir þessir kjörnu fulltrúar svíkja allt sem þeir geta.

það er líka ástæða til að hafa áhyggjur af þróun fjölmiðla hér á landi:
RÚV faldi fréttina af borgarafundinum eins vel og hægt var, og Fréttablaðið minntist ekki á hann.
Morgunblaðið gerði fundinum ágæt skil, einn fjölmiðla, en undir fyrirsögninni: ,,Hróp og köll gerð að þingmönnum" -
kannski til að fundurinn líti út eins og skrílslæti ..?

Halldór Carlsson (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 19:46

16 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Sæl Salvör - og þakka þér fyrir góðan blogg-pistil. Ég var ekki á þessum fundi, enda bý ég á Norðurlandi, en ég tel að það þurfi að eiga sér stað borgaraleg mótmæli, það er aðhald til stjórnvalda. Hárfín lína er milli þess að þau fari fram með sóma og svo hitt þegar múgæsingur grípur um sig. Múgæsingurinn getur dæmt mótmælin ómerk og styrkt stjórnvöldin sem eru í vörn. Friðsamleg en eindregin mótmæli hafa slagþunga og geta þrýst á stjórnvöld að standa sig.

Spurning hvort það væri ekki full nauðsyn að boðað verði til kosninga þegar mesti styrrin hjaðnar. Við tökum auðvitað ekki skipstjórann út í miðjum ólgusjónum, en hann þarf að ganga undir sjópróf við fyrsta tækifæri og svara fyrir handvammir sínar. Ég er að tala um núverandi ríkisstjórn. Ef þjóðin vill hana áfram, allt í lagi, en hún á þá að sækja nýtt umboð í kosningum, fyrr en síðar, til dæmis næsta vor. Ég er að minnsta kosti búinn að setja mig á undirskrifalistann um það - var það ekki kosning.is eða álíka?

Einar Sigurbergur Arason, 28.10.2008 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband