21.10.2008 | 18:24
Bjarni bankamaður í Noregi
Núna þegar fyrirsjáanlegt er að það verði með neyðarráðstöfunum að þjóðvæða alla helstu innviði íslensks athafnalífs þá er rétti tíminn til að horfa yfir blóði drifna slóð helsta bankahöndlara Íslendinga.
Það er Bjarni Ármannsson.
Hann var uppgötvaður af Pétri Blöndal sem réð Bjarna til KAupþings 1991 og hafinn til metorða af Finni Ingólfssyni þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Þorsteini Ólafssyni en þeir gerðu Bjarna að bankastjóra FBA árið 1997. Svo sameinaðist FBA Íslandsbanka og upp hófust axarsköftin þegar Bjarni hjó sér leið til að búa til handa sjálfum sér digra sjóði úr engu nema blekkingum og trúgirni og þeim fjárhagslegu svikamyllum sem drifu áfram íslenska bankaútrás þar sem menn eins og Pétur Blöndal reyndu að telja okkur trú um að allt í kringum okkur væri eigendalaust fjármagn sem best væri að hinir klókustu og ófyrirleitnustu sem hefðu einokað alla upplýsinga og valdaþræði í hendi sér hrifsuðu til sín og létu mala sér gull eins og úr kvörninni Grótta.
Bjarni bankamaður keypti banka í Noregi í gríð og elg. Hann einblíndi á fjárfestingarhugsunina og útrás bankans erlendis. Hann sá um kaup á KredittBanken og BN-banka í Noregi og var mánuðum saman í útlöndum að gera samninga um kaup á bönkum.
Bjarni virðist hafa plantað sér alls staðar í stjórn og formennsku og notað aðstöðu sína til að ausa fyrir sjálfa sig úr þeim sjóðum sem honum var trúað fyrir. Margt er afar siðlaust og undarlegt að það hafi verið löglegt t.d. hvernig hann dílaði við sjálfan sig.
Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitni, rétt sinn samkvæmt kaupréttarsamningi dagsettum 1.3.2002 við bankann um að kaupa 15 milljón hluti í Glitni á verðinu 2,81 og seldi bankanum aftur á verðinu 28,2. Keypti Bjarni bréfin því á 4,15 milljónir króna en seldi þau aftur á 423 milljónir. Söluhagnaður hans nemur 380,85 milljónum króna.
Nú hefur komið í ljós að það var engin viðskiptasnilld bak við útrásina, bara "carry trade" ásamt blekkingum og einokunaraðstöðu nokkurra manna sem gátu búið til spilaborg fyrir sjálfan sig úr íslensku athafnalífi og lífeyrisjóðafé og öðrum sjóðum landsmanna, oft á mjög vafasaman og siðlausan hátt. Oft er talað um að opinberir aðilar séu spilltir á Íslandi, þeir hygli vinum og sjálfum sér. En eru nokkur dæmi um að fólk í opinberri þjónustu eða fólk sem stýrði samvinnuhreyfingunni forðum daga hafi orðið uppvíst að eins stórkostlega spillingu eins og viðgengst í þessari svokölluðu útrás? Eru nokkur dæmi um að fólk hafi farið svona með fé sem því hefur verið trúað fyrir alveg án nokkurra tengsla við hagsmuni almennings á Íslandi, almennings sem átti sannarlega mest af því fé sem Bjarni Ármannsson og hans líkar spiluðu með?
Sem betur fer fékk Bjarni Ármannsson og hans líkar ekki að læsa klónum í íslenskar orkulindir. Hvernig hefði farið fyrir okkur ef þetta bankahrun hefði verið einhverjum árum seinna? Eftir að forsetinn og Össur í Samfylkingunni og Illugi Gunnarsson hefðu verið búnir að lofsyngja einkavæðingu orkulinda og breyta umgjörðinni þannig að allur sá auður gæti sogast úr landi í digra sjóði allra Bjarna bankamanna þessa heims.
Bjarni Ármannsson stóð á bak við REI og þar átti að nota ímynd Íslands og tengja Orkuveitu Reykvíkinga á einhvern dularfullan hátt við áhættufyrirtæki sem var byrjað að auglýsa sig upp eins og það væri Orkuveitan. Þetta átti greinilega að vera sams konar markaðssetning eins og á Icesave reikningunum, um að gera að tengja sem mest við Ísland og láta líta út fyrir að þetta væri 120 ára banki á ÍSlandi sem stæði í þessu.
Svona svarar Bjarni Ármannsson í Deigluviðtali í fyrra:
Stjórnmálin eru grimm á Deiglan.com - vefrit um þjóðmál
Nú varst þú í bankastjórastóli þegar ríkisbankarnir voru hver af öðrum einkavæddir og árangurinn hefur ekki látið standa á sér fyrir íslenskt þjóðfélag. Telur þú að sambærileg tækifæri séu fólgin í einkavæðingu orkufyrirtækjanna?
Hvað orkugeirann varðar, þá eru tækifærin þar mikil. Það væri í raun efni í sér viðtal að rekja það. En það er ljóst að sú staðreynd að þau eru öll meira og minna í ríkiseigu eru hamlandi fyrir framþróunina. Þá er ég að horfa til þess að tækifærin liggja fyrst og fremst alþjóðlega. Þessi fyrirtæki kunna ekki að vinna í því umhverfi - eðli málsins samkvæmt. Og eigendur þeirra vilja ekki taka þá áhættu sem er nauðsynleg til að fyrirtækin geti blómstrað. Þessi tilfærsla er hins vegar flóknari en ég taldi fyrir nokkrum vikum síðan! En tækifærin verða ekki nýtt nema til komi verulegt áhættufjármagn. Þá er ég að tala um áhættufjármagn sem er mælt í hundruðum milljarða króna og langt yfir því sem okkar innlenda hagkerfi getur stutt.
Hér er brot úr grein Mannlífs um Bjarna bankamann.
Nærmynd af Bjarna Ármannssyni (mannlif.is)
Annar maður innan bankageirans bendir á að Bjarni hafi losað sig við eldri og reyndari menn hjá FBA og fengið með sér unga menn á hans aldri, alla meira og minna nýútskrifaða úr háskóla. Þetta hafi verið menn sem hann stýrði algerlega. FBA gekk því oft undir nafninu drengjabankinn manna á meðal.
Maður sem var tengdur Orca-hópnum svonefnda hafði þetta að segja um Bjarna:
Hann hefur alltaf verið laginn að koma sér í mjúkinn hjá þeim sem hann telur að hafi mikil völd. Ef það eru ákveðnir menn sem honum þykir mikið til koma þá gengur hann langt til að þóknast þeim. Sem dæmi má nefna fjórmenningana í Orca hópnum en í honum voru þeir Eyjólfur Sveinsson, Jón Ólafsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Jón Ásgeir Jóhannesson. Þeir voru stórir hluthafar í FBA og höfðu veitt Bjarna skjól þar. Bjarni gerði ýmislegt fyrir þá í staðinn og gekk m.a. oft erinda Orca-hópsins í Íslandsbanka. Nú í seinni tíð hefur hann lagt sig mikið fram við að þóknast Kristjáni Ragnarssyni og nú síðast Einari Sveinssyni en hann hefur þurft á stuðningi þeirra að halda til að ná auknum völdum í bankanum.
...Bjarni lagði þunga áherslu á að hann yrði einn bankastjóri Íslandsbanka þegar Valur Valsson hætti störfum sem bankastjóri þar í ársbyrjun 2003. Bjarni fékk sínu framgengt í bankaráði en sú ákvörðun bankaráðsins þótti mjög umdeild. Brotthvarf Vals var mjög erfitt fyrir marga aðila innan bankans, menn sem höfðu lagt mikið traust á Val.
Það þóttust margir sjá að það væri ekki góð ráðstöfun að Bjarni væri einn forstjóri bankans. Hann hefur aðeins áhuga á hluta rekstrarins. Hann vill sjá um að gera stóru samningana en margt annað, eins og þjónustan við viðskiptavini og almennur rekstur bankans, skiptir hann engu máli.
..........Bjarni hefur gert ýmislegt gott í viðskiptum en hann hefur einnig gert mörg mistök þótt hann virðist alltaf stíga uppréttur frá þeim. Þegar hann var bankastjóri FBA keypti hann Rafael-bankann í Bretlandi sem fór fljótlega á hausinn. Þá stofnuðu FBA-menn Basis-bankann í Danmörku og hann fór sömu leið, rakleitt á hausinn. Bjarni og hans menn ætluðu síðan að kaupa Rietumo-bankann í Lettlandi í kringum sameininguna við Íslandsbanka en menn þar á bæ munu hafa stöðvað kaupin. Það var eins gott fyrir Bjarna því annað stórslys var í aðsigi, segir fyrrum starfsmaður FBA.
.....
Bjarni og Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, voru í allmiklum viðskiptum og munu hafa verið ágætis vinir á tímabili. Jón Ásgeir bauð Bjarna m.a. nokkrum sinnum á snekkjunni Thee Viking í Flórída ásamt fleiri toppum úr íslenska viðskiptageiranum. Eftir að Orca-hópurinn var keyptur út úr Íslandsbanka haustið 2002 slitnaði hins vegar upp úr vinskapnum á milli þeirra. Svo virðist sem flestir fyrrum samstarfsmenn og viðskiptafélagar Bjarna hafi snúið við honum baki á einhverjum tímapunkti. Margir heimildarmenn Mannlífs segja þetta stafa af því að erfitt sé að treysta honum, hann sé iðulega grunaður um að vera með ráðabrugg í gangi og skipti oft um lið eftir því hvað hentar honum hverju sinni.
Það þykir mjög umdeilt að Bjarni sé stjórnarformaður Kauphallar Íslands. Ágúst Einarsson prófessor hefur m.a. gagnrýnt það opinberlega og margir innan viðskipta- og bankageirans telja þetta mjög siðlaust, enda eigi Kauphöllin að fylgjast með bönkunum og markaði fyrir hlutabréf og verðbréf hér á landi.
Þetta virðist endurspegla hina miklu valdaþrá Bjarna. Hann vill vera stjórinn alls staðar. Það er ekki nóg fyrir hann að vera forstjóri Íslandsbanka, heldur þarf hann líka að vera stjórnarformaður Kauphallarinnar, Sjóvar-Almennra, KredittBankans og BN-banka í Noregi og Íslandsbanka í Lúxemborg.
Bjarni Ármannsson vildi líka læsa klónum í Húsnæðislánasjóð. Sem betur fer stóðu Framsóknarmenn vörð um þann sjóð.
Meira um Bjarna Ármannsson, það er afar áhugavert að lesa þetta yfir núna:
Bjarni Ármannsson kaupir og selur í Glitni - mbl.is
Bjarni Ármannsson stjórnarformaður Reykjavik Energy Invest - mbl.is
Vísir - Bjarni Ármannsson láti kaup sín í REI ganga til baka
Hver skyldi vera tímaskekkjan Bjarni Ármannsson? - Frá lesendum ...
Bjarni Ármannsson - Erindi á Iðnþingi 2004
DV.is - Frétt - Borgarstjóri gaf grænt ljós
Íslenskar bankaeignir á útsölu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:31 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er flott samantekt hjá þér Salvör. Áfram svona
Íslendingar eru almennt ekki góðir mannþekkjarar.
Það er einfalt að plata okkur, Hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki náð að plata tæplega 40 % þjóðarinnar aftur og aftur.
Kjósandi, 21.10.2008 kl. 18:52
Stórfín samantekt, kærar þakkir!
Lára Hanna Einarsdóttir, 21.10.2008 kl. 20:08
Sæl,
Hvað ertu að kenna hann við Noreg? Hefur akkúrat ekkert með Noreg að gera nema að hann á hús eða hytte hér.
Við sem búum hér viljum ekkert með þessa tengingu hafa, hún er neikvæð og hefur ekkert með Norskt þjóðfélag að gera. Bjarni verður að skýra sín mál sjálfur.
Hin hliðin, sem gleymist oft, er að trúlega er hann einfaldlega fórnarlamb aðstæðna og drengur góður eins og ég vill trúa að við séum öll sem komum frá Íslandi.
Það er hinsvegar spurning hvort hvað hann gerir í framhaldinu til að hjálpa sínum löndum. Þá kemur í ljós hvern mann hefur að geyma.
Núna þá gef ég honum tækifæri og vona að það eigi eftir að ganga eftir að hann vill sínu landi vel og sýni það í verki.
Bk,
Þröstur
Þröstur (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 20:12
Flott yfirlit. Bestu þakkir.
Hvað um að fjalla næst um Finn Ingólfsson og framgang hans í íslensku fjármálalífi?
Sverrir (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 20:24
Stórflott hjá þér og ekki gleyma því að allt í einu á þessu ári dúkkar hann upp sem stjórnarmaður í Almenna Lífeyrissjóðnum. ! Guð hjálpi okkur ! Lífeyrisþegar eru nú að sjá hvernig komið er fyrir Ævisparnaði þar.
Helga (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 20:31
Sæl,
væri gaman ef bróðir þinn myndi nú commentera á nýja sannleikann og bankakerfið á Íslandi. Heldurðu að hann væri ekki til í sannleiksmóment núna?
Viðar Eggertsson, 21.10.2008 kl. 20:41
Bjarni Rúllar
http://bylting-strax.blog.is/blog/bylting-strax/entry/682612Orgar, 21.10.2008 kl. 20:46
Sæl Salvör og kærar þakkir fyrir þitt innlegg í umræðuna.
Það veitir ekki af fólki sem getur hugsað sjálfstætt og án þess að vera bundið við ákveðið trog. Vona að þú haldir áfram þínu striki, það er nóg um afföll þessa síðustu daga...
Arnar Steinþórsson (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 21:03
Góður pistill.
Sem hægri maður gagnrýndi ég suma þessara manna og þó sérstaklega Bjarna, sem mér fannst hafa yfirbragð "skynheilags" tengdasonar þjóðarinnar. Mér fannst allir nema ég vera svo afskaplega hrifnir af honum. Fólk var meira að segja farið að nefna hann, sem arftaka Ólafs Ragnars.
Ég veit ekki hvort það heyrðist hærra í "hallelúja" kór Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins?
Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.10.2008 kl. 21:32
Bjarni á frama sinn og mannaforráð sin að þakka Framsóknarflokknum. Bjarni hlítur að senda gömlum meðeigendum sínum í Glitir endurgreiðslu á einhverju er hann mjólkaði út úr Glitnir á kostnað hluthafa.
haraldurhar, 21.10.2008 kl. 21:54
"Guldet blev till sand" úr Kristina från Duvemåla, söngleik eftir Björn Ulveus och Benny Anderson byggdur á Utvandrarna eftir Vilhelm Moberg. Söngleikurinn verdur sýndur á Broadway og hefur verid sýndur vída í Vesturheimi( Minnisota og Dakota m a)
Bókin hét Vesturfararnir á íslenzku.
http://www.youtube.com/watch?v=e6Uhg2GneqQ
S.H. (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 22:22
Mög áhugaverð úttekt hjá þér,
Því miður kynntist ég því hjá honum Bjarna að hann vildi ná sínu og hafði engan áhuga á að það væru viðskiptavinir bankans sem hann starfaði hjá sem hefðu skapað stöðu bankans ekki hann sjálfur.
Bjarni var fljótur að sjá til þess að aðilar sem hefðu verið í viðskiptum við bankan í fjölda ára og alla tíð í skilum við bankan nytu ekki sömu kjara og vinir hans.
Þetta var frekar ljóst þegar hann tók við ,,, margir af hans fyrrum félögum fengu sitt á silfurfati... því miður fyrir hlutahafa bankans í dag.
Thorunn Reynisdottir (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 00:43
Flott samantekt, takk.
alva (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 10:21
haraldurhar: Bjarni Ármannsson komst vissulega til metorða í tíð Finns Ingólfssonar þegar Finnur skipaði hann sem bankastjóra FBA. Mér vitanlega hefur Bjarni ekkert verið tengdur við Framsóknarflokkinn síðan og alla vega hefur hann ekki verið þar þau ár sem ég hef verið þar. Bjarni hefur líka í gegnum feril sinn oft breytt um stöðu eftir því hvernig hentar hans hagsmunum og skipt um lið. En það breytir því ekki að Framsóknarflokkurinn og allir flokkar sem tekið hafa þátt í að stýra Íslandi þurfa að skoða hvað hefur gerst og skoða hvort eitthvað fór úrskeiðis innan flokkanna, hvort þeir voru handbendi peningaafla sem vildu ná í eða viðhalda einokunaraðstöðu í fjármálaheimi, stöðu sem var stór þáttur í hve illa fór. það hafa sumir sem tóku þátt í þessum glæfralegu spilaborgum og fjárhættuspili með fé íslenskra borgara og ímynd Íslands verið tengdir Framsóknarflokknum enda var flokkurinn við völd mikið af þessum tíma. Eins og í öðrum flokkum þá verður að eiga sér uppgjör og ég held að það séu og hafi alltaf verið langflestir Framsóknarmenn sem fylktu sér undir kjörorðið "Manngildi ofar auðgildi" og þetta er flokkur sem stendur fyrir samvinnuhugsjón. Ekki stjórnlausa auðhyggju.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 22.10.2008 kl. 10:35
Þessa blogg mitt um Bjarna er rætið og ekki í þeim anda sem ég vil skrifa. Ég vil ekki persónugera harmleik Íslands í einstökum mönnum. Það er hins vegar svo að einn liður af íslenska bankaundrinu var persónugerður í Bjarna Ármannssyni og hann er einn þeirra manna sem trúað var að væru einhvers konar gullgerðarmenn.
Það er því ágætt að krefja sögu þeirra núna, núna þegar við höfum flest sett okkur inn í út á hvað nútíma bankastarfsemi gengur. Sagan er strax orðin öðruvísi. Mér sýnist útrásin hafa mestmegnis byggst á blöffi, að kunna með alls konar krókaleiðum að komast yfir fé almennings s.s. lífeyrissjóða og sparifjáreigenda og nota svo alls konar trix til að blása það fé svoleiðis upp að það sýndist margfalt og síðan fara með sjóðinn til útlanda og kaupa banka sem myndu leika sama leik. þetta er sams konar og pýramídaviðskipti ganga út á.
Það er hins vegar svo að fólk vill heyra svona umfjöllun
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 22.10.2008 kl. 10:46
Nú hefur Glitnir verið ákærður í Noregi fyrir saknæmt atferli, sjá hérna
http://e24.no/utenriks/article2726011.ece
Þetta gerist á tíma sem Bjarni stýrir Glitni. Þetta er mjög alvarlegt ef satt er.
Annars virðist Samfylkingin stærsta ginningarfífl í leik Bjarna Ármannssonar. þannig var Bjarni að ávarpa landsfund Samfó á sama tíma og hann var að plotta sig inn í orkuauðlindirnar eftir að ljóst var að bankaspilaborgin þyldi ekki meira.
Sjá hérna:
"Hinn 14. apríl síðastliðinn lagði Bjarni Ármannsson þáverandi bankastjóri það til á landsfundi Samfylkingarinnar að löggjafinn bannaði fólki að semja um að launakjör þess væru einkamál. Þetta kallaði hann afnám launaleyndar. Í byrjun vikunnar flutti Morgunblaðið fréttir af samningum Bjarna og Orkuveitu Reykjavíkur um sölurétt á hlutum Bjarna í Reykjavík Energy Invest ef hann væri ekki kjörinn í stjórn félagsins, fengi ekki stjórnarlaun eða vatn hætti að renna niður í móti. Morgunblaðið bar þennan samning um kaup og kjör Bjarna undir hann og forstjóra Orkuveitunnar: „Hvorki Bjarni Ármannsson né Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, vildu tjá sig um málið og sögðu mögulega samninga vera trúnaðarmál milli samningsaðila.“
- Vef-þjóðviljinn þann 27. október 2007.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 22.10.2008 kl. 11:01
Salvör: Áfram góðir punktar frá þér og þetta er ekki "rætið", heldur heiðarlegt!
Ég myndi samt segja "geðþekkur gullgerðarmaður", því öfugt við hina byggði Bjarni upp ímynd þess, sem ekki vinnur af græðgi og til að skara eld að sinni köku, heldur með hagsmuni hluthafa og þjóðarinnar að leiðarljósi. Að mínu mati gerir það glæpinn enn ógeðfelldari og verri. Tvískinnungsháttur og lýðskrum einkenndi hans málflutning og öll viðtöl við hann, hvort sem það var í árabát úti á Þingvallavatni eða á skrifstofu hans.
Já, uppgjör þurfa að fara fram í öllum flokkum og það þarf að velta mörgum steinum við. Spennandi verður að sjá hvað leynist undir steinunum þeim!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 22.10.2008 kl. 11:44
Þakka þér fyrir þennan ágæta pistil Salvör. Ég sé enn meiri ástæðu til þess að þakka þér vegna þess að ég veit að þú hefur ekki verið þekkt fyrir að draga hrísið að í galdrabrennur. Né heldur ertu þekkt að nornaveiðum. En þú ert gædd afar skörpu minni á margt það sem er aðdragandi margra þeirra ótíðinda sem ný dynja á þessari þjóð sem aldrei fyrr. Það er líklega mikil einföldun að einhverjir augljósir gerendur beri alla sök í þessu hruni þjóðaröryggis okkar. Þar hafa klókir menn komið sínum mönnum fyrir í stjórnsýslunni, allt frá Alþingi til framkvæmdavalds og þó ekki síst eftirlitsstofnana. Allt þetta þarf að upplýsa sem gleggst og með þeirri hörku sem málið krefst. Og "það eru verst hin þöglu svik/ að þegja við öllu röngu."
Mér brá hálfpartinn við að sjá Viðar Eggertsson gera sig að klaufa í sinni athugaemd. Ég vona að hann átti sig og biðji þig og sjálfan sig afsökunar.
Bestu þakkir.
Árni Gunnarsson, 22.10.2008 kl. 13:16
takk fyrir þessa samantekt. Mér finnst þú ansi minnug á það sem gerst hefur. En nú velti eg fyrir mér hvernig það sé fyrir þennan meistara ef hann vill snúa aftur til föðurlandsins. Hann á að sjálfsögðu fullt af peningum, en er rúin trausti og kannski það sem verst er að mannorðið hans er líka farið. mannorð er mikilvægara en svo að hægt sé verðmeta það... svo hvað gerir kappinn nú? Áfram í Noreigi að telja peningana sína?
það verður spennandi að vita:)
Kalla (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 13:43
Flott samantekt, ég skora á þig að taka fleiri toppa fyrir.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 22.10.2008 kl. 14:08
Flott samantekt.
Guðbjörn ég var heldur ekki hrifin af Bjarna eða af hinum pókerandlitunum.
Heidi Strand, 22.10.2008 kl. 14:59
Það eiga sjálfsagt eftir að koma fram margar lýsingar í þessa átt, og sjálfsagt sýnist sitt hverjum.
Er ekki rétt að halda því til haga hvað gekk á þegar áætlun Bjarna og félaga um að "læsa klónum í orkuauðlindir" gekk ekki upp?
Hverjir hömuðust á "sexmenningunum" í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins, hvaða flokkur sleit samstarfinu á þessum forsendum? Hvaða iðnaðarráðherra fór hamförum yfir "öllum milljörðunum" sem Íslendingar væru að missa af?
Sjálfsagt má deila um forsendur að sexmenningarnir stóðu upp og sögðu hingað og ekki lengra. En burtséð frá forsendunum mega Íslendingar vera þakklátir fyrir að svo fór.
G. Tómas Gunnarsson, 22.10.2008 kl. 18:33
Mögnud samantekt....takk.
Gulli litli, 22.10.2008 kl. 18:59
Hafðu þökk fyrir góða samantekt.
Jens Guð, 22.10.2008 kl. 19:18
Ansi athyglisvert að þú telur úttekt Mannlífs á Bjarna vera trausta heimild. Er það almennt álit þitt á "blaðamennsku" Mannlífs eða á þetta bara við þegar það hentar þér ?
LM, 22.10.2008 kl. 23:05
,,Hann náði allri þjóðinni þegar hann fór að prjóna,,nema mér vegna þess að hann var með eitthvað á prjónunum,,
Res (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 13:49
Ég hef fjarlægt allar athugasemdir við þetta blogg þar sem veist er að fjölskyldu Bjarna Ármannssonar m.a. að börnum hans sem og athugasemdir þar sem notuð eru fúkkyrði sem engum eru sæmandi. Umfjöllun um marga stjórnmálamenn, embættismenn og fjármálamenn er núna oft langt yfir strikið og mjög heiftúðug. Í sumum tilvikum þá hafa fjölskyldur og einkahagir fólks dregist inn í umræðuna á þann hátt að það getur ógnað öryggi fjölskyldunnar sem og sært börn og aðra ættingja sem engan þátt áttu í að steypa fjárhag Íslands í glötun. Eins hefur verið gert lítið úr verkum fólks og hæðst að þeim t.d. listaverkum eiginkonu eins af útrásarvíkingunum svo ég nefni dæmi.
Það eru vinnubrögð sem enginn ætti að leggja sig niður við. Það er best að beina reiði sinni sem mest í málefnalega gagnrýni sem snýr eingöngu að þeim sem við teljum vera valda að tjóninu.
Við erum öll reið og ráðvillt og í leit að sökudólgum. Margir eru mjög örvæntingarfullir, bæði út af sínum eigin málum og framtíð barna sinna. Reiðin mun brjóta sér leið m.a. með því að við munum endurskrifa veruleika okkar og sjá að þau gildi og fyrirmyndir sem haldið var að okkur eru hljóm eitt. Auðsöfnun og fyrirtæki sem byggjast á að hámarka arð eru ekki markmið í sjálfu sér og það er mikilvægt að við áttum okkur á því að það er ekki þess virði að tilbiðja þá sem hafa lag á að raka saman þeim skiptimiðum sem kallast peningar.
Peningar eru nefnilega ákkurat þetta, þeir eru skiptimiðar til að skipta einum gæðum í annað, til að ég geti selt fisk og keypt smjör og fjármálakerfi er eitt besta kerfi sem virkar til að vörur flæði um samfélag.
Bankakerfi heimsins er að hrynja saman og hefði alveg örugglega fallið með hryllilegum afleiðingum ef flestar ríkisstjórnir öflugra landa hefðu ekki gripið inn. Íslenska módelið gekk engan veginn upp í því ölduróti sem núna er og það hefðu margir átt að sjá fyrir að það var hús byggt úr stráum sem feyktist í sundur við fyrsta blástur. Bjarni Ármannsson er einn af tákngervingum íslensku bankaútrásarinnar og það er ágætt að við áttum okkur á því hvernig útrásin gekk fyrir sig og hvernig mönnum tókst að búa til digra sjóði handa sjálfum sér úr því möndli. Bjarni Ármannsson er einn af mörgum bankastjórum sem spiluðu með í því lotterí sem skefjalaust frjálshyggjumarkaður fjármagns bjó til handa þeim.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 23.10.2008 kl. 16:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.